Til styrktar ungmennum
Ég er lærisveinn Jesú Krists
Janúar 2024


„Ég er lærisveinn Jesú Krists,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2024.

Þema ungmenna 2024

Ég er lærisveinn Jesú Krists

Þið getið fylgt frelsaranum og útbreitt orð hans til annarra.

Ljósmynd
merki með þema ungmenna 2024

Hafið þið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvers vegna Jesús, eftir að hafa læknað fólk, sagði sumum þeirra að segja ekki frá (sjá Markús 7:36)? Ein ástæða gæti haft að gera með það hvers konar fylgjendur hann þarfnaðist. Þið gætuð haldið að ef fólk talaði um lækningar sínar væri það góð leið fyrir Jesú að fá fylgjendur. Hins vegar þarfnaðist Jesú ekki fylgjenda. Hann þarfnaðist lærisveina.

Hann sagði við Pétur og Andrés: „Fylgið mér“ (Matteus 4:19). Þýðing Josephs Smith á þessum versum segir: „Ég er sá sem spámennirnir hafa ritað um. Fylgið mér“ (Þýðing Josephs Smith, Matteus 4:18Matteus 4:19, neðanmálsgrein a]). Þetta boð var ekki um að hanga með honum um einhvern tíma. Hann vildi að þeir yrðu lærisveinar hans um eilífð.

Hann vildi ekki að þeir horfðu bara á hann kenna fólki, elska fólk og framkvæma kraftaverk. Hann vildi að þeir myndu gera hið sama. Hann vildi að hans verk yrði þeirra verk. Það að velja Krist, þýddi að þeir myndu læra að þjóna eins og hann þjónaði og hugsa eins og hann hugsaði. Þeir myndu æfa sig í að lifa eins og hann lifði og hann myndi kenna þeim og veita þeim þá aðstoð sem þeir þörfnuðust til að verða eins og hann.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Gríska orðið fyrir lærisvein er mathetes. Það þýðir meira en fylgjandi eða nemandi. Það er oft þýtt sem lærlingur. Á tímum Krists þá völdu lærisveinar yfirleitt þann meistara sem þeir vildu læra af, út frá þeirri hugsun að vilja einhvern tíma verða meistarar sjálfir. Kristur fylgdi ekki hinni hefðbundnu leið. Hann snéri þessu við og leitaði eftir lærisveinum sínum sjálfur. Í dag kallar Kristur á okkur að koma til sín. Hann kallar okkur til að vera lærisveinar hans og boða orð hans á meðal fólks hans svo að það megi eiga eilíft líf (sjá 3. Nefí 5:13).

Stúlka frá Haítí í Karíbahafinu sýndi þrá sína að verða lærisveinn Krists með því að bjóða vinkonu sinni, sem var ekki meðlimur kirkjunnar, að koma með sér á FSY-ráðstefnu. Til að byrja með vildi faðir vinkonu hennar ekki gefa dóttur sinni leyfi til að fara. Kirkjuleiðtogar útskýrðu hina jákvæðu reynslu sem biði hennar og sögðu frá hinum dásamlegu ungu fullorðnu leiðtogum sem myndu vaka yfir henni. Faðirinn gaf dóttur sinni leyfi til að fara og eftir að sjá breytinguna sem það hafði á líf hennar, gaf hann henni einnig leyfi til að mæta á kirkjusamkomur og – sex mánuðum seinna – að skírast.

Piltur frá Argentínu í Suður-Ameríku sýndi þrá sína til að vera lærisveinn Krists með því að deila sælgæti sínu með vini, er þeir tóku strætó saman í skólann. Þegar hann kom að bita með kaffibragði, sagði hann að hann hefði aldrei lært að kunna að meta það bragð þar sem enginn á heimili hans drykki kaffi. Það leiddi samtalið að kirkjunni, sem leiddi til boðs á samkomur, sem leiddi að lokum til þess að vinur hans gekk í kirkjuna og þjónaði í trúboði í Síle.

Það munu ekki allir sem þið talið um kirkjuna við eða bjóðið til kirkju, vilja ganga í kirkjuna. Það er allt í lagi. Það gengu heldur ekki allir í kirkjuna sem Kristur talaði við á meðan á jarðneskri þjónustu hans stóð. Samt mun Jesús Kristur veita okkur hugrekki og guðlega aðstoð þegar við veljum að vera lærisveinar hans og boða orð hans. Við munum læra hvernig hægt er að verða meira eins og hann og það er það sem lærisveinar gera.