Ritningar
Kenning og sáttmálar 51


51. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Thompson, Ohio, í maí 1831. Um þetta leyti fóru hinir heilögu, sem fluttust frá austurríkjunum, að koma til Ohio og nauðsynlegt reyndist að gera ákveðnar ráðstafanir varðandi búsetu þeirra. Þar sem þetta verkefni tilheyrði sérstaklega biskupsstarfinu, leitaði Edward Partridge leiðbeininga í málinu og spámaðurinn leitaði til Drottins.

1–8, Edward Partridge er útnefndur til að ráðstafa eigum og eignum; 9–12, Hinir heilögu eiga að breyta heiðarlega og skipta jafnt; 13–15, Þeir eiga að hafa forðabúr biskups og ráðstafa eigum í samræmi við lögmál Drottins; 16–20, Ohio skal vera bráðabirgðaaðsetur.

1 Hlýðið á mig, segir Drottinn Guð yðar, og ég mun tala til þjóns míns Edwards Partridge og gefa honum leiðbeiningar, því að nauðsynlegt er, að hann hljóti leiðsögn um hvernig þessu fólki skuli komið fyrir.

2 Því að nauðsynlegt er, að því sé komið fyrir í samræmi við lögmál mín. Ef ekki, mun það útilokað verða.

3 Lát þess vegna þjón minn Edward Partridge og þá, sem hann hefur valið og sem ég hef velþóknun á, úthluta þessu fólki sinn hluta, sérhverjum manni jafnt í hlutfalli við fjölskyldu hans og í samræmi við aðstæður hans, þörf og nauðsyn.

4 Og lát þjón minn Edward Partridge, þegar hann úthlutar hverjum manni hlut sinn, gefa honum skriflegt skjal, sem tryggi honum hlut hans, svo að hann haldi honum, já, þessum rétti og arfi í kirkjunni, þar til hann brýtur af sér, og með rödd kirkjunnar og í samræmi við lögmál og sáttmála hennar, telst ekki verðugur þess að tilheyra henni.

5 Og brjóti hann af sér og teljist ekki verðugur þess að tilheyra kirkjunni, skal hann ekki hafa rétt til að krefjast þess hlutar, sem hann hefur helgað biskupi handa hinum fátæku og þurfandi í kirkju minni. Hann skal þess vegna ekki endurheimta gjöfina, heldur aðeins eiga kröfu til þess hlutar, sem honum er afsalað.

6 Og þannig skal allt tryggt í samræmi við lög landsins.

7 Og lát það, sem tilheyrir þessu fólki, vera útnefnt þessu fólki.

8 Og féð, sem er ætlað þessu fólki — lát tilnefna erindreka fyrir fólkið til að taka við fénu og sjá fólkinu fyrir fæði og klæði í samræmi við þarfir þess.

9 Og hver maður skal breyta heiðarlega og allir skulu vera jafnir meðal þessa fólks og hljóta jafnt, svo að þér verðið eitt, já, eins og ég hef boðið yður.

10 Og það, sem tilheyrir þessu fólki, skal ekki frá því tekið og gefið öðrum söfnuði.

11 Ef þess vegna annar söfnuður hlýtur fé frá þessum söfnuði, skal hann endurgreiða þessum söfnuði samkvæmt samkomulagi —

12 Og þetta skal biskupinn eða erindreki sá, sem rödd kirkjunnar tilnefnir, gjöra.

13 Og enn fremur skal biskup setja upp forðabúr fyrir þennan söfnuð. Og allt, bæði fjármunir og matvæli, sem umfram þarfir fólksins verður, skal vera í höndum biskups.

14 Og hann skal einnig halda eftir fyrir sjálfan sig samkvæmt þörfum sínum og þörfum fjölskyldu sinnar, meðan hann vinnur að þessum málum.

15 Og þannig gef ég fólkinu rétt til að skipuleggja sig í samræmi við lögmál mín.

16 Og ég helga þeim þetta land um stundarsakir, þar til ég, Drottinn, sé fyrir þeim á annan hátt og býð þeim að fara héðan —

17 Og dagurinn og stundin er þeim ekki gefin. Þess vegna skulu þeir starfa á þessu landi sem verði þeir þar um árabil, og það mun snúast þeim til góðs.

18 Sjá, þetta skal verða þjóni mínum Edward Partridge fyrirmynd á öðrum stöðum, hjá öllum söfnuðunum.

19 Og hver sá, sem reynist trúr, réttvís og vitur ráðsmaður, skal ganga inn til fagnaðar Drottins síns og mun erfa eilíft líf.

20 Sannlega segi ég yður: Ég er Jesús Kristur, sem kemur skjótt, á þeirri stundu sem þér ætlið eigi. Já, vissulega. Amen.