Ritningar
Kenning og sáttmálar 10


10. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Harmony, Pennsylvaníu, líklega í kringum apríl 1829, þó að hluti hennar gæti hafa verið gefinn sumarið 1828. Hér segir Drottinn Joseph frá breytingum, sem misindismenn hafa gjört á 116 handrituðum síðum úr þýðingu á Bók Lehís í Mormónsbók. Þessar handrituðu síður glötuðust úr vörslu Martins Harris, en honum hafði um tíma verið treyst fyrir þeim. (Sjá formálsorð að kafla 3.) Hinn illi tilgangur var sá, að bíða væntanlegrar endurþýðingar á því, sem þessar stolnu síður geymdu, og síðan ófrægja þýðandann með því að sýna ósamræmið, sem orðið hefði við breytingarnar. Sjá má í Mormónsbók að Drottinn vissi um þessa níðingslegu fyrirætlan hins illa, jafnvel þegar Mormón, hinn forni sagnamaður Nefíta, var að gera ágrip af töflusafninu (Sjá Orð Mormóns 1:3–7).

1–26, Satan æsir rangláta menn til andstöðu við verk Drottins; 27–33, Hann leitast við að tortíma sálum mannanna; 34–52, Fagnaðarerindið skal berast til Lamaníta og allra þjóða með Mormónsbók; 53–63, Drottinn mun stofna kirkju sína og fagnaðarerindi sitt meðal manna; 64–70, Hann mun safna hinum iðrandi í kirkju sína og frelsa þá hlýðnu.

1 Sjá, nú segi ég þér, að vegna þess að þú lést í hendur rangláts manns blöð þau, sem þér var gefinn kraftur til að þýða með hjálp Úrím og Túmmím, hefur þú glatað þeim.

2 Og þú glataðir einnig samtímis gjöf þinni og hugur þinn myrkvaðist.

3 Eigi að síður er hún endurveitt þér. Gættu þess því að vera trúr og halda áfram þar til þú hefur lokið við að þýða það, sem eftir er þess verks, eins og þú byrjaðir.

4 Hlaup eigi hraðar né erfiða meira við þýðinguna en styrkur þinn og geta leyfir, en ver kostgæfinn allt til enda.

5 Bið ávallt, að þú megir verða sigurvegari, já, að þú megir sigra Satan og fáir umflúið þjóna Satans, sem vinna verk hans.

6 Sjá, þeir hafa leitast við að tortíma þér, já, jafnvel sá maður, sem þú hefur borið traust til, hefur leitast við að tortíma þér.

7 Og af þeim sökum sagði ég að hann væri ranglátur maður, því að hann hefur sókst eftir að ná því, sem þér hefur verið trúað fyrir. Og hann hefur einnig leitast við að tortíma gjöf þinni.

8 Og þar eð þú hefur látið blöðin honum í hendur, sjá, þá hafa ranglátir menn tekið þau frá þér.

9 Þú hefur því afhent ranglætinu það, já, það sem heilagt er.

10 Og sjá, Satan hefur blásið þeim í brjóst að breyta orðum þeim, sem þú hefur látið skrifa, eða sem þú hefur þýtt og látið af hendi.

11 Og sjá, ég segi þér, að þar eð þeir hafa breytt orðunum, fá þau allt aðra merkingu en þá sem þú þýddir og lést skrifa —

12 Og á þennan hátt hefur djöfullinn reynt að leggja slóttuga áætlun, til að tortíma þessu verki —

13 Því að hann hefur blásið þeim í brjóst að gjöra þetta, að með því að ljúga gætu þeir sagt, að þeir hefðu gripið þig á orðum þeim, sem þú segist hafa þýtt.

14 Sannlega segi ég þér, að ég leyfi ekki, að Satan komi sínum illu fyrirætlunum fram í þessu máli.

15 Því að sjá, hann hefur komið því inn í hug þeirra, að fá þig til að freista Drottins Guðs þíns með því að biðja um að fá að þýða það aftur.

16 En sjá, þá segja þeir og hugsa í hjörtum sér: Við munum sjá hvort Guð hefur gefið honum kraft til að þýða. Ef svo er, mun hann einnig gefa honum kraft til þess aftur —

17 Og ef Guð gefur honum aftur kraft, eða ef hann þýðir það aftur, eða með öðrum orðum, ef hann kemur fram með sömu orðin, sjá, þá höfum við þau og höfum breytt þeim —

18 Þess vegna mun þeim ekki bera saman og við munum segja að hann hafi logið og að hann hafi enga gjöf og engan kraft —

19 Þannig munum við tortíma honum og þessu verki. Og við munum gjöra þetta, svo að við að lokum hljótum ekki skömm af, heldur hljótum við dýrð heimsins.

20 Sannlega, sannlega segi ég þér, að Satan hefur sterk tök á hjörtum þeirra og eggjar þá til misgjörða gegn því sem gott er —

21 Og hjörtu þeirra eru spillt og full af ranglæti og viðurstyggð og þeir elska myrkrið frekar en ljósið, þar eð verk þeirra eru ill. Þess vegna biðja þeir mig einskis.

22 Satan æsir þá upp, svo að hann megi leiða sálir þeirra í tortímingu.

23 Og þannig hefur hann lagt slóttuga áætlun um að tortíma verki Guðs, en ég mun krefja þá reikningsskila fyrir þetta og það mun snúast þeim til smánar og fordæmingar á degi dómsins.

24 Já, hann egnir hjörtu þeirra til reiði gegn verki þessu.

25 Já, hann segir við þá: Blekkið og leitið færis að veiða, svo þið fáið tortímt. Sjá, það skaðar ekki. Og þannig skjallar hann þá og segir þeim, að ekki sé synd að ljúga í þeim tilgangi að veiða annan mann í lygi og þeir fái tortímt honum.

26 Og þannig skjallar hann þá og leiðir, þar til hann dregur sálir þeirra niður til heljar og lætur þá þannig festast í þeirra eigin snöru.

27 Og þannig æðir hann fram og aftur, til og frá á jörðunni, og leitast við að tortíma sálum manna.

28 Sannlega, sannlega segi ég þér, vei sé þeim sem lýgur til að blekkja, vegna þess að hann telur að annar ljúgi til að blekkja, því að slíkir komast ekki undan réttvísi Guðs.

29 Sjá nú, þeir hafa breytt þessum orðum, vegna þess að Satan segir við þá: Hann hefur blekkt yður — og þannig skjallar hann þá til misgjörða, til að fá þig til að freista Drottins Guðs þíns.

30 Sjá, ég segi þér, að þú skalt ekki þýða aftur þau orð, sem horfið hafa úr höndum þínum —

31 Því að sjá, þeir skulu ekki ná fram sínum illu fyrirætlunum með því að ljúga gegn orðum þessum. Því að sjá, ef þú kæmir fram með þessi sömu orð, myndu þeir segja að þú hafir logið og látist þýða og sért í mótsögn við sjálfan þig.

32 Og sjá, þeir munu birta þetta og Satan mun herða hjörtu fólksins og egna það til reiði gegn þér, svo að það trúi ekki orðum mínum.

33 Þannig hyggst Satan gera vitnisburð þinn að engu hjá þessari kynslóð, svo að verkið nái ekki fram að ganga hjá þessari kynslóð.

34 En sjá, hér er viska, og af því að ég sýni þér visku og gef þér fyrirmæli um það, sem þú skalt gjöra, skalt þú ekki sýna heiminum þetta fyrr en þú hefur lokið þýðingunni.

35 Undrast ei að ég segi þér: Hér er viska, sýn ekki heiminum það — því að þér til verndar segi ég þér að sýna það eigi heiminum.

36 Sjá, ég segi ekki, að þú skulir ekki sýna það hinum réttlátu —

37 En þar sem þú getur ekki alltaf greint hina réttlátu, eða, þú getur ekki alltaf þekkt hina ranglátu frá hinum réttlátu, þá segi ég þér, ver rólegur þar til ég tel rétt að kunngjöra heiminum allt um þetta mál.

38 Og sannlega segi ég þér nú, að frásögnin af því, sem þú skrifaðir og horfið hefur úr höndum þínum, er letruð á töflur Nefís —

39 Já, og þú minnist þess að í þeim ritum stóð, að nákvæmari frásögn af þessu væri gefin á töflum Nefís.

40 Og þar sem frásögnin, sem grafin er á töflur Nefís, er nákvæmari varðandi það, sem ég í visku minni mundi kunngjöra fólki mínu í þessari frásögn —

41 Skalt þú þýða áletrunina, sem grafin er á töflur Nefís, allt þar til þú kemur að valdatíma Benjamíns konungs, eða þar til þú kemur að því sem þú hefur þýtt og varðveitt.

42 Og sjá, þú skalt birta það sem frásögn Nefís. Og þannig mun ég smána þá, sem breytt hafa orðum mínum.

43 Ég mun ekki leyfa, að þeir tortími verki mínu. Já, ég mun sýna þeim að viska mín er meiri en slægð djöfulsins.

44 Sjá, þeir hafa aðeins hluta eða ágrip af frásögn Nefís.

45 Sjá, margt er letrað á töflur Nefís, sem varpar enn meira ljósi á fagnaðarerindi mitt, og þess vegna er það viska mín að þú þýðir þennan fyrsta hluta áletrana Nefís og gefir út í þessu verki.

46 Og sjá, allt, sem eftir er þessa verks, geymir alla hluta fagnaðarerindis míns, sem hinir heilögu spámenn mínir, já, og einnig lærisveinar mínir, þráðu í bænum sínum að birtast skyldi þessum lýð.

47 Og ég sagði þeim, að það skyldi veitast þeim í samræmi við trú þeirra í bænum þeirra —

48 Já, og þetta var trú þeirra — að fagnaðarerindi mitt, sem ég gaf þeim til að prédika á þeirra tímum, mætti berast bræðrum þeirra, Lamanítum, og einnig öllum þeim sem orðið hefðu Lamanítar vegna sundrungar þeirra.

49 Nú, þetta er ekki allt — trú þeirra í bænum þeirra var sú, að þessi fagnaðarboðskapur skyldi einnig kunngjörður öðrum þeim þjóðum, sem mögulega eignuðust þetta land —

50 Og þannig eftirlétu þeir þessu landi, með bænum sínum, þá blessun, að hver sá sem tryði þessu fagnaðarerindi í þessu landi mætti öðlast eilíft líf —

51 Já, og að það yrði öllum frjálst, hverrar þjóðar, kynkvíslar, tungu eða lýðs, sem þeir annars væru.

52 Og sjá nú, í samræmi við trú þeirra í bænum þeirra mun ég kunngjöra fólki mínu þennan hluta fagnaðarerindis míns. Sjá, ég færi þeim það ekki til að tortíma því, sem þeir hafa meðtekið, heldur til að byggja það upp.

53 Og af þeim sökum hef ég sagt: Ef þessi kynslóð herðir ekki hjörtu sín, mun ég stofnsetja kirkju mína á meðal hennar.

54 Ég segi þetta ekki til að tortíma kirkju minni, heldur segi ég þetta til að byggja upp kirkju mína.

55 Hver sá sem tilheyrir kirkju minni þarf þess vegna ekki að óttast, því að slíkir munu erfa himnaríki.

56 En þeirra ró mun ég raska, sem hvorki óttast mig né halda boðorð mín, heldur byggja upp kirkjur sjálfum sér til hagnaðar, já og allra þeirra, sem ranglæti fremja og byggja upp ríki djöfulsins — já, sannlega, sannlega segi ég þér, að þá mun ég láta skjálfa og titra inn að hjartarótum.

57 Sjá, ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Ég kom til minna eigin, en mínir eigin tóku ekki við mér.

58 Ég er ljósið, sem skín í myrkrinu, en myrkrið skynjar það ekki.

59 Ég er sá, er sagði við lærisveina mína: Aðra sauði á ég, sem ekki eru af þessu sauðabyrgi, og margir voru þeir, sem skildu mig ekki.

60 Og ég mun sýna þessu fólki, að ég átti aðra sauði og að þeir voru grein af húsi Jakobs —

61 Og ég mun færa undursamleg verk þeirra, sem þeir unnu í mínu nafni, fram í ljósið —

62 Já, ég vil einnig færa fagnaðarerindi mitt, sem þeim var veitt, fram í ljósið, og sjá, þeir munu ekki afneita því, sem þú hefur móttekið, heldur skulu þeir byggja það upp og færa fram í ljósið hin sönnu kenningaratriði mín, já, og þá einu kenningu, sem í mér býr.

63 Og þetta gjöri ég til að stofnsetja fagnaðarerindi mitt og draga úr deilum. Já, Satan egnir hjörtu fólksins til deilna um kenningaratriði mín, og í því fara þeir villir vegar, því að þeir rangsnúa ritningunum og skilja þær ekki.

64 Þess vegna mun ég afhjúpa þennan mikla leyndardóm fyrir þeim —

65 Því að sjá, ef þeir herða ekki hjörtu sín, mun ég safna þeim saman eins og þegar hæna safnar ungum sínum undir vængi sér —

66 Já, þeir mega koma, sem koma vilja, og teyga frjálst af lífsins vatni.

67 Sjá, þetta er mín kenning — hver, sem iðrast og kemur til mín, hann er mín kirkja.

68 Hver sá sem boðar meira eða minna en þetta, hann er ekki af mér, heldur á móti mér. Þess vegna er hann ekki af kirkju minni.

69 Og sjá nú, hverjum þeim, sem er af kirkju minni og er kirkju minni trúr allt til enda, mun ég veita fótfestu á bjargi mínu og hlið heljar munu eigi á þeim sigrast.

70 Og ver minnugur orða hans, sem er líf og ljós heimsins, lausnari þinn, Drottinn þinn og Guð þinn. Amen.