78. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, í mars 1832 (History of the Church, 1:255-257). Regla sú sem Drottinn gaf Joseph Smith varðandi stofnun og rekstur forðabúrs fyrir hina fátæku. Ekki var alltaf æskilegt að einstaklingar þeir, sem Drottinn ávarpaði í opinberunum, yrðu kunnir heiminum, og af þeim sökum voru bræðurnir í þessari og nokkrum síðari opinberunum ávarpaðir með öðru nafni en þeirra eigin. Þegar ekki reyndist lengur nauðsynlegt að dylja nöfn þeirra, voru rétt nöfn þeirra gefin í sviga. Þar sem engin gild ástæða er nú til þess að halda þessum dulnefnum, eru einungis réttu nöfnin notuð nú eins og þau eru í upprunalegum handritum.

1–4, Hinir heilögu skulu stofna og reka forðabúr; 5–12, Viturleg meðferð eigna þeirra mun leiða til sáluhjálpar; 13–14, Kirkjan skal vera óháð jarðnesku valdi; 15–16, Míkael (Adam) þjónar undir stjórn hins heilaga (Krists); 17–22, Blessaðir eru hinir staðföstu, því að þeir munu erfa alla hluti.

  DROTTINN talaði til Josephs Smith yngri og sagði: Hlýðið á mig, segir Drottinn Guð yðar, þér, sem eruð vígðir hinu háa prestdæmi kirkju minnar og safnast hafið saman—

  Og hlustið á ráðleggingar hans, sem hefur vígt yður frá upphæðum, sem mæla mun vísdómsorð í eyru yðar, svo að þér megið hljóta sáluhjálp í því, sem þér hafið borið undir mig, segir Drottinn Guð.

  Því að sannlega segi ég yður: Tíminn er kominn og er í nánd. Og sjá, og tak eftir, nauðsynlegt hlýtur að vera að fast skipulag verði hjá fólki mínu við framkvæmd og fyrirkomulag á málum forðabúrsins fyrir hina fátæku meðal fólks míns, bæði á þessum stað og í landi Síonar—

  Kirkju minni til varanlegs og ævarandi skipulags og reglu og þeim málstað til stuðnings, sem þér hafið tekið að yður, manninum til sáluhjálpar og föður yðar, sem er á himnum, til dýrðar—

  Svo að þér séuð jafnir í himneskum efnum, já, og einnig jarðneskum til að öðlast hið himneska.

  Því að ef þér eruð ekki jafnir í jarðneskum efnum, getið þér ekki náð því himneska að jöfnu—

  Því að ef þér viljið, að ég gefi yður stað í hinum himneska heimi, verðið þér að búa yður undir það með því að gjöra það, sem ég hef boðið yður og krafist af yður.

  Og sannlega, svo segir Drottinn nú: Nauðsynlegt er, að allt verði gjört mér til dýrðar af yður, sem sameinast hafið í þessari reglu—

  Eða með öðrum orðum, látið þjón minn Newel K. Whitney og þjón minn Joseph Smith yngri og þjón minn Sidney Rigdon sitja í ráði með hinum heilögu, sem í Síon eru—

  10 Ella leitast Satan við að snúa hjörtum þeirra frá sannleikanum og blinda þá, svo að þeir skilji ekki það, sem þeim er fyrirbúið.

  11 Þess vegna gef ég yður fyrirmæli um að vera viðbúin og skipulögð með bandalagi eða ævarandi sáttmála, sem ekki er unnt að rjúfa.

  12 Og sá, sem rýfur hann, mun missa embætti sitt og stöðu sína í kirkjunni og verða ofurseldur hirtingu Satans, þar til dagur endurlausnarinnar rennur upp.

  13 Sjá, þetta er undirbúningurinn, sem ég veiti yður, og grundvöllurinn og fyrirmyndin, sem ég gef yður til að þér getið uppfyllt boðin, sem yður eru gefin—

  14 Svo að fyrir mína forsjá fái kirkjan staðið óháð, ofar öllum öðrum skepnum undir hinum himneska heimi, þrátt fyrir það andstreymi sem þér munuð mæta—

  15 Og þér getið náð þeirri kórónu, sem yður er fyrirbúin, og orðið stjórnendur margra ríkja, segir Drottinn Guð, hinn heilagi Síonar, sem lagt hefur grunninn að Adam-ondi-Ahman—

  16 Sem útnefnt hefur Míkael höfðingja yðar og tryggt fótfestu hans og sett hann í upphæðir og veitt honum lykla sáluhjálpar undir ráði og stjórn hins heilaga, sem er án upphafs daganna eða loka lífsins.

  17 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér eruð lítil börn, og þér hafið enn ekki skilið hversu miklar þær blessanir eru, sem faðirinn heldur í höndum sér og hefur fyrirbúið yður.

  18 Og þér fáið ei borið alla hluti nú, en verið samt vonglaðir, því að ég mun leiða yður. Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar.

  19 Og sá, sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður, og það sem jarðarinnar er mun bætast honum, jafnvel hundraðfalt, já, meira.

  20 Gjörið þess vegna það, sem ég hef boðið yður, segir lausnari yðar, sjálfur sonurinn Ahman, sem gjörir allt til reiðu áður en hann tekur yður—

  21 Því að þér eruð kirkja frumburðarins, og hann mun taka yður upp í skýi og útnefna hverjum manni sinn hlut.

  22 Og sá, sem er trúr og hygginn ráðsmaður, mun erfa alla hluti. Amen.