Ritningar
Kenning og sáttmálar 66


66. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, 29. október 1831. William E. McLellin hafði með leynd beðið Drottin að svara í gegnum spámanninn fimm spurningum, sem Joseph Smith vissi ekki um. Að beiðni McLellin spurði spámaðurinn Drottin og meðtók þessa opinberun.

1–4, Hinn ævarandi sáttmáli er fylling fagnaðarerindisins; 5–8, Öldungar skulu prédika, vitna og rökræða við fólkið; 9–13, Trúverðug andleg þjónusta tryggir arfleifð eilífs lífs.

1 Sjá, svo segir Drottinn við þjón minn William W. McLellin — Blessaður ert þú, þar eð þú hefur snúið baki við misgjörðum þínum og meðtekið sannleika minn, segir Drottinn lausnari þinn, frelsari heimsins, já, allra þeirra, sem trúa á nafn mitt.

2 Sannlega segi ég þér: Blessaður ert þú fyrir að meðtaka ævarandi sáttmála minn, já, fyllingu fagnaðarerindis míns, sem send var mannanna börnum, svo að þau megi öðlast líf og meðtaka þær dýrðir sem opinberaðar verða á síðustu dögum, eins og ritað var af spámönnum og postulum til forna.

3 Sannlega segi ég þér, þjónn minn William, að þú ert hreinn, en ekki í öllu. Iðrast því þess, sem ekki er augum mínum þóknanlegt, segir Drottinn, því að Drottinn mun sýna þér það.

4 Og nú mun ég, Drottinn, sannlega sýna þér hvað ég vil varðandi þig eða hver vilji minn er varðandi þig.

5 Sjá, sannlega segi ég þér, að vilji minn er, að þú boðir fagnaðarerindi mitt land úr landi og borg úr borg, já, í nærliggjandi héruðum, þar sem það hefur ekki verið boðað.

6 Dvel ekki marga daga á þessum stað. Far ekki nú þegar til Síonarlands, en send þú það, sem þú getur sent. Hugsaðu að öðru leyti ekki um eigur þínar.

7 Far þú til landsvæðanna í austri, gef öllum vitnisburð þinn á hverjum stað, í samkunduhúsum þeirra, og rökræddu við fólkið.

8 Lát þjón minn, Samuel H. Smith, fara með þér. Yfirgef hann ekki og veit honum leiðbeiningar þínar. Og sá, sem er staðfastur, skal styrkur gjörður á hverjum stað, og ég, Drottinn, mun fara með þér.

9 Legg hendur þínar yfir hina sjúku og þeir munu heilir verða. Snú ekki aftur fyrr en ég, Drottinn, sendi þig. Ver þolinmóður í þrengingum. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Ekki ofhlaðast byrðum. Snú baki við öllu óréttlæti. Ekki drýgja hór — freistingu, sem hefur sótt á þig.

11 Varðveit þessi orð, því að þau eru sönn og traust. Og þú skalt efla embætti þitt og safna mörgum til Síonar, með söngva hinnar ævarandi gleði yfir höfðum sér.

12 Hald þannig áfram, já, allt til enda, og þú skalt eignast kórónu eilífs lífs til hægri handar föður mínum, sem er fullur náðar og sannleika.

13 Sannlega, svo segir Drottinn, Guð yðar, lausnari yðar, sjálfur Jesús Kristur. Amen.