2005
Ljós Krists
Apríl 2005


Ljós Krists

Það sem allir ættu að vita er kallaðir eru til að boða, kenna eða tileinka sér fagnaðarerindið

Flestir þegnar kirkjunnar hafa góðan skilning á heilögum anda. Flestir þeirra hafa upplifað innblástur heilags anda og skilja hvers vegna hann er nefndur huggarinn.

Þeir vita að „heilagur andi … er … andavera“ (K&S 130:22) og aðili að Guðdómnum (sjá Trúaratriðin 1:1).

En margir þeirra vita ekki að annar andi er til – „ljós Krists“ (K&S 88:7) – sem er önnur uppspretta innblásturs, og við eigum öll sameiginlega með öðrum sem teljast til mannkyns. Ef við þekkjum ljós Krists, mun okkur skiljast að það er innra með okkur öllum og við getum skírskotað til þess er við þráum að miðla sannleika.

Heilagur andi og ljós Krists eru frábrugðin hvort öðru. Þótt báðum sé stundum lýst í ritningunum með sömu orðum, er um tvennt ólíkt að ræða. Það er mikilvægt fyrir ykkur að skilja muninn.

Við munum skilja lífið betur, því meiri sem vitnsekja okkar er um ljós Krists, og einnig bera meiri elsku til alls mannkyns. Við verðum betri kennarar, trúboðar og foreldrar og betri karlar, konur og börn. Við berum meiri umhyggju fyrir bræðrum okkar og systrum í kirkjunni, svo og þeim sem ekki trúa og hafa enn ekki öðlast gjöf heilags anda.

Ljós Krists er skilgreint í ritningunum sem „andinn [er] gefur sérhverjum manni ljós, sem í heiminn kemur“ (K&S 84:46; skáletur hér); „ljósið, sem er í öllu og gefur öllu líf, sem er lögmálið, er öllu stjórnar“ (K&S 88:13; sjá einnig Jóh 1:4–9; K&S 84:45–47; 88:6; 93:9).

Og ljós Krists er einnig skilgreint í ritningunum sem „andi Jesú Krists“ (K&S 84:45), „andi Drottins“ (2 Kor 3:18; sjá einnig Mósía 25:24), „andi sannleikans“ (K&S 93:26), „ljós sannleikans“ (K&S 88:6), „andi Guðs“ (K&S 46:17) og „hinn heilagi andi” (K&S 45:57). Sum þessara hugtaka eru einnig notuð þegar vísað er til heilags anda.

Æðsta forsætisráðið hefur ritað: „Ljós og líf heimsins er kjarni alls alheims, „sem upplýsir hvern mann, [er kemur í] heiminn,“ sem sent er úr návist Guðs í gegnum ómælisgeyminn, ljósið og krafturinn sem Guð veitir í mismunandi miklum mæli þeim „sem biðja hann,“ í samræmi við trú þeirra og hlýðni.“1

Hvort heldur þetta innra ljós, eða þessi þekking á réttu og röngu, er nefnt ljós Krists, siðferðisvitund eða samviska, getur það veitt okkur leiðsögn varðandi breytni okkar – það er að segja ef við höfum ekki dregið úr því eða kæft það.

Öll andabörn föður okkar á himnum koma í hið dauðlega líf til að öðlast efnislíkama og verða reynd.

„Drottinn sagði … þeir eru mín eigin handaverk, og þekkingu þeirra gaf ég þeim, þegar ég skapaði þá, og í aldingarðinum Eden gaf ég manninum sjálfræði sitt“ (HDP Móse 7:32).

„Þess vegna eru menn frjálsir í holdinu, og allt er þeim gefið, sem mönnum er nauðsynlegt. Og þeim er frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, eða velja helsi og dauða í samræmi við ánauð og vald djöfulsins. Því að hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur“ (2 Ne 2:27).

Við vitum því „að sérhver maður [getur] með tilliti til kenninga og reglna starfað framvegis í samræmi við það siðferðislega sjálfræði [hugtakið valfrelsi er ekki í þessari opinberun], sem ég hef gefið honum, svo að sérhver maður verði ábyrgur fyrir sínar eigin syndir á degi dómsins“ (K&S 101:78; skáletur hér).

Okkur er boðið að „[slökkva] ekki andann“ (1 Þess 5:19). Við getum því verið „nægjanlega uppfræddir til að þekkja gott frá illu“ (2 Ne 2:5; sjá einnig 2 Ne 2:27). Menn hafa sjálfræði og eru ábyrgir.

Andi Krists hvetur til góðra verka og alls þess sem dyggðugt er (sjá Moró 7:16). Hann er í algjörri og varanlegri andstöðu við allt sem er klúrt eða ljótt eða saurugt eða illt eða ranglátt (sjá Moró 7:17).

Samviskan staðfestir raunveruleika anda Krists í manninum. Hún staðfestir einnig raunveruleika góðs og ills, réttlætis, miskunnar, heiðurs, hugrekkis, trúar, elsku og dyggðar, sem og hinna nauðsynlegu andstæðna – fjandskapar, ágirndar, hrottaskapar, öfundar (sjá 2 Ne 2:11, 16). Slík gildi, þótt erfitt geti reynst að henda reiður á þeim, eru bundin lögmálum orsaka og afleiðinga, jafn örugglega og lögmál hins efnislega heims (sjá Gal 6:7–9). Anda Krists má líkja við „verndarengil,“ sem allir menn hafa.2

Andi Krists getur upplýst hugvitsmanninn, vísindamanninn, listmálarann, höggmyndalistamanninn, tónskáldið, hljóðfæraleikarann, höfundinn til að koma fram með eitthvað stórkostlegt og jafnvel veitt innblástur mannkyni öllu til góðs.

Andi þessi getur innblásið bóndann á akri hans og fiskimanninn á báti hans. Hann getur innblásið kennarann í kennslu, trúboðann við kennslu lexía. Hann getur innblásið nemandann sem leggur við hlustir. Og það sem skiptir miklu máli, hann getur innblásið eiginmanninn og eiginkonuna og föðurinn og móðurina.

Þetta innra ljós getur varað okkur við og leitt okkur og verndað. En það er hægt að hafna því með öllu sem ljótt er eða ósæmilegt eða ranglátt eða siðlaust eða sjálfselskt.

Ljós Krists var í þér áður en þú fæddist (sjá K&S 93:23, 29–30) og það er í þér hvert lífsins andartak og mun ekki deyja út þegar hinn dauðlegi hluti þinn hefur orðið að dufti. Það verður ávallt fyrir hendi.

Allir karlar, konur og börn, sérhverrar þjóðar, trúar eða hörundslitar – allir, hvar sem þeir búa eða hverjar sem skoðanir þeirra eru eða hvað þeir hafa fyrir stafni – hafa í sér hið ævarandi ljós Krists. Allir menn eru hvað þetta snertir skapaðir jafnir. Ljós Krists í öllum er vitnisburður um að Guð fer ekki í manngreinarálit (sjá K&S 1:35). Hann úthlutar öllum að jöfnu gjöfina sem er ljós Krists.

Mikilvægt er fyrir kennara eða trúboða eða foreldri að vita að heilagur andi getur unnið gegnum ljós Krists. Sá sem kennir sannleik fagnaðarerindisins er ekki að kenna ungum eða öldnum eitthvað ókunnugt eða jafnvel nýtt. Heldur er trúboðinn eða kennarinn að ná sambandi við anda Krists sem þegar er þar. Fagnaðarerindið mun „hljóma“ kunnuglega í eyrum þeirra. Þá mun kennslan verða „til að sannfæra [þá sem við hlustir leggja], um að Jesús er Kristur, hinn eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum“ (titilsíða Mormónsbókar).

Jesús kenndi fagnaðarerindi sitt í jarðneskri þjónustu sinni og lagði þann grundvöll sem byggja átti kirkju hans á. Grundvöllur hennar var byggður úr steinum kenninga, sem hvorki voru sýnilegir né áþreifanlegir. Þeir voru öllu heldur ósýnilegir og óáþreifanlegir. Þeir láta ekki á sjá fyrir veðrum eða vindum. Þá er ekki hægt að skemma eða eyðileggja. Kenningasteinar þessir eru ævarandi og óforgengilegir.

Kenningasteinar þessir voru til „áður en heimurinn varð til“ (K&S 124:38), „frá grundvöllun veraldar“ (K&S 124:41). Kristur byggði kirkju sína á þeim.

Jesús talaði um „[þann] steinn, sem smiðirnir höfnuðu“ (Matt 21:42). Þá yfirskyggði myrkur fráhvarfs jörðu. Lína prestdæmisins rofnaði. En mannkyn var ekki eftir skilið í niðamyrkri eða algjörlega án opinberunar eða innblásturs. Hugmyndin um að himnarnir hafi lokast með krossfestingu Krists og opnast við Fyrstu sýnina er ekki sönn. Ljós Krists var hvarvetna fyrir hendi til að næra börn Guðs og heilagur andi hafði áhrif á leitandi sálir. Hinir réttlátu voru bænheyrðir.

Veiting gjafar heilags anda varð að bíða endurreisnar prestdæmisins og ráðstöfunarinnar í fyllingu tímanna, er opinbera skyldi alla hluti. Musterisstarf – helgiathafnastarf – yrði opinberað. Allir sem uppi höfðu verið á tímum hinna mörgu kynslóða, er nauðsynlegar helgiathafnir stóðu ekki til boða, er skírn stóð ekki til boða, mundu hljóta endurlausn. Guð skilur börn sín aldrei eftir í reiðileysi. Hann hefur aldrei látið jörðina eftir í reiðileysi.

Þegar fagnaðarerindið var endurreist í fyllingu sinni, var Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu byggð á þessum sömu kenningasteinum.

Við lærum næstum allt í gegnum hina efnislegu vitund og því reynist okkur afar erfitt að höndla óáþreifanlegar og óhlutbundnar kenningar. Jesús, meistarakennarinn, kenndi þessar kenningar og mögulegt er að kenna þær nú á sama hátt. Ætlunarverk mitt er að sýna ykkur hvernig hann, meistarakennarinn, kenndi þær.

Þið getið komist til skilnings á andlegum sannleika og þreifað á þessum kenningarsteinum líkt og þeir væru gerðir úr granít, tinnusteini eða marmara. Höggmyndlistamaðurinn getur mótað marmarann svo aðrir fái séð það sem hann sér í hinum ómótaða steini. Þið getið á líkan hátt kennt öðrum að sjá – sem er að skilja – þessa ósýnilegu og óáþreifanlegu kenningasteina.

Sú kennsluaðferð sem frelsarinn beitti, og þið getið einnig beitt, er bæði einföld og djúpstæð. Þið getið kennt líkt og hann kenndi, ef þið veljið áþreifanlegan hlut sem kenningarlegt tákn. Kennari getur tengt kenningu við einhvern kunnugan hlut, sem hægt er að sjá berum augum.

Jesús líkti sáðkorni við trú, örlitlu mustarðssáðkorni, sem hægt er að virða fyrir sér og þreifa á. Hann sagði frá því að ef menn nærðu sáðkornið myndi það taka að vaxa og dafna og verða tré. (Sjá Lúk 13:19.)

Hann líkti hversdagslegustu hlutum við himnaríki. Hann sagði: „Himnaríki [er] líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski“ (Matt 13:47). Hann sagði einnig: „Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann“ (Matt 13:44).

Kristur notaði sem dæmi, sem líkingu, kunnuga hluti eins og salt (sjá Matt 5:13; Mark 9:49–50; Lúk 14:34) og kerti (sjá Matt 5:15; Mark 4:21; Lúk 8:16; 11:33–36; Op 18:23), regn (sjá Matt 7:25–27) og regnboga (sjá Op 4:3; 10:1). Í guðspjöllunum fjórum eru mýmörg dæmi um slíkt. Fjöldi dæma er einnig í Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu. Þau eru hvarvetna. Þannig eru frásagnirnar eða dæmisögurnar – heimfærðar upp á lífið sjálft til að kenna reglu eða kenningu sem er ósýnileg eða óáþreifanleg.

Frelsarinn talar einu sinni í Matteusarguðspjalli, einu sinni í Lúkasarguðspjalli og þrisvar sinnum í Kenningu og sáttmálum um hænu með unga sína (sjá Matt 23:37; Lúk 13:34; 3 Ne 10:4–6; K&S 10:65; 29:2; 43:24). Allir, jafnvel lítil börn, þekkja hænsni og unga.

Trú er að vísu ekki nákvæmlega eins og sáðkorn og ekki er himnaríki nákvæmlega eins og net eða fjársjóður eða súrdeig (sjá Lúk 13:21) eða eins og „[kaupmaður], sem leitaði að fögrum perlum“ (Matt 13:45). En Jesús gat með slíkum líkingum lokið upp augum lærisveina sinna – ekki hinum náttúrlegu augum, heldur augum skilnings þeirra (sjá Matt 13:15; Jóh 12:40; Post 28:27; Ef 1:18; 2 Ne 16:10; K&S 76:12, 19; 88:11; 110:1).

Við sjáum andlega hluti með augum skilnings okkar. Þegar andi okkar leitar skilnings, getum við þreifað á því andlega og skynjað það. Þá getum við séð og skynjað ósýnilega hluti eins og þá efnislegu. Minnist þess að Nefí sagði við hina uppreisnargjörnu bræður sína, sem höfðu hafnað orðsendingu engils: „Þið voruð orðnir svo tilfinningalausir, að þið gátuð ekki skynjað orð hans“ (1 Ne 17:45; skáletur hér).

Páll ritaði til Kórintumanna: „En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs. …

Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt.

Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega“ (1 Kor 2:10, 13–14).

Kristur talaði í nútíma opinberun um „ljósið, sem ljómar og lýsir yður, er frá honum, sem lýsir upp augu yðar, það sama ljós, sem lífgar skilning yðar“ (K&S 88:11).

Ég veit ekki hvernig kenna á um anda Krists, ef ekki með því að gera eins og Drottinn gerði er hann kenndi lærisveinum sínum hinn ósýnilega og óáþreifanlega sannleika.

Ég ætla að kenna um ljós Krists með því að líkja því við birtu sólarinnar. Sólarbirtuna þekkja allir. Hún er hvarvetna og hægt er að sjá hana og skynja. Lífið sjálft er háð sólarljósinu.

Ljósi Krists líkja við sólarljósið. Það er einnig hvarvetna og veitir öllum jafnt.

Á sama hátt og myrkrið víkur fyrir sólarljósi, verður hið illa að víkja fyrir ljósi Krists.

Ekkert myrkur finnst í sólarljósi. Myrkrið er undirgefið ljósinu. Ský geta hulið sólu eða snúningur jarðar, en skýin munu hverfa og jörðin snúast sinn hring.

Okkur hefur verið sagt að samkvæmt áætluninni eru „andstæður … nauðsynlegar í öllu“ (2 Ne 2:11).

Mormón sagði: „Djöfullinn … leiðir engan til góðra verka, nei alls engan. Né heldur gjöra englar hans það, né heldur þeir, sem lúta honum.

Þar sem þér þekkið það ljós, sem þér getið dæmt eftir, það ljós, sem er ljós Krists, gætið þess þá að dæma ekki ranglega“ (Moró 7:17–18).

Hið lífgefandi ljós Krists er innra með okkur. Hinn illi leitast við að hrekja það á brott. Svo þykk skýjahula ringulreiðar getur legið yfir að við teljum okkur trú um að það sé ekki til.

Líkt og sólarljósið getur verið hreinsandi, getur andi Krists hreinsað anda okkar.

Hver sála, hver sem er, hvar sem er og hvenær sem er, er barn Guðs. Ábyrgð okkar er að kenna að „það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra“ (Job 32:8).

Joseph Fielding Smith forseti talaði um kenningar tengdar heilögum anda og anda Krists: „Allir menn geta tekið á móti opinberun heilags anda, jafnvel þótt þeir séu utan kirkjunnar, ef þeir leita einlæglega ljóss og sannleika. Heilagur andi mun veita þeim vitnisburð um það sem þeir knýja á um og svo draga sig í hlé, og þeir eiga ekki heimtingu á annarri staðfestingu eða stöðugum staðfestingum heilags anda. Þeir geta notið stöðugrar leiðsagnar hins andans eða anda Krists.“3

Andi Krists er alltaf fyrir hendi. Hann hopar aldrei. Hann getur ekki hopað.

Allir, allsstaðar hafa nú þegar anda Krists, en þótt heilagur andi geti haft áhrif á hvern sem er, er gjöf heilags anda veitt fyrir „hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins“ (Trúaratriðin 1:3) og fyrir „skírn með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda [og þá er] handayfirlagning til veitingar á gjöf heilags anda“ (Trúaratriðin 1:4). Hann er ekki sjálfkrafa nálægur líkt og andi Krists. Slíka gjöf verður að veita af þeim sem hefur til þess valdsumboð (sjá Trúaratriðin 1:5).

Það er einmitt það sem okkur er boðið að gera, að hlúa að ljósi Krists, sem er í hverri sál sem við komumst í snertingu við og gera þær sálir hæfar til að heilagur andi geti komið yfir þær. Og svo geta þær á tilsettum tíma tekið á móti gjöf heilags anda með helgiathöfn, sem öllum þegnum kirkjunnar er veitt.

Þegar menn hafa eitt sinn tekið á móti gjöf heilags anda og lagt rækt við hann samhliða ljósi Krists, sem þegar er þeirra, mun fagnaðarerindið í fyllingu sinni ljúkast upp fyrir þeim. Heilagur andi getur jafnvel starfað í gegnum ljós Krists.4

Ljós Krists er jafn heimslægt og sjálft sólarljósið. Þar sem mannlíf er þar er andi Krists. Hver lifandi sál er haldin þeim anda. Hann viðheldur öllu sem gott er. Hann upplýsir allt sem verður mannkyni til hagsældar og blessunar. Hann nærir sjálfan góðleikann.

Mormón sagði: „[Leitið] af kostgæfni í ljósi Krists, svo að þér megið þekkja gott frá illu. Og ef þér tileinkið yður allt, sem gott er, og fordæmið það ekki, verðið þér vissulega börn Krists“ (Moró 7:19).

Allir þekkja sólarljósið. Þegar við líkjum anda Krists við sólarljósið geta almenn dæmi úr eigin lífsreynslu komið í hugann. Slík dæmi eru nánast óþrjótandi. Slík dæmi geta hvort heldur lítil börn eða fullorðið fólk skilið, líkt og mögulegt er að skilja dæmisögur Krists. Það ætti ekki að vera erfitt að kenna um opinberun með því að líkja henni við ljós, jafnvel þótt við skiljum ekki nákvæmlega virkni innblásturs.

Sjálfur maðurinn, með öllum sínum takmörkunum, getur sent upplýsingar í gegnum ljósleiðara. Slíkir glerþræðir eru fínni en mannshár og hver þeirra getur borið 40.000 orðsendingar samtímis. Hægt er að kóða upplýsingarnar og breyta þeim í mynd og hljóð og liti, jafnvel hreyfingar. Þetta getur maðurinn gert.

Leysergeisli, sem ekki er vír eða þráður, getur borið 100 milljarða bæta af upplýsingum á sekúndu.

Fyrst maðurinn getur gert þetta hvers vegna ættum við þá að undrast yfir því að ljós Krists sé innra með okkur öllum og að heilagur andi geti vitjað okkar allra?

Það ætti því ekki að reynast okkur erfitt að skilja að opinberun frá Guði til barna hans á jörðu getur veist öllu mannkyni bæði með anda Krists og heilögum anda.

Ljós Krists er hvarvetna í ritningunum. Kenning og sáttmálar er auðug af kennslu um ljós Krists. Í henni er til að mynda rætt um „[sannleikann], sem ljómar… ljós Krists. … Hann er einnig í sólinni og ljósi sólarinnar og sá kraftur, sem hún var gjörð með“(K&S 88:6–7).

Hinn venjulegi kennari er ábyrgur fyrir að útlista kenningar og bera vitni um andlega hluti, sem hann sjálfur hefur upplifað, og heimfæra þá upp á hinn hversdagslegasta raunveruleika.

Heilagur andi, huggarinn, getur tendrað ljós Krists. Okkur er sagt: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður“ (Jóh 14:26).

Harold B. Lee forseti sagði: „Það ljós hverfur aldrei alveg … [hér er rætt um ljós Krists] nema því aðeins að við drýgjum hina ófyrirgefanlegu synd. Týra þess getur orðið svo lítil að við fáum vart greint hana, en það er fyrir hendi og getur orðið að skæru ljósi sem veitir þekkingu og upplýsir skilning okkar. Við kæmumst ekki af án þess. Trúboðsstarf okkar yrði til einskis.“5

Ef við áttum okkur á raunveruleika ljóss Krists í öllum sem á vegi okkar verða og á öllum fundum sem við sækjum og innra með okkur sjálfum, og áttum okkur á áskorunum okkar – umhverfi okkar, hættunum sem stundum umlykja okkur – munum við hafa hugrekki og hljóta innblástur umfram það sem við hingað til þekkjum. Og þannig verður það að vera! Og þannig verður það! Allt þetta er hluti af sannleika fagnaðarerindisins sem of fáum er ljós.

Megum við með bæn og kostgæfni leitast við að skilja hvað í reglum þessum felst og svo reyna að tileinka okkur það. Ef við gerum það, mun í kjölfarið fylgja vitnisburður um fagnaðarerindi Jesú Krists, um að fagnaðarerindið hafi í raun verið endurreist og um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem „hina einu sönnu og lifandi kirkju á gjörvallri jörðunni“ (K&S 1:30). Jesús er Kristur, sonur Guðs, hinn eingetni föðurins. Og frá honum streymir ljós Krists til alls mannkyns.

Megið þið sem eruð trúboðar eða kennarar og þið sem foreldrar „endurnærast af orðum Krists. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra“ (2 Ne 32:3). Í nafni Jesú Krists, amen.

Ræða flutt 22. júní 2004 á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta í trúboðsþjálfunarskólanum í Provo, Utah.

HEIMILDIR

  1. “‘Receiving’ the Holy Ghost,” Improvement Era, mars 1916, 460.

  2. Sjá Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, samant. Bruce R. McConkie, 3 bindi (1954–56), 1:54.

  3. Doctrines of Salvation, 1:42; sjá einnig Joseph Smith, Teachings of the Prophet Joseph Smith, valið af Joseph Fielding Smith (1976), 149.

  4. Sjá Doctrines of Salvation, 1:54.

  5. The Teachings of Harold B. Lee, ritst. af Clyde J. Williams (1996), 101.