2018
Sýna umhyggju
Reglur hirðisþjónustu, desember 2018


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, desember 2018

Sýna umhyggju

Við getum á svo marga vegu sýnt umhyggju okkar, einkum á jólum. Við getum tjáð umhyggju með orðum, textaboðum, rituðum orðum, gjöfum, væntumþykju bæn, bakstri, söng, faðmlagi, leik, gróðursetningu eða þrifum. Reynið þetta einfaldlega.

Að sýna öðrum kærleika, er kjarni hirðisþjónustu. Jean B. Bingham, aðalforseti Líknarfélagsins, sagði: „Sönn hirðisþjónusta fer fram frá einum til annars af kærleikshvöt. … Af kærleikshvöt munu kraftaverk gerast og við munum finna leiðir til að koma hinum ,týndu‘ systrum og bræðrum okkar í umvefjandi faðm fagnaðarerindis Jesú Krists.“1

Að láta aðra vita af umhyggju okkar, er nauðsynlegt til að þróa persónuleg sambönd. Fólk er þó ólíkt og meðtekur skilaboð okkar á ólíka vegu. Hvernig getum við þá tjáð kærleika okkar til fólks svo það fái skilið og meðtekið? Hér á eftir eru nokkrar leiðir til að sýna umhyggju okkar, ásamt nokkrum hugmyndum til að örva hugsun ykkar.

Tjá með orðum

Stundum jafnast ekkert á við það að tjá tilfinningar ykkar til einhvers. Þið gætuð auðvitað tjáð einhverjum væntumþykju ykkar í orði en líka sagt að hverju þið dáist að í fari þeirra eða veitt þeim einlægt hrós. Slíkt viðmót stuðlar að sterkari samböndum. (Sjá Efesusbréfið 4:29.)

  • Verið vakandi yfir tækifæri til að láta einstaklinginn vita hve mikið þið dáist að styrkleika hans eða hennar.

  • Komið við, hringið eða sendið tölvupóst, textaboð eða kort til að viðkomandi viti að þið munið eftir honum eða henni.

Heimsókn

Að gefa sér tíma til að tala við og hlusta á einhvern er áhrifarík leið til að sýna hversu mikið þið metið hann eða hana. Hvort sem þið vitjið fólks heima, í kirkju eða annarsstaðar, þá eru margir sem þarfnast einhvers til að tala við. (Sjá Mósía 4:26; K&S 20:47.)

  • Ákveðið heimsókn að þörfum einstaklingsins. Gefið ykkur tíma til að hlusta vandlega og skilja aðstæður hans eða hennar.

  • Þar sem erfitt gæti verið að heimsækja fólk sökum fjarlægðar, menningarhefðar eða annarra aðstæðna, hugleiðið þá að skipuleggja samverustund eftir kirkjusamkomur.

Þjóna af tilgangi

Verið minnug þess hvers einstaklingurinn eða fjölskyldan þarfnast. Að veita innihaldsríka þjónustu, sýnir umhyggju ykkar. Í henni felst hinar dýrmætu gjafir bæði tíma og hugulsamrarar framkvæmdar. „Einföld þjónustuverk geta haft djúp áhrif á aðra,“ sagði systir Bingham.2

  • Bjóðið fram þjónustu sem styrkir einstaklinga eða fjölskyldur þeirra, svo sem að passa börnin til að foreldrar geti farið í musterið.

  • Leitið leiða til að létta byrðar er lífið verður yfirþyrmandi, svo sem að þrífa glugga, fara með hundinn í göngutúr eða hjálpa til í garðinum.

Gera eitthvað saman

Sumir einstaklingar ná ekki að tengjast í gegnum einlægar samræður. Sumir einstaklingar mynda tengsl með því að finna sameiginleg áhugamál og verja tíma saman við þá iðju. Drottinn býður okkur að „vera með og styrkja“ (K&S 20:53) bræður okkar og systur.

  • Farið í göngutúr, ráðgerið leikjakvöld eða ákveðið reglubundnar æfingar saman.

  • Þjónið saman við samfélags- eða kirkjuverkefni.

Gefa gjöf

Stundum eru tími og tækifæri til samveru af skornum skammti . Í mörgum menningarlöndum eru gjafir til tákns um umhyggju og samkennd. Einfaldar gjafir endrum og eins geta jafnvel sýnt áhuga ykkar á að stuðla að betra sambandi. (Sjá Orðskviðirnir 21:14.)

  • Færið þeim uppáhalds góðgæti þeirra.

  • Miðlið tilvitnun, ritningarversi eða öðrum boðskap sem ykkur finnst að gæti orðið þeim að gagni.

Kærleiksverk

Þegar þið farið að þekkja þá sem þið þjónið og leitið innblásturs fyrir, mun ykkur lærast enn frekar hvernig best er að tjá kærleika ykkar og umhyggju til hvers og eins persónulega.

Kimberly Seyboldt frá Oregon, Bandaríkjunum, segir frá því er hún leitaði innblásturs og gaf gjafir til að sýna kærleika:

„Þegar mér finnst lífið verða erfitt, tek ég mig til og bý til kúrbítsbrauð, yfirleitt um átta brauðhleifi. Hljóð bæn er uppistaðan við baksturinn, til að fá að vita hverjir hafa mestu þörfina fyrir brauðin. Mér hefur tekist að þekkja betur nágranna mína í hverfinu, því kúrbítsbrauðin hafa opnað mér leið inn á heimili og í líf þeirra.

Einn heitan sumardag stöðvaði ég bílinn hjá fjölskyldu sem seldi hálfpott af brómberjum við vegkantinn. Ég þurfti ekki fleiri brómber, en ungi og grannvaxni drengurinn í sölubásnum var ánægður að sjá mig, því hann hélt að ég væri næsti kaupandi. Ég keypti eitthvað af brómberjum, en færði honum líka gjöf. Ég gaf drengnum tvo brauðhleifi. Hann snéri sér að föður sínum eftir samþykki og sagði síðan: ,Sjáðu pabbi, nú höfum við eitthvað að borða í dag.‘ Ég fylltist þakklæti fyrir að hafa getað sýnt kærleika minn á einfaldan hátt.“

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, bað um að „sérhver karl og kona – og eldri piltar og stúlkur – einsetti [sér] … að sýna hvert öðru enn kærleiksríkari umhyggju, sem einungis á rætur í hinni hreinu ást Krists. … Við skulum starfa saman með Drottni á vínakrinum og rétta Guði, föður okkar allra, hjálparhönd í því mikla verki hans að svara bænum, veita huggun, þerra tár og styrkja vanmáttug hné.“3

Jesús Kristur sýnir umhyggju

Eftir að Jesús Kristur reisti Lasarus upp frá dauðum, „grét Jesús.

Gyðingar sögðu: Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ (Jóhannes 11:35–36).

„Ég hef samúð með yður.“ sagði Kristur við Nefítana. Síðan bauð hann að sjúkir og þjáðir, lamaðir og blindir, yrðu færðir til hans og „hann læknaði þá“ (sjá 3. Nefí 17:7–9).

Frelsarinn sýndi okkur fordæmi er hann bar umhyggju fyrir öðrum. Hann kenndi okkur.

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matteus 22:37–39).

Hver þarfnast umhyggju ykkar? Hvernig gætuð þið sýnt þeim umhyggju ykkar?

Heimildir

  1. Jean B. Bingham, “Ministering as the Savior Does,” Liahona, maí 2018, 106.

  2. Jean B. Bingham, “Ministering as the Savior Does,” 104.

  3. Jeffrey R. Holland, “Be With and Strengthen Them,” Liahona, maí 2018, 103.