2010–2019
Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða
Apríl 2018


Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða

Verum trúföst því sem við trúum og vitum.

Kæru bræður og systur, ég er afar þakklátur fyrir það tækifæri að fá að tjá ykkur nokkuð af því sem á mér hvílir.

Fyrir nokkrum árum vorum ég og eiginkona mín viðstödd setningarathöfn gagnvirkrar barnasýningar í sögusafni kirkjunnar í Salt Lake City. Við lok athafnarinnar, gekk Thomas S. Monson forseti til okkar, heilsaði okkur með handabandi og sagði: „Verið staðföst og þið munið sigra“ – djúpstæð kenning og full sannleika sem við getum auðvitað öll staðfest.

Jesús Kristur fullvissaði okkur: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“1

Að vera staðfastur merkir „að vera óhagganlegur í þeirri skuldbindingu að vera trúr boðorðum Guðs, þrátt fyrir freistingar, mótlæti eða andstreymi.“2

Jafnvel þeir sem hafa upplifað áhrifamikla andlega reynslu og innt af hendi trúfasta þjónustu, gætu einhvern daginn farið villu vegar eða orðið óvirkir, ef þeir eru ekki staðfestir allt til enda. Megum við alltaf og eindregið hafa í huga og hjarta orðin: „Þetta mun ekki gerast hjá mér.“

Þegar Jesús Kristur kenndi í Kapernaum, „hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.

Þá sagði Jesús við þá tólf: Ætlið þér að fara líka?“3

Ég trúi að að Jesús Kristur spyrji okkur öll í dag, sem höfum gert helgan sáttmála við hann: „Ætlið þér að fara líka?“

Ég bið þess að við megum öll svara, af djúpri innsýn á því sem eilífðin geymir okkur, líkt og Símon Pétur gerði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“4

Verum trúföst því sem við trúum og vitum. Ef við höfum ekki verið að lifa eftir bestu vitund, skulum við breyta því. Syndarar sem halda áfram að syndga án þess að iðrast, sökkva stöðugt dýpra í saurlifnaðinn, þar til Satan eignar sér þá og þannig stofna þeir möguleika sínum til að iðrast í hættu, að verða fyrirgefið og fá notið allra blessana eilífðar.

Ég hef heyrt ýmiskonar réttlætingu þeirra sem hafa látið af virkri þátttöku í kirkjunni og glatað réttum skilningi á jarðlífsferð okkar. Ég hvet alla slíka til að sjá að sér og koma til baka, því ég trúi að engin geti afsakað sig frammi fyrir Drottni Jesú Kristi.

Þegar við erum skírð, gerum við sáttmála – ekki við menn, heldur við frelsarann, um að „taka á [okkur sjálf] nafn Jesú Krists, [ákveðin] í að þjóna honum allt til enda.”5

Mæting á sakramentissamkomur, er ein mikilvæg leið til að meta staðfestu okkar til að þjóna honum, andlegt atgervi okkar og trúarlegan vöxt á Jesú Krist.

Að meðtaka sakramentið, er það mikilvægasta sem við gerum á hvíldardegi. Drottinn útskýrði þessa helgiathöfn fyrir postulum sínum áður en hann dó. Hann gerði það sama á meginlandi Ameríku. Hann segir að ef við tökum þátt í þessari helgiathöfn, mun það bera föðurnum vitni um að við höfum hann ávallt í huga og hann lofar samkvæmt því, að við munum ætíð hafa anda hans með okkur.6

Í kennslu Alma yngri til sonar hans, Shíblons, má finna viskubundna leiðsögn og aðvaranir sem geta auðveldað okkur að vera trúföst sáttmálum okkar:

„Gættu þess að miklast ekki í hroka, og gættu þess að guma ekki af þinni eigin visku eða miklum styrk.

Vertu djarfur, en þó ekki hrokafullur, og gættu þess að hafa taumhald á ástríðum þínum, svo að þú fyllist elsku. Gættu þess að forðast iðjuleysi.“7

Fyrir nokkrum árum, er við vorum í sumarfríi, vildi ég prufa kajak í fyrsta sinn. Ég tók kajak á leigu og ýtti honum fullur áhuga út á sjó.

Að fáeinum mínútum liðnum, hvolfdi alda kajaknum. Með miklum erfiðismunum, árina í annarri hendi og kajakinn í hinni, tókst mér að ná fótfestu.

Ég reyndi aftur að róa kajaknum, en aðeins nokkrum mínútum síðar hvoldi kajaknum aftur. Ég hélt þrjóskur áfram að reyna án árangurs, þar til einhver sem kunni að róa sagði að það hlyti að vera sprunga í grindinni og kajakinn því fyllst af sjó, sem gerði hann óstöðugan og óviðráðanlegan. Ég dró kajakinn að ströndinni og tók tappann út og vissulega rann út mikið magn af sjó.

Ég held að við rogumst stundum með syndir í gegnum lífið, sem halda aftur af andlegum þroska okkar, sem líkja má við lekann í kajaknum.

Ef við höldum fast í syndir okkar, gleymum við sáttmálunum sem við höfum gert við Drottin, jafnvel þótt okkur hvolfi stöðugt sökum ójafnvægis sem skapast af þeim syndum.

Líkt og nauðsynlegt er að lagfæa sprungurnar í kajaknum, þá þarf líka að lagfæra okkar lífsins sprungur. Sumar syndir krefjast meiri áreynslu og lengri iðrunar en aðrar.

Við ættum því að spyrja okkur: Hvert er viðhorf okkar til frelsarans og verks hans? Erum við í sporum Péturs við að afneita Jesú Kristi? Höfum við kannski þroskast upp að marki þeirrar afstöðu og ákveðni sem hann hafði gert, eftir að hann hafði fengið hið „mikla boð“ frá frelsaranum?8

Við verðum að keppa að því að halda öll boðorðin og leggja mikla áherslu á þau sem okkur finnst erfiðast að halda. Drottinn mun verða við hlið okkur, liðsinna okkur á tíma veikleika og vanmáttar og ef við höfum einlæga þrá og breytum samkvæmt henni, mun hann „gera hið veika að styrk.“9

Hlýðni mun gefa okkur styrk til að sigrast á synd. Við verðum alltaf að hafa í huga að trúarprófraun okkar krefst hlýðni, oft án þess að sjá fyrir endann.

Ég bendi á forskrift sem mun hjálpa okkur að vera staðföst allt til enda:

  1. Biðjið daglega og lesið ritningarnar.

  2. Meðtakið sakramentið vikulega af sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda.

  3. Greiðið tíund og föstufórnir mánaðarlega.

  4. Endurnýið musterismeðmælin annað hvert ár – hvert ár fyrir æskufólkið.

  5. Þjónið í verki Drottins alla ykkar ævi.

Megi hinn dásamlegi sannleikur fagnaðarerindisins stilla huga okkar og megum við forðast þær lífsins sprungur, sem geta stofnað okkar öruggu ferð um lífsins sjó í hættu.

Velgengni að hætti Drottins felur í sér gjald og eina leiðin til að hljóta hana er að inna gjaldið af höndum.

Hve þakklátur ég er fyrir að frelsarinn stóðst allt til enda og uppfyllti sína dásamlegu friðþægingu.

Hann þjáðist fyrir syndir okkar, sársauka, þunglyndi, sálarkvöl, hrumleika og ótta og hann veit því hvernig á að liðsinna okkur, innblása okkur, hugga og styrkja, svo við megum vera staðföst og hljóta þá kórónu sem þeim er geymd sem ekki gefast upp.

Lífið er ólíkt hjá hverju okkar. Við upplifum öll raunir, hamingju, ákvarðanatökur, hindranir til að sigrast á og tækifæri sem gefast.

Hverjar sem okkar persónulegu aðstæður eru, ber ég vitni um að himneskur faðir segir stöðugt: „Ég elska þig. Ég styð þig. Ég er með þér. Gefstu ekki upp. Iðrastu og ver á þeim vegi sem ég hef sýnt þér. Ver þá viss um að við munum hittast aftur í okkar himnesku heimkynnum.“ Í nafni Jesú Krists, amen.