2010–2019
Heilagt traust
Apríl 2016


Heilagt traust

Þessi dýrmæta gjöf prestdæmisvalds, felur ekki aðeins í sér mikla ábyrgð, heldur líka sérstakar blessanir fyrir okkur sjálfa og aðra.

Kæru bræður, ég bið þess að andinn leiði mig í leiðsögn minni til ykkar í kvöld. Við erum tengdir sameiginlegum böndum. Okkur hefur verið treyst fyrir því að hafa prestdæmi Guðs og starfa í hans nafni. Okkur hefur verið sýnt heilagt traust. Mikils er af okkur vænst.

Í Kenningu og sáttmálum, kafla 121, versi 36, er ritað: „Réttur prestdæmisins er óaðskiljanlega tengdur krafti himins.“ Hve dásamleg gjöf sem okkur hefur verið gefin. Við berum ábyrgð á að vernda og varðveita það prestdæmi og vera verðugir allra hinna dýrðlegu blessana, sem faðir okkar á himnum geymir okkur – og öðrum fyrir okkar tilverknað.

Prestdæmið er með okkur hvert sem við förum. Standið þið á helgum stöðum? Áður en þið stofnið ykkur sjálfum og prestdæmi ykkar í hættu, með því að fara á staði eða taka þátt í breytni sem ekki samræmist ykkur eða prestdæminu, staldrið þá við og hugsið um afleiðingar þess. Minnist þess hverjir þið eruð og hvers Guð væntir að þið verðið. Þú ert barn fyrirheits. Þú ert máttugur maður. Þú ert sonur Guðs.

Þessi dýrmæta gjöf prestdæmisvalds, felur ekki aðeins í sér mikla ábyrgð, heldur líka sérstakar blessanir fyrir okkur sjálfa og aðra. Megum við, í hvaða aðstæðum sem við kunnum að vera, ætíð vera verðugir þess að nota kraft þess, því við vitum aldrei hvenær neyðin kemur upp og við þurfum að gera það.

Vinur minn einn þjónaði á Suður-Kyrrahafssvæðinu í Síðari heimsstyrjöldinni, er flugvél hans var skotin niður yfir hafi. Hann og félagar hans í áhöfn vélarinnar komust klakklaust í fallhlíf út úr brennandi vélinni, blésu upp björgunarbáta sín og héngu í þeim í þrjá daga.

Á þriðja degi komu þeir auga á nokkuð sem þeir voru vissir um að væri sjófar. Það sigldi framhjá þeim. Daginn eftir sigldi það aftur framhjá þeim. Þeir tóku að örvænta, því þeim varð ljóst að þetta væri síðasti dagurinn sem björgunarskipið yrði á svæðinu.

Það var þá sem heilagur andi talaði til vinar míns: „Þú hefur prestdæmið. Bjóddu björgunarmönnunum að ná í ykkur.“

Hann gerði eins og boðið var: „Í nafni Jesú Krists og með krafti prestdæmisins, snúið við og sækið okkur.“

Að nokkrum mínútum liðnum var sjófarið við hlið þeirra og þeim var hjálpað um borð. Trúfastur og verðugur prestdæmishafi hafði notað prestdæmið í neyðarástandi, sér og öðrum til blessunar.

Megum við ákveða hér og nú að vera ætíð til reiðu á neyðarstundu, til að þjóna, til að hljóta blessun.

Þegar við nú ljúkum þessu aðalfundi prestdæmisins, þá segi ég við ykkur að þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag“ (1 Pét 2:9). Ég bið þess af öllu hjarta að við megum ætíð vera verðugir þessarar guðlegu upphafningar, í nafni Jesú Krists, frelsara okkar, amen.