Þekkja, minnast og færa þakkir
  Footnotes

  Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 2013

  Þekkja, minnast og færa þakkir

  Henry B. Eyring forseti

  Guð býður að við færum honum þakkir fyrir sérhverja blessun sem við hljótum frá honum. Okkur reynist auðvelt að falla í það far að þylja þakklætisbænir, með sífelldri endurtekningu orða, án þess í raun að færa þakkir sem gjöf hjartans til Guðs. Okkur ber að „veita … þakkir í andanum“ (K&S 46:32), svo við finnum til raunverulegs þakklætis fyrir það sem Guð hefur gefið okkur.

  Hvernig getum við minnst jafnvel aðeins brots af því sem Guð hefur gert fyrir okkur? Jóhannes postuli skráði það sem frelsarinn kenndi okkur um gjöf minningar, sem veitist með gjöf heilags anda: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður“ (Jóh 14:26).

  Heilagur andi vekur upp minninguna um það sem Guð hefur kennt okkur. Og Guð kennir okkur líka með blessunum sínum; og ef við því veljum að iðka trú, mun heilagur andi vekja upp minninguna um góðvild Guðs.

  Þið getið látið reyna á það í dag með bæn. Við ættum að hlýða þessu boðorði: „Þú skalt færa Drottni Guði þínum þakkir í öllu“ (K&S 59:7).

  Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) benti á að í bæninni væri rétt að gera það. Hann sagði: „Spámaðurinn Joseph Smith sagði eitt sinn að stærsta syndin sem Síðari daga heilagir væru sekir af, væri synd vanþakklætis. Ég býst við að flestum okkar hafi ekki dottið í hug að það væri stærsta syndin. Í bænum okkar er tilhneigingin að mestu sú að biðja Drottin um auknar blessanir. Stundum finnst mér hins vegar að við þyrftum í auknum mæli að helga bænir okkar þakkargjörð fyrir þær blessanir sem við þegar njótum. Við njótum svo margra blessana.“1

  Við ættum í dag að sækjast eftir slíkri reynslu með gjöf heilags anda. Við ættum að hefja einkabæn okkar með því að færa þakkir. Við getum byrjað á því að þylja upp blessanir okkar og staldra síðan aðeins við. Ef við iðkum trú, með gjöf heilags anda, munum við skynja að minningin um fleiri blessanir vaknar upp í huga okkar. Ef við byrjum á því að færa þakkir fyrir hverja þeirra, mun bænin standa aðeins lengur yfir en venjulega. Minningin mun vakna og þakklætið einnig.

  Þið getið reynt að gera það sama þegar þið skrifið í dagbókina ykkar. Heilagur andi hefur hjálpað fólki að gera það allt frá upphafi tímans. Þið munið eftir að í Bók Móse segir: „Og minningabók var haldin og í hana skráð á tungu Adams, því að öllum þeim, sem ákölluðu Guð, var gefið að rita það, sem andinn blés þeim í brjóst“ (HDP Móse 6:5).

  Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) lýsti þessu innblásna ritmálsferli: „Þeir sem halda minningabók eru líklegri til að hafa Drottin í huga í daglegu lífi. Með dagbókahaldi getum við minnst blessana okkar og séð afkomendum okkar fyrir greinargerð um þær blessanir.“2

  Í upphafi ritmáls ykkar, getið þið spurt ykkur: „Hvernig blessaði Guð mig og ástvini mína í dag?“ Ef þið gerið það nógu oft, og í trú, munuð þið skynja að minningin vaknar um blessanir ykkar. Og stundum mun minningin um gjafir vakna í huga ykkar, sem þið veittuð ekki athygli yfir daginn, en þá mun ykkur ljóst á hvern hátt hönd Guðs hafði áhrif á líf ykkar.

  Ég bið þess að við megum stöðugt vinna að því í trú að þekkja, minnast og færa þakkir fyrir það sem himneskur faðir og frelsari okkar hafa gert og eru að gera til að leiðin verði greið heim til þeirra.

  Heimildir

  1. Ezra Taft Benson, God, Family, Country: Our Three Great Loyalties (1974), 199.

  2. Spencer W. Kimball, „Listen to the Prophets,“ Ensign, maí 1978, 77.

  Hvernig kenna á boðskapinn

  Í þessum boðskap býður Eyring forseti okkur að minnast góðvildar himnesks föður í bænum okkar. Ræðið við þá sem þið kennið um hvernig þakklætisbæn getur auðveldað okkur að greina hönd Guðs í lífi okkar. Íhugið að krjúpa í bæn með þeim sem þið kennið og leggið til að sá eða sú sem flytur bænina færi einungis þakkir.

  Þið getið líka ígrundað mikilvægi þakklætis með því lesa þessar ritningargreinar, auk ritningagreinanna sem Eyring forseti benti á: Sálm 100; Mósía 2:19–22; Alma 26:8; 34:38; Kenning og sáttmálar 59:21; 78:19; 136:28.