82. kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Jacksonsýslu, Missouri, 26. apríl 1832 (History of the Church, 1:267–269). Tilefnið var almennt þing kirkjunnar, þar sem spámaðurinn Joseph Smith var studdur sem forseti hins háa prestdæmis í það embætti, sem hann hafði áður verið vígður til á ráðstefnu hápresta, öldunga og meðlima í Amherst, Ohio, 25. janúar 1832 (sjá formála að 75. kafla). Áður voru óvenjuleg nöfn notuð við birtingu þessarar opinberunar til að dylja rétt nöfn (sjá formála að 78. kafla).

1–4, Þar sem mikið er gefið er mikils krafist; 5–7, Myrkur ríkir yfir heiminum; 8–13, Drottinn er bundinn, þegar við gerum það sem hann segir; 14–18, Síon verður að vaxa að fegurð og heilagleika; 19–24, Sérhver maður skal bera hag náunga síns fyrir brjósti.

  SANNLEGA, sannlega segi ég yður, þjónar mínir, að sem þér hafið fyrirgefið hver öðrum misgjörðir yðar, svo mun ég, Drottinn, fyrirgefa yður.

  Þó eru þeir á meðal yðar, sem syndgað hafa stórlega, já, jafnvel allir hafið þér syndgað. En sannlega segi ég yður, gætið yðar héðan í frá og haldið yður frá synd, svo að þungur dómur falli ekki yfir yður.

  Því að af þeim, sem mikið er gefið, er mikils krafist. Og sá, sem syndgar gegn stærra ljósi, hlýtur þyngri dóm.

  Þér ákallið nafn mitt til að fá opinberanir og ég gef yður þær. En sem þér hlítið ekki orðum mínum, sem ég gef yður, svo gjörist þér brotlegir, og réttvísi og dómur er refsingin, sem bundin er lögmáli mínu.

  Það, sem ég þess vegna segi einum, segi ég öllum: Verið á verði, því að andstæðingurinn þenur út yfirráð sín og myrkur ríkir—

  Og reiði Guðs er tendruð gegn íbúum jarðar og enginn gjörir gott, því að allir hafa villst af leið.

  Og sannlega segi ég yður nú, ég, Drottinn, mun ekki telja yður neitt til syndar. Farið og syndgið ekki framar, en yfir þá sál, sem syndgar, munu hinar fyrri syndir falla, segir Drottinn Guð yðar.

  Og enn segi ég yður, ég gef yður nýtt boðorð, svo að þér fáið skilið vilja minn varðandi yður—

  Eða með öðrum orðum, ég gef yður tilsögn í því hvernig þér skuluð breyta gagnvart mér, svo að það megi snúast yður til sáluhjálpar.

  10 Ég, Drottinn, er bundinn, þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð.

  11 Sannlega segi ég yður því, að nauðsynlegt er að þjónar mínir Edward Partridge og Newel K. Whitney, A. Sidney Gilbert og Sidney Rigdon, og þjónn minn Joseph Smith, og John Whitmer og Oliver Cowdery og W. W. Phelps og Martin Harris tengist sáttmálaböndum, sem ekki er unnt að rjúfa með broti, án þess að dómur fylgi samstundis, í hinni ýmsu ráðsmennsku yðar—

  12 Að stjórna málefnum fátækra og öllu því, sem tilheyrir biskupsráðinu, bæði í landi Síonar og í landi Kirtlands—

  13 Því að á mínum tíma helgaði ég land Kirtlands til gagns hinum heilögu hins hæsta og sem stiku Síonar.

  14 Því að fegurð Síonar og helgi verður að aukast, mörk hennar að færast út og stikur hennar að styrkjast. Já, sannlega segi ég yður, Síon verður að rísa og klæðast skrautklæðum sínum.

  15 Þess vegna gef ég yður þetta boðorð, að þér bindist sáttmálaböndum, og það skal gjört í samræmi við lögmál Drottins.

  16 Sjá, hér í liggur einnig viska mín, yður til góðs.

  17 Og þér skuluð vera jafnir, eða með öðrum orðum, þér skuluð eiga jafnar kröfur til eignanna, til að auðvelda yður að annast ráðsmennsku yðar, sérhver maður í samræmi við þörf sína og nauðsyn, svo fremi að þarfir hans séu réttmætar—

  18 Og allt er þetta til heilla kirkju hins lifanda Guðs, svo að sérhver maður geti ávaxtað talentur sínar, og sérhver maður geti áunnið sér fleiri talentur, já, hundraðfalt, sem leggja skal í forðabúr Drottins, og verða þar almenn eign allrar kirkjunnar—

  19 Sérhver maður beri hag náunga síns fyrir brjósti og gjöri allt með einbeittu augliti á dýrð Guðs.

  20 Þessa reglu hef ég sett yður og þeim, sem á eftir yður koma, sem ævarandi reglu, svo fremi að þér syndgið ekki.

  21 En við þá sál, sem syndgar gegn þessum sáttmála og herðir hjarta sitt gegn honum, skal breyta samkvæmt lögum kirkju minnar, og skal hún ofurseld hirtingu Satans, fram að degi endurlausnarinnar.

  22 Og sannlega segi ég yður nú, og í þessu er viska, aflið yður vina meðal mammons óréttlætisins, og þeir munu eigi tortíma yður.

  23 Látið mig einan um dóminn, því að hann er minn og ég mun endurgjalda. Friður sé með yður, blessanir mínar verða með yður.

  24 Því að enn er ríkið yðar og mun verða að eilífu, ef þér víkið eigi frá staðfestu yðar. Já, vissulega. Amen.