2010
Það sem mestu skiptir
nóvember 2010


Boðskapur heimsóknarkennara, nóvember 2010

Það sem mestu skiptir

Ef lífið og hraði þess, og margir streituvaldar hafa dregið úr gleði ykkar, væri kannski gott að endurmeta nú það sem mestu skiptir.

Merkilegt er hversu mikið við getum lært um lífið með því að kanna náttúruna. Vísindamenn geta til að mynda skoðað árhringi trjáa og dregið fræðilegar ályktanir um loftslag og vaxtarskilyrði fyrir hundruðum og jafnvel þúsundum ára. Eitt af því sem við getum lært af því að kynna okkur vaxtarskilyrði trjáa er að á góðum tímabilum vaxa tré á eðlilegum hraða. Á slæmum vaxtatímabilum hægir aftur á móti á vexti trjáa og orka þeirra fer í aðra grunnþætti til lífsviðhalds.

Þegar hér er komið, gætuð þið hugsað með ykkur: „Allt þetta er gott og gilt svo langt sem það nær, en hvernig tengist þetta flugi flugþota?“ Já, ég ætla að segja ykkur það.

Hafið þið einhvern tíma upplifað ókyrrð í flugvélum? Algengasta ástæða ókyrrðar er skyndileg breyting loftstreymis, sem veldur því að flugvél steypist og kastast til og frá. Þótt flugvélar séu byggðar til að standast mun meiri ókyrrð en fólk getur upplifað í venjulegu flugi, getur slíkt samt valdið farþegum óþægindum.

Hvað haldið þið að flugmenn geri þegar ókyrrð skellur á? Flugnemi kann að álykta að hraðaaukning sé gott ráð, því þannig komist þeir fyrr út úr ókyrrðinni. En það gæti verið röng ákvörðun. Fagflugmenn vita að til er kjörhraði sem lágmarkar neikvæð áhrif ókyrrðar. Og yfirleitt þarf þá að draga úr hraðanum. Sama reglan á einnig við um hraðahindranir á vegum.

Þess vegna er gott ráð að hægja aðeins á sér, festa stefnuna og beina athyglinni að grundvallaratriðum þegar óhagstæð skilyrði koma upp.

Hraði nútímans

Lexía þessi er einföld en mikilvæg. Reglur þessar virðast skynsamlegar í tengslum við tré eða ókyrrð, en furðu sætir hve auðvelt er að sniðganga þær í okkar daglega lífi. Þegar streitan tekur að aukast og armæða og ógæfa kveða dyra, reynum við of oft að halda sama ógnarhraða, eða aukum hann jafnvel, og hugsum sem svo að okkur líði því betur sem hraðinn er meiri.

Eitt af því sem einkennir nútímann er síaukinn hraði, þrátt fyrir alla ókyrrð og fyrirstöðu.

Verum nú einlæg, það er fremur auðvelt að verða önnum kafin. Öll getum við hugsað um fjölda verkefna sem gætu yfirfyllt dagskrá okkar. Sumum kann jafnvel að finnast sjálfsmat sitt vera háð því hve langur verkefnalistinn er. Þeir fylla út í allar tímaeyður með fundum og smáatriðum—jafnvel á tímum streitu og áreynslu. Þar sem þeir gera líf sitt flókið að nauðsynjalausu, upplifa þeir oft aukið ráðleysi, skort á gleði, og tilgangsleysi í lífi sínu.

Sagt er að sérhver dyggð verði að lesti þegar út í öfgar er farið. Að yfirfylla dagskrá okkar mundi vissulega falla þar undir. Þau mörk eru til þar sem afrek og ofmetnaður geta orðið sem myllusteinn um háls okkar.

Hvað er til ráða?

Hinir vitru skilja og hagnýta sér kennsluna um árhringi trjáa og ókyrrð í lofti. Þeir sporna gegn þeirri freistingu að festast í ógnarhraða hins daglega lífs. Þeir fylgja þessu ráði: „Lífið er meira en síaukinn hraði.“1 Í stuttu máli beina þeir sjónum sínum að því mikilvægasta.

Öldungur Dallin H. Oaks kenndi nýverið á aðalráðstefnu: „Við þurfum að sleppa sumu góðu til þess að velja annað sem er betra eða best, vegna þess að það eykur trú á Drottin Jesú Krist og styrkir fjölskyldu okkar.“2

Þeir leita þess besta, sem óhjákvæmilega leiðir til grundvallarkenninga fagnaðarerindis Jesú Krists— hins einfalda og fagra sannleika sem ástríkur, eilífur og alvitur himneskur faðir hefur opinberað okkur. Þessar grundvallarkenningar og reglur veita svör við flóknustu spurningum lífsins, þótt svo einfaldar séu að barn fái skilið þær.

Það felst fegurð og skýrleiki í einfaldleikanum, sem við sjáum stundum ekki í kappsamri leit okkar að margbrotnum úrlausnum.

Nokkru eftir að geimfarar fóru út fyrir gufuhvolf jarðar, uppgötvuðu þeir t.d. að í geimnum var ekki hægt að nota kúlupenna. Því var fluggáfuðu fólki falið að leysa vandann. Þúsundir klukkustunda og milljónir dollara fóru í úrlausnarefnið, og að lokum varð til penni sem hægt var að nota alls staðar, í hvaða hitastigi sem var og á næstum hvaða yfirborði sem var. En hvernig komust geimfararnir af fram að lausn vandans? Þeir notuðu einfaldlega blýant.

Sagt er að Leonardo da Vinci hafi sagt: „Einfaldleikinn er hin endanlegu gæði.“3 Þegar við íhugum grundvallarkenningar sæluáætlunarinnar, sáluhjálparáætlunarinnar, sjáum við og skiljum einfaldleika hennar og fegurðina og glæsileikann sem bera vott um visku himnesks föður. Þegar við svo látum af okkar háttum og tileinkum okkur hans hætti tökum við að vaxa að visku.

Máttur undirstöðuatriða

Sú saga er sögð að hinn frægi fótboltaþjálfari, Vince Lombardi, hafi viðhaft ákveðinn gjörning á fyrsta þjálfunardegi sínum. Hann hóf fótbolta á loft, sýndi hann liðsmönnum sem verið höfðu mörg ár í íþróttinni, og sagði: „Herramenn, … þetta er fótbolti!“ Hann ræddi um stærð hans og lögun, hvernig hægt væri að sparka honum, halda á honum og senda hann á milli. Hann fór með liðsmennina út á auðan keppnisvöllinn og sagði: „Þetta er fótboltavöllur.“ Hann rölti með þá um völlinn og lýsti umfangi hans og stærð, reglunum og hvernig ætti að bera sig að við leikinn.4

Þjálfara þessum var ljóst að jafnvel slíkir reynsluboltar, og reyndar liðið allt, gætu aðeins orðið mikilhæfir ef þeir hefðu undirstöðuatriðin algjörlega á hreinu. Þeir hefðu getað tekið tíma í að æfa flóknar leikaðferðir, en þeir yrðu aldrei meistarar fyrr en þeir hefðu lært undirstöðuatriðin fullkomlega.

Ég held að flest okkar hafi góðan skilning á mikilvægi undirstöðuatriða. Það er bara svo margt annað spennandi sem stundum dregur athyglina frá þeim.

Prentað efni, víðtækir upplýsingamiðlar, ýmis rafeindatæki ‒ sem allt er gagnlegt sé það rétt notað—getur orðið skaðleg dægrastytting eða miskunnarlausar vistarverur einangrunar.

Og mitt í fjölda radda og valkosta stendur hinn auðmjúki maður frá Galelíu með útbreiddan faðminn. Boð hans er einfalt: „Kom, fylg [þú] mér.“5 Hann mælir ekki með öflugu gjallarhorni, heldur sem hvíslandi blíður vindblær.6 Það er svo auðvelt að glata undirstöðuatriðum boðskapar fagnaðarerindisins mitt í upplýsingaflæðinu sem hvarvetna á okkur dynur.

Hinar helgu ritningar og hið talaða orð lifandi spámanna leggja áherslu á undirstöðureglur og kenningar fagnaðarerindisins. Ástæða þess að við rifjum svo oft upp þessar grundvallarreglur, þessar hreinu kenningar, er vegna þess að þær eru hliðið að merkingu djúpstæðs sannleika. Þær eru dyrnar að mikilvægri og háleitri upplifun sem við annars fengjum ekki skilið. Þessar einföldu undirstöðureglur eru lykill að því að lifa í samhljómi við Guð og menn. Þær eru lykilþættir í að ljúka upp gáttum himins. Þær leiða okkur til þess friðar, gleði og skilnings sem himneskur faðir hefur lofað þeim börnum sínum sem hlusta á hann og hlýða.

Bræður og systur, okkur væri hollt að hægja aðeins á okkur, stilla á kjörhraða okkar aðstæðna, einblína á aðalatriðin og ljúka upp augum okkar til að sjá hvað raunverulega skiptir mestu. Verum minnug þeirra lífsreglna sem faðir okkar á himnum hefur gefið börnum sínum, sem eru undirstaða ríkulegs og auðugs jarðlífs, með fyrirheiti um eilífa hamingju. Þær munu kenna okkur „að allt þetta sé gjört með visku og reglu, því að ekki er ætlast til að maðurinn hlaupi hraðar en styrkur hans leyfir. Hins vegar er honum ráðlegast að starfa af kappi og vinna þannig til verðlaunanna.“7

Bræður og systur, að gera af kostgæfni það sem mestu skiptir, mun leiða okkur til frelsara heimsins. Þess vegna tölum við um Krist, fögnum í Kristi, prédikum um Krist og spáum um Krist, svo að við vitum til hvaða uppsprettu við getum leitað til fyrirgefningar synda okkar.8 Í hinu flókna, ruglingslega og hraða lífi nútímans er þetta „hin háleitari leið.“9

Hver eru undirstöðuatriðin?

Þegar við snúum okkur til himnesks föður og leitum visku hans um það sem mestu skiptir, lærum við aftur og aftur um mikilvægi fjögurra lykilsambanda: Við Guð, fjölskyldu okkar, samferðafólk okkar og okkur sjálf. Þegar við erum fús til að skoða líf okkar, munum við sjá hvar okkur hefur borið af hinni háleitari leið. Augu skilnings okkar munu ljúkast upp, og við sjáum hvað gera þarf til að hreinsa hjarta okkar og endursetja stefnuna.

Í fysta lagi er samband okkar við Guð afar heilagt og mikilvægt. Við erum börn hans. Hann er faðir okkar. Hann þráir að við verðum hamingjusöm. Þegar við leitum hans, lærum um son hans, Jesú Krist, og ljúkum upp hjarta okkar fyrir áhrifum heilags anda, verður líf okkar traustara og öruggara. Við upplifum aukinn frið, gleði og fyllingu, er við gerum okkar besta til að lifa eftir eilífri áætlun Guðs og halda boðorð hans.

Við bætum samband okkar við himneskan föður með því að læra um hann; eiga samskipti við hann, iðrast synda okkar og fylgja Jesú Kristi í verki; því „enginn kemur til föðurins, nema fyrir [Krist].“10 Til að efla samband okkar við Guð, þurfum við innihaldsríkar stundir í einrúmi með honum. Daglegar hljóðar einkabænir og ritningarnám og að vera alltaf verðug þess að hafa musterismeðmæli—er þess virði að helga tíma og erfiði til að nálgast himneskan föður. Við skulum gefa gaum að þessu boði í Sálmunum: „Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð!“11

Annað lykilsambandið er við fjölskyldu okkar. Þar sem „enginn sigur á öðru sviði getur bætt fyrir mistök“12 hér, verðum við að hafa fjölskyldu okkar í fyrirrúmi. Við stuðlum að góðu og ástríku fjölskyldusambandi með því að gera einfalda hluti saman, líkt og að snæða saman kvöldverð, hafa fjölskyldukvöld og bara skemmta okkur saman. Hvað fjölskyldusambönd varða er tími mælieining elsku. Að gefa hvert öðru tíma er lykill að einingu á heimilinu. Við tölum við, fremur en um, hvert annað. Við lærum af hvert öðru og metum það sem skilur okkur að, sem og sameiginlega eiginleika okkar. Við myndum guðleg bönd sem tengja okkur saman þegar við nálgumst Guð í fjölskyldubæn, með ritningarnámi og tilbeiðslu á sunnudögum.

Þriðja lykilsambandið er við samferðarfólk okkar. Við byggjum upp samband við einn einstakling í einu—með því að vera næm á þarfir annarra, þjóna þeim og gefa af tíma okkar og hæfileikum. Systir nokkur, aldurhnigin og sjúk, sagði að þótt hún gæti ekki afrekað neitt merkilegt, þá gæti hún þó hlustað. Og því fylgdist hún í hverri viku með því hvort fólk virtist þjakað eða vonlítið og notaði tíma sinn til að hlusta á það. Hve hún var mörgum til mikillar blessunar.

Í fjórða lagi er það sambandið sem við eigum við okkur sjálf. Það kann að virðast skrítið að eiga samband við okkur sjálf, en þannig er það. Sumu fólki semur ekki vel við sjálft sig. Það gagnrýnir og lítillækkar sjálft sig daginn út og inn, uns það hættir að þola sjálft sig. Ég legg til að þið dragið úr hraðanum og gefið ykkur örlítinn tíma til að kynnast ykkur sjálfum. Farið út í náttúruna, njótið sólskinsins og sköpunarverks Guðs, íhugið sannleika hins endurreista fagnaðarerindis og merkingu hans fyrir ykkur sjálf. Lærið að sjá ykkur sjálf eins og himneskur faðir sér ykkur—sem dýrmæta dóttur sína eða son, sem býr yfir guðlegum möguleikum.

Fagna í hinu sanna fagnaðarerindi

Bræður og systur, verum skynsöm. Snúum okkur að hinni hreinu kenningarlegu uppsprettu hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Við skulum teyga fagnandi af einfaldleika hennar og látleysi. Himnunum hefur verið upp lokið að nýju. Fagnaðarerindi Jesú Krists er enn að nýju á jörðu og einfaldur sannleikur þess er auðug uppspretta gleði!

Bræður og systur, vissulega höfum við ríka ástæðu til að gleðjast. Ef lífið og hraði þess, og margir streituvaldar hafa dregið úr gleði ykkar, væri kannski gott að endurmeta nú það sem mestu skiptir.

Styrkur hlýst ekki af fjölda verkefna, heldur af því að eiga sér örugga undurstöðu sannleika og ljóss. Hann hlýst af því að beina athygli okkar og erfiði að undirstöðuatriðum hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Hann hlýst af því að beina athygli okkar að hinu guðlega sem mestu skiptir.

Við skulum einfalda líf okkar örlítið. Við skulum gera nauðsynlegar breytingar til að laga líf okkar að nýju að hinni háleitu fegurð einfaldleikans, að hinum auðmjúka vegi hins kristna lærisveins—veginum sem alltaf leiðir til lífsfyllingar, gleði og friðar. Fyrir þessu bið ég og læt ykkur eftir blessun mína, í nafni Jesú Krists, amen.

HEIMILDIR

  1. Mahatma Gandhi, í Larry Chang, Wisdom for the Soul (2006), 356.

  2. Dallin H. Oaks, „Gott, betra, best,“ Aðalráðstefna, okt. 2007.

  3. Í samantekt Sarah Ban Breathnach, í John Cook, The Book of Positive Quotations, 2. útg. (1993), 262.

  4. Vince Lombardi, í Donald T. Phillips, Run to Win: Vince Lombardi on Coaching and Leadership (2001), 92.

  5. Lúk 18:22.

  6. Sjá 1 Kon 19:12.

  7. Mósía 4:27.

  8. 2 Ne 25:26.

  9. 1 Kor 12:31; Et 12:11.

  10. Jóh 14:6.

  11. Sálm 46:11.

  12. J. E. McCulloch, Home: The Savior of Civilization (1924), 42; sjá einnig Conference Report, apríl 1935, 116.