Ritningar
Kenning og sáttmálar 67


67. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, snemma í nóvember 1831. Tilefnið var sérstök ráðstefna, þar sem rædd var og ákvörðun tekin um birtingu opinberana, sem þá þegar hafði verið tekið á móti frá Drottni með spámanninum (sjá formála að kafla 1). William W. Phelps hafði nýverið stofnað prentsmiðju kirkjunnar í Independence, Missouri. Á ráðstefnunni var ákveðið að gefa opinberanirnar út í Boðorðabók og að prenta 10.000 eintök (sem var seinna minnkað niður í 3.000 eintök vegna ófyrirsjáanlegra erfiðleika). Margir bræðranna gáfu hátíðlegan vitnisburð um að opinberanirnar, sem safnað hafði verið saman til útgáfu, væru vissulega sannar, eins og heilagur andi, sem þeim veittist, hafði borið þeim vitni um. Saga Josephs Smith skýrir frá því, að eftir að opinberunin, sem þekkt er sem 1. kafli, hafði verið gefin, hafi nokkrar umræður orðið um málfar opinberananna. Þessi opinberun fylgdi.

1–3, Drottinn heyrir bænir öldunga sinna og vakir yfir þeim; 4–9, Hann skorar á þann vitrasta að eftirlíkja hina smæstu af opinberunum hans; 10–14, Staðfastir öldungar munu lífgaðir af andanum og sjá ásjónu Guðs.

1 Sjá og hlýðið á, ó, þér öldungar kirkju minnar, sem safnast hafið saman, en bænir yðar hef ég heyrt og hjörtu yðar þekki ég, og þrár yðar hafa borist mér.

2 Sjá og tak eftir. Augu mín hvíla á yður og himnar og jörð eru í mínum höndum og mitt er að útdeila auðæfum eilífðarinnar.

3 Þér vilduð trúa því, að þér hlytuð þá blessun, sem stóð yður til boða. En sjá, sannlega segi ég yður, ótti bjó í hjörtum yðar, og vissulega er það ástæðan fyrir því, að þér hlutuð hana ekki.

4 Og nú gef ég, Drottinn, yður vitnisburð um sannleik þeirra boðorða, sem fyrir yður liggja.

5 Augu yðar hafa hvílt á þjóni mínum Joseph Smith yngri, og málfar hans hafið þér þekkt og ófullkomleika hans hafið þér þekkt. Og í hjörtum yðar hafið þér leitað þekkingar til að geta málfarslega staðið honum framar. Þetta vitið þér einnig.

6 Nú, leitið í Boðorðabókinni, jafnvel að því smæsta, sem þar er, og útnefnið þann, sem vitrastur er meðal yðar —

7 Og sé einhver meðal yðar, sem getur gjört eitt líkt því, þá eruð þér réttlættir í því að segja, að þér vitið ekki hvort þau eru sönn.

8 En getið þér ekki gjört eitt líkt því, eruð þér undir fordæmingu, ef þér berið ekki vitni um, að þau eru sönn.

9 Því að þér vitið, að ekkert óréttlæti finnst í þeim, og það sem réttlátt er kemur að ofan, frá föður ljósanna.

10 Og sannlega segi ég yður enn, að þetta eru forréttindi yðar, og loforð gef ég yður, sem vígðir hafa verið til þessarar helgu þjónustu, að sem þér varpið af yður afbrýði og ótta og auðmýkið yður fyrir mér, því að þér eruð ekki nægilega auðmjúkir, svo mun hulan rifin frá og þér munuð sjá mig og vita að ég er — ekki með holdlegum né náttúrlegum huga, heldur andlegum.

11 Því að enginn maður hefur nokkru sinni í holdinu séð Guð, nema hann sé lifandi gjörður með anda Guðs.

12 Né getur nokkur náttúrlegur maður staðist návist Guðs, né neinn með holdlegan huga.

13 Þér eruð ekki færir um að standast návist Guðs nú, né heldur þjónustu engla. Haldið þess vegna áfram af þolinmæði, þar til þér eruð fullkomnaðir.

14 Snúið hugum yðar ekki til baka, og þegar þér eruð verðugir, munuð þér á mínum tíma sjá og vita það, sem veittist yður af hendi þjóns míns Josephs Smith yngri. Amen.