2010–2019
Snúið til Drottins
Október 2017


Snúið til Drottins

Við fáum ekki stjórnað öllu því sem gerist í lífi okkar, en við getum vissulega stjórnað því hvernig við tökumst á við þær breytingar sem verða í lífi okkar.

Sumarið 1998 tókst mér og Carol að sameina viðskiptaferð og sumarfrí fjölskyldunnar og fara með börnunum og tengdamóður minni, sem nýlega var orðin ekkja, til Havaí í fáeina daga.

Kvöldið fyrir flugið til Havaí greindist fjögurra mánaða sonur okkar, Jonathon, með mikla eyrnabólgu og okkur var sagt að hann gæti ekki ferðast í hið minnsta þrjá til fjóra daga. Ákveðið var að Carol yrði heima með Jonathon og ég færi með hina í fjölskyldunni í ferðina.

Fyrsta upplifun mín af því að ferðin væri ekki sú sem ég hafði vænst gerðist fljótt eftir komu okkar. Á gangi eftir tunglbjörtum stíg umlukinn pálmatrjám, með hafið framundan, snéri ég mér við á þessari rómantísku stundu, til að tjá mig um fegurð eyjarinnar og í stað þess að sjá Carol, þá horfði ég beint í augu tengdamóður minnar – sem mér þykir þó undur vænt um. Þetta var bara var hreinlega ekki það sem ég vonast eftir. Carol hafði heldur ekki gert ráð fyrir að þurfa að eyða fríinu heima með veiku barni.

Það koma þeir tímar að við stöndum frammi fyrir óvæntum stígum í lífinu, þar sem aðstæður verða mun alvarlegri en röskun á sumarfríi. Hver verða viðbrögð okkar er atburðir gerast, oft án þess að við fáum nokkru ráðið og lífið tekur aðra óvænta stefnu?

Ljósmynd
Hyrum Smith Shumway

Þann 6. júní 1944, fór ungur undirforingi í her Bandaríkjanna, að nafni Hyrum Shumway, í land á Omaha Beach til að vera með í innrásinni í Normandí. Hann komst heilu á höldnu í land, en þann 27. júlí, þegar bandalagsþjóðir sóttu fram, slasaðist hann alvarlega þegar skriðdreka-jarðsprengja sprakk. Á andartaki var líf hans og framtíð sem læknir í mikilli óvissu. Eftir margar skurðaðgerðir, sem náðu að bæta alvarlegustu meiðslin, þá fékk bróðir Shumway sjónina aldrei aftur. Hvernig átti hann að bregðast við?

Eftir þriggja ára endurhæfingu á sjúkrahúsi, snéri hann heim til Lovell, Wyoming. Honum var ljóst að draumur hans var úti um að verða læknir, en hann einsetti sér að halda lífinu áfram, gifta sig og sjá fjölskyldu farborða.

Loks fékk hann starf í Baltimore, Maryland, sem endurhæfingar- og atvinnuráðgjafi fyrir blinda. Í endurhæfingu sinni hafði honum lærst að blindir gátu gert mun meira en hann hafði áður talið og á þeim átta árum sem hann gegndi þessari stöðu, aflaði hann fleiri blindum atvinnu en nokkur annar ráðgjafi í landinu.

Ljósmynd
Shumway-fjölskyldan

Nú, er Hyrum taldi sig geta séð fjölskyldu farborða, þá bað hann unnustu sinnar, með orðunum: „Ef þú vilt lesa póstinn, flokka sokkana og aka bílnum, þá get ég gert allt annað.“ Þau voru brátt innsigluð í Salt Lake musterinu og eignuðust saman átta börn.

Árið 1954 snéru Shumways-hjónin aftur til Wyoming, þar sem bróðir Shumway starfaði í 32 ár sem fræðslustjóri fylkisins fyrir blinda og heyrnarlausa. Á þeim tíma þjónaði hann í sjö ár sem biskup fyrstu Cheyenne deildar og síðar í 17 ár sem stikupatríarki. Eftir að hann hætti störfum, þá þjónuði Shumway-hjónin líka sem trúboðshjón í Suður-London trúboðinu í Englandi.

Hyrum Shumway lést í mars 2011 og skildi eftir sig arfleifð trúar og trausts á Drottin, jafnvel við erfiðustu aðstæður, sem hin mörgu börn, barnabörn og barnabarnabörn nú njóta.1

Stríðið kann að hafa breytt lífi Hyrums Shumway, en hann efaðist aldrei um sitt guðlega eðli og eilífa möguleika. Við, líkt og hann, erum andasynir og dætur Guðs, sem „samþykktu áætlun hans, en samkvæmt henni [gátum við] hlotið efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu til að feta í átt að fullkomnun og að lokum gera að veruleika guðleg örlög [okkar] sem erfingjar eilífs lífs.“ 2 Engar breytingar, þrautir eða þrengingar fá hnikað þeirri eilífu stefnu – einungis val okkar, er við iðkum eigið sjálfræði.

Straumhvörf jarðlífsins og erfiðar afleiðingar sem af þeim hljótast, eru margskonar og hafa einstæð áhrif á okkur. Ég, líkt og þið, hef þurft að horfa upp á vini og fjölskyldu takast á við erfiðleika af völdum:

  • Dauða ástvinar.

  • Biturs hjónaskilnaðar.

  • Þess að gefast hugsanlega aldrei kostur á að ganga í hjónaband.

  • Alvarlegra veikinda eða meiðsla.

  • Náttúruhamfara, eins og við höfum nýverið séð gerast um heiminn.

Svo má áfram telja. Þótt allar „breytingar“ geti verið einstakar í okkar persónulegu aðstæðum, þá eiga áskoranir okkar og erfiðleikar alltaf einn þátt sameiginlegan – finna má von og frið í friðþægingu Jesú Krists. Friðþæging Jesú Krists sér okkur fyrir fullnaðar leiðréttingu og lækningu, hvor sem sárið er líkamlegt eða andlegt eða hvert sem sorgarefnið kann að vera.

Hann veit, sem enginn annar fær skilið, hverjar persónulegar þarfir okkar eru til að geta sótt fram mitt í breytingum. Ólíkt vinum okkar og ástvinum, þá sýnir frelsarinn okkur ekki aðeins hluttekningu, heldur fullkomlega hluttekningu, því hann hefur verið þar sem við erum. Auk þess að hafa reitt fram gjaldið og þjáðst fyrir syndir okkar, þá hefur Jesús Kristur líka gengið þann veg, tekist á við þá áskorun, upplifað hvern sársauka – líkamlegan, tilfinningalegan eða andlegan – sem við getum hugsanlega upplifað í jarðlífinu.

Boyd K. Packer forseti kenndi: „Miskunn og náð Jesú Krists er ekki einungis fyrir þá sem drýgja syndir, … heldur innifelur hún loforð um ævarandi frið til handa öllum sem vilja meðtaka og fylgja honum og kenningum hans. … Miskunn hans er máttugur græðari, jafnvel fyrir hina saklausu særðu.“3

Í þessu jarðneska lífi fáum við ekki stjórnað öllu því sem gerist í lífi okkar, en við getum vissulega stjórnað því hvernig við tökumst á við þær breytingar sem verða í lífi okkar. Í þessu felst ekki að áskoranir og erfiðleikar okkar hafi engar afleiðingar og að auðvelt sé að fást við þá. Í þessu felst ekki að við verðum ónæm fyrir sársauka eða hörmungum. Í þessu felst að það er ástæða til vonar og að sökum friðþægingar Jesú Krists, þá getum við sótt fram og í von um betri tíð – jafnvel tíð fullri af gleði, ljósi og hamingju.

Í Mósía má lesa frásögnina um Alma, fyrrverandi prest Nóa konungs, og fólk hans, „sem fengið hafði viðvörun frá Drottni … og héldu út í óbyggðirnar til að komast undan herjum Nóa konungs.“ Að átta dögum liðnum, komu [þeir] til lands, sem var fagurt og aðlaðandi,“ þar sem „þeir reistu tjöld sín og tóku að yrkja jörðina og reisa byggingar.“4

Aðstæður þeirra virtust lofa góðu. Þeir höfðu á móti fagnaðarerindi Jesú Krists. Þeir höfðu látið skírast, sem sáttmálsgjörð um að þjóna Drottni og halda boðorð hans. „Þeim fjölgaði, og þeir urðu mjög öflugir í landinu.“5

Aðstæður þeirra áttu þó brátt eftir að breytast. „Her Lamaníta [var þá] kominn að mörkum landsins.“6 Alma og fólk hans voru brátt tekinn í ánauð og „þrengingar þeirra urðu svo sárar, að þeir tóku að ákalla Guð heitt.“ Ofan á allt saman buðu fangarar þeirra að þeir skildu hætta að biðja, ella yrði „hver sá, sem staðinn væri að því að ákalla Guð, yrði tekinn af lífi.“7 Alma og fólk hans höfðu ekkert gert til að verðskulda þessar nýju aðstæður. Hvernig átti fólkið að bregðast við?

Í stað þess að ásaka Guð, þá snéri fólkið sér til hans og „opnaði hjörtu sín fyrir honum.“ Drottinn brást við trú þeirra og hljóðum bænum og sagði: „Látið huggast. … Ég mun … létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar.“ Nokkru þar á eftir „[gaf] Drottinn … þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði.“8 Þótt fólkið hefði ekki verið frelsað úr ánauð, eftir að hafa snúið sér til Drottins, en ekki frá Drottni, þá var það blessað í neyð sinni og að visku Drottins.

Öldungur Dallin H. Oaks hefur kennt: „Blessun lækningar á sér stað á marga vegu, allt eftir okkar persónulegu þörfum, sem honum eru kunnar, honum er elskar okkur mest. Stundum eru mein okkar ,grædd‘ eða byrðum okkar aflétt. Stundum veitist þó ‚lækning‘ með því að okkur er gefinn styrkur, skilningur eða þolinmæði til að bera þá byrði sem á okkur hefur verið lögð.“9

„Svo mikil var trú þeirra og þolinmæði,“ að Drottinn frelsaði Alma og fólk hans og „það úthellti … þakklæti sínu, … því að [hafði verð] í ánauð, og enginn gat leyst það nema Drottinn Guð þess.“10

Því miður er það svo að allt of oft snúa þeir sem eru nauðstaddir frá hinni einu fullkomnu hjálparlind – frelsara okkar, Jesú Kristi. Kunnug ritningarfrásögn um „eirorminn“ kennir okkur að við höfum val þegar við tökumst á við áskoranir okkar. Eftir að margir meðal Ísraelsmanna höfðu orðið fyrir biti „eldspúandi, fljúgandi höggorma,“11 var „táknmynd … reist í óbyggðunum, svo að hver, sem á hana liti, mætti lifa. [Það var þó valbundið.] Og margir litu á hana og lifðu.

… En margir voru svo forhertir, að þeir vildu ekki líta á táknmyndina og fórust þess vegna.“12

Líkt og Ísrael til forna, erum við líka hvött til að líta til frelsarans og lifa – því ok hans er ljúft og byrði hans létt, jafnvel þegar okkar er þung.

Alma yngri kenndi þennan helga sannleika: „Ég veit, að hver, sem setur traust sitt á Guð, hlýtur stuðning í raunum sínum, erfiðleikum og þrengingum, og honum mun lyft upp á efsta degi.“13

Á þessum síðar dögum hefur Drottinn séð okkur fyrir mikilli liðveislu, okkar tíma „eirormum,“ sem allt er gert til að auðvelda okkur að líta til Krists og setja traust okkar á hann. Við megum ekki forðast raunveruleikann þegar kemur að áskorunum lífsins, heldur ættum við að einblína á undirstöðuna sem við einsetjum okkur að byggja á.

Sú liðveisla getur verið m.a. að:

  • Læra ritningarnar reglubundið og kenningar lifandi spámanna.

  • Biðjast oft fyrir af einlægni og fasta.

  • Meðtaka sakramentið verðuglega.

  • Fara reglubundið í musterið.

  • Biðja um prestdæmisblessanir.

  • Leita eftir skynsamlegri leiðsögn þjálfaðs fagfólks.

  • Og jafnvel fara í lyfjameðferð, ef réttilega og faglega er staðið að verki.

Hvaða lífsins breytingar sem kunna að verða á vegi okkar, og hvaða óvænta veg við kunnum að þurfa að ferðast á, þá er það valkostur hvernig við bregðumst við. Að snúa okkur til frelsarans og grípa í útrétta arma hans, er alltaf besti valkosturinn.

Öldungur Richard G. Scott kenndi þennan eilífa sannleika: „Sönn og varanleg hamingja, ásamt hugrekki og hæfni til að sigrast á hinu erfiðasta í lífinu, er ávöxtur þess að hafa Jesú Krists að þungamiðju lífs síns. … Engin trygging er á skjótum árangri, en það er algjörlega öruggt að lausn mun koma á tíma Drottins, friður mun veittur og tómleiki mun fylltur.“14

Ég ber vitni um þennan sannleika. Í nafni Jesú Krists, amen.