Ritningar
1 Nefí 10


10. Kapítuli

Lehí segir fyrir um að Babýloníumenn muni hneppa Gyðinga í ánauð — Hann segir fyrir um komu Messíasar meðal Gyðinga, frelsara, lausnara — Lehí segir einnig fyrir um komu þess sem eigi að skíra Guðslambið — Lehí segir frá dauða og upprisu Messíasar — Hann líkir tvístrun og samansöfnun Ísraels við olífutré — Nefí talar um son Guðs, gjöf heilags anda, og þörfina á réttlæti. Um 600–592 f.Kr.

1 En á þessum töflum held ég, Nefí, nú áfram að gjöra grein fyrir gjörðum mínum, stjórn og helgri þjónustu, en til að halda frásögn minni áfram verð ég að fara nokkrum orðum um föður minn og bræður.

2 Því að sjá. Svo bar við, að þegar faðir minn hafði lokið við að hafa yfir orðin úr draumi sínum og þar að auki hvatt bræður mína til þolgæðis, hóf hann að tala við þá um Gyðingana —

3 Að þegar þeim hefði verið tortímt, jafnvel hinni miklu borg Jerúsalem, og margir þeirra verið hnepptir í ánauð til Babýloníu, þá mundu þeir snúa aftur, þegar Drottni þóknaðist. Já, þeir yrðu jafnvel fluttir til baka úr ánauð, og eftir að þeir hefðu verið fluttir úr ánauð, þá fengju þeir erfðaland sitt til eignar að nýju.

4 Já, að jafnvel sex hundruð árum eftir að faðir minn yfirgaf Jerúsalem, mundi Drottinn Guð uppvekja spámann meðal Gyðinga — jafnvel Messías, eða með öðrum orðum frelsara heimsins.

5 Og hann talaði einnig um spámennina, hve margir hefðu borið vitni um þennan Messías, sem hann hefði talað um, eða þennan lausnara heimsins.

6 Og þess vegna væri allt mannkyn glatað og fallið og mundi ætíð verða það, nema það setti traust sitt á þennan lausnara.

7 Og hann talaði einnig um spámann, sem koma mundi á undan Messíasi, til að greiða Drottni veg —

8 Já, hann færi jafnvel og hrópaði úti í eyðimörkinni: Greiðið Drottni veg og gjörið beinar brautir hans, því að á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki. Og hann er mér máttugri, og ég er ei verður þess að leysa skóþveng hans. Og faðir minn lét mörg orð falla um þetta.

9 Og faðir minn sagði, að hann mundi skíra í Betabara, handan Jórdanar, og hann sagði einnig, að hann mundi skíra með vatni. Hann mundi jafnvel skíra Messías með vatni.

10 Og þegar hann hefði lokið við að skíra Messías með vatni, mundi hann vita og bera því vitni, að hann hefði skírt Guðslambið, sem bera mundi burtu syndir heimsins.

11 Og svo bar við, að þegar faðir minn hafði mælt þessi orð, ræddi hann við bræður mína um fagnaðarboðskapinn, sem prédikaður yrði meðal Gyðinga, og einnig um hnignun Gyðinga sakir vantrúar. Og eftir að þeir hefðu deytt þann Messías, sem koma átti, og eftir að hann hefði verið deyddur, mundi hann rísa upp frá dauðum og með heilögum anda mundi hann opinbera sig Þjóðunum.

12 Já, faðir minn talaði mikið um Þjóðirnar og einnig um Ísraelsætt, sem líkja mætti við olífutré, sem greinarnar mundu brotnar af og þeim tvístrað um allt yfirborð jarðar.

13 Hann sagði, að þess vegna hlyti svo að fara, að við yrðum leiddir saman inn í fyrirheitna landið, til þess að orð Drottins, um að við dreifðumst um allt yfirborð jarðar, uppfylltust.

14 Og eftir að Ísraelsætt hefði verið tvístrað, yrði henni safnað saman á ný. Eða, eftir að Þjóðirnar hefðu tekið á móti fyllingu fagnaðarboðskaparins, mundu hinar náttúrlegu greinar olífutrésins, eða leifarnar af Ísraelsætt, að lokum vera græddar á, með öðrum orðum, þeir fengju vitneskju um hinn sanna Messías, Drottin sinn og lausnara.

15 Og þannig fórust föður mínum orð, þegar hann spáði og talaði við bræður mína, og hann sagði einnig margt annað, sem ég skrái ekki í þessa bók, því að ég hef skráð eins mikið af því í hina bókina og þjónar tilgangi mínum.

16 Og allt, sem ég hef talað um, gjörðist, meðan faðir minn dvaldi í tjaldi í Lemúelsdal.

17 Og svo bar við, að þegar ég, Nefí, hafði hlýtt á öll orð föður míns um það, sem hann sá í sýn, og einnig það, sem hann mælti í krafti heilags anda, en kraft hans hlaut hann fyrir trú á son Guðs — og sonur Guðs var sá Messías, er koma átti — fylltist ég, Nefí, einnig löngun til að geta séð, heyrt og vitað um þessi mál fyrir kraft heilags anda, sem er gjöf Guðs til allra þeirra, er leita hans af kostgæfni, jafnt til forna sem á þeim tíma, er hann mun opinbera sig mannanna börnum

18 Því að hann er hinn sami í gær, í dag og að eilífu, og frá upphafi veraldar hefur vegurinn verið ruddur fyrir alla menn, ef þeir iðrast og koma til hans.

19 Því að sá, sem leitar af kostgæfni, mun finna, og leyndardómar Guðs munu afhjúpast þeim fyrir kraft heilags anda, engu síður á líðandi stundu en á löngu liðnum og ókomnum tímum. Þess vegna er farvegur Drottins ein eilíf hringrás.

20 Þess vegna skaltu minnast þess, ó, þú maður, að þú verður dæmdur vegna allra þinna gjörða.

21 Hafir þú því sóst eftir að breyta ranglátlega á reynsludögum þínum, þá dæmist þú óhreinn fyrir dómstóli Guðs. Og þar eð ekkert óhreint fær dvalið með Guði, verður þér vísað frá að eilífu.

22 Og heilagur andi veitir mér vald til að mæla þetta, en ekki luma á því.