2017
„Eins og ég hef elskað yður‘
febrúar 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2017

„Eins og ég hef elskað yður“

Fyrir nokkrum árum, sagði vinur minn að nafni Louis, mér fallega frásögn um sína ljúfu og alúðlegu móður. Þegar hún lést, skildi hún ekki eftir sig auðæfi eða stórfé handa sonum sínum og dætrum, heldur ríkulegt fordæmi fórnar og hlýðni.

Eftir að útfararræðan hefði verið flutt og líkfylgdin í kirkjugarðinn afstaðin, fóru uppvaxin börnin í gegnum þær fábrotnu eigur sem móðir þeirra skildi eftir sig. Louis rak augun í áritaðan miða og lykil meðal þeirra. Á miðanum stóð: „Í neðstu kommúðuskúffunni í enda-svefnherberginu er lítill kistill. Í honum eru mínir mestu dýrgripir. Lykillinn er til að aflæsa kistlinum.“

Öll furðuðu þau sig á því hvað það væri sem var móður þeirra svo dýrmætt að hún hafði það í læstum kistli.

Kistillinn var tekinn úr skúffunni og opnaður varlega með lyklinum. Þegar Louis og systkini hans skoðuðu það sem í kistlinum var, fundu þau ljósmyndir af hverju systkinanna, með nafni þeirra og fæðingardegi. Louis dró síðan fram heimatilbúið valentínusarkort. Orðin voru skrifuð 60 árum áður, með óþroskaðri barnshendi, sem hann þekkti sem sína eigin skrift: „Kæra mamma, ég elska þig.“

Hjörtu urðu meyr, raddir mildar og augu rök. Gersemar móður þeirra var hennar eilífa fjölskylda. Verðmæti þeirra grundvallaðist í orðunum: „Ég elska þig.“

Í heimi nútímans er hvergi meiri þörf fyrir slíka kærleiks kjölfestu en á heimilinu. Hvergi hér í heimi ætti slík kærleiks kjölfesta að eiga betur við en á heimilum Síðari daga heilagra, sem hafa gert kærleikann að kjarna fjölskyldulífs þeirra.

Jesús Kristur sagði þessi víðtæku orð við þá sem játast sem lærisveinar hans:

„Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.

Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“1

Ef við hyggjumst halda boðorðið um að elska hver annan, þá verðum við að sýna hvert öðru vinsemd og virðingu, sýna elsku okkar í daglegum samskiptum. Kærleikurinn býður ljúft orð, þolinmótt viðmót, óeigingjarnt verk, skilningsríkt eyra, fyrirgefandi hjarta. Í öllum okkar samskiptum, munu þessir og aðrir eiginleikar sýna að við höfum kærleika í hjarta.

Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) sagði: „Kærleikurinn… er gullkistan við enda regnbogans. Hann er þó meira en endir regnbogans. Kærleikurinn er líka upphaf regnbogans, og frá honum öllum endurspeglast fegurð himins á stormasömum degi. Kærleikurinn er öryggið sem börn og unglingar þrá, límið sem heldur hjónabandinu saman og smurefnið sem kemur í veg fyrir hörmulegan núning á heimilinu; hann er friður efri ára, vonarljósið sem skín í gegnum dauðann. Hve blessaðir eru þeir sem njóta hans í samskiptum við fjölskyldu, vini, kirkju og nágranna.“2

Kærleikurinn er kjarni fagnaðarerindisins, göfugasti eiginleiki mannssálarinnar. Kærleikur er lækning fyrir þjáðar fjölskyldur, veik samfélög og sjúkar þjóðir. Kærleikur er bros, kær kveðja, ljúf ábending og hrós. Kærleikur er fórn, þjónusta og óeigingirni.

Eiginmenn, elskið eiginkonu ykkar. Sýnið henni virðingu og þakklæti. Systur, elskið eiginmann ykkar. Heiðrið hann og hvetjið.

Foreldrar, elskið börn ykkar. Biðjið fyrir þeim, kennið og vitnið. Börn, elskið foreldra ykkar. Sýnið þeim virðingu, þakklæti og hlýðni.

Mormón segir, að án hinnar hreinu ástar Krists, séum við „ekkert.“3 Ég bið þess að við megum fylgja þessari leiðsögn Mormóns: „Biðjið … til föðurins … af öllum hjartans mætti, að [við megum] fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að [við megum] verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir.“4

Hvernig kenna á boðskapinn

Monson forseti kennir mikilvægi þess að sýna sanna kristilega elsku, einkum á heimilinu. Hugleiðið að biðja þau sem þið heimsækið að koma saman sem fjölskylda til að ræða hvernig þau geti betur sýnt elsku til hver annars. Þið getið hvatt þau til að velja eina þessara ábendinga og einsetja sér að vinna að henni sem fjölskylda. Fjölskyldumeðlimir geta t.d. boðist til að gera eitthvað óvænt þjónustuverk fyrir einhvern í fjölskyldunni í hverri viku. Þið getið beðið þau að ígrunda síðar hvernig það jók elsku þeirra á heimilinu að keppa að þessu markmiði.