2019
Hvernig getum við stuðlað að því að öllum finnist þeir tilheyra hópnum í kirkju?
Júlí 2019


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, júlí 2019

Hvernig getum við stuðlað að því að öllum finnist þeir tilheyra hópnum í kirkju?

Þegar við lítum umhverfis í deildum okkar eða greinum, sjáum við fólk sem virðist falla vel í hópinn. Það sem okkur er þó óljóst, er að mörgum sem virðast falla í hópinn, finnst þeir vera afskiptir. Í einni nýlegri könnun var niðurstaðan t.d. sú að nærri helmingur fullorðinna í Bandaríkjunum sagðist vera einmana, afskiptur eða einangraður.1

Það er mikilvægt að finna að maður tilheyri. Það er grunnþörf mannsins og ef okkur finnst við afskipt, er það særandi. Að vera afskiptur, getur leitt til dapurleika eða reiði.2 Þegar okkur finnst við ekki tilheyra, hneigjumst við til að leita staðar þar sem okkur líður vel á. Við þurfum að hjálpa öllum að finna að þeir eigi heima í kirkjunni.

Meðtaka aðra líkt og frelsarinn gerði

Frelsarinn sýndi fullkomlega hvernig meta á og meðtaka aðra. Þegar hann valdi postula sína, lét hann sig engu varða um stöður, ríkidæmi eða háleit starfssvið. Hann mat samversku konuna við brunninn mikils og bar henni vitni um guðleika sinn, þótt Gyðingar hefðu litið niður á Samverja (sjá Jóhannes 4). Hann sér hjartalagið og fer ekki í manngreinarálit (sjá 1. Samúel 16:7; Kenning og sáttmálar 38:16, 26).

Frelsarinn sagði:

„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.

Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ (Jóhannes 13:34–35).

Hvað getum við gert?

Stundum er erfitt að greina hvort einhverjum finnist hann vera afskiptur. Flestir segja það ekki beinum orðum – hið minnsta ekki skorinort. Við getum þó, með ástúð og leiðsögn heilags anda og meðvituðu átaki, séð þegar einhverjum finnst hann ekki tilheyra á samkomum og athöfnum kirkjunnar.

Vísbendingar um einhvern sem finnst hann ekki tilheyra, gætu verið:

  • Innhverf líkamstjáning, svo sem þétt krosslagðir handleggir eða að vera niðurlútur.

  • Setið aftast í salnum eða einn og sér.

  • Engin eða óregluleg kirkjusókn.

  • Snemma farið af samkomum eða athöfnum.

  • Engin þátttaka í umræðum eða kennslu.

Þetta geta líka verið vísbendingar um aðrar tilfinningar, svo sem feimni, kvíða eða vandræðaleika. Meðlimir geta upplifað sig „öðruvísi“ þegar þeir eru nýir meðlimir kirkjunnar, eru frá öðru landi eða eru annarrar menningar eða hafa upplifað erfiðar lífsbreytingar, svo sem skilnað, dauða ástvinar eða þeir hafa komið heim af trúboði fyrr en ella.

Hver sem ástæðan er, þá ættum við hiklaust að nálgast þá af kærleika. Orð okkar og verk geta vakið tilfinningu um að allir séu velkomnir og mikils metnir.

Nokkrar leiðir til að vera opinn og alúðlegur:

  • Sitjið ekki alltaf hjá sama fólkinu í kirkju.

  • Einblínið ekki á ytra útlit fólks, heldur á manneskjuna sjálfa. (Finna má meira um efnið í „Hirðisþjónusta er að sjá fólk með augum frelsarans,“ Reglur hirðisþjónustu, júní 2019.)

  • Hafið fólk með í umræðum.

  • Bjóðið fólki að taka þátt í lífi ykkar. Þið getið haft það með í athöfnum sem þið eruð að skipuleggja.

  • Finnið sameiginleg áhugamál og byggið á þeim.

  • Haldið ekki aftur af vináttu einungis vegna þess að einhver stendur ekki undir væntingum ykkar.

  • Þegar þið sjáið eitthvað einstakt í fari einstaklings, sýnið því þá áhuga í stað þess að leiða það hjá ykkur.

  • Tjáið elsku og hrósið einlæglega.

  • Gefið ykkur tíma til að hugsa um raunverulega merkingu þess að segja að kirkjan sé fyrir alla, hversu ólík sem við erum. Hvernig getum við gert þetta að veruleika?

Það er ekki alltaf auðvelt að líða vel í hópi fólks sem er ólíkt manni sjálfum. Með þolinmæði, getum við samt gert betur í því að sjá gildi í hinu ólíka og meta hið einstæða framlag hvers einstaklings. Líkt og öldungur Dieter F. Uchtdorf í Tólfpostulasveitinni sagði, að það sem aðskilur okkur getur hjálpað okkur að verða betra og hamingjusamara fólk: „Hjálpið okkur að byggja upp og styrkja menningu góðvildar, lækningar og miskunnar fyrir öll börn Guðs.“3

Blessuð með dásamlegum viðtökum

Christl Fechter flutti til annars lands eftir að stríð hafði skilið heimaland hennar eftir í sárum. Hún talaði ekki tungumálið vel og þekkti engan í nýja hverfinu sínu og fannst hún ein og einangruð í fyrstu.

Sem meðlimur kirkjunnar, safnaði hún nægum kjarki til að fara í nýju deildina sína. Hún hafði áhyggjur af því að óvenjulegur hreimur hennar héldi fólki frá því að tala við hana eða að hún yrði dæmd fyrir að vera einhleyp.

Hún kynntist þó öðrum sem litu framhjá því að hún væri öðruvísi og buðu hana velkomna í vinahópinn. Þau tóku á móti henni af ástúð og brátt var hún önnum kafinn við kennslu námsbekkjar í Barnafélaginu. Hún fékk dásamlegar viðtökur hjá börnunum og þar sem hún fann að hún var elskuð og metin, styrktist trú hennar og glæddi ævilanga tryggð hennar við Drottin.

Heimildir

  1. Sjá Alexa Lardieri, „Study: Many Americans Report Feeling Lonely, Younger Generations More So,“ U.S. News, 1. maí 2018, usnews.com.

  2. Sjá Carly K. Peterson, Laura C. Gravens og Eddie Harmon-Jones, „Asymmetric Frontal Cortical Activity and Negative Affective Responses to Ostracism,“ Social Cognitive and Affective Neuroscience, bindi 6, nr. 3 (júní 2011), 277–85.

  3. Dieter F. Uchtdorf, „Trúa, elska, gera,“ aðalráðstefna, okt. 2018.