Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Vitum við hvað við höfum?

Vitum við hvað við höfum?

Október 2013 Aðalráðstefna

Helgiathafnir og sáttmálar prestdæmisins veita aðgang að öllum þeim blessunum sem Guð lofar okkur, og mögulegar verða fyrir friðþægingu frelsarans.

Í skjalinu „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ hafa Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin sagt: „Allar mannlegar verur ‒ karlar og konur ‒ eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhver þeirra sér guðlegt eðli og örlög.“1 Hver sonur og dóttir Guðs þarf helgiathafnir prestdæmisins og sáttmála, til að geta hlotið þessi guðlegu örlög.

Við þurfum að skírast. Þegar okkur er dýft niður í skírnarvatnið, gerum við sáttmála um að taka á okkur nafn Krists, hafa hann ávallt í huga, halda boðorð hans og þjóna honum allt til æviloka, svo við fáum ætíð haft anda hans með okkur.2

Við þörfnumst gjafar heilags anda. Fyrir þá helgiathöfn getum við haft aðgang að stöðugu samfélagi andans. Wilford Woodruff forseti kenndi: „Sérhver karl eða kona sem hefur gengið í kirkju Guðs og hlotið skírn til fyrirgefningar synda, hefur rétt á að fá opinberun, að hljóta anda Guðs, að aðstoða við verk hans, að ala upp börn sín, veita börnum sínum leiðsögn og þeim sem þau eru kölluð í forsæti fyrir. Heilagur andi er ekki einungis fyrir karla eða postula eða spámenn, heldur er hún aðgengileg hverjum trúföstum karli og konu, og hverju barni sem er nægilega gamalt til að taka á móti fagnaðarerindi Krists.“3

Við þurfum að taka á móti musterisgjöf okkar. Öldungur M. Russell Ballard sagði: „Þegar karlar og konur fara í musterið, er þeim báðum veittur sami krafturinn, skilgreindur sem kraftur prestdæmisins. ... Musterisgjöfin er bókstaflega gjöf kraftar.“4

Við þurfum helgiathöfn innsiglunar, sem leiðir til eilífs lífs, „en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs.“5 Þessa helgiathöfn prestdæmisins hljóta aðeins karl og kona sameiginlega. Öldungur Russell M. Nelson kenndi: „Prestdæmisvaldið hefur verið endurreist, svo hægt sé að innsigla fjölskyldur að eilífu.“6

Við þörfnumst þess að geta endurnýjað sáttmála okkar í hverri viku með því að meðtaka sakramentið. Síðari daga spámenn og postular hafa líka kennt, að þegar við meðtökum sakramentið verðug, endurnýjum við ekki aðeins skírnarsáttmála okkar, heldur „alla sáttmála sem við höfum gert við Drottin.“7

Þessar helgiathafnir og sáttmálar prestdæmisins veita aðgang að öllum þeim blessunum sem Guð lofar okkur, og mögulegar eru fyrir friðþægingu frelsarans. Þær brynja syni og dætur Guðs krafti, krafti Guðs,8 og sjá okkur fyrir tækifæri til að hljóta eilíft líf ‒ að snúa að nýju í návist Guðs og lifa með honum í eilífri fjölskyldu hans.

Nýverið fór ég með leiðtogum prestdæmisins til að vitja heimila fjögurra kvenna í Hondúras. Þessar systur og fjölskyldur þeirra höfðu þörf fyrir lykla og vald prestdæmisins, helgiathafnir og sáttmála prestdæmisins og kraft og blessanir prestdæmisins.

Við heimsóttum kæra systur, sem er gift og á tvö falleg börn. Hún er trúföst og virk í kirkjunni og kennir börnum sínum að velja hið rétta. Eiginmaður hennar styður kirkjustarf hennar, en er ekki meðlimur. Fjölskylda þeirra er sterk, en til að verða enn sterkari, þurfa þau fleiri blessanir prestdæmisins. Þau þarfnast þess að heimilisfaðirinn taki á móti helgiathöfn skírnar og gjöf heilags anda og honum verði veitt prestdæmið. Þau þarfnast prestdæmiskraftar sem hlýst með musterisgjöf og innsiglun.

Næsta heimsókn var á heimili tveggja einhleypra systra, mikillar trúarkvenna. Önnur sytirin átti son sem bjó sig undir trúboð. Hin systirin er í læknismeðferð við krabbameini. Á stundum vonleysis og örvæntingar minnast þær friðþægingar frelsarans, og fyllast trú og von. Báðar þarfnast þær blessananna og kraftsins sem helgiathafnir musterisins veita. Við hvöttum þær til að taka höndum saman með hinum tilvonandi trúboða á heimilinu í undirbúningi fyrir þessar helgiathafnir.

Síðasta heimsókn okkar var til systur sem nýverið hafði misst eiginmann sinn í hörmulegu slysi. Hún var ný í kirkjunni og hafði ekki skilið að hún ætti kost á eigin musterisgjöf og að innsiglast eiginmanni sínum. Þegar við fræddum hana um að hún og látinn eiginmaður hennar gætu hlotið þessar blessanir, fylltist hún von. Hún hefur trú og einbeitni til að takast á við komandi erfiðleika, því hún veit að fyrir helgiathafnir og sáttmála musterisins getur fjölskylda hennar verið innsigluð saman.

Sonur þessarar ekkju býr sig undir að hljóta Aronsprestdæmið. Vígsla hans verður henni og fjölskyldu hennar til mikillar blessunar. Þau hafa þá prestdæmishafa á heimili sínu. 

Þegar ég kynntist þessum trúföstu konum í Hondúras, fékk ég séð að þær reyndu hvað þær gátu að halda fjölskyldu sinni virkri í fagnaðarerindinu. Þær tjáðu þakklæti fyrir deildarmeðlimi sem halda sáttmála sína, og vaka blíðlega yfir þeim og hjálpa þeim með stundlegar og andlegar þarfir. Engu að síður hafði hver þessara systra þarfir sem enn höfðu ekki verið alveg uppfylltar.

Á hverju þessara þriggja heimila sem við vitjuðum, spurði vitur prestdæmisleiðtogi hverja systur að því hvort hún hefði hlotið prestdæmisblessun. Í öll skiptin var svarað neitandi. Allar systurnar báðu um og hlutu prestdæmisblessun þann dag. Sérhver þeirra táraðist þegar hún tjáði þakklæti fyrir huggunina, leiðsögnina, hvatninguna og innblásturinn sem barst frá himneskum föður, með verðugum prestdæmishafa.

Þessar systur fylltu mig andagift. Þær sýndu lotningu fyrir Guði, krafti hans og valdi. Ég var líka þakklát fyrir prestdæmisleiðtogana sem vitjuðu heimilanna með mér. Þegar við fórum frá hverju heimili, ræddum við um hvernig hjálpa mætti þessum fjölskyldum að hljóta helgiathafnirnar sem þær þörfnuðust til framþróunar á sáttmálsveginum og til að efla heimili þeirra.

Þörfin nú er mikil fyrir karla og konur, að þau leggi rækt við gagnkvæma virðingu, sem synir og dætur Guðs, og sýni lotningu fyrir föður okkar á himnum og prestdæmi hans ‒ krafti hans og valdi.

Hann hefur ákveðinn tilgang með okkur, og þegar við iðkum trú og reiðum okkur á áætlun hans, mun lotning okkar aukast, fyrir honum og krafti og valdi prestdæmisins.

Á heimsþjálfunarfundi um að Efla fjölskylduna og kirkjuna með prestdæminu, var sagt að þeim systrum sem ekki hafa prestdæmishafa á heimili sínu, þurfi ekki að finnast þær einar. Þær njóta blessunar og styrks af mótteknum helgiathöfnum og sáttmálunum sem þær halda. Þær ættu ekki að hika við að biðja um hjálp sé þörf á henni. Öldungur M. Russell Ballard kenndi að sérhver kona í kirkjunni þurfi að vita að hún hefur biskup, öldungasveitarforseta, heimiliskennara eða aðra verðuga prestdæmishafa, sem hún geti reitt sig á að komi á heimili hennar til að aðstoða hana og, líkt og systir Rosemary M. Wixom bætti við, til að „veita blessun.“9

Öldungur Ballard kenndi líka: „Faðir okkar á himnum er örlátur á kraft sinn. Allir karlar og konur hafa aðgang að þessum krafti, sér til hjálpar í lífi sínu. Allir sem hafa gert helga sáttmála við Drottin, og heiðra þá sáttmála, eru hæfir til að hljóta persónulega opinberun, njóta blessunar þjónustuengla og eiga samskipti við Guð.“10

Við þörfnumst öll hver annars. Synir Guðs þarfnast dætra Guðs og dætur Guðs þarfnast sona Guðs.

Við höfum mismunandi gjafir og styrkleika. Í fyrsta Korintubréfinu, kapítula 12, er lögð áhersla á mikilvægi þess að synir og dætur Guðs, við öll, uppfylli einstaklingsbundin hlutverk sín og ábyrgð, samkvæmt áætlun Drottins, svo allir njóti góðs þar af.11

Synir Guðs, vitið þið hverjir þið eruð? Vitið þið hvað þið hafið? Eruð þið verðugir þess að nota prestdæmið og hljóta kraft og blessanir þess? Rækið þið það hlutverk ykkar og ábyrgð, að efla heimilin, sem feður, afar, synir, bræður og frændur? Sýnið þið konum virðingu, kvendómi þeirra og móðurhlutverki?

Dætur Guðs, vitið þið hverjar við erum? Vitum við hvað við höfum? Erum við verðugar þess að hljóta kraft og blessanir prestdæmisins? Tökum við á móti gjöfum okkar með þakklæti, sæmd og reisn? Rækjum við hlutverk okkar og ábyrgð, til að efla heimilin, sem mæður, ömmur, dætur, systur og frænkur? Sýnum við körlum virðingu, manndómi þeirra og föðurhlutverki?

Höfum við, sem synir og dætur sáttmálans, trú á himneskum föður og eilífri áætlun hans fyrir okkur? Trúum við á Jesú Krist og friðþægingu hans? Trúum við að við eigum okkur guðlegt eðli og örlög? Skiljum við mikilvægi þess að taka á móti helgiathöfnum prestdæmisins og að gera, halda og endurnýja sáttmála, í þeirri viðleitni okkar að hljóta þessi örlög og allt það sem faðirinn á?12

Við erum ástkær andabörn himneskra foreldra, með guðlegt eðli og örlög. Frelsari okkar, Jesús Kristur, elskaði okkur svo heitt að hann gaf líf sitt fyrir okkur. Friðþæging hans sér okkur fyrir leið til að þróast á veginum og snúa að nýju til okkar himnesku heimkynna, fyrir helgiathafnir og sáttmála prestdæmisins.

Þessar helgiathafnir prestdæmisins voru endurreistar á jörðu fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith, og í dag hefur Thomas S. Monson forseti alla lykla prestdæmisins á jörðu.

Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að finna prestdæmisvaldið til að framkvæma þær helgiathafnir sem gera okkur mögulegt að gera bindandi sáttmála við himneskan föður í nafni hans heilaga sonar. ... Guð mun halda loforð sín við ykkur, ef þið heiðrið sáttmála ykkar við hann.“13

Um þetta vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóvv. 2010, 129.

  2. Sjá Moró 4:3; 6:3.

  3. Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 49.

  4. M. Russell Ballard, „Let Us Think Straight” (trúarfræðsluvika í Brigham Young háskóla, 20. ágúst 2013); speeches.byu.edu.

  5. Kenning og sáttmálar 14:7; sjá einnig Kenning og sáttmálar 131:1–4.

  6. Russell M. Nelson, „Nurturing Marriage,” Ensign eða Líahóna, maí 2006, 37; eða í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 134.

  7. Delbert L. Stapley, í Conference Report, okt. 1965, 14; vitnað í L. Tom Perry, „As Now We Take the Sacrament,” Ensign  eða Líahóna, maí 2006, 41; sjá einnig Teachings of Gordon B. Hinckley (1997), 561; The Teachings of Spencer W. Kimball, ritst. af Edward L. Kimball (1982), 220.

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 109:22.

  9. Sjá M. Russell Ballard and Rosemary M. Wixom, „Blessings of the Priesthood in Every Home,” í Strengthening the Family and the Church through the Priesthood (heimsþjálfunarfundur leiðtoga, 2013); lds.org/broadcasts.

  10. M. Russell Ballard, „Let Us Think Straight”; speeches.byu.edu.

  11. Sjá einnig Kenning og sáttmálar 46:9, 12.

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 84:38.

  13. D. Todd Christofferson, „The Power of Covenants,” Ensign eða Líahóna, maí 2009, 22.