Ritningar
Kenning og sáttmálar 3


3. Kafli

Opinberun veitt spámanninum Joseph Smith í Harmony, Pennsylvaníu, í júlí 1828, varðandi 116 bls. af handritum, sem glatast höfðu af þýðingu fyrsta hluta Mormónsbókar og nefndust Bók Lehís, en spámaðurinn hafði með tregðu látið þessi blöð úr vörslu sinni til Martins Harris, sem skamma hríð hafði verið ritari hans við þýðingu Mormónsbókar. Opinberunin veittist með Úrím og Túmmím. (Sjá kafla 10.)

1–4, Farvegur Drottins er eilíf hringrás; 5–15, Joseph Smith verður að iðrast eða glata þýðingargjöfinni; 16–20, Mormónsbók kemur fram, til að frelsa niðja Lehís.

1 Hvorki er unnt að ónýta verk Guðs, áætlanir hans eða tilgang, né gera þau að engu.

2 Því að Guð gengur ekki bugðóttar brautir, né snýr hann til hægri handar eða vinstri, eigi víkur hann heldur frá því, sem hann hefur mælt. Þess vegna eru brautir hans beinar og farvegur hans ein eilíf hringrás.

3 Hafið hugfast, munið, að það er ekki verk Guðs sem ónýtist, heldur verk mannanna —

4 Því enda þótt maðurinn geti fengið margar opinberanir og haft kraft til að gjöra margvísleg máttarverk, hlýtur hann samt að falla og kalla yfir sig refsingu réttvíss Guðs, ef hann hreykir sér í eigin styrk, hefur að engu ráðleggingar Guðs og fylgir sinni eigin holdlegu hyggju og þrá.

5 Sjá, þér var treyst fyrir þessum hlutum, en hversu ströng voru ekki fyrirmælin til þín! Og mundu einnig loforðin, sem þér voru gefin, ef þú brytir þau eigi.

6 Og sjá, hve oft þú hefur brotið boðorð og lögmál Guðs og farið að fortölum manna.

7 Því að sjá, þú áttir ekki að óttast manninn meira en Guð. Enda þótt menn hafi að engu ráðleggingar Guðs og fyrirlíti orð hans —

8 Ættir þú samt að hafa verið trúr. Og hann hefði rétt út hönd sína og varið þig gegn glóandi örvum andstæðingsins, og hann hefði verið með þér hverja erfiða stund.

9 Sjá, þú ert Joseph, og þú varst valinn til að vinna verk Drottins, en vegna lögmálsbrots munt þú falla, sért þú eigi var um þig.

10 En haf hugfast, að Guð er miskunnsamur. Iðrast því þess sem þú hefur gjört og er andstætt fyrirmælum þeim sem ég gaf þér, og enn ert þú útvalinn og kallaður til verksins á ný —

11 Ef þú gjörir þetta ei, munt þú framseldur og verða sem aðrir menn og enga gjöf eiga lengur.

12 Og þegar þú lést af hendi það, sem Guð hafði gefið þér innsýn og kraft til að þýða, lést þú í hendur rangláts manns það, sem heilagt var —

13 Manns, sem að engu hafði ráðleggingar Guðs og rofið hefur hin helgustu fyrirheit, sem gefin voru frammi fyrir Guði, og hefur treyst á eigin dómgreind og stært sig af eigin visku.

14 Og þetta er ástæðan fyrir því, að þú hefur glatað réttindum þínum um tíma —

15 Því að þú hefur leyft að ráð stjórnanda þíns væru fótumtroðin frá byrjun.

16 Engu að síður mun verk mitt halda áfram, því að rétt eins og heimurinn hefur fengið vitneskju um frelsarann með vitnisburði Gyðinganna, svo mun og fólk mitt fá vitneskju um frelsarann —

17 Og Nefítar og Jakobítar og Jósefítar og Sóramítar, með vitnisburði feðra sinna —

18 Og Lamanítar og Lemúelítar og Ísmaelítar, sem hnignað hafði í vantrú vegna misgjörða feðra sinna, og sem Drottinn leyfði að tortíma bræðrum sínum, Nefítum, vegna misgjörða þeirra og viðurstyggðar, þeir munu fá vitneskju um þennan vitnisburð.

19 Og einmitt í þeim tilgangi eru töflur þær, sem geyma þessar heimildir, varðveittar — til að fyrirheitin, sem Drottinn gaf fólki sínu, uppfyllist —

20 Og Lamanítar fái vitneskju um feður sína og viti um fyrirheit Drottins, og að þeir megi öðlast trú á fagnaðarerindið og treysta á verðleika Jesú Krists, og dýrðlegir verða fyrir trú á nafn hans og hólpnir verða fyrir iðrun sína. Amen.