2010–2019
Sveitin: Kærkominn staður
Apríl 2019


Sveitin: Kærkominn staður

Drottinn vill að þið stuðlið að sterkri sveit. Þegar hann safnar saman börnum sínum, þurfa þau stað til að vaxa á og finna sig velkomin.

Árið 2010 var Andre Sebako ungur maður í leit að sannleika. Þó hann hefði aldrei beðið hjartnæma bæn, einsetti hann sér að reyna. Stuttu síðar hitti hann trúboðana. Þeir létu hann fá dreifispjald með mynd af Mormónsbók. Andre skynjaði eitthvað og bað trúboðana að selja sér bókina. Þeir sögu hann geta fengið bókina án greiðslu, ef hann kæmi í kirkju.1

Andre fór aleinn í hina nýstofnuðu Mochudi-grein í Botsvana, Afríku. Greinin samanstóð af elskulegum og samheldnum hóp um 40 meðlima.2 Þau tóku á móti Andre opnum örmum. Hann tók á móti trúboðslexíunum og lét skírast. Þetta var dásamlegt!

Hvað tók svo við? Hvernig átti Andre að vera áfram virkur? Hver gæti hjálpað honum að vaxa á sáttmálsveginum? Eitt svarið við þeirri spurningu, er prestdæmissveitin hans!3

Hver prestdæmishafi hefur gagn af sterkri sveit, hverjar sem aðstæður hans eru. Kæru ungu bræður mínir, sem hafið Aronsprestdæmið, Drottinn vill að þið stuðlið að sterkri sveit, stað þar sem hver og einn piltur finnur sig heimkominn, stað þar sem andi Drottins ríkir, stað þar sem allir sveitarmeðlimir eru velkomnir og mikils metnir. Þegar Drottinn safnar saman börnum sínum, þurfa þau stað til að vaxa og finna sig velkomin.

Hver meðlimur sveitarforsætisráðs leiðir samkvæmt eigin innblæstri4 og þróar elsku og bræðralag meðal allra sveitarmeðlima. Þið veitið nýjum meðlimum sérstaka athygli, lítt virkum eða þeim sem hafa sérþarfir.5 Þið stuðlið að sterkri sveit með krafti prestdæmisins.6 Sterk og samheldin sveit gerir svo gæfumuninn í lífi hvers pilts.

Þegar kirkjan kynnti hina nýju heimilismiðuðu trúarfræðslu,7 hugsuðu sumir um meðlimi eins og Andre og spurðu: „Hvað með ungt fólk sem býr við fjölskylduaðstæður þar sem engin trúarfræðsla er og vettvangur til að læra og lifa eftir fagnaðarerindinu? Verða slíkir útundan?

Nei! Engin má verða útundan! Drottinn elskar hvern pilt og hverja stúlku. Við, sem prestdæmishafar, erum hendur Drottins Við erum hið kirkjustyrkta og heimilismiðaða starfsafl. Þegar stuðningur er takmarkaður á heimilinu, vaka prestdæmissveitir, leiðtogar og vinir yfir öllum einstaklingum og fjölskyldum, eins og þörf þykir.

Ég hef séð það í verki. Ég hef upplifað það. Þegar ég var sex ára, skildu foreldrar mínir og faðir minn yfirgaf móður mína með fimm ung börn. Móðir mín fór í vinnu til að sjá okkur farborða. Um tíma þurfti hún að vinna tvö störf, sem og öðlast frekari menntun. Henni gafst lítill tími til uppeldis. Elskuleg móðir mín naut þó hjálpar frá öfum og ömmum, frændum og frænkum, biskupum og heimiliskennurum.

Ég átti mér einnig sveit. Ég er afar þakklátur vinum mínum – bræðrum mínum – sem sýndu mér elsku og stuðning. Sveitin mín var kærkominn staður. Sumir gætu hafa talið mig hæpinn og lítilmagna, vegna fjölskylduaðstæðna minna. Kannski var ég það. Prestdæmissveitir breyttu hins vegar þeim líkum. Sveitin mín stóð vörð um mig og blessaði líf mitt ómælanlega.

Hvarvetna eru þeir sem eru hæpnir og lítilmagnar. Kannski erum við það allir á einn eða annan hátt. Sérhver okkar á sér þó sveit, stað þar sem hvorttveggja er mögulegt, að hljóta og veita styrk. Í sveitinni eru „allir fyrir einn og einn fyrir alla.“8 Það er staður þar sem við fræðumst hver af öðrum, þjónum öðrum og vinnum að einingu og bræðralagi, er við þjónum Guði.9 Það er staður þar sem kraftaverk gerast.

Ég ætla að segja ykkur frá sumum þeirra kraftaverka sem gerðust í sveit Andre í Mochudi. Er ég miðla þessari frásögn, gætið að þeim reglum sem styrkja allar þær prestdæmissveitir sem tileinka sér þær.

Eftir að Andre skírðist, var hann í samfylgd trúboðanna við að kenna fjórum öðrum piltum sem einnig létu skírast. Nú voru piltarnir þar fimm. Þeir tóku að styrkja hver annan og greinina.

Sjötti pilturinn, Thuso, lét skírast. Thuso sagði þremur vinum sínum frá fagnaðarerindinu og brátt urðu piltarnir níu.

Lærisveinum Jesús Krists er oft safnað saman á þennan hátt – fáeinum í senn, að boði vina sinna. Þegar Andrés til forna fann frelsarann, fór hann þegar til bróður síns, Símons, og „fór með hann til Jesú.“10 Stuttu eftir að Filippus tók að fylgja Kristi, bauð hann vini sínum, Natanael: „Kom þú og sjá.“11

Tíundi pilturinn gekk brátt í kirkjuna í Mochudi. Trúboðarnir fundu þann ellefta. Tólfti pilturinn var svo skírður eftir að hann sá áhrif fagnaðarerindisins á vini sína.

Meðlimir Mochudi-greinarinnar voru í sjöunda himni. Þessir piltar „[snerust] til trúar á Drottin og [sameinuðust kirkjunni].“12

Mormónsbók skipaði mikilvægu hlutverki í trúskiptum þeirra.13 Thuso rifjar upp: „Ég tók að lesa Mormónsbók … alltaf þegar ég átti lausa stund, var heima, í skóla, allsstaðar.“14

Oratile laðaðist að fagnaðarerindinu sökum fordæmis vina sinna. Hann útskýrði: „[Þeir] virtust umbreytast snögglega. … Ég taldi það hafa … að gera með litlu … bókina sem þeir voru farnir að halda á í … skólanum. Ég fékk séð hversu góðir menn þeir voru orðnir. … [Ég] vildi líka breytast.“15

Ljósmynd
Mochudi greinin

Öllum piltunum tólf var safnað saman og þeir skírðir á tveggja ára tímabili. Hver þeirra var eini meðlimur kirkjunnar í fjölskyldu sinni. Þeir nutu stuðnings kirkjufjölskyldu sinnar, sem og Rakwelas forseta,16 greinarforseta þeirra; öldungs og systur Taylor,17 eldri trúboðshjóna; og annarra greinarmeðlima.

Bróðir Junior,18 sveitarleiðtogi, bauð piltunum heim til sín á sunnudags eftirmiðdögum og kenndi þeim. Piltarnir lærðu saman ritningarnar og höfðu reglubundnar heimiliskvöldstundir.

Ljósmynd
Gestkomandi meðlimir

Bróðir Junior fór með þá í heimsókn til meðlima, trúarnema og allra annarra sem þörfnuðust heimsóknar. Allir piltarnir tólf hrúguðust upp á pallbíl bróður Juniors. Hann ók þeim að heimilum, þar sem tveir eða þrír fóru saman, og náði í þá síðar.

Þótt piltarnir væru nýnemar í fagnaðarerindinu og hefðu ekki mikla þekkingu, að því að þeim fannst, þá bauð bróðir Junior þeim að miðla fólkinu sem þeir heimsóttu einu eða tveimur atriðum sem þeir voru kunnugir. Þessir ungu prestdæmishafar kenndu, báðust fyrir og hjálpuðu við að vaka yfir kirkjunni.19 Þeir framfylgdu prestdæmisábyrgð sinni og upplifðu gleði þjónustu.

Ljósmynd
Bræðrabandið

Andre sagði: „Við lékum okkur saman, hlógum, grétum og efldum bræðralagið.“20 Í raun kalla þeir sig „Bræðrabandið.“

Saman settu þeir sér allir markmið um að þjóna í trúboði. Þar sem þeir voru einu meðlimir fjölskyldu sinnar, þurftu þeir að sigrast á mörgum hindrunum, en þeir hjálpuðust að við það.

Hver af öðrum fengu piltarnir trúboðsköllun. Þeir sem fóru fyrst, skrifuðu þeim sem enn voru heima á undirbúningsstigi, til að segja frá eigin reynslu og hvetja þá til þjónustu. Ellefu þessara ungu manna þjónuðu í trúboði.

Piltarnir miðluðu fjölskyldum sínum fagnaðarerindinu. Mæður, systur, bræður, vinir, sem og fólk sem þeir kenndu í trúboði sínu, snerist til trúar og skírðist. Kraftaverk gerðust og ótal einstaklingar voru blessaðir.

Ég fæ skynjað að sum ykkar hugsa að slík kraftaverk geti einungis gerst á svæði eins og Afríku, á frjósömum trúboðsakri, þar sem söfnun Ísraels er hraðað. Ég ber þó vitni um að þær reglur sem farið var eftir í Mochudi-greininni, eru jafn sannar allsstaðar. Hvar sem þið eruð, þá getur sveitin ykkar vaxið með virkni og miðlun fagnaðarerindisins. Þegar einungis einn lærisveinn segir vini frá, getur einn orðið að tveimur. Tveir geta orðið að fjórum. Fjórir geta orðið að átta. Átta geta orðið að tólf. Greinar geta orðið deildir.

Ljósmynd
Mochudi deildin

Því að hvar sem tveir eða þrír [eða fleiri] eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“21 Himneskur faðir er að undirbúa huga og hjarta fólks hvarvetna umhverfis okkur. Við getum fylgt innblæstri, rétt vinarhönd, miðlað sannleika, boðið öðrum að lesa Mormónsbók og sýnt elsku og stuðning þegar fólk tekur að þekkja frelsara okkar.

Næstum tíu ár hafa liðið frá því að Bræðrabandið í Mochudi varð til og og enn eru þeir bræður bundnir bræðrabandi.

Katlego sagði: „Fjarlægðir geta skilið okkur að, en við erum enn hver öðrum til stuðnings.“22

Ég bið þess að við tökum því boði Drottins að vera sameinaðir honum í prestdæmissveitum okkar, svo að hver sveit megi verða kærkominn staður, staður samansöfnunar, staður vaxtar.

Jesús Kristur er frelsari okkar og þetta er verk hans. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Mark and Shirley Taylor, samant. The Band of Brothers (trúarfrásagnir og vitnisburður Mochudi greinarinnar, 2012–13), 4, Church History Library, Salt Lake City.

  2. Persónulegar bréfaskriftir, Letanang Andre Sebako, Band of Brothers heimildaskýrslur, 2011–19, Church History Library, Salt Lake City.

  3. Boyd K. Packer forseti sagði: „Þegar maður hefur prestdæmið, er hann hluti af nokkru sem er stærra en hann sjálfur. „Það er utan við hann sjálfan, sem hann getur skuldbundið sig algjörlega“(„The Circle of Sisters,“ Ensign, nóv. 1980, 109–10).

  4. Russell M. Nelson forseti útskýrði hvernig leita á opinberunar og sagði síðan: „Þegar þið endurtakið þetta ferli dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, munið þið ,vaxa inn í reglu opinberunar‘“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigin líf,“ Aðalráðstefna, apríl, 2018, 95; sjá einnig Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 132).

  5. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 8.3.2.

  6. Aðrir aðstoða líka, þar með talið biskupsráð og leiðbeinendur. Öldungur Ronald A. Rasband sagði einn kost þess að endurskipuleggja sveitir Melkísedeksprestdæmisins, sem tilkynnt var um 31. mars 2018, „geri biskupi kleift að úthluta forsetum öldungasveitar og Líknarfélags aukinni ábyrgð, svo að biskup og ráðgjafar hans geti sinnt betur megin skyldum sínum – einkum að vera í forsæti stúlkna og pilta sem hafa Aronsprestdæmið“ („Behold! A Royal Army,” Liahona, maí 2018, 59). Englar munu líka hjálpa. Aronsprestdæmishafar hafa lykla að þjónustu engla (sjá Kenning og sáttmálar 13:1; sjá einnig Dale G. Renlund og Ruth Lybbert Renlund, The Melchizedek Priesthood [2018], 26). Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Yfirleitt eru [þjónustuenglar] ekki séðir. Stundum sjást þeir. Hvort heldur séðir eða óséðir, þá eru þeir alltaf nálægir. Stundum eru verkefni þeirra afar tilkomumikil og þýðingarmikil fyrir allan heim. Stundum eru verkefni þeirra persónulegri. Endrum og eins er tilgangur engla að aðvara. Oftast er þó hlutverk þeirra að hughreysta, að sjá okkur fyrir miskunn á einhvern hátt, leiðsögn á erfiðum tímum“ (“The Ministry of Angels,” Liahona, nóv. 2008, 29). Ef þið þráið slíka hjálp, þá „biðjið, og þér munuð öðlast“ (Jóhannes 16:24).

  7. Sjá Russell M. Nelson, “Inngangsorð,” aðalráðstefna, okt. 2018.

  8. Sjá Alexandre Dumas, The Three Musketeers (Skytturnar þrjár) (1844).

  9. Sjá Handbook 2, 8.1.2.

  10. Sjá Jóhannes 1:40-42.

  11. Sjá Jóhannes 1:43-46.

  12. 3. Nefí 28:23.

  13. Sjá D. Todd Christofferson, “The Power of the Book of Mormon” (ræða flutt á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta, 27. júní 2017).

  14. Thuso Molefe, í Taylor, The Band of Brothers, 22.

  15. Oratile Molosankwa, í Taylor, The Band of Brothers, 31–32.

  16. Lucas Rakwela, Mochudi, Botswana.

  17. Mark og Shirley Taylor, Idaho, Bandaríkjunum.

  18. Cilvester Junior Kgosiemang, Mochudi, Botsvana.

  19. Sjá Kenning og sáttmálar 20:46–47, 53–54.

  20. Persónuleg bréfaskipti, Letanang Andre Sebako, Band of Brothers heimildarskýrslur.

  21. Kenning og sáttmálar 6:32.

  22. Katlego Mongole, í “Band of Brothers 2nd Generation” (óbirt útgáfa), 21.