2016
Faðir okkar og lærimeistari
júní 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júní 2016

Faðir okkar og lærimeistari

Hafið þið einhvern tíma opnað kassa með ósamsettum hlutum, virt fyrir ykkur fyrirmælin og hugsað: „Ég fæ ekkert botnað í þessu“?

Þrátt fyrir góðan ásetning og sjálfstraust, þá gætum við virt fyrir okkur einn hlutinn og spurt: „Hvað er þetta?“ eða „hvar getur þetta átt að vera“?

Ergelsi okkar vex svo þegar við skoðum kassann og lesum: „Þarf að setja saman – fyrir 8 ára og eldri.“ Þar sem við höfum enn enga hugmynd, þá hjálpar það ekki upp á sjálfstraustið.

Stundum upplifum við fagnaðarerindið á álíka hátt. Þegar við einblínum á einhvern hluta þess, þá gætum við klórað okkur í hausnum og velt fyrir okkur tilgangi þess hlutar. Þegar við svo skoðum einhvern annan hluta þess, renna á okkur tvær grímur er við höfum lagt mikið á okkur við að skilja hann og botnum samt ekkert í tilgangi hans.

Himneskur faðir er okkar lærimeistari

Til allrar hamingju, þá hefur himneskur faðir séð okkur fyrir dásamlegri leiðsögn til að færa líf okkar í rétt horf og draga það besta fram í okkur. Sú leiðsögn virkar hver sem aldur okkar eða aðstæður eru. Hann hefur séð okkur fyrir fagnaðarerindinu og kirkju Jesú Krists. Hann hefur séð okkur fyrir áætlun endurreisnar, sáluhjálpar og jafnvel hamingju. Hann hefur ekki skilið okkur ein eftir í allri óvissu eða áskorun lífsins og sagt: „Hér hefurðu það. Gangi þér vel. Reyndu að komast til botns í þessu.“

Ef við aðeins sýnum þolinmæði og leitum með auðmjúku hjarta og opnum huga, munum við komast að því að Guð hefur séð okkur fyrir mörgum úrræðum og tækjum til að skilja betur yfirgripsmikla leiðsögn hans fyrir hamingju okkar í þessu lífi:

  • Hann hefur séð okkur fyrir hinni ómetanlegu gjöf heilags anda, sem getur verið okkar himneski einkakennari við að læra orð Guðs og reyna að laga hugsanir okkar og verk að orði hans.

  • Hann hefur séð okkur fyrir aðgangi að sér allan sólarhringinn með trúarbæn og einlægum ásetningi.

  • Hann hefur séð okkur fyrir nútíma postulum og spámönnum, sem opinbera orð Guðs á okkar tíma og hafa vald til að binda eða innsigla á jörðu og á himni.

  • Hann hefur endurreist kirkjuna sína – samfélag trúaðra, sem starfa saman við að hjálpa öðrum, er þeir vinna að eigin sáluhjálp af ótta, lotningu og óviðjafnanlegri gleði.1

  • Hann hefur séð okkur fyrir hinum helgu ritningum – hans ritaða orði til okkar.

  • Hann hefur séð okkur fyrir margþættri tækni, til að hjálpa okkur í hlutverki lærisveinsins. Á LDS.org má finna mörg slík dásamleg tæki.

Af hverju liðsinnir himneskur faðir okkur á svo marga vegu? Af því að hann elskar okkur. Einnig, eins og hann hefur sagt um sig sjálfan: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“2

Með öðrum orðum, þá er himneskur faðir Guð okkar og Guð er lærimeistari okkar.

Himneskur faðir þekkir þarfir barna sinna betur en nokkur annar. Það er hans verk og dýrð að liðsinna okkur í hverju skrefi, sjá okkur fyrir dásamlegum stundlegum og andlegum úrræðum, til að hjálpa okkur á veginum til hans.

Hver faðir er lærimeistari

Sumstaðar í heiminum eru feður heiðraðir af fjölskyldu og samfélagi í júnímánuði. Það er alltaf af hinu góða að heiðra og virða foreldra okkar. Feður gera margt gott fyrir fjölskyldu sína og búa yfir mörgum aðdáunarverðum eiginleikum. Tvö mikilvægustu hlutverk feðra í lífi barna þeirra, er að vera góð fyrirmynd og kennari. Feður gera meira en að segja börnum sínum hvað sé rétt eða rangt. Þeir gera mun meira en að fá þeim kennslubók og vænta þess að þau uppgötvi lífið á eigin spýtur.

Feður kenna sínum dýrmætu börnum og sýna með góðu fordæmi hvernig best er að lifa heiðarlegu lífi. Feður skilja ekki börn sín ein eftir, heldur koma þeim fljótt til hjálpar og reisa þau við í hvert sinn sem þau hrasa. Stundum leyfa feður börnum sínum að heyja baráttuna sjálf, af djúpri visku, því þeim er ljóst að þannig læra þau best.

Við erum öll lærimeistarar

Þótt feður geri þetta fyrir sín eigin börn, þá þurfum við að veita öllum börnum Guðs andlega leiðsögn, hver sem aldur þeirra er, staðsetning eða aðstæður. Hafið í huga að börn Guðs eru bræður okkar og systur, að við tilheyrum öll sömu eilífu fjölskyldunni.

Í þeim skilningi erum við öll lærimeistarar – óðfús að hjálpa öðrum að verða betri manneskjur. Þar sem við erum afsprengi Guðs, þá búum við yfir þeim eiginleika að geta orðið eins og hann er. Að elska Guð og náungann, halda boðorð Guðs og fylgja fordæmi Krists, er hinn krappi, þröngi og gleðiríki vegur sem leiðir okkur aftur í návist okkar himnesku foreldra.

Þar sem Guð alheims lætur sér svo annt um okkur, að hann er okkur lærifaðir, gætum við kannski líka sýnt að við elskum náunga okkar, burt séð frá litarhætti, kynþætti, félagslegum aðstæðum, tungumáli eða trúarbrögðum. Við skulum verða innblásnir lærimeistarar og blessa aðra – ekki aðeins okkar eigin börn, heldur öll börn Guðs, um allan heim.

Hvernig kenna á boðskapinn

Þið getið byrjað á því að biðja þau sem þið kennið að hugleiða um stund hvernig himneskur faðir hefur kennt þeim. Þið getið beðið þau að hugsa um hvernig sú kennsla er lík kennslu þeirra jarðneska föður. Biðjið þau að skrifa hvað er líkt með kennslu þessara tveggja. Þið getið hvatt þau til að líkja eftir því sem þau skrifuðu í viðleitni við að vera öðrum betra fordæmi.