86. kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 6. desember 1832 (History of the Church, 1:300). Þessi opinberun var gefin meðan spámaðurinn las yfir og lagfærði handrit sitt að þýðingu á Biblíunni.

1–7, Drottinn skýrir dæmisöguna um hveitið og illgresið; 8–11, Hann útskýrir prestdæmisblessanir til þeirra, sem eru lögerfingjar í holdinu.

  SANNLEGA, svo segir Drottinn við ykkur, þjóna mína, varðandi dæmisöguna um hveitið og illgresið:

  Sjá, sannlega segi ég, akurinn var heimurinn og postularnir voru sáðmenn frækornsins—

  Og þegar þeir voru sofnaðir, kom hinn mikli ofsóknari kirkjunnar, hinn fráfallni, hóran, sjálf Babýlon, sem lætur allar þjóðir bergja af bikar sínum, og í hjarta hennar situr og ríkir óvinurinn, sjálfur Satan—sjá, hann sáir illgresinu og þess vegna kæfir illgresið hveitið og flæmir kirkjuna út í eyðimörkina.

  En sjá, á síðustu dögum, já, nú þegar Drottinn er farinn að senda út orð sitt og sprotarnir spretta upp og eru enn viðkvæmir—

  Sjá, sannlega segi ég yður: Englarnir hrópa á Drottin dag og nótt, og eru reiðubúnir og bíða eftir að verða sendir til að uppskera akrana—

  En Drottinn segir við þá: Reytið ekki upp illgresið meðan sprotarnir eru enn viðkvæmir (því að vissulega er trú yðar veik), svo að þér tortímið ekki hveitinu einnig.

  Lát þess vegna hveitið og illgresið vaxa saman þar til uppskeran er fullsprottin. Þá skuluð þér fyrst tína hveitið frá illgresinu. Og eftir að hveitinu hefur verið safnað, sjá og tak eftir, skal illgresið bundið í bindin og akurinn brenndur.

  Svo segir Drottinn þess vegna við yður, sem prestdæmið hefur haldist með gegnum ættlegg feðra yðar—

  Því að þér eruð lögerfingjar í holdinu og hafið verið huldir heiminum með Kristi í Guði—

  10 Þess vegna hefur líf yðar og prestdæmið varað og verður að haldast með yður og ætt yðar fram að endurreisn allra hluta, sem talað hefur verið um fyrir munn allra hinna heilögu spámanna frá upphafi heimsins.

  11 Blessaðir eruð þér þess vegna, ef þér haldið áfram í gæsku minni og verðið Þjóðunum ljós, og með prestdæminu frelsari þjóðar minnar, Ísraels. Drottinn hefur sagt það. Amen.