2015
Gefa frelsaranum tíma
desember 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, desember 2015

Gefið frelsaranum tíma

Bráðum koma enn ein jólin og nýtt ár rennur í garð. Það virðist sem í gær að við minntumst fæðingar frelsarans síðast og settum markmið um að gera betur.

Var eitt markmiða okkar þetta árið að gefa frelsara okkar meiri tíma og athygli? Hversu vel sem okkur kann að hafa tekist að ná slíku markmiði fram að þessu, er ég samt viss um að við óskum öll að gera enn betur. Á þessum jólum er tilvalið að endurmeta og endurnýja átak okkar.

Í okkar annasama lífi, þar sem svo margt kallar á athygli okkar, er mikilvægt að við tökum meðvitaða og einbeitta ákvörðun um að færa Krist inn í líf okkar og inn á heimili okkar. Mikilvægt er að við, líkt og vitringarnir þrír gerðu, horfum einbeitt á stjörnuna hans og „[veitum] honum lotningu.“1

Boðskapurinn frá Jesú hefur verið hinn sami fyrir kynslóðir allra tíma. Á strönd Galíleuvatns sagði hann við Pétur og Andrés: „Fylgið mér.“2 Til Filippusar barst þetta ákall: „Fylgið mér.“3 Til Levítans, sem sat við tollheimtuna, barst þetta ákall: „Fylgið mér.“4 Og ef við aðeins viljum hlusta, berst þetta sama ákall til okkar allra: „Fylgið mér.“5

Þegar við fylgjum í fótspor hans í dag og líkjum eftir honum, mun okkur gefast kostur á að blessa aðra. Jesús býður að við gefum af okkur sjálfum: „Sjá, Drottinn krefst hjartans og viljugs huga.“6

Er það einhver sem þú ættir að veita þjónustu á þessum jólum? Er það einhver sem bíður eftir heimsókn þinni?

Fyrir mörgum árum fór ég í jólaheimsókn til aldraðrar ekkju. Á meðan ég var þar, hringdi dyrabjallan. Þar var kominn mjög önnum kafinn og þekktur læknir. Ekki hafði verið kallað á hann; það var fremur, að hann hafði fundið hjá sér löngun til að heimsækja sjúkling sem var einmana.

Á þessum tíma, leita hjörtu þeirra sem einmana eru út á við og þeir þrá að fá jólaheimsókn. Ein jólin, þegar ég heimsótti dvalarheimili , sat ég á tali við fimm eldri konur, og sú elsta var 101 árs gömul. Hún var blind, en þekkti samt rödd mína.

„Biskup, þú ert svolítið seinn þetta árið!“ sagði hún. „Ég hélt þú ætlaðir aldrei að koma.“

Við áttum dásamlega stund saman. Einn sjúklingurinn horfði, á hinn bóginn, löngunarfullum augum út um gluggann og endurtók hvað eftir annað: „Ég veit að drengurinn minn mun koma að hitta mig í dag.“ Ég velti fyrir mér hvort hann kæmi, því að á öðrum jólum hafði hann ekki haft samband.

Enn gefst tími á þessu ári til að rétta hjálparhönd, sýna kærleika og vera fús í anda – með öðrum orðum, að fylgja fordæmi frelsarans og þjóna að hans vilja. Þegar við þjónum honum, fer tækifæri okkar ekki forgörðum, líkt og hjá gestgjafanum til forna,7 til að gefa honum tíma og helga honum hjarta okkar.

Fáum við skilið hið dásamlega loforð sem fólst í boðskap engilsins sem gefinn var fjárhirðunum úti í haga: „Ég boða yður mikinn fögnuð. … Yður er í dag frelsari fæddur, … Kristur, Drottinn.“8

Þegar við skiptumst á gjöfum á jólum, ættum við að muna af þakklæti eftir æðstu gjöf allra gjafa og veita henni viðtöku – sem er gjöf frelsara okkar og lausnara, svo við hljótum eilíft líf.

„Því að hvað gagnar það manninum, ef gjöf er honum gefin og hann veitir gjöfinni ekki viðtöku? Sjá, hann gleðst ekki yfir því, sem honum er gefið, né heldur gleðst sá, sem gjöfina gefur.“9

Megum við fylgja og þjóna honum, heiðra hann og veita gjöfum hans viðtöku, svo við getum, líkt og faðir Lehí, fundið „elskandi [arma] hans umlykja [okkur] að eilífu.“10

Hvernig kenna á boðskapinn

Monson forseti býður að „við tökum meðvitaða og einbeitta ákvörðun um að færa Krist inn í líf okkar og inn á heimili okkar.“ Íhugið að ræða ræða við þau sem þið kennið um hvernig þau geti framfylgt þessari ákvörðun sem einstaklingar og fjölskylda. Þið getið íhugað að biðja þau að hugsa um ákveðinn einstakling eða fjölskyldu sem þau geta heimsótt eða þjónað á þessum jólum. „Enn gefst tími á þessu ári til að rétta hjálparhönd, sýna kærleika og vera fús í anda.“