2010–2019
Horfið fram á við og trúið
Október 2013


Horfið fram á við og trúið

Í augum Drottins snýst málið ekki svo mikið um það sem við höfum gert eða hvar við höfum verið, heldur miklu meira um hvert við erum tilbúin að fara.

Móðir mín kenndi mér eina af mikilvægustu lexíum lífs míns þegar ég var drengur og vann á ökrunum með henni. Það var síðla morguns, sólin var komin upp og við höfðum verið að hreinsa og hreykja jarðveginn í óratíma, eða svo fannst mér. Ég stansaði og leit til baka á árangur okkar og sagði við móðir mína: „Sjáðu allt sem við höfum gert!“ Móðir mín svaraði engu. Ég hélt að hún hefði ekki heyrt í mér svo ég endurtók orð mín, en nú með örlítið hærri róm. Samt svaraði hún mér ekki. Ég hækkaði róminn aðeins meira og endurtók orðin. Að lokum sneri hún sér við og sagði: „Edward, horfðu aldrei til baka, horfðu fram, á það sem við eigum enn eftir að gera.“

Kæru bræður og systur, sáttmálinn sem við gerðum við Drottin þegar við skírðumst, um að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera“ (Mósía 18:9), er ævilöng skuldbinding. „Þeir sem hafa stigið ofan í skírnarvatnið og hlotið gjöf heilags anda eru komnir á veg lærisveinsins og þeim hefur verið falið að feta staðfastlega og trúfastlega í fótspor frelsara okkar“ („Saints for All Season,” Ensign eða Líahóna, sept. 2013, 5). Drottinn kallar okkur með þjónum sínum til mismunandi kallana sem við tökum á móti af fullri skuldbindingu. Þegar aflausn hefur átt sér stað og við höfum verið kölluð í nýja köllun, þá tökum við af heilum hug á móti henni, vitandi eins og forfeður okkar, að „í þjónustu Drottins skiptir ekki máli hvar maður þjónar heldur hvernig“ (J. Reuben Clark yngri, í Conference Report, apr. 1951, 154).

Á þann hátt tekur stikuforseti eða biskup glaðlega á móti aflausn sinni og þegar hann, með þjónum Drottins er kallaður í hvaða þjónustu sem Drottni „þóknast“ (Mósía 3:19), þá er fyrrverandi reynsla hans ekki yfirþyrmandi, né horfir hann til baka og hugsar með sér að hann hafi þjónað nægilega mikið. Hann „þreytist ekki á að gjöra gott,“ því hann veit að hann er að „leggja grunninn að miklu verki,“ með skýrri sýn á að slíkt framtak blessi líf margra um eilífð. Því „af hinu smáa sprettur hið stóra“ (K&S 64:33).

Við ættum öll „að starfa af kappi fyrir góðan málstað og gjöra margt af frjálsum vilja [okkar] og koma miklu réttlæti til leiðar“ (K&S 58:27).

Öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni ráðlagði: „Læra ætti af fortíðinni en ekki lifa í henni. Við horfum til baka til að sjá glæður hinnar glitrandi reynslu, en ekki öskuna. Og þegar við höfum lært það sem læra þarf og höfum tekið með okkur það besta sem við höfum upplifað, þá horfum við fram á við og munum að trú beinist alltaf að framtíðinni“ („The Best Is Yet to Be,” Ensign, jan. 2010, 24; eða Líahóna, jan. 2010, 18).

Þótt að lexía móður minnar um að horfa fram á við hafi átt við um sjáanlegt illgresið á akrinum, var sú áskorun lítil í samanburði við það sem hinir fyrstu heilögu þurftu að ganga í gegnum. Öldungur Joseph B. Wirthlin lýsti þessari reynslu svo vel: „Árið 1846 yfirgáfu rúmlega 10.000 [manns] velmegunarborgina [Nauvoo] sem hafði verið byggð á bökkum Mississippi árinnar. Þessir þegnar kirkjunnar á fyrstu árum hennar yfirgáfu sína ‚Fögru borg‘ með trú á spámannlega leiðsögn leiðtoganna og héldu út í óbyggðir Ameríku. Þeir vissu ekki nákvæmlega hvert ferðinni væri heitið, nákvæman kílómetrafjölda sem framundan var, hversu langan tíma ferðalagið tæki, eða hvað framtíðin bæri í skauti sér fyrir þá. En þeir vissu að þeir voru leiddir af Drottni og þjónum hans“ („Faith of Our Fathers,” Ensign, maí 1996, 33).

Þeir vissi hvernig átti að horfa fram á veg og trúa. Sumir þessara þegna voru viðstaddir rúmum 15 árum áður þegar opinberun barst:

„Því að sannlega segi ég yður, blessaður er sá, sem heldur boðorð mín, hvort heldur er í lífi eða dauða. Og sá, sem staðfastur er í mótlæti, hann skal fá meiri laun í himnaríki.

Með náttúrlegum augum yðar getið þér eigi að svo stöddu séð áform Guðs um það, sem síðar skal koma, eða þá dýrð, sem fylgja mun eftir mikið mótlæti. Því að eftir mikið mótlæti koma blessanirnar“ (K&S 58:2–3).

Við getum einnig horft fram á veg og trúað. Við getum tekið á móti boði Drottins, sem með opinn faðm býður okkur:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:29‒30).

Ástkær spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti, ráðgjafar hans og Tólfpostulasveitin hafa boðið okkur öllum að taka þátt í sáluhjálparstarfinu. Nýir trúskiptingar, æskan og unga fólkið, þeir sem farið hafa á eftirlaun og fastatrúboðar þurfa að taka jafnt á okinu og hraða starfi sáluhjálpar.

Boyd K. Packer forseti Tólfpostulasveitar sótti einu sinni uxadráttarkeppni og setti þar fram líkingu. Hann sagði um þá upplifun: „Trésleði var hlaðinn steinsteypu klumpum: Tæpum 5.000 kílógrömm að þyngd. ... Markmiðið var að fá uxann til að draga sleðann um 90 cm. ... Ég tók eftir mjög samvöldu pari af mjög stórum, bröndóttum, blágráum dýrum ... stórum uxum frá liðnum misserum.“

Þegar hann talaði um niðurstöðu keppninnar, sagði hann: „Eitt af öðru duttu teymin úr keppni. ... Stóru bláu uxarnir komust ekki einu sinni á pall! Tilkomulitlu uxapari, sem ekki var stórt vexti, tókst að færa sleðann í öll þrjú skiptin.“

Þessi óvænta niðurstaða var skýrð fyrir honum: „Stóra bláa parið var stærra og sterkara og samsvaraði sér stærðarlega betur en hin pörin. En litlu uxarnir unnu betur sem teymi og voru samstilltari. Þeir tóku á okinu saman. Bæði dýrin rykktu fram á við á nákvæmlega sama tíma og krafturinn færði farminn“ („Eqully Yoked Together,” útdráttur úr ræðu sem var flutt á þjálfunarfundi amtsfulltrúa, 3. apríl 1975; í Teaching Seminary: Preservice Readings [2004], 30).

Þegar við horfum fram á veg og trúum, þurfum við á samstilltri teymisvinnu að halda til að hraða sjáluhjálparstarfinu, og bjóða öðrum að koma til Krists. Við þurfum að fylgja ráðleggingu Dieter F. Uchtdorf forseta og „standa þétt saman og lyfta þar sem við stöndum“ í einstaklingsframlagi okkar („Lift Where You Stand,“ Ensign eða Líahóna, nóv. 2008, 56). Við getum þá nálgast fyllstu mögulegu getu okkar, rétt eins og öldungur L. Tom Perry í Tólfpostulasveitinni sagði: „Ég dáist að því jákvæða sem á sér stað er ég ferðast vítt og breytt í kirkjunni. Samt sem áður finnst mér eins og við sem mannfólk séum ekki að nálgast raunverulega möguleika okkar. Mín skynjun er sú, að við vinnum ekki alltaf saman, að við erum enn of hugfangin af eigin metorðagirnd og heiðri og sýnum því sameiginlega markmiði, að byggja upp ríki Guðs, of lítinn áhuga“ („United in Building the Kingdom of God,” Ensign,, maí 1987, 35).

Megum við öll sameinast í því sameiginlega markmiði, „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Frelsari okkar, Jesús Kristur, sem sér allt frá upphafi til endiloka, þekkti mjög vel leiðina sem hann myndi fara til Getsemane og Golgata, þegar hann lýsti yfir: „Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki“ (Lúk 9:62). Í augum Drottins snýst málið ekki svo mikið um það sem við höfum gert eða hvar við höfum verið, heldur miklu meira um hvert við erum tilbúin að fara.

Þær reglur sem leiðbeina okkar voru kenndar af spámanninum Joseph Smith: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 49).

Ég vitna um að þegar við fylgjum fordæmi frelsara okkar, Jesú Krists, og lyftum höndum okkar til að styðja ástkæran spámann okkar, Thomas S. Monson forseta, þá munum við finna frið, huggun og gleði og við munum „neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum“ (K&S 64:34). Í nafni Jesú Krists, amen.