Ritningar
Kenning og sáttmálar 7


7. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery í Harmony, Pennsylvaníu, í apríl 1829, þegar þeir í gegnum Úrím og Túmmím spurðust fyrir um hvort Jóhannes, hinn elskaði lærisveinn, lifði enn í holdinu eða hvort hann hefði dáið. Opinberunin er þýðing á frásögn, sem Jóhannes sjálfur ritaði á bókfell og varðveitti.

1–3, Jóhannes hinn elskaði mun lifa þar til Drottinn kemur; 4–8, Pétur, Jakob og Jóhannes halda lyklum fagnaðarerindisins.

1 Og Drottinn sagði við mig: Jóhannes, minn elskaði, hvað þráir þú? Því að biðjir þú um það, sem þú vilt, þá mun þér það veitt verða.

2 Og ég sagði við hann: Drottinn, gef mér vald yfir dauðanum, svo að ég megi lifa og leiða sálir til þín.

3 Og Drottinn sagði við mig: Sannlega, sannlega, segi ég þér, þar eð þú þráir þetta skalt þú kyrr verða þar til ég kem í dýrð minni, og skalt spá fyrir þjóðir, kynkvíslir, tungur og lýði.

4 Og af þeim sökum sagði Drottinn við Pétur: Ef ég vil að hann lifi þar til ég kem, hvað tekur það til þín? Því að hann þráði að fá að leiða sálir til mín, en þú þráðir að mega fljótlega koma til mín í ríki mitt.

5 Ég segi þér, Pétur, þetta var góð þrá, en minn elskaði hefur þráð að fá að gjöra meira, eða vinna ennþá stærra verk meðal mannanna en hann hefur áður gjört.

6 Já, hann hefur tekið að sér stærra verk. Þess vegna mun ég gjöra hann sem brennandi bál og þjónustuengil. Hann mun þjóna þeim, sem á jörðunni dvelja og erfa munu hjálpræðið.

7 Og ég mun láta þig þjóna honum og Jakob bróður þínum, og ykkur þremur mun ég gefa þetta vald og lykla þessarar helgu þjónustu þar til ég kem.

8 Sannlega segi ég ykkur, þið munuð báðir hljóta það, sem þið þráið, því að þið gleðjist báðir yfir því, sem þið þráðuð.