137. kafli

Sýn, sem veittist spámanninum Joseph Smith í musterinu í Kirtland, Ohio, 21. janúar 1836 (History of the Church, 2:380–381). Tilefnið var framkvæmd á helgiathöfnum musterisgjafarinnar, eftir því sem þær höfðu þá verið opinberaðar.

1–6, Spámaðurinn sér Alvin bróður sinn í himneska ríkinu; 7–9, Kenningin um sáluhjálp fyrir dána opinberuð; 10, Öll börn hólpin í himneska ríkinu.

  HIMNARNIR lukust upp fyrir okkur og ég sá hið himneska ríki Guðs og dýrð þess, hvort heldur í líkamanum eða ekki, get ég ekki sagt.

  Ég sá hina yfirnáttúrlegu fegurð hliðsins, sem erfingjar þess ríkis munu ganga um, og virtist sem dansandi eldslogar—

  Einnig ljómandi hásæti Guðs, sem í sátu faðirinn og sonurinn.

  Ég sá hin fögru stræti þess ríkis og virtist sem þau væru lögð gulli.

  Ég sá föður Adam og Abraham, og föður minn og móður og bróður minn Alvin, sem sofið hefur lengi—

  Og ég furðaði mig á hvernig á því stæði, að hann hefði hlotið arf í þessu ríki, þar sem hann yfirgaf þetta líf, áður en Drottinn rétti út hönd sína til að safna saman Ísrael hið annað sinn, og hafði ekki verið skírður til fyrirgefningar syndanna.

  Því barst rödd Drottins mér og sagði: Allir, sem dáið hafa án þekkingar á fagnaðarerindinu, en hefðu meðtekið það, ef þeim hefði leyfst að dvelja lengur, verða erfingjar hins himneska ríkis Guðs—

  Einnig allir þeir, sem deyja héðan í frá án þekkingar á því en hefðu meðtekið það af öllu hjarta, verða erfingjar þess ríkis—

  Því að ég, Drottinn, mun dæma alla menn samkvæmt verkum þeirra, samkvæmt því, sem hjörtu þeirra þrá.

  10 Og ég sá einnig, að öll börn, sem deyja áður en þau ná ábyrgðaraldri, eru hólpin í himneska ríkinu.