2013
Hið guðlega hlutverk Jesú Krists: Skapari
október 2013


Boðskapur heimsóknarkennara, október 2013

Hið guðlega hlutverk Jesú Krists: Skapari

Lærið efnið í bænarhug og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar. Frekari upplýsingar eru á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

Jesús Kristur „skapaði himnana og jörðina“ (3 Nephi 9:15). Það gerði hann með krafti prestdæmisins, undir leiðsögn okkar himneska föður (sjá HDP Móse 1:33).

„Hve þakklát við ættum að vera fyrir að vitur skapari hefur búið okkur jörð og sett okkur hér,“ sagði Thomas S. Monson forseti, „… og sveipað okkur gleymskuhulu varðandi fyrri tilveru, svo við gætum upplifað tíma prófrauna, til að sannreyna okkur, svo við mættum verða hæf fyrir allt það sem Guð hefur fyrirbúið okkur.“1 Þegar við notum sjálfræði til að lifa eftir boðorðum Guðs og iðrast, verðum við verðug þess að dvelja hjá honum aftur.

Dieter F. Uchtdorf forseti, annar ráðgjafa í Æðsta forsætisráðinu, sagði um sköpunina:

„Við erum ástæðan fyrir því að hann skapaði alheiminn! …

Þetta er þversögn mannsins: Í samanburði við Guð er maðurinn ekkert; en samt erum við Guði allt.“2 Sú vitneskja að Jesús Kristur hafi skapað jörðina fyrir okkur, því ekkert er honum meira virði en við, stuðlar að auknum kærleika okkar til þeirra.

Úr ritningunum

Jóh 1:3; Hebr 1:1–2; Mósía 3:8; HDP Móse 1:30–33, 35–39; Abraham 3:24–25

Úr sögu okkar

Við erum sköpuð eftir mynd Guðs (sjá HDP Móse 2:26–27) og við búum yfir guðlegum möguleikum. Spámaðurinn Joseph Smith áminnti systurnar í Líknarfélaginu um að „lifa samkvæmt forréttindum [þeirra].“3 Með þessa hvatningu að leiðarljósi, hefur systrunum í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu verið kennt að lifa samkvæmt sínum guðlegu möguleikum, með því framfylgja hinum guðlega tilgangi hvað þær varðar. „Þegar þeim fer að skiljast hverjar þær í raun eru—dætur Guðs, gæddar eðlislægri hæfni til að elska og fóstra—munu þær ná möguleikum sínum sem heilagar konur.“4

„Ykkur veitast nú þær aðstæður að geta starfað samkvæmt þeirri samkennd sem Guð hefur blásið ykkur í brjóst,“ sagði spámaðurinn Joseph Smith. Hve stórkostlegt og dýrðlegt, ef þið lifið samkvæmt þessum reglum!—Englar munu ekki fá haldið að sér höndum við að aðstoða ykkur, ef þið lifið samkvæmt forréttindum ykkar.“5

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „The Race of Life,” Líahóna, maí 2012, 91.

  2. Dieter F. Uchtdorf, „You Matter to Him,” Líahóna, nóv. 2011, 20.

  3. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 171.

  4. Daughters in My Kingdom, 171.

  5. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom, 169.

Hvað get ég gert?

  1. Hvernig getur aukinn skilningur á guðlegu eðli okkar aukið elsku okkar til frelsarans?

  2. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir sköpunarverk Guðs?