2012
Friðþægingin og ferðin um hinn dauðlega heim
Apríl 2012


Friðþægingin og ferðin um hinn dauðlega heim

Úr hátíðarræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla, 23. október 2001. Til að lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.

Hinn virki kraftur friðþægingarinnar styrkir okkur til að framkvæma, sýna góðvild og þjóna umfram okkar eigin þrá og getu.

Ljósmynd
Öldungur David A. Bednar

David O. McKay forseti (1873–1970) gerði kjarnyrta samantekt á megintilgangi fagnaðarerindis frelsarans: „Tilgangur fagnaðarerindisins er … að gera slæma menn góða og góða menn betri, og breyta eðli mannsins.“1 Ferðinni um hinn dauðlega heim er því ætlað að þroska okkur frá hinu slæma til hins góða og hins betra og gera að veruleika hina máttugu breytingu hjartans—að breyta okkar fallna ástandi (sjá Mósía 5:2).

Mormónsbók er handbók okkar og leiðarvísir, er við ferðumst um veginn frá hinu slæma til hins góða og hins betra og vinnum að breytingu hjarta okkar. Benjamín konungur fræðir okkur um ferðina um hinn dauðlega heim og hlutverk friðþægingarinnar í því að gera þá ferð árangursríka: „Hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists“ (Mósía 3:19; skáletrað hér).

Ég beini athygli ykkar að tveimur orðasamböndum. Fyrsta: „Losa sig úr viðjum hins náttúrlega manns.“ Ferðin frá hinu slæma til hins góða felst í því að losa sig við hinn náttúrlega mann í sjálfum sér. Okkar allra er freistað með holdinu í hinum dauðlega heimi. Efnin sem líkamar okkar eru skapaðir úr eru í eðlislægu föllnu ástandi og ævarandi háð áhrifum syndar, spillingar og dauða. En við getum aukið getu okkar til að sigrast á þrá holdsins og freistingum „fyrir friðþægingu Krists.“ Þegar okkur verður á, er við syndgum og brjótum af okkur, getum við iðrast og orðið hrein fyrir endurleysandi mátt friðþægingar Jesú Krists.

Annað: „Verða heilagur.“ Orðasamband þetta lýsir áframhaldandi ferli og öðrum áfanga lífsins ferðar við að gera „góða menn betri“ eða, með öðrum orðum, að verða heilagri. Þessi síðari hluti ferðarinnar, ferlið frá hinu góða til hins betra, er efni sem við hvorki lærum eða kennum nægilega, né höfum nægan skilning á.

Mig grunar að margir kirkjumeðlimir séu kunnugri hinum endurleysandi og hreinsandi krafti friðþægingarinnar, fremur en styrkjandi og virkjandi krafti hennar. Eitt er að vita að Jesús Kristur hafi komið til jarðarinnar til að deyja fyrir okkur—sem er megingrundvöllur kenningarinnar um Krist, en annað að vita að Drottinn þráir, fyrir friðþægingu sína og kraft heilags anda, að dvelja í okkur—ekki aðeins til að veita okkur handleiðslu, heldur líka til að styrkja okkur.

Flest okkar vita að þegar við breytum rangt þurfum við hjálp til að sigrast á áhrifum syndarinnar í lífi okkar. Frelsarinn hefur reitt gjaldið af höndum og gert okkur mögulegt að verða hrein fyrir endurleysandi kraft hans. Flest skiljum við vel að friðþægingin er í þágu syndara. Ég er þó ekki viss um að við skiljum og áttum okkur á að friðþægingin er líka fyrir hina heilögu—fyrir góða karla og konur sem eru hlýðin, verðug og samviskusöm og reyna stöðugt að bæta sig og þjóna af trúmennsku. Við gætum trúað því að ósekju að við þyrftum sjálf að takast á við ferðina frá hinu góða til hins betra og verða heilög, af eigin þrautseigju, viljastyrk og sjálfsaga, af okkar augljósu takmörkuðu getu.

Fagnaðarerindi frelsarans snýst ekki aðeins um að forðast hið slæma í lífi okkar; það er líka nauðsynlegt til að breyta rétt og verða góður. Og friðþægingin sér okkur fyrir hjálp til að sigrast á hinu illa og forðast það og verða góð. Hjálp frelsarans stendur okkur til boða alla ferðina um hinn dauðlega heim—frá hinu slæma til hins góða og hins betra og til að breyta eðli okkar.

Með þessu er ég ekki að segja að endurleysandi kraftur og virkjandi kraftur friðþægingarinnar séu aðgreindir og aðskildir. Þessar tvær víddir friðþægingarinnar tengjast öllu heldur og falla hvor að annarri og þurfa báðar að verða virkar á öllum stigum lífsins ferðar. Og okkur öllum er eilíflega mikilvægt að vita að báðir eru þessir þættir mikilvægir í ferðinni um hinn dauðlega heim—bæði það að losa okkur við hinn náttúrlega mann og verða heilög, bæði það að sigrast á hinu illa og verða góð—næst fyrir kraft friðþægingarinnar. Viljastyrkur, ákveðni og áræðni, gott skipulag og markmiðasetning eru nauðsynleg, en að lokum alls ófullnægjandi til að uppskera sigur eftir ferð okkar um hinn dauðlega heim. Við verðum vissulega að reiða okkur á „verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar‘ (2 Ne 2:8).

Náð og virkjandi kraftur friðþægingarinnar

Í orðabók Biblíunnar er þess getið að hugtakið náð sé oft notað í ritningunum í tengslum við hinn virkjandi kraft:

„[Náð er] hugtak sem oft kemur fyrir í Nýja testamentinu, einkum í ritverki Páls. Megininntak hugtaksins er guðleg hjálp og styrkur, sem veitt eru fyrir mikla miskunn og elsku Jesú Krists.

Það er fyrir náð Drottins Jesú, sem friðþæging hans gerir mögulega, að mannkynið mun reist upp í ódauðleika, hver maður mun hljóta líkama sinn úr gröfinni til ævarandi lífs. Það er líka fyrir náð Drottins sem menn hljóta, fyrir trú á friðþægingu Jesú Krists og iðrun synda þeirra, styrk og hjálp við að gera góð verk, sem þeir ekki gætu ella af eigin rammleik. Náð þessi er virkjandi kraftur sem gerir mönnum kleift að hljóta eilíft líf, eftir að þeir hafa lagt allt sitt besta af mörkum.“2

Náð er sú guðlega aðstoð eða himneska hjálp sem við öll þurfum sárlega á að halda til að verða hæf fyrir himneska ríkið. Hinn virki kraftur friðþægingarinnar styrkir okkur því til að framkvæma, sýna góðvild og þjóna umfram okkar eigin þrá og náttúrlega getu.

Þegar ég læri ritningarnar set ég oft orðin „virkjandi kraftur“ í stað orðsins náð. Ígrundið til að mynda þessi vers sem við öll þekkjum: „Vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2 Ne 25:23). Ég tel að við getum lært heilmikið um þetta mikilvæga svið friðþægingarinnar, ef við setjum orðin „virkjandi og styrkjandi kraftur“ í stað orðsins náð hvar sem það kemur fyrir í ritningunum.

Útskýringar og ályktanir

Ferðin um hinn dauðlega heim er að fara frá hinu slæma til hins góða og til hins betra og breyta eðlislægu ástandi okkar. Í Mormónsbók eru ótal dæmi um lærisveina og spámenn sem vissu, skildu og voru ummyndaðir af hinum virkjandi krafti friðþægingarinnar í þessari ferð þeirra. Þegar við förum að átta okkur betur á þessum helga krafti, mun skilningur okkar á fagnaðarerindinu stórlega aukast. Slíkur skilningur mun breyta okkur á eftirtektarverðan hátt.

Nefí er dæmi um mann sem þekkti, skildi og reiddi sig á hinn virkjandi kraft frelsarans. Íhugið þegar synir Lehís höfðu snúið frá Jesúsalem eftir að hafa talið Ísmael og heimilisfólk hans á að fylgja málstað sínum. Laman og fleiri í hópnum, sem fóru ásamt Nefí frá Jesúsalem aftur út í óbyggðirnar, voru með uppsteit og Nefí brýndi fyrir bræðrum sínum að reiða sig á Drottin. Það var á þessum tímapunkti í ferð þeirra að bræður Nefís kefluðu hann og hugðust drepa hann. Hlustið á bænarorð Nefís: „Ó Drottinn, bjarga mér úr höndum bræðra minna vegna trúar minnar á þig, já, gef mér jafnvel kraft til að slíta af mér böndin, sem ég er fjötraður“ (1 Ne 7:17; skáletur hér).

Vitið þið hvernig bæn mín hefði líklega hljómað, ef ég hefði verið keflaður af bræðrum mínum? „Hjálpaðu mér NÚ ÞEGAR að komast út úr þessu klandri!“ Mér finnst áhugavert að Nefí bað þess ekki að aðstæður hans breyttust. Hann bað fremur um styrk til að geta breytt aðstæðum sínum. Og ég trúi að hann hafi einmitt beðið á þennan hátt vegna þess að hann þekkti og skildi og hafði upplifað hinn virkjandi kraft friðþægingarinnar.

Ég trúi ekki að böndin sem Nefí var keflaður með hafi bara fallið af höndum hans og fótum fyrir einhverja töfra. Fremur að hann hafi verið blessaður bæði með þrautseigju og styrk umfram hans náttúrlega getu, og „með Drottins styrk“ (Mósía 9:17) hafi hann togað og teygt á böndunum, þar til honum tókst loks bókstaflega að losa þau af sér.

Sú ályktun sem við öll getum dregið af þessu er auðskilin. Og þegar við tökum að skilja og hagnýta okkur hinn virkjandi kraft friðþægingarinnar í lífi okkar, munum við biðja um styrk til að breyta aðstæðum okkar, fremur en að biðja um að aðstæður okkar breytist. Við munum þá fremur verða sá sem áhrifum veldur, heldur en sá sem fyrir áhrifum verður (sjá 2 Ne 2:14).

Ígrundið dæmi í Mormónabók þar sem Alma og fólk hans var ofsótt af Amúlon. Rödd Drottins barst þessu góða fólki í raunum þess og sagði:

„Ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar, …

Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði“ (Mósía 24:14–15; skáletrað hér).

Hvað hafði breyst í þessum aðstæðum? Það var ekki byrðin sem hafði breyst; erfiðleikar og mótlæti ofsóknanna var ekki þegar í stað létt af fólkinu. En Alma og fylgjendur hans hlutu styrk og aukin geta þeirra og þróttur gerði byrði þeirra léttari. Þetta góða fólk hlaut styrk með friðþægingunni til að takast á við aðstæður sínar og draga úr áhrifum aðstæðnanna. Og „með Drottins styrk“ var Alma og fólk hans leitt á öruggan stað í landi Sarahemla.

Þið gætuð réttilega hugsað með ykkur: „Hvað er það í frásögn Alma og fólks hans sem er dæmi um hinn virkjandi kraft friðþægingarinnar?“ Svarið er, að það finnum við með því að bera saman Mósía 3:19 og Mósía 24:15.

„[Losa] sig úr viðjum hins náttúrlega manns og [verða] heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og [verða] sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt, sem Drottni þóknast á hann að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum“ (Mósía 3:19; skáletur hér).

Þegar við þroskumst í ferðinni um hinn dauðlega heim, frá hinu slæma til hins góða og til hins betra, er við losum okkur úr viðjum hins náttúrlega manns, sem í hverju okkar býr, og er við reynum að verða heilög og eðlislægt ástand okkar breytist, þá munu þeir eiginleikar sem tilgreindir eru í versinu verða stöðugt ríkari í persónuleika okkar. Við verðum þá líkari barni, auðmjúkari, þolinmóðari og fúsari til undirgefni.

Skoðið nú þessa eiginleika í ljósi þeirra sem eru í Mósía 3:19, og eru lýsandi fyrir Alma og fólk hans: Og „þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði“ (Mósía 24:15; skáletrað hér).

Mér finnst hliðstæður eiginleikanna í þessum versum vera sláandi og sýna fram á að hið góða fólk Alma hafði tekið framförum með hinum virkjandi krafti friðþægingar Krists Drottins.

Ígrundið frásögnina um Alma og Amúlek í Alma 14. Í henni höfðu margir trúfastir heilagir verið deyddir með eldi og þessir tveir þjónar Drottins höfðu verið barðir og settir í varðhald. Ígrundið bænarákall Alma í fangelsinu: „Ó Drottinn, veit oss styrk til að losna, fyrir trú vora á Krist“ (Alma 14:26; skáletrað hér).

Hér sjáum við líka að Alma sýnir í bæn sinni að hann hefur skilning og trú á hinum virkjandi krafti friðþægingarinnar. Og takið eftir bænheyrslu hans:

„Og þeir [Alma og Amúlek] sprengdu af sér böndin, sem fjötruðu þá. Þegar mennirnir sáu þetta, lögðu þeir á flótta, því að óttinn við tortímingu hafði gripið þá. …

Og Alma og Amúlek komu út úr fangelsinu ómeiddir, því að Drottinn hafði veitt þeim kraft í samræmi við trú þeirra á Krist“ (Alma 14:26, 28; skáletrað hér).

Enn og aftur er hinn virkjandi kraftur skýr er gott fólk berst við hið illa og reynir jafnvel að bæta sig enn frekar og þjóna af meiri árangri „með Drottins styrk.“

Annað dæmi úr Mormónsbók er lærdómsríkt. Í Alma 31 fer Alma fyrir trúboði til að snúa hinum fráhverfu Sóramítum, sem, eftir að hafa byggt sinn Rameumptom, fluttu sína fyrirskipuðu og hræsnisfullu bæn.

Takið eftir bænarákalli Alma um styrk: „Ó Drottinn! Vilt þú veita mér styrk til að bera með þolinmæði þessar þrengingar, sem yfir mig koma vegna misgjörða þessa fólks“ (Alma 31:31; skáletrað hér).

Alma bað þess líka að trúboðsfélagar hans hlytu álíka blessun: „Veit þeim styrk til að bera þrengingar sínar, sem yfir þá munu koma vegna misgjörða þessa fólks“ (Alma 31:33; skáletrað hér).

Alma bað þess ekki að erfiðleikar hans yrðu teknir í burtu. Honum var ljóst að hann var fulltrúi Drottins og bað því um kraft til að takast á við aðstæður sínar.

Lykilatriðið í dæmi þessu er að finna í lokaversi í Alma 31: „Og Drottinn … veitti þeim einnig styrk, svo að allar þrengingar þeirra hyrfu í fögnuði Krists. En svo varð vegna bænar Alma, því að hann baðst fyrir í trú“ (vers 38; skáletrað hér).

Erfiðleikarnir voru ekki teknir í burtu. En Alma og félagar hans hlutu styrk og blessun fyrir hinn virkjandi kraft friðþægingarinnar „svo að allar þrengingar þeirra hyrfu í fögnuði Krists.“ Hve dásamleg blessun. Og hve góða lexíu við getum af þessu dregið.

Dæmi um hinn virkjandi kraft eru ekki aðeins að finna í ritningunum. Daniel W. Jones fæddist árið 1830 í Missouri og gekk til liðs við kirkjuna í Kaliforníu árið 1851. Árið 1856 var hann í björgunarleiðangri handvagnahópanna sem komust í sjálfheldu í Wyoming vegna mikilla snjóþyngsla. Eftir að björgunarmenn höfðu fundið hina illa stöddu heilögu, veitt þeim alla mögulega aðhlynningu og gert ráðstafanir til að flytja mætti hina sjúku og veikburða til Salt Lake City, buðust Daniel og nokkrir aðrir ungir menn til þess að verða eftir til að gæta eigna ferðalanganna. Matur og vistir sem skilin voru eftir hjá Daniel og félögum hans voru af skornum skammti og kláruðust því fljótt. Eftirfarandi tilvitnun úr dagbók Daniels Jones segir frá atburðunum sem á eftir fylgdu.

„Veiðidýrin voru svo naum að við fengum ekkert fangað. Við átum allt rýra kjötið; maður varð svangari af því að borða það. Loks var það uppurið, aðeins skinnið eitt eftir. Við gerðum tilraun með það. Mikið af því var soðið og etið án nokkurs bragðsbætis, sem varð til þess að allur hópurinn veiktist. …

Útlitið var svart, því ekkert var eftir nema rýrt skinnið af sveltandi nautgripum. Við báðum Drottin um leiðsögn um hvað gera skyldi. Bræðurnir mögluðu ekki, heldur settu traust sitt á Guð. … Loks hlaut ég hugljómun um hvernig leysa átti vandann og greindi hópnum frá því hvernig elda skyldi skinnið. Þeir áttu að svíða og skafa af hárin, en það sótthreinsaði og tók í burtu óbragðið af brunanum. Eftir sköfunina átti að sjóða skinnið í miklu vatni, fleyta froðunni ofan af soðvatninu, síðan að skola og skafa það enn betur, þvo upp úr köldu vatni, loks að sjóða það í hlaup, láta það kólna og að endingu eta það með örlitlum stráðum sykri. Þetta var nokkur fyrirhöfn, en við höfðum ekki margt annað að gera og betra en að svelta.

„Við báðum Drottin að blessa maga okkar og gera hann hæfan fyrir slíkt fóður. … Allir virtust nú njóta matarins. Við höfðum ekkert etið í þrjá daga áður en við gerðum þessa aðra tilraun. Við nutum þessarar dýrindis fæðu í um sex vikur.“3

Við slíkar aðstæður hefði ég líklega beðist fyrir um að fá eitthvað annað að eta: „Himneskur faðir, viltu send mér lynghænu eða vísund.“ Mér hefði líklega ekki dottið í hug að biðja þess að magi minn yrði styrktur og gerður hæfur fyrir fæðuna sem neyta átti. Hvaða vitneskju bjó Daniel W. Jones að? Hann þekkti hinn virkjandi kraft friðþægingar Jesú Krists. Hann bað þess ekki að aðstæður hans breyttust. Hann bað þess að hann mætti hljóta styrk til að takast á við aðstæður sínar. Á sama hátt og Alma og fólk hans, Amúlek og Nefí hlutu styrk, þá hlaut Daniel W. Jones andlega hugljómun um hvers hann ætti að biðja í bæn sinni.

Hinn virkjandi kraftur friðþægingar Krists veitir okkur styrk til að gera það sem við að öðrum kosti hefðum alls ekki getað gert. Stundum velti ég fyrir mér hvort okkur í hinum þægilega síðari daga heimi—heimi örbylgjuofna, farsíma, loftkældra bíla og þægilegra heimila—muni einhvern tíma lærast að skilja hina daglegu þörf okkar fyrir hinn virkjandi kraft friðþægingarinnar.

Systir Bednar er dásamlega trúföst og hæf kona, og af hennar látlausa fordæmi hefur mér lærst mikilvæg lexía um hinn virkjandi kraft. Ég fylgdist með er hún þjáðist af mikilli og stöðugri morgunógleði—dag hvern í átta mánuði—á öllum þremur meðgöngutímum sínum. Saman báðum við þess að hún yrðu blessuð, en þessir erfiðleikar voru ekki teknir í burtu. Þess í stað var henni gert kleift að gera það sem hún hefði ekki getað gert á eigin spýtur. Í áranna rás hef ég fylgst með því hvernig hún hefur eflst við að takast á við hæðni og spott frá ákveðnum félagsskap fyrir að fara að leiðsögn spámanns sem Síðari daga heilög kona og hafa fjölskylduna og barnauppeldið í algjöru fyrirrúmi í lífi sínu. Ég þakka og hrósa Susan fyrir að hafa hjálpað mér að læra dýrmæta lexíu.

Frelsarinn þekkir og skilur

Í 7. kapítula Alma lærum við hvernig og hvers vegna frelsaranum er kleift að sjá okkur fyrir hinum virkjandi krafti:

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

„Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:11–12; skáletrað hér).

Frelsarinn hefur ekki aðeins þjáðst fyrir vanmátt okkar, heldur einnig fyrir misréttið, ósanngirnina, sársaukann, angistina og armæðuna sem svo oft hrjáir okkur. Það er enginn líkamlegur sársauki, engin sálarkvöl, engin andleg þjáning, enginn vanmáttur eða veikleiki sem þið eða ég höfum upplifað í ferð okkar um hinn dauðlega heim, sem frelsarinn hefur ekki upplifað á undan okkur. Á stund breyskleika getum við hrópað: „Enginn fær skilið. Enginn fær þekkt.“ Enginn maður fær hugsanlega skilið. En sonur Guðs fær algjörlega skilið og þekkt, því hann upplifði og bar byrðar okkar á undan okkur sjálfum. Og vegna þess að hann reiddi af höndum hið endanlega gjald, hefur hann algjöra samúð með okkur og megnar að rétta okkur miskunnararm sinn á svo mörgum sviðum lífsins. Hann megnar að ná til okkar, snerta okkur og liðsinna—bókstaflega koma skjótt til okkar—og styrkja okkur svo úr okkur verði meira en við hefðum sjálf getað gert og hjálpa okkur að gera það sem við hefðum aldrei getað gert með því að reiða okkur aðeins á sjálf okkur.

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:28–30).

Ég lýsi yfir vitnisburði mínum og þakklæti fyrir hina óendanlegu og eilífu fórn Drottins Jesú Krists. Ég veit að frelsarinn lifir. Ég hef bæði upplifað endurleysandi og virkjandi kraft hans og ber vitni um að kraftur þessi er raunverulegur og aðgengilegur okkur öllum. Við getum vissulega sigrast á öllu „með Drottins styrk,“ er við tökumst á við ferð okkar um hinn dauðlega heim.

Heimildir

  1. Sjá Franklin D. Richards, í Conference Report, okt. 1965, 136–37; sjá einnig David O. McKay, í Conference Report, apríl 1954, 26.

  2. Bible Dictionary, „Grace“; skáletrað hér.

  3. Daniel W. Jones, Forty Years among the Indians (n.d.), 57–58.

Ó minn faðir, eftir Simon Dewey

Teikning eftir Jeff Ward

Teikning eftir Jeff Ward

Hluti af Sjá hendur mínar, eftir Jeff Ward