Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Þú getur það núna!

Þú getur það núna!

Október 2013 Aðalráðstefna

Svo framarlega sem við erum fúsir til að rísa aftur á fætur og halda áfram á veginum ... getum við lært nokkuð af mistökum okkar og orðið betri og hamingjusamari fyrir vikið.

Ef ég datt þegar ég var yngri, spratt ég samstundis upp aftur. Með árunum hef ég dregið þá óþægilegu ályktun að efnislögmálið hafi breyst ‒ og ekki sjálfum mér til framdráttar.

Fyrir ekki alllöngu var ég á skíðum með 12 ára barnabarni mínu. Við nutum samverunnar allt fram að því að ég skíðaði á ísilögðu svæði og endaði á dýrðlegri brotlendingu í brattri brekku.

Ég reyndi hvað ég gat að komast á fætur, án árangurs ‒ ég hafði fallið og við það sat.

Það var ekkert að mér líkamlega, en stoltið var nokkuð sært. Ég gekk því úr skugga um að hjálmurinn og skíðagleraugun væru á sínum stað, því ég vildi helst ekki að annað skíðafólk bæri kennsl á mig. Ég sá það fyrir mér að ég sæti þarna hjálparvana, er það skíðaði framhjá af glæsileika og hrópaði glaðhlakkalega: „Hæ, bróðir Uchtdorf!”

Ég tók að velta fyrir mér hvernig mér yrði komið til bjargar. Einmitt þá kom barnabarn mitt upp að hlið mér. Ég sagði honum frá raunum mínum, en hann virtist ekki hafa áhuga á að hlusta á hvers vegna ég gæti ekki staðið upp. Hann horfði í augu mér, teygði sig fram, tók í hönd mína og sagði ákveðinn: „Afi, þú getur það núna!“

Ég stóð upp þegar í stað.

Ég botna enn ekkert í þessu. Það sem virtist ómögulegt andartaki áður varð samstundis mögulegt, þegar 12 ára piltur rétti mér hönd sína og sagði: „Þú getur það núna!“ Mér fannst það sem innspýting til aukins sjálfstrausts og þreks.

Bræður, stundum getur okkur orðið um megn að standa upp og halda áfram í lífinu. Mér lærðist nokkuð dag þennan í snæviþaktri brekkunni. Jafnvel þegar við höldum að við fáum ekki staðið upp, er vonin enn fyrir hendi. Stundum þörfnumst við þess bara að einhver líti í augu okkar, taki í hönd okkar og segi: „Þú getur það núna!“

Blekking seiglunnar

Við kunnum að álíta konur líklegri en karla til að finna til vanmáttar og vonbrigða ‒ að þær tilfinningar hafi meiri áhrif á þær en okkur. Ég er ekki viss um að svo sé. Karlar upplifa sektarkennd, þunglyndi og mistök. Við getum látið sem slíkar tilfinningar hafi ekki áhrif á okkur, en svo er ekki. Mistök og misbrestir kunna að íþyngja okkur svo, að okkur finnist við aldrei geta náð árangri. Við getum jafnvel ályktað að þar sem við höfum hrasað áður, séu það örlög okkar. Rithöfundur einn orðaði það svo: „Við berjumst áfram, líkt og bátur gegn straumi, og berumst stöðugt aftur á bak til fortíðar.“1

Ég hef séð hæfa og góða menn hverfa frá hinu erfiða verki að byggja upp ríki Guðs, vegna þess að þeir hafa einu sinni eða tvisvar brugðist. Þetta voru menn sem lofuðu góðu og hefðu getað orðið framúrskarandi prestdæmishafar og þjónar Guðs. En vegna þess að þeir hrösuðu og létu bugast, drógu þeir sig í hlé frá prestdæmisskyldum og tókust á við óverðugri viðfangsefni.

Þannig lifa þeir áfram, því lífi sem aðeins er skuggamynd af því lífi sem hefði getað orðið, og nýta sér aldrei möguleikana sem felast í fæðingarrétti þeirra. Líkt og dapurleg orð skáldsins segja, að slíkir séu meðal hinna ólánssömu sálna sem „deyja án þess að fá sungið sinn söng.“2

Enginn vill hrasa. Okkur líkar heldur ekki þegar aðrir ‒ einkum ástvinir okkar ‒ sjá okkur hrasa. Allir viljum við njóta virðingar og álits. Við viljum vera hetjur. En við dauðlegir menn verðum ekki hetjur án erfiðis og ögunar eða án þess að gera mistök.

Bræður, örlög okkar ákvarðast ekki af því hversu oft við hrösum, heldur af því hversu oft við fáum staðið upp, dustað af okkur rykið og haldið áfram.

Hryggð Guði að skapi

Við vitum að þetta jarðneska líf er prófraun. En vegna þess að himneskur faðir elskar okkur fullkominni elsku, sýnir hann okkur hvar finna á svörin. Hann hefur látið okkur í té leiðarvísi sem gerir okkur kleift að rannsaka ótryggar slóðir og óvæntar raunir sem á vegi sérhvers okkar verða. Orð spámannanna eru hluti af þeim leiðarvísi.

Þegar við villumst af leið ‒ þegar við hrösum eða hverfum af vegi föður okkar ‒ segja orð spámannanna okkur hvernig við getum staðið upp og fetað veginn að nýju.

Af öllum þeim reglum sem spámennirnir hafa kennt í gegnum aldirnar, hefur stöðugt verið hamrað á þeirri sem kveður á um vonina, þeim hjartnæma boðskap að mannkynið geti iðrast, breytt stefnu sinni og komist aftur á hinn sanna veg lærisveinsins.

Það merkir ekki að við eigum að vera sátt við veikleika okkar, mistök og syndir. Það er mikill munur á sorg vegna syndar sem leiðir til iðrunar og sorg sem leiðir til örvæntingar.

Páll postuli kenndi: „Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, ... en hryggð heimsins veldur dauða.“3 Hryggð Guði að skapivekur upp breytingar og von á friðþægingu Jesú Krists. Hryggð heimsins rífur okkur niður, kæfir vonina og fær okkur til að láta undan aukinni freistingu.

Hryggð Guði að skapi leiðir til umskiptingar4 og umbreytingar hjartans.5 Hún fær okkur til að hata syndina og elska gæskuna.6 Hún hvetur okkur til að standa upp og ganga í kærleiksljósi Krists. Sönn iðrun snýst um umbreytingu, ekki kvöl eða misþyrmingu. Já, einlæg og sönn eftirsjá vegna óhlýðni er oft sár og mikilvægt skref í hinu helga ferli iðrunar. En þegar sektarkennd leiðir til sjálfshaturs, eða varnar okkur að standa upp aftur, hindrar hún iðrun okkar, fremur en að stuðla að henni.

Bræður, það er til betri leið. Við skulum rísa á fætur og vera menn Guðs. Við höfum hetju, frelsara, sem fór um dal sorgar og dauða í okkar þágu. Hann gaf sjálfan sig sem lausnargjald fyrir syndir okkar. Enginn hefur nokkurn tíma átt meiri elsku en það ‒ Jesús Kristur, hið lýtalausa lamb, lagðist fúslega á fórnaraltarið og greiddi gjaldið fyrir syndir okkar og „hefur borgað síðasta eyri.“7 Hann tók á sig þjáningar okkar. Hann tók byrðar okkar, sekt okkar, á sínar herðar. Kæru vinir mínir, þegar við komum til hans, tökum á okkur nafn hans, og fetum ákveðnir veg lærisveinsins, er okkur ekki aðeins lofað hamingju og „[friði] í þessum heimi,“ fyrir friðþæginguna, heldur líka „[eilífu lífi] í komanda heimi.“8

Þegar okkur verður á, þegar við syndgum og hrösum, skulum við íhuga hvað felst í einlægri iðrun. Það merkir að snúa hjarta okkar og vilja til Guðs og láta af synd. Ávöxtur sannrar og einlægrar iðrunar er hin guðlega fullvissa um að „við getum gert það núna.“

Hver ert þú?

Ein af aðferðum andstæðingsins til að koma í veg fyrir framþróun okkar, er að rugla okkur í ríminu um hverjir við í raun erum og hvað við í raun þráum.

Við viljum verja tíma með börnum okkar, en við viljum líka taka þátt í okkar mannlegu tómstundaiðju. Við viljum megra okkur, en líka njóta matarins sem okkur langar í. Við viljum vera kristilegir, en líka senda miður góða hugsun til náungans sem svínaði fyrir okkur í umferðinni.

Ætlunarverk Satans er að fá okkur til að skipta á ómetanlegri perlu sannrar hamingju og eilífra gilda í stað plastglingurs, sem aðeins er blekking og fölsk hamingja og gleði.

Önnur aðferð sem andstæðingurinn notar til að letja okkur frá því að standa upp, er að fá okkur til að álíta boðorðin nokkuð sem hefur verið neytt upp á okkur. Ég býst við að það sé eðli mannsins að standa gegn því sem ekki virðist vera hans upphaflega eigin hugmynd.

Ef við álítum heilsusamlegt mataræði og líkamsrækt aðeins nokkuð sem læknirinn væntir að við tileinkum okkur, getum við hrasað. Ef við sjáum þessa valkosti gagna okkur til að verða það sem við óskum að vera, eru meiri líkur á að við höldum stefnu okkar og náum árangri.

Ef við álítum heimiliskennslu aðeins markmið stikuforsetans, verður verkið síður mikilvægt fyrir okkur. Ef við sjáum það sem markmið okkar ‒ nokkuð sem við þráum að gera til að verða kristilegri og þjóna öðrum ‒ munum við ekki aðeins uppfylla skyldu okkar, heldur líka á þann hátt að það blessi fjölskyldurnar sem við heimsækjum, sem og okkar eigin.

Oft erum það við sjálfir sem njótum hjálpar frá vinum og fjölskyldu. Ef við lítum vandlega í kringum okkur, með samúðarfullu hjarta, munum við sjá tækifærin sem Drottinn veitir okkur til að hjálpa öðrum að standa upp og stefna að sínum sönnu möguleikum. Ritningarnar benda á: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.“9

Það er öflug uppspretta andlegs máttar að lifa ráðvöndu og réttlátu lífi og einblína á hvar við viljum verða í eilífðunum. Þótt við fáum aðeins séð þessi guðlegu örlög með augum trúar, mun það hjálpa okkur að halda stefnu okkar.

Þegar athygli okkar beinist aðallega að daglegum viðfangsefnum eða því sem miður fer, getum við villst frá og hrasað. Ef við beinum sjónum okkar að æðri markmiðum, munum við verða betri synir og bræður, ljúfari feður og ástúðlegri eiginmenn.

Þeir sem einsetja sér að keppa að eilífum markmiðum geta samt stundum hrasað, en þeir munu ekki bíða ósigur. Þeir reiða sig sannlega á loforð Guðs. Þeir munu standa upp aftur, í ljómandi von á réttlátan Guð og innblásinni sýn á dýrðlega framtíð. Þeir vita að þeir geta það núna.

Þú getur það núna

Sérhver manneskja, ung eða aldin, hefur sjálf hrasað. Hrösun fylgir okkur mönnunum. En svo framarlega sem við erum fúsir til að rísa aftur á fætur og halda áfram á vegi hinna andlegu markmiða sem Guð hefur gefið okkur, getum við lært nokkuð af mistökunum og orðið betri og hamingjusamari fyrir vikið.

Kæru bræður mínir, ykkur mun stundum finnast þið ekki geta staðið upp og haldið áfram. Reiðið ykkur á frelsarann og elsku hans. Þið nunuð geta gengið uppréttir og haldið áfram, með trú á Drottin Jesú Krists og í krafti og von hins endurreista fagnaðarerindis.

Bræður, við elskum ykkur. Við biðjum fyrir ykkur. Ég vildi að þið gætuð hlustað á Monson forseta biðja fyrir ykkur. Hvort sem þið eruð ungir feður, eldri prestdæmishafar eða nývígðir djáknar, þá hugsum við til ykkar. Drottinn er minnugur ykkar!

Við vitum að vegur ykkar verður stundum erfiður. Ég gef ykkur þetta loforð í nafni Drottins: Rísið á fætur og fetið í fótspor frelsara okkar og lausnara, og dag einn mun að því koma að þið fáið litið til baka fullir eilífs þakklætis fyrir að hafa valið og reitt ykkur á friðþæginguna og mátt hennar til að lyfta og efla ykkur.

Kæru vinir mínir og bræður, hversu oft sem þið hafið hrasað eða fallið, rísið þá á fætur! Fyrir ykkur liggja dýrðleg örlög! Standið uppréttir og verið í ljósi hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists! Þið eruð sterkari en þið gerið ykkur grein fyrir. Þið eru hæfari en þið gerið ykkur grein fyrir. Þið getið það núna! Um það ber ég vitni, í hinu helga nafni meistara okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby (1925), 180.

  2. „The Voiceless,” í The Complete Poetical Works of Oliver Wendell Holmes (1908), 99.

  3. 2 Kor 7:10; skáletrað hér.

  4. Sjá Post 3:19.

  5. Sjá Esek 36:26; 2 Kor 5:17; Mósía 3:19.

  6. Sjá Mósía 5:2.

  7. Matt 5:26.

  8. Kenning og sáttmálar 59:23.

  9. Kol 3:23.