Ritningar
3 Nefí 12


12. Kapítuli

Jesús kallar hina tólf lærisveina og veitir þeim valdsumboð sitt — Hann flytur Nefítum ræðu hliðstæða fjallræðunni — Hann fer með sæluboðin — Kenningar hans eru æðri Móselögmálinu — Mönnum boðið að verða fullkomnir eins og hann og faðir hans eru fullkomnir — Samanber Matteus 5. Um 34 e.Kr.

1 Og svo bar við, að þegar Jesús hafði mælt þessi orð til Nefís og þeirra, sem kallaðir höfðu verið, (þeir sem kallaðir höfðu verið og hlotið kraft og vald til að skíra voru tólf að tölu) sjá, þá rétti hann út hönd sína til mannfjöldans og hrópaði til hans og sagði: Blessaðir eruð þér, ef þér gefið gaum að orðum þessara tólf, sem ég hef valið yðar á meðal til að veita yður þjónustu og verða þjónar yðar. Og þeim hef ég gefið vald til að skíra yður með vatni, en eftir að þér eruð skírðir með vatni, sjá, þá mun ég skíra yður með eldi og heilögum anda. Blessaðir eruð þér þess vegna, ef þér trúið á mig og látið skírast, eftir að þér hafið séð mig og vitið, að ég er.

2 En enn fremur, meira blessaðir eru þeir, sem trúa munu orðum yðar, vegna þess að þér berið því vitni að hafa séð mig, og þér vitið, að ég er. Já, blessaðir eru þeir, sem trúa munu orðum yðar og hverfa niður í djúp auðmýktar og láta skírast, því að þeirra mun vitjað með eldi og með heilögum anda, og þeir munu hljóta fyrirgefningu synda sinna.

3 Já, blessaðir eru fátækir í anda, sem til mín koma, því að þeirra er himnaríki.

4 Blessaðir eru enn fremur allir syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.

5 Og blessaðir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

6 Og blessaðir eru allir þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, því að þeir munu fylltir verða heilögum anda.

7 Og blessaðir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

8 Og blessaðir eru allir hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

9 Og blessaðir eru allir friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Og blessaðir eru allir þeir, sem ofsóttir eru vegna nafns míns, því að þeirra er himnaríki.

11 Og blessaðir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna —

12 Því að mikil verður gleði yðar og ákaft munuð þér fagna, því að laun yðar verða mikil á himni; því að þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

13 Sannlega, sannlega segi ég yður, að ég fel yður að verða salt jarðar. En ef saltið dofnar, með hverju skal þá jörðin söltuð? Saltið verður þá til einskis annars nýtt en fleygja því og troða undir fótum manna.

14 Sannlega, sannlega segi ég yður, að ég kalla yður til að vera ljós þessarar þjóðar. Borg, sem á fjalli stendur, fær eigi dulist.

15 Sjá. Kveikja menn ljós og setja það undir mæliker? Nei, það er sett á ljósastiku, og það lýsir öllum, sem í húsinu eru —

16 Látið þannig ljós yðar lýsa meðal þessarar þjóðar, til þess að hún sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himni.

17 Þér skuluð ekki ætla, að ég sé kominn til að tortíma lögmálinu eða spámönnunum. Ég kom ekki til að tortíma, heldur til að uppfylla —

18 Því að sannlega segi ég yður, að hvorki hefur einn smástafur né stafkrókur fallið úr lögmálinu, heldur hefur allt fullkomnast í mér.

19 Og sjá. Ég hef gefið yður lögmálið og boðorð föður míns, til að þér trúið á mig, iðrist synda yðar og komið til mín með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Sjá. Þér hafið boðorðin fyrir yður, og lögmálið er uppfyllt.

20 Komið þess vegna til mín og látið frelsast, því að sannlega segi ég yður, að ef þér haldið ekki boðorð mín, sem ég hef gefið yður á þessari stundu, komist þér með engu móti í himnaríki.

21 Þér hafið heyrt, að fyrrum hafi menn sagt — og það er einnig skráð fyrir framan yður — að þér skylduð ekki morð fremja, og sá, sem morð fremur, hættir sér undir dóm Guðs —

22 En ég segi yður: Hver sá, sem reiðist bróður sínum, hættir sér undir dóm hans. Og sá, sem hrakyrðir bróður sinn, hættir sér undir ráðið, og hver, sem segir: Þú heimskingi, á loga vítis á hættu.

23 Ef þér þess vegna komið til mín eða þráið að koma til mín og minnist þess þá, að bróðir yðar hafi gjört eitthvað á móti yður —

24 Farið þá fyrst til bróður yðar og sættist við hann, og komið síðan til mín með einlægum ásetningi, og ég mun taka á móti yður.

25 Verið skjótir til sátta við andstæðing yðar, meðan þér eigið enn samleið með honum, því að annars gæti hann náð yður hvenær sem er og yður verði varpað í fangelsi.

26 Sannlega, sannlega segi ég yður, að alls eigi munuð þér komast út þaðan, fyrr en þér hafið greitt yðar síðasta senín. Og getið þér greitt svo mikið sem eitt senín, meðan þér eruð í fangelsinu? Sannlega, sannlega segi ég yður, nei.

27 Sjá. Fyrrum var skráð: Þú skalt ekki drýgja hór —

28 En ég segi yður: Hver sá, sem horfir á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.

29 Sjá. Ég gef yður boð um að leyfa engu slíku aðgang að hjörtum yðar —

30 Því að betra er að neita sér um slíkt og taka þar með upp kross sinn en láta varpa sér til vítis.

31 Skráð hefur verið, að hver sá, sem skilur við konu sína, skuli fá henni skilnaðarbréf.

32 Sannlega, sannlega segi ég yður, að hver, sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og hver, sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

33 Enn er skráð, að þú skulir ekki sverja rangan eið, heldur halda eiða þína við Drottin —

34 En sannlega, sannlega segi ég yður, að þér skuluð alls enga eiða sverja, hvorki við himininn, því að hann er hásæti Guðs —

35 Né við jörðina, því að hún er fótskör hans —

36 Og eigi skuluð þér sverja við höfuðið, því að þér getið hvorki gjört eitt einasta hár hvítt né svart —

37 En tjáning yðar sé já, já og nei, nei. Það, sem er umfram það, er illt.

38 Og sjá. Skráð er: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn —

39 En ég segi yður, að þér skulið ekki rísa gegn þeim, sem gjörir yður mein. Slái einhver yður á hægri kinn, þá bjóðið honum einnig hina —

40 Og vilji einhver lögsækja yður og hafa af yður kyrtil yðar, látið honum þá einnig eftir yfirhöfnina —

41 Og neyði einhver yður með sér eina mílu, þá gangið með honum tvær.

42 Gefið þeim, sem biður yður, og snúið ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá yður.

43 Og enn fremur er skráð: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn —

44 En sjá. Ég segi yður: Elskið óvini yðar, blessið þá, sem bölva yður, gjörið þeim gott, sem hata yður og biðjið fyrir þeim, sem misnota yður og ofsækja —

45 Svo að þér megið verða börn föður yðar á himni, því að hann lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða.

46 Þess vegna uppfyllist í mér allt hið liðna, sem lögmálinu tilheyrði.

47 Hið aldna er liðið undir lok, og allt er orðið nýtt.

48 Þess vegna vil ég, að þér séuð fullkomnir, rétt eins og ég eða faðir yðar á himni er fullkominn.