Ritningar
Opinber yfirlýsing 2


Opinber yfirlýsing 2

Mormónsbók kennir, að „allir séu jafnir fyrir Guði,“þar meðtaldir „[svartir og hvítir, ánauðugir og frjálsir, karlar og konur]“ (2 Nefí 26:33). Í allri sögu kirkjunnar hefur fólk af öllum kynþáttum og þjóðarbrotum í fjölmörgum löndum verið skírt og lifað sem trúfastir meðlimir kirkjunnar. Á æviskeiði Josephs Smith voru nokkrir svartir karlmenn, meðlimir kirkjunnar, vígðir til prestdæmisins. Snemma í sögu kirkjunnar hættu leiðtogar kirkjunnar að veita svörtum karlmönnum af afrískum uppruna prestdæmið. Kirkjuskrár veita ekki skýra sýn inn í uppruna þeirrar iðkunar. Kirkjuleiðtogar trúðu, að það þyrfti opinberun frá Guði til að breyta þessari hefð og leituðu leiðsagnar í bæn. Opinberunin kom til forseta kirkjunnar, Spencers W. Kimball, og var staðfest af öðrum leiðtogum kirkjunnar í Salt Lake musterinu 1. júní 1978. Opinberunin afnam öll þau höft, sem gilt höfðu um kynþætti í tengingu við prestdæmið.

Til þeirra, sem málið varða:

Þann 30. september 1978, á 148. haustráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, kynnti N. Eldon Tanner, forseti og fyrsti ráðgjafi í æðsta forsætisráði kirkjunnar, eftirfarandi:

Snemma í júní þetta ár tilkynnti Æðsta forsætisráðið, að Spencer W. Kimball forseti hefði fengið opinberun um útfærslu prestdæmis- og musterisblessana til allra verðugra karlmeðlima kirkjunnar. Kimball forseti hefur beðið mig að tilkynna ráðstefnunni, að eftir að hann fékk þessa opinberun, sem barst honum eftir djúpa íhugun og heitar bænir í helgum sölum hins heilaga musteris, kynnti hann hana ráðgjöfum sínum, sem tóku á móti henni og samþykktu hana. Hún var síðan kynnt sveit postulanna tólf, sem samþykkti hana samhljóða, og þar næst kynnt öllum öðrum aðalvaldhöfum, sem einnig samþykktu hana samhljóða.

Kimball forseti hefur nú beðið mig að lesa þetta bréf:

8. júní 1978.

Til allra yfir- og staðarprestdæmisembættismanna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu um allan heim:

Kæru bræður:

Þegar við höfum orðið vitni að útbreiðslunni á verki Drottins um jörðina, höfum við orðið þakklátir fyrir, að fólk af ýmsum þjóðum hefur tekið á móti boðskapnum um hið endurreista fagnaðarerindi og hefur sameinast kirkjunni í síauknum mæli. Þetta hefur vakið hjá okkur þrá eftir að veita sérhverjum verðugum meðlimi kirkjunnar öll forréttindi og allar blessanir, sem fagnaðarerindið hefur fram að bjóða.

Meðvitandi um þau loforð, sem fyrri spámenn og forsetar kirkjunnar hafa gefið, um að einhvern tíma í eilífri áætlun Guðs fái allir bræður okkar, sem verðugir eru, meðtekið prestdæmið, og vitandi um trúfestu þeirra, sem prestdæmið hefur verið haldið frá, höfum við beðið lengi og einlæglega vegna þessara trúu bræðra okkar, og varið mörgum stundum í loftsal musterisins í heitri bæn til Drottins um guðlega leiðsögn.

Hann hefur heyrt bænir okkar og með opinberun staðfest, að hinn löngu fyrirheitni dagur sé upp runninn, þegar sérhver trúr og verðugur karlmaður innan kirkjunnar fái meðtekið hið heilaga prestdæmi, ásamt krafti til að beita guðlegu valdi þess, og njóta með ástvinum sínum sérhverra blessana, sem frá því streymir, þar á meðal blessana musterisins. Samkvæmt þessu má vígja til prestdæmisins alla verðuga karlmeðlimi kirkjunnar, án tillits til kynþáttar eða hörundslitar. Prestdæmisleiðtogum er ráðlagt að fylgja þeirri reglu, að eiga samviskusamlega viðtal við alla þá, sem vígja skal til Arons- eða Melkísedeksprestdæmisins, til að tryggja að þeir uppfylli settar kröfur um verðugleika.

Við lýsum því yfir í fullri alvöru, að Drottinn hefur nú kunngjört vilja sinn um blessanir til allra barna sinna um gjörvalla jörðina, sem hlýða vilja á rödd löggiltra þjóna hans og búa sig undir að meðtaka sérhverja blessun fagnaðarerindisins.

Yðar einlægir,

Spencer W. Kimball

N. Eldon Tanner

Marion G. Romney

Æðsta forsætisráðið

Þar sem við viðurkennum Spencer W. Kimball sem spámann, sjáanda, opinberara og forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er þess óskað, að við sem stjórnskipuð samkoma samþykkjum þessa opinberun sem orð og vilja Drottins. Allir sem eru samþykkir því, gjöri svo vel að sýna það með því að reisa hægri hönd sína. Þeir, sem mótfallnir eru, gefi sama merki.

Framangreind tillaga var samþykkt með öllum samhljóða atkvæðum.

Salt Lake City, Utah, 30. september 1978.