2019
Það sem jólasagan kennir um hirðisþjónustu
Desember 2019


Reglur hirðisþjónustu, desember 2019

Það sem jólasagan kennir um hirðisþjónustu

„Þetta er árstíðin öllum svo kær! Allir nú syngi, því jól eru nær. Fæðingarsagan sé þýð þakkargjörð, því Jesús fæddist sem barn hér á jörð“ („Söngurinn við jötuna,“ Barnasöngbókin, 32).

Ljósmynd
ministering

Hluti af Sjá, Guðslambið, eftir Walter Rane

Jólin eru dásamlegur tími, þegar sauðir, hirðar, jötur og stjörnur taka skyndilega á sig nýja merkingu. Þau gegna mikilvægu hlutverki í frásögn eins mikilvægasta atburðar mannkynssögunnar, fæðingu Jesú Krists. Margar fjölskyldur hafa uppstillingu af jólasögunni á heimilum sínum. Aðrar kenna með því að lesa söguna um fæðingu hans eða taka þátt í jólaleikriti. Sagan um fæðingu Krists er, líkt og á við um allar frásagnir um hann, rík af visku sem við getum lært um hirðisþjónustu, um að miðla heiminum ljósi hans. „Jólasagan er kærleikssaga,“ sagði Henry B. Eyring forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu.

„… Í sögunni um fæðingu Krists fáum við séð og fundið hver hann var og er. Það léttir okkur lífsins byrði. Það fær okkur líka til að gleyma okkur sjálfum og létta byrði annarra.“1

„Eigi var rúm handa þeim í gistihúsi“ (Lúkas 2:7).

Eiganda gistihússins ljáðist að búa til rými fyrir frelsarann, en við þurfum ekki að gera þau mistök! Við getum gefið frelsaranum rúm í hjörtum okkar með því að gefa bræðrum okkar og systrum rúm við borð okkar, á heimilum okkar og í hefðum okkar. Margar fjölskylduhefðir mætti gera ljúfari og jafnvel minnisstæðari með því að hafa aðra með í þeim. Daiana og fjölskylda hennar hafa að hefð að bjóða einhverjum að verja jólunum með þeim. Í hverjum desember ræða þau og ákveða hverjum þau vilja bjóða.2 Fjölskylda ykkar gæti kannski líka komið á álíka hefð. Kannski gæti einhver sem þið annist í hirðisþjónustu notið þess að vera með fjölskyldu ykkar við sameiginlegan jólasöng. Þið gætuð líka búið til rými við jólaborð ykkar, fyrir einhvern sem ekki á fjölskyldu á svæðinu.

Er til betri leið til að fagna frelsaranum en að fylgja fordæmi hans um að hafa aðra með? Minnist þess að hann „býður … öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu …, allir eru jafnir fyrir Guði, jafnt Gyðingar og Þjóðirnar“ (2. Nefí 26:33). Búið til rými og hafið aðra með

„En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar“ (Lúkas 2:8)

Það hæfir vel að hirðar voru meðal hinna fyrstu til að fagna hinum nýfædda frelsara. Fornir spámenn vísuðu til Jesú Krists sem „[hirðis] Ísraels“ (Sálmar 80:1) og sem „[hirðis] yfir allri jörðunni“ (1. Nefí 13:41). Kristur sagði sjálfur: „Ég er góði hirðirinn og þekki mína sauði“ (Jóhannes 10:14). Að þekkja sauði okkar og vaka yfir þeim, eru lykilatriði umönnunar og þjónustu að hætti frelsarans.

Það er margt sem ber fyrir augað á jólum, skrautljós og fallegar skreytingar. Mesta fegurð jólanna felst kannski öllu heldur í því að muna eftir að beina athygli okkar að þeim sem okkur er ætlað að þjóna og vaka yfir eigin hjörð. Að vaka yfir, gæti verið að bera kennsl á eftirlætisrétt einhvers eða spyrja um jólaáform einhvers. Við vökum yfir öðrum þegar við sjáum og uppfyllum þarfir annarra – bæði hið augljósa og hið síður augljósa.

Þegar Cheryl missti eiginmann sinn, Mick, sviplega, var hún niðurbrotin. Þegar fyrstu jólin án hans nálguðust, fann hún til stöðugt meiri einmannaleika. Til allrar lukku, þá var hirðisþjónn hennar, systir Shauna, til staðar. Shauna og eiginmaður hennar, Jim, buðu Cheryl oft í skemmtiferðir um hátíðirnar. Þau tóku eftir snjáðri úlpu Cheryl og ákváðu að gera eitthvað í því. Nokkrum dögum fyrir jól keyptu Shauna og Jim jólagjöf handa Cheryl, nýja, fallega úlpu. Þau voru meðvituð um þörf Cheryl fyrir hlýja úlpu, en líka um tilfinningalega þörf hennar fyrir félagskap og hughreystingu. Þau lögðu á sig að uppfylla þessar þarfir eins vel og þau gátu og voru dásamlegt fordæmi um það hvernig við getum líka vakað yfir hjörð okkar.3

„Hirðarnir [sögðu] sín á milli: Förum beint til Betlehem“ (Lúkas 2:15)

„Förum beint“ er hvetjandi boð! Hirðarnir gerðu ekki ráð fyrir að vinir þeirra væru of þreyttir til að leggja á sig ferðina. Þeir héldu ekki til Betlehem hver fyrir sig svo lítið bæri á. Þeir snéru til hver annars og sögðu: „Förum beint til Betlehem!

Þótt við getum ekki boðið vinum okkar að fara til að sjá frelsarann nýfæddan, þá getum við boðið þeim að finna anda jólanna (eða anda Krists) með því að þjóna með okkur. „Við aukum anda jólanna með því að liðsinna örlátlega þeim sem umhverfis eru og gefa af okkur sjálfum,“ sagði Bonnie L. Oscarson, fyrrverandi aðalforseti Stúlknafélagsins.4 Ímyndið ykkur að þið haldið á kerti. Aðrir geta vissulega séð og notið ljóssins af kerti ykkar, en ímyndið ykkur hlýjuna sem þeir fyndu ef þið tendruðuð þeirra kerti með ykkar og gerðuð þeim kleift að halda sjálfum á ljósinu.

Kristur kenndi sjálfur að þeir sem fylgja honum, munu hafa ljós lífsins (sjá Jóhannes 8:12). Að þjóna eins og hann gerði, er ein leið til að fylgja honum og njóta þessa fyrirheitna ljóss. Miðlið því ljósinu með því að bjóða öðrum að þjóna með ykkur! Hvernig getið þið og þeir sem ykkur er falið að annast þjónað saman? Þið getið búið til eftirlætis réttinn ykkar saman eða komið einhverjum á óvart með lítilli gjöf eða fallegum texta. Saman getið þið fundið ljósið sem stafar af því að fylgja fordæmi Krists um þjónustu.

„Þeir [skýrðu] frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta“ (Lúkas 2:17)

Það er auðvelt að gera sér í hugarlund gleði og eftirvæntingu hirðanna, er þeir sögðu eins mörgum og unt var frá hinum dásamlegu tíðindum um fæðingu Krists. Englar gerðu það ljóst að hinn fyrirheitni Messías væri fæddur! Hann var hér! Að segja frá hinum góðu tíðindum um frelsarann, er í raun stór þáttur jólasögunnar. Englarnir sungu. Stjarnan vísaði veg. Hirðarnir sögðu öllum frá.

Við getum sagt frá jólasögunni með því að miðla hinum góðu tíðindum og vitna um frelsarann. Systir Jean B. Bingham, aðalforseti Líknarfélagsins, kenndi: „Þegar þið fáið tækifæri til að vera fulltrúar frelsarans, spyrjið ykkur þá sjálf: ,Hvernig get ég deilt ljósi fagnaðarerindisins með þessum einstaklingi eða fjölskyldu?‘“ „Hvað er andinn að hvetja mig til að gera?“5

Hér eru nokkrar ábendingar til hugleiðingar, er þið reynið að finna út hvernig þið gætuð miðlað vitnisburði ykkar um frelsarann og fagnaðarerindi hans:

  • Finnið ritningarvers sem lýsir tilfinningum ykkar til frelsarans eða segið frá ástæðum þess að þið eruð frelsaranum þakklát. Miðlið þessu þeim sem ykkur er falið að þjóna.

  • Sendið textaboð eða boðskap á samfélagsmiðlum með jólamyndbandi. Það eru dásamleg myndbönd á ChurchofJesusChrist.org!

  • Segið vini frá sérstakri minningu eða hefð sem minnir ykkur á Krist.

Hafið trú á því að heilagur andi muni vitna um sannleika vitnisburðar ykkar, á sama hátt og hann vitnaði fyrir Símeon og Önnu um að barnið Jesú væri frelsarinn (sjá Lúkas 2:26, 38).

„Við þurfum að gera eins og hann gerði, til að heiðra komu [Jesú Krists] í heiminn með sanni, og ná til samferðafólks okkar í samúð og miskunn,“ sagði öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni. Það getum við gert daglega í orði og verki. Látum það verða okkar jólahefð, hvar sem við erum – að verða örlítið vingjarnlegri, fúsari til að fyrirgefa, ekki eins dómhörð, þakklátari og örlátari við að deila gnægð okkar með hinum nauðstöddu.“6