Ritningar
Alma 32


32. Kapítuli

Alma kennir hinum fátæku, en þrengingarnar höfðu gjört þá auðmjúka — Trúin er von um það sem ekki sést en er sannleikur — Alma ber því vitni, að englar þjóni körlum, konum og börnum — Alma líkir orðinu við sáðkorn — Það verður að gróðursetja og næra — Þá vex það og verður að tré, sem ber ávöxt eilífs lífs. Um 74 f.Kr.

1 Og svo bar við, að þeir héldu af stað og tóku að boða fólkinu orð Guðs og fóru inn í samkunduhús og inn á heimili þess, já, og þeir boðuðu jafnvel orðið á götum úti.

2 Og svo bar við, að eftir mikið erfiði tóku þeir að ná árangri meðal hinna fátækari stétta. Því að sjá. Þeim var vísað út úr samkunduhúsunum, vegna þess hve klæði þeirra voru gróf —

3 Þess vegna var þeim ekki hleypt inn í samkunduhúsin til að tilbiðja Guð, þar eð þeir voru álitnir óhreinir, vegna þess að þeir voru fátækir. Já, bræður þeirra litu á þá sem úrhrak, og þeir voru fátækir að þessa heims gæðum, og þeir voru einnig fátækir í hjarta.

4 En þegar Alma var að kenna og tala til fólksins uppi á Ónídahæð, kom mikill mannfjöldi til hans, sem tilheyrði þeim hópi, sem við höfum verið að ræða um, þeim sem voru fátækir í hjarta, vegna þess hve fátækir þeir voru að þessa heims gæðum.

5 Og þeir komu til Alma, og sá, sem fór fyrir þeim, sagði við hann: Sjá, hvað eiga þessir bræður mínir að gjöra, því að allir menn fyrirlíta þá vegna fátæktar þeirra. Já, sérstaklega fyrirlíta prestar okkar þá, því að þeir hafa vísað okkur út úr samkunduhúsum okkar, sem við höfum lagt hart að okkur að koma upp með eigin höndum. Og þeir hafa vísað okkur út vegna mikillar fátæktar okkar, og við getum hvergi tilbeðið Guð okkar. Sjá, hvað eigum við að gjöra?

6 Og þegar Alma heyrði þetta, sneri hann sér við og horfði beint framan í hann og sá sér til mikillar gleði, að þrengingar þeirra höfðu í raun gjört þá auðmjúka og að þeir voru undir það búnir að heyra orðið.

7 Þess vegna sagði hann ekkert frekar við hina í mannfjöldanum, heldur rétti hann fram höndina og hrópaði til þeirra, sem hann sá og sem voru raunverulega iðrandi, og sagði við þá:

8 Ég sé, að þið eruð af hjarta lítillátir, og blessaðir eruð þið, ef svo er.

9 Sjá. Bróðir ykkar hefur sagt: Hvað eigum við að gjöra? — því að okkur er vísað út úr samkunduhúsunum, og við getum því ekki tilbeðið Guð okkar.

10 Sjá, ég spyr ykkur: Haldið þið, að þið getið hvergi tilbeðið Guð nema í samkunduhúsum ykkar?

11 Og enn fremur spyr ég: Haldið þið, að ekki eigi að tilbiðja Guð nema einu sinni í viku?

12 Ég segi ykkur, það er gott að ykkur er vísað út úr samkunduhúsum ykkar, svo að þið yrðuð auðmjúkir og mættuð læra visku, því að ykkur er nauðsynlegt að læra visku. Og vegna þess að bræður ykkar hafa úthýst ykkur og fyrirlitið ykkur vegna sárrar fátæktar ykkar, hafið þið kynnst lítillæti hjartans, því að þið eruð neyddir til auðmýktar.

13 Og blessaðir eruð þið, vegna þess að þið neyðist til auðmýktar, því að maðurinn leitar stundum iðrunar, ef hann er neyddur til auðmýktar. Og víst er, að hver sá, sem iðrast, mun finna miskunn. Og sá, sem finnur miskunn og stendur stöðugur allt til enda, hann mun frelsast.

14 Og vegna þess, að þið neyddust til auðmýktar, voruð þið blessaðir, eins og ég sagði við ykkur. Teljið þið ekki, að þeir séu ríkulegar blessaðir, sem auðmýkja sig í sannleika orðsins vegna?

15 Já, sá sem sannlega auðmýkir sig og iðrast synda sinna og stendur stöðugur allt til enda, sá hinn sami mun blessaður — já, miklu ríkulegar blessaður en þeir, sem neyðast til auðmýktar vegna sárrar fátæktar sinnar.

16 Blessaðir eru þess vegna þeir, sem auðmýkja sig án þess að vera neyddir til auðmýktar. Eða með öðrum orðum, blessaður er sá, sem trúir á orð Guðs og lætur skírast án þrjósku í hjarta, já, án þess að hafa öðlast þekkingu á orðinu eða jafnvel hafa neyðst til að kynnast því, áður en þeir vilja trúa.

17 Já, margir eru þeir, sem segja: Ef þú vilt sýna okkur tákn frá himni, þá munum við vita með vissu, þá munum við trúa.

18 Nú spyr ég. Er þetta trú? Sjá, ég segi ykkur, nei, því að viti maðurinn eitthvað hefur hann ekkert tilefni til trúar, þar eð hann veit það.

19 Og nú, hversu miklu þyngri bölvun hvílir ekki yfir þeim, sem þekkir vilja Guðs og fer ekki eftir honum, en þeim, sem einungis trúir, eða aðeins hefur tilefni til að trúa, og fellur í synd?

20 En um þetta verðið þið að dæma. Sjá. Ég segi ykkur, að það er sama hvert litið er — hverjum manni mun farnast samkvæmt verkum sínum.

21 Og nú, eins og ég sagði um trúna — trú er ekki að eiga fullkomna þekking. Ef þið þess vegna eigið trú, þá hafið þið von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur.

22 Og sjá. Ég segi ykkur, og ég vona, að þið hafið það hugfast, að Guð er öllum miskunnsamur, sem á nafn hans trúa. Þess vegna óskar hann þess í fyrsta lagi, að þið trúið, já, á orð hans.

23 Og fyrir meðalgöngu engla færir hann mönnunum orð sitt, já, ekki einungis körlum, heldur einnig konum. En ekki aðeins það, heldur er smábörnum oft og einatt gefin orð, sem valda hinum vitru og lærðu kinnroða.

24 Og nú, ástkæru bræður mínir! Þið óskið þess að fá að vita hjá mér, hvað þið eigið að gjöra, þar eð þið eruð aðþrengdir og ykkur er vísað burtu — Nú vil ég ekki, að þið álítið, að ég hafi í hyggju að dæma ykkur, nema samkvæmt því, sem satt er —

25 Því að það er ekki skoðun mín, að þið hafið öll neyðst til auðmýktar. Því að vissulega trúi ég, að sumir meðal ykkar myndu auðmýkja sig, hvernig sem aðstæður þeirra væru.

26 En eins og ég sagði um trú — að hún væri ekki fullkomin þekking — þannig er það og með orð mín. Í fyrstu getið þið ekki vitað um sannleik þeirra með vissu, ekki fremur en trú er fullkomin þekking.

27 En sjá. Ef þið viljið vakna og vekja hæfileika ykkar til lífs með því að gjöra tilraun með orð mín og sýna örlitla trú, jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun, þar til þið trúið nægilega til að gefa hluta orða minna rúm.

28 Nú skulum við líkja orðinu við sáðkorn. Ef þið gefið rúm í hjarta ykkar, þannig að gróðursetja megi sáðkorn þar, sjá, sé það sáðkorn sannleikans, eða gott sáðkorn, og þið varpið því eigi burt vegna vantrúar ykkar, og standið eigi gegn anda Drottins, sjá, þá mun það fara að þenjast út í brjóstum ykkar. Og þegar þið finnið þessar vaxtarhræringar, munuð þið segja með sjálfum ykkur: Þetta hlýtur að vera gott sáðkorn — eða að orðið sé gott — því að það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn, já, það er farið að verða mér unun.

29 Sjá. Mundi þetta ekki auka trú ykkar? Ég segi ykkur, jú. Samt er það ekki orðið að fullkominni þekkingu.

30 En sjá. Eftir því sem sáðkornið þenst út og spírar og tekur að vaxa, þá hljótið þið að segja, að sáðkornið sé gott, því að sjá, það þenst út, það spírar og það tekur að vaxa. Og sjá nú. Mun þetta ekki styrkja trú ykkar? Jú, það mun styrkja trú ykkar, því að þið munuð segja: Ég veit, að þetta er gott sáðkorn, því að sjá, það spírar og tekur að vaxa.

31 Og sjá nú. Eruð þið vissir um, að þetta sé gott sáðkorn? Ég segi ykkur, já, því að vöxtur sérhvers sáðkorns fer eftir gæðum þess.

32 Ef því sáðkorn vex, þá er það gott, en ef það vex ekki, sjá, þá er það ekki gott. Þess vegna er því varpað burt.

33 Og sjá nú. Vegna þess að þið hafið gjört tilraun og gróðursett sáðkornið og það þenst út og spírar og er tekið að vaxa, þá hljótið þið að vita, að þetta er gott sáðkorn.

34 Og sjá nú. Er þekking ykkar fullkomin? Já, þekking ykkar er fullkomin á þessu, en trú ykkar blundar. Og það er vegna þess að þið vitið, því að þið vitið, að orðið hefur þanið út sálir ykkar, og þið vitið einnig, að það hefur spírað og er farið að upplýsa skilning ykkar og víkka hugarheim ykkar.

35 Og er þetta þá ekki raunverulegt? Ég segi ykkur, jú, vegna þess að það er ljós, og allt, sem er ljós er gott, vegna þess að hægt er að greina það, þess vegna hljótið þið að vita, að það er gott. Og sjá nú, er þekking ykkar fullkomin, eftir að þið hafið reynt þetta ljós?

36 Sjá, ég segi ykkur, nei. Og þið megið heldur ekki leggja trú ykkar til hliðar, því að þið hafið einungis reynt trú ykkar við að gróðursetja sáðkorn til að láta reyna á, hvort sáðkornið sé gott.

37 Og sjá. Þegar tréð tekur að vaxa, munuð þið segja: Við skulum næra það af mikilli umhyggju, svo að það skjóti rótum, vaxi upp og beri okkur ávöxt. Og sjá nú. Ef þið nærið það af mikilli umhyggju, mun það skjóta rótum, vaxa upp og bera ávöxt.

38 En ef þið vanrækið tréð og hugsið ekkert um næringu þess, sjá, þá mun það ekki festa rætur. Og þegar sólarhitinn kemur og breiskjar það, visnar það upp, vegna þess að það hefur engar rætur, og þið rífið það upp og varpið því burt.

39 En þetta er ekki vegna þess, að sáðkornið var ekki gott, og það er heldur ekki vegna þess, að ávöxturinn yrði ekki girnilegur, heldur er það vegna þess, að jarðvegur ykkar er ófrjór og þið viljið ekki næra tréð. Þess vegna getið þið ekki uppskorið ávöxt þess.

40 Og ef þið viljið ekki næra orðið og vænta ávaxtar þess með augum trúarinnar, þá getið þið aldrei uppskorið ávextina af lífsins tré.

41 En ef þið viljið næra orðið, já, næra tréð með trú ykkar af mikilli kostgæfni og þolinmæði, þegar það tekur að vaxa, og vænta ávaxtar þess, þá mun það festa rætur. Og sjá, það verður að tré, sem vex upp til ævarandi lífs.

42 Og vegna kostgæfni ykkar, trúar ykkar og þolinmæði við að næra orðið, svo að það festi rætur í ykkur, sjá, þá munuð þið senn uppskera ávöxt þess, sem er mjög dýrmætur, sem er ljúffengari en allt, sem ljúffengt er, og hvítari en allt, sem hvítt er, já, og tærari en allt, sem tært er. Og þið munuð endurnæra ykkur á þessum ávexti, þar til þið eruð mettuð orðin, og þá mun ykkur hvorki hungra né þyrsta.

43 Þá, bræður mínir, munuð þið uppskera laun trúar ykkar, kostgæfni, þolinmæði og langlundargeðs við að bíða eftir, að tréð færði ykkur ávöxt.