Til styrktar ungmennum
Til styrktar ungmennum: Boðskapur frelsarans til ykkar
Mars 2024


„Til styrktar ungmennum: Boðskapur frelsarans til ykkar,“ Til styrktar ungmennum, mars 2024.

Leiðarvísir að styrk hans

Til styrktar ungmennum: Boðskapur frelsarans til ykkar

Þessi leiðarvísir hjálpar ykkur að tengja ákvarðanir ykkar Jesú Kristi og kenningu hans.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Ég stend við dyrnar og kný á, eftir J. Kirk Richards

Ímyndið ykkur að þið búið í Galíleu til forna fyrir 2.000 árum. Ykkur og vinum ykkar hefur verið boðið á trúarsamkomu ungmenna í samkunduhúsi staðarins, þar sem sérstakur gestafyrirlesari er: Jesús frá Nasaret. Á ákveðnum tímapunkti í boðskap sínum býður Jesús ungmennunum meðal áheyrenda að spyrja sig spurninga.

Hvers konar spurningar haldið þið að þið kynnuð að heyra?

Ég vænti þess að einhverjar spurningar myndu endurspegla menningu og aðstæður þess tíma. En ég trúi sannlega að margar þeirra myndu hljóma eins og spurningarnar sem við höfum á okkar tíma.

Í Nýja testamentinu spurði fólk frelsarann til að mynda spurninga sem þessara:

  • Hvað þarf ég að gera til að öðlast eilíft líf?1

  • Er ég meðtekinn? Tilheyri ég?2

  • Hversu oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann syndgar gegn mér?3

  • Hvað verður um þessa veröld í framtíðinni? Mun ég njóta verndar?4

  • Getur þú læknað ástvin minn?5

  • Hvað er sannleikur?6

  • Hvernig veit ég hvort ég sé á réttri leið?7

Erum við ekki öll að velta fyrir okkur því sama af og til? Í aldanna rás hafa spurningarnar ekki breyst mikið. Samúð frelsarans í garð þeirra sem spyrja þeirra hefur heldur ekki breyst. Hann veit hversu erfitt og ruglingslegt lífið getur verið. Hann veit hversu auðvelt það er að villast. Hann veit að við höfum stundum áhyggjur af framtíðinni. Hann segir við þig og mig, eins og hann sagði við fylgjendur sína fyrir löngu:

  • „Hjarta yðar skelfist ekki.“8

  • „Ég er vegurinn [og] sannleikurinn.“9

  • „Fylgið mér.“10

Þegar þið hafið mikilvægar ákvarðanir að taka, eru Jesús Kristur og hið endurreista fagnaðarerindi hans besti valkosturinn. Þegar þið hafið spurningar, eru Jesús Kristur og hið endurreista fagnaðarerindi hans besta svarið.

Þetta er ástæða þess að ég elska ritið Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum. Það vísar okkur öllum til Jesú Krists svo við getum öðlast styrk hans. Ég hef alltaf eintak með mér í vasanum mínum. Þegar ég hitti fólk um allan heim sem vill vita hvers vegna við, sem meðlimir kirkju Jesú Krists, gerum það sem við gerum, gef ég þeim þennan leiðarvísi.

Ritið Til styrktar ungmennum kennir eilífan sannleika um frelsarann og hætti hans. Það býður ykkur að taka ákvarðanir byggðar á þeim sannleika. Það miðlar líka fyrirheitnum blessunum sem hann veitir þeim sem fylgja honum. Lesið, ígrundið og miðlið þessum leiðarvísi!

Bjóðið honum í líf ykkar

Jesús Kristur vill eiga aðild að lífi ykkar – vera stöðugt hjá ykkur alla daga, á góðum sem slæmum tímum. Hann stendur ekki bara við enda vegarins og bíður þess að þið náið til hans. Hann gengur með ykkur í hverju skrefi á veginum! Hann er vegurinn!

En hann mun ekki þvinga sér í líf ykkar. Þið bjóðið honum með vali ykkar. Þess vegna er leiðarvísir til að taka ákvarðanir, eins og Til styrktar ungmennum, svo dýrmætur. Í hvert sinn sem þið veljið réttlátlega, byggt á eilífum sannleika frelsarans, sýnið þið að þið viljið að hann sé í lífi ykkar. Slíkar ákvarðanir ljúka upp gáttum himinsins og styrkur hans streymir í líf ykkar.11

Vinnið að sterkum tenglsum

Þið munið ef til vill eftir því að frelsarinn líkti þeim sem heyra og framkvæma orð hans við vitran mann sem sem „byggði hús sitt á bjargi“. Hann útskýrði:

„Nú skall á steypiregn og vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. En það féll eigi, því að það var á bjargi byggt.“12

Hús stendur ekki af sér storm vegna þess að húsið er sterkt. Það stendur heldur ekki bara af því að bjargið er sterkt. Húsið stendur af sér storminn vegna þess að það er kirfilega fest við þetta sterka bjarg. Það er styrkur tengingarinnar við bjargið sem skiptir máli.

Á sama hátt er mikilvægt að taka góðar ákvarðanir þegar við byggjum upp líf okkar. Það er líka mikilvægt að skilja eilífan sannleika frelsarans. En styrkurinn sem við þurfum til að standast storma lífsins hlýst þegar við tengjum ákvarðanir okkar Jesú Kristi og kenningu hans. Það er það sem Til styrktar ungmennum hjálpar okkur að gera.

Vinir ykkar gætu til að mynda vitað að þið reynið að nota ekki móðgandi eða særandi orðalag. Þeir gætu séð ykkur hjálpa því barni í skólanum sem flestir leiða hjá sér eða jafnvel leggja í einelti. En vita þeir að þið veljið þetta vegna þess að Jesús Kristur kenndi að „allir menn eru bræður ykkar og systur – þar á meðal … fólk sem er öðruvísi en þið“?13

Vinir ykkar gætu vitað að þið farið í kirkju á hverjum sunnudegi. Þeir gætu tekið eftir því þegar þið dragið niður í ákveðnu lagi eða hafnið boði um að horfa á ákveðna kvikmynd. En vita þeir að þið veljið að gera það vegna þess að þið búið að „gleðiríku sáttmálasambandi við himneskan föður og Jesú Krist“ og að sem hluti af þeirri skuldbindingu að fylgja frelsaranum eruð þið þakklát „fyrir að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut ykkar“?14

Fólk gæti vitað að þið neytið hvorki áfengis né notið tóbak eða notar önnur skaðleg lyf. En veit það að þið veljið að gera þetta vegna þess að Jesús Kristur kenndi að „líkami ykkar er heilagur“, „dásamleg gjöf frá himneskum föður“, sem gerður er í hans mynd?15

Vinir ykkar gætu vitað að þið munið ekki svindla eða ljúga og að þið takið menntun alvarlega. En vita þeir að það er vegna þess að Jesús Kristur kenndi að „sannleikurinn mun gera yður frjálsa“?16

Vita vinir ykkar framar öllu að þið takið þessar, stundum óvinsælu ákvarðanir, til að halda ykkur við staðla Krists vegna þess að þið vitið að „Jesús Kristur er styrkur ykkar“?17

Hann er styrkur ykkar

Ég ber ykkur öruggt vitni mitt um að Jesús Kristur er leiðin til bjartrar og dýrðlegrar framtíðar – framtíðar ykkar. Hann er líka leiðin að bjartri og dýrðlegri nútíð. Gangið á hans vegi og hann mun ganga með ykkur. Þið getið gert þetta!

Kæru ungu vinir, Jesús Kristur er styrkur ykkar. Haldið áfram að ganga með honum og hann mun hjálpa ykkur að fljúga „upp á vængjum sem ernir“18 í átt að þeirri eilífu gleði sem hann hefur búið ykkur.