Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Gerið tilkalls til blessana sáttmála ykkar

Gerið tilkalls til blessana sáttmála ykkar

Október 2013 Aðalráðstefna

Þegar við endurnýjum og heiðrum sáttmála okkar getur byrði okkar orðið léttari og við getum stöðugt orðið hreinni og sterkari.

Systur, hve dásamlegt það er að hitta ykkur aftur.

Nýlega hitti ég konu sem var að búa sig undir skírn. Á þeim ákveðna sunnudegi kom hún í kirkju eftir að hafa öslað 3 km í illfærum aur. Hún fór strax inn á snyrtinguna, fór úr forugum fötum sínum, þreif sig og fór í hrein sunnudagsföt. Hún sagði frá trúskiptum sínum í Líknarfélaginu. Ég var snortin af sterkri þrá hennar eftir að verða hrein með iðruninni og friðþægjandi fórn frelsarans og fúsleika hennar til að láta af sínu „gamla líferni,“ til að geta gert helga sáttmála við föður okkar á himnum. Hún hafði yfirgefið kærastann sinn, sigrast á fíkn til að geta lifað eftir Vísdómsorðinu, hætt að vinna á sunnudögum til að geta sótt kirkjusamkomur, og misst vináttu kærra vina sinna þegar hún tilkynnti þá ætlun sína að láta skírast. Hún þráði innilega að láta af syndum sínum, svo hún mætti hreinsast og finna endurleysandi kærleika frelsarans. Þrá hennar eftir að verða bæði líkamlega og andlega hrein veitti mér innblástur þann dag.

Við vitum að margar hafið þið fært svipaðar fórnir er þið hafið fundið vitnisburð heilags anda og löngun til að gjöra iðrun, láta skírast og verða hreinar. Vera má að við finnum best fyrir himneskum kærleika frelsarans þegar við gjörum iðrun, og finnum þá kærleiksríka arma hans útrétta til að faðma okkur og fullvissa okkur um ást hans og samþykki.

Ég varð hrærð sunnudag einn fyrir fáeinum vikum, þegar ég hlustaði á sakramentisbænirnar og heyrði hve einn presturinn bar fram sérhvert orð bænarinnar af mikilli tilfinningu. Síðar hringdi ég í þennan prest og þakkaði honum fyrir að gera sakramentið að svo djúpri og andlegri upplifun fyrir mig og söfnuðinn. Hann var ekki heima en móðir hans svaraði: „Ó, hann verður glaður yfir því að þú hringdir! Þetta var í fyrsta skiptið sem hann las bænina og við höfum verið að undirbúa okkur saman, tala um mikilvægi sakramentisins og að endurnýja verðug skírnarsáttmála okkar við frelsarann.“ Hve mikið ég ann þessari kæru móður, að hún skuli hafa frætt son sinn um kraft skírnarsáttmálans og hvernig hann geti hjálpað þegnum deildarinnar að finna þennan kraft.

Önnur móðir sem ég þekki hefur setið ein í kirkju í mörg ár með börnum sínum fjórum. Hún gerði áætlun, því hún gat sjaldan einbeitt sér að því að hugsa um frelsarann á meðan á sakramentinu stóð. Nú reynir hún að gefa sér tíma á hverjum laugardegi til að íhuga vikuna og hugsa um sáttmála sína og hvers hún þurfi að iðrast. „Síðan,“ segir hún, „skiptir ekki máli hvað gengur á með börnin á sunnudeginum, því ég er reiðubúin að meðtaka sakramentið, endurnýja sáttmála mína og finna hreinsandi kraft friðþægingarinnar.“

Hvers vegna leggur frelsarinn svo mikla þýðingu á sakramentið, kæru systur? Hversu mikilvæg í lífi okkar er þessi vikulega endurnýjun skírnarsáttmála okkar? Gerum við okkur grein fyrir getu frelsarans til að hreinsa okkur fullkomlega í hverri viku, er við meðtökum sakramentið verðug og íhugum það? Boyd K. Packer sagði: „Þetta er loforð fagnaðarerindis Jesú Krists og friðþægingarinnar: … Að við lok þessa lífs [getum við] farið í gegnum huluna, hafandi iðrast synda [okkar] og verið leyst frá þeim fyrir blóð Krists.“1

Við í forsætisráðinu gleðjumst innilega er trúsystur okkar og fjölskyldur þeirra gera og halda sáttmála, en hjörtu okkar bresta af sársauka fyrir hönd þeirra sem upplifa mikið mótlæti í lífinu vegna þess að ástvinir þeirra brjóta sáttmála. Spámaðurinn Jakob, bróðir Nefís, fékk það verkefni frá Drottni að tala til bræðra sinna um réttlátar konur og börn síns tíma. Ég ber vitni um að orð hans hafa verið varðveitt sérstaklega fyrir okkar dag. Hann talar til okkar eins og frelsarinn sjálfur væri að tala. Jakob var íþyngdur miklum „áhyggjum“ er hann vitnaði fyrir eiginmönnum og feðrum:

„Og það hryggir mig einnig að þurfa að tala svo djarflega til yðar frammi fyrir eiginkonum yðar og börnum, sem flest hafa mjög viðkvæmar, hreinar og ljúfar tilfinningar. …

… Andvörp hjartna þeirra stíga upp til Guðs … mörg hjörtu [hafa dáið], níst djúpum sárum.“2

Jakob gaf konum og börnum síns tíma, sem héldu sáttmála sína, þetta loforð:

Lítið til Guðs með staðföstum huga, biðjið til hans í sterkri trú og hann mun ljá yður huggun í þrengingum yðar …

… Lyftið höfðum yðar, allir þér, sem hjartahreinir eruð, og takið við hugljúfu orði Drottins og endurnærist af elsku hans.“3

Ég vitna um styrk og kraft bænarinnar er við tjáum himneskum föður okkar dýpsta sársauka og þrá og svörin sem við fáum er að við „endurnærumst af“ ritningunum og orðum hinna lifandi spámanna.

Ógnvænlegur eldur gjöreyðilagði að innan okkar kæra laufskála í Provo, Utah, fyrir tæpum þremur árum. Bæði samfélagið og kirkjuþegnar töldu þann harmleik mikið tjón. Margir hugsuðu: „Hvers vegna leyfði Drottinn að þetta gerðist? Vissulega hefði hann getað komið í veg fyrir eldinn eða stöðvað eyðileggingu hans.“

Tíu mánuðum síðar, á aðalráðstefnu í október 2011, mátti heyra andköf þegar Monson forseti tilkynnti, að breyta ætti hinum nánast gjöreyðilagða laufskála í heilagt musteri — hús Drottins! Skyndilega gátum við séð það sem Drottinn hafði alltaf vitað! Hann olli ekki eldinum, heldur leyfði hann eldinum að hreinsa burtu innviðina. Hann sá laufskálann sem glæsilegt musteri — varanlegt heimili til að gera heilaga og eilífa sáttmála.4

Kæru systur mínar, Drottinn leyfir að við séum prófaðar og reyndar, stundum upp að þolmörkum okkar. Við höfum séð líf ástvina — og kannski okkar eigið – brennt til grunna, í óeiginlegri merkingu, og höfum furðað okkur á því hvers vegna ástkær og umhyggjusamur faðir á himnum leyfir slíku að gerast. En hann skilur okkur ekki eftir aleinar í öskunni, hann stendur með opna arma og býður okkur innilega að koma til sín. Hann er að gera stórfenglegt musteri úr lífi okkar, þar sem andi hans getur dvalið að eilífu.

Drottinn segir okkur í Kenningu og sáttmálum 58:3–4:

„Með náttúrlegum augum yðar getið þér eigi að svo stöddu séð áform Guðs um það, sem síðar skal koma, eða þá dýrð, sem fylgja mun eftir mikið mótlæti.

Því að eftir mikið mótlæti koma blessanirnar. Sá dagur mun þess vegna koma, er þér verðið krýndir með mikilli dýrð.“

Systur, ég ber vitni um að Drottinn hefur áætlun fyrir sérhverja okkar. Hann er ekki hissa eða undrandi yfir neinu sem gerist. Hann er alvitur og kærleiksríkur. Hann þráir að hjálpa okkur, hugga okkur og lina sársauka okkar, er við reiðum okkur á kraft friðþægingarinnar og heiðrum sáttmála okkar. Vera má að reynsla og raunir þær sem við upplifum séu einmitt það sem þarf til að koma til hans og halda fast við sáttmála okkar, svo við getum snúið aftur í návist hans og hlotið allt sem faðirinn á.

Á síðastliðnu ári hef ég þráð og haft þörf fyrir að skynja elsku Drottins á dýpri hátt, til að hljóta persónulega opinberun, til að skilja musterissáttmála mína betur og létta byrðar mínar. Er ég hef beðið sérstaklega um þessar blessanir hef ég fundið andann segja mér að fara í musterið og hlusta betur á sérhvert orð þeirra blessana sem mér eru veittar. Ég ber vitni um að þegar ég hef hlustað með einbeitingu og reynt að iðka trú mína, þá hefur Drottinn verið mér miskunnsamur og létt byrðar mínar. Hann hefur hjálpað mér að finna mikinn frið varðandi bænir sem enn er ósvarað. Drottin er bundinn því að halda loforð sín, þegar við höldum sáttmála okkar og iðkum trú.5 Farið í musterið, kæru systur, og gerið tilkall til blessana ykkar!

Mig langar að nefna aðra leið sem getur aukið okkur sjálfstraust og trú. Sem konur höfum við stundum tilhneigingu til að vera mjög sjálfsgagnrýnar. Á slíkum stundum þurfum við að leita andans og spyrja: „Vill Drottinn að ég líti svona á sjálfa mig eða er Satan að reyna að draga mig niður?“ Munið eðli himnesks föður, sem hefur fullkomna og óendanlega elsku.6 Hann vill byggja okkur upp en ekki rífa okkur niður.

Stundum kann okkur kirkjuþegnum að finnast við þurfa að eiga „fullkomna SDH fjölskyldu“ til að verða viðurkenndir af Drottni. Okkur finnst við oft vera „minna en,“ eða utangarðsfólk í ríkinu, ef við pössum ekki við þessa lýsingu. Kæru systur, þegar allt kemur til alls mun það skipta himneskan föður mestu máli hversu vel við höfum haldið sáttmála okkar og hversu vel við höfum reynt að fylgja fordæmi frelsara okkar, Jesú Krists.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari. Vegna friðþægingarfórnar hans getum við orðið hreinar í hverri viku, er við verðugar meðtökum sakramenti hans. Er við endurnýjum og heiðrum sáttmála okkar, getur byrði okkar orðið léttari og við getum stöðugt orðið hreinni og sterkari, þannig að við lok lífsins getum við talist verðugar þess að öðlast upphafningu og eilíft líf. Um þetta ber ég vitni, í nafni okkar ástkæra frelsara, Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir