2020
Nota sakramentissamkomu til hirðisþjónustu
Júní 2020


„Nota sakramentissamkomu til hirðisþjónustu,“ Líahóna, júní 2020

Ljósmynd
hirðisþjónusta

Myndskreyting eftir Edward McGowan

Reglur hirðisþjónustu, júní 2020

Nota sakramentissamkomu til hirðisþjónustu

Sakramentissamkoma veitir tækifæri til að tengjast og þjóna öðrum.

Sakramentissamkoma er tími andlegrar næringar og persónulegrar ígrundunar um frelsarann og friðþægingu hans. Við byggjumst upp saman þegar við meðtökum sakramentið í hverri viku (sjá Kenning og sáttmálar 84:110). Sumir í deildum okkar og greinum koma þangað með þungar byrðar eða koma alls ekki.

Hér eru nokkrar leiðir til að nota þá helgu stund til að þjóna og liðsinna öðrum.

Stuðla að því að sakramentissamkoma verði betri fyrir þá sem þið þjónið

Fyrsta skrefið til að læra hvernig þjóna á, er með því að þekkja einstaklingana eða fjölskyldurnar og þarfir þeirra. Það gæti mögulega stuðlað að bættri tilbeiðslu þeirra á sakramentissamkomu, ef þið einfaldlega kynnist þeim betur.

Einföld breytni systur sem þjónaði Mindy, ungri móður tvíbura, gerði gæfumuninn fyrir hana í hverri viku á sakramentissamkomu.

„Sökum vinnutíma eiginmanns míns, fer ég einsömul með tvíburadætur mínar í kirkju í hverri viku,“ sagði Mindy. „Það er heilmikil vinna að reyna að komast í gegnum sakramentissamkomu með tvo litla ólátabelgi, en systirin sem þjónar mér hefur af sjálfsdáðum einsett sér að hjálpa mér.

Hún situr hjá okkur í hverri viku og hjálpar mér að hafa ofan af fyrir stúlkunum. Það skiptir miklu máli fyrir mig að hafa hana við hlið mér og ég verð síður óróleg þegar þær verða með læti. Ég held að hún muni aldrei vita hve þessi breytni hennar hefur haft mikil áhrif á mig á þessum tíma í lífi mínu. Hún sá þörf mína sem ungrar, áhyggjufullrar móður og hjálpar til við að gera veru okkar allra í kirkju að gleðilegri upplifun.“

Ábendingar um hvernig hjálpa má þeim sem hafa sérstakar þarfir

  • Gerið leiðtogum öldungasveita og Líknarfélags grein fyrir þörfum meðlima.

  • Leiðtogar geta valið ræðuefni fyrir sakramentissamkomur til að uppfylla þarfir meðlims. Ef sá eða sú sem þið þjónið hefði gagn af því að hlýða á ákveðinn boðskap, greinið þá leiðtogum ykkar frá því.

  • Ef þið vitið af einhverjum sem á við fötlun að stríða eða er með fæðuofnæmi sem kemur í veg fyrir að hann eða hún fái notið blessana sakramentis, fáið þá upplýsingar og einnig hvað væri hægt að gera til að bæta upplifun þeirra á samkomu. Miðlið leiðtogum ykkar þessum upplýsingum.

  • Ef einhver sem þið þjónið eða vitið af er bundinn heima við, hvort heldur varanlega eða tímabundið, spyrjið þá biskup ykkar hvort færa megi þeim sakramentið heim. Þið gætuð jafnvel skrifað efnispunkta á sakramentissamkomu og miðlað þeim með síma, netpósti eða í eigin persónu.

  • Ef einhver sem þið þjónið á ung börn, gætuð þið boðið fram hjálp á sakramentissamkomu.

  • Ef þeir sem þið þjónið koma ekki oft á sakramentissamkomu, reynið þá að skilja ástæðu þess og finna leiðir til hjálpar. Ef þau þurfa akstur, gætið þið boðið þeim far. Ef þeim finnst þau ekki njóta stuðnings eigin fjölskyldu, gætuð þið boðist til að sitja hjá þeim. Þið gætuð boðið þeim sérstaklega, svo að þau finni sig velkomin og kærkomin á sakramentissamkomu.

Munið að einfalt vinarbragð gerir mikið gagn

Systir Jean B. Bingham, aðalforseti Líknarfélagsins, sagði um hirðisþjónustu: „Stundum höldum við að við verðum að gera eitthvað stórkostlegt og djarflegt til að það ,gildi‘ sem þjónusta við náungann. Samt getur einföld þjónusta haft djúp áhrif á aðra - og á okkur sjálf.“1

Í fámennri deild í Belgíu býðst Evita oft til að túlka fyrir spænskumælandi gesti og meðlimi á kirkjusamkomum. Einhverju sinni var Evita kynnt fyrir einhverjum frá Dóminíska lýðveldinu, sem var að læra um kirkjuna. Hann kunni einhverja ensku, en spænska var móðurmál hans. Evita bauðst því til að túlka hljóðlega fyrir hann á sakramentissamkomu, honum til þæginda.

„Túlkunin getur stundum gert hvíldardaginn svolítið erilsaman,“ segir Evita. „Þegar ég þó fylgi hugboðum um að spyrja aðra hvort þeir þurfi túlkun, veitir það mér vissulega gleði og ánægju að vita að ég get hjálpað þeim að finna andann og njóta samkomunnar.“

Hugmyndir til að hjálpa með einföldu vinarbragði

  • Ræðið við leiðtoga ykkar til að vita hver gæti þurft á örlítið meiri þjónustu að halda á sakramentissamkomu. Ef þið aftur á móti þekkið einhvern sem hefur þörf fyrir hana, tryggið þá að leiðtogar ykkar viti af þeim.

  • Sitjið hljóð þegar þið bíðið þess að samkoman hefjist. Það mun hjálpa „öðrum brostnum hjörtum og syrgjandi öndum umhverfis okkur,“2 sem þarfnast friðarins sem hlotnast getur með lotningu á helgum stöðum.

  • Íhugið á föstusunnudegi að helga föstu ykkar og bænir einhverjum sem þið þjónið, er þarfnast sérstakrar umhyggju.

  • Biðjið til að vita hvort það sé einhver sem gæti haft gagn af því að þið sitjið hjá honum eða henni á sakramentissamkomu eða hvort þið getið hjálpað á annan hátt.

Sakramentissamkoma getur verið öllum kærkominn staður

Joseph Fielding Smith forseti (1876–1972) kenndi: „Að mínu mati er sakramentissamkoma helgasta samkoma kirkjunnar.“3 Þess vegna er mikilvægt að tryggja að öllum sem mæta á sakramentissamkomu finnist þeir velkomnir og andlega nærðir – einkum nýir meðlimir eða meðlimir sem ekki hafa komið um hríð.

Merania, frá New South Wales, Ástralíu, myndaði vinskap við konu sem var að læra um kirkjuna í deild hennar. „Hún er nú orðin ein kærasta vinkona mína,“ segir Merania. „Ég nýt þess að sitja hjá henni í hverri viku á sakramentissamkomu og spyr alltaf hvernig hún hafi það og hvort ég geti á einhvern hátt hjálpað henni.“ Að nokkrum tíma liðnum, lét vinkona Meraniu skírast. Framlag deildarmeðlima, sem og hið kærleiksríka andrúmsloft á sakramentissamkomu, átti stóran þátt í þeirri ákvörðun hennar.

Hugmyndir til að þjóna nýjum meðlimum eða meðlimum sem koma aftur

  • Þegar þið flytjið ræðu á sakramentissamkomu, gætuð þið boðið vinum, fjölskyldu og öðrum að koma og hlýða á boðskap ykkar.

  • Þið getið gætt að þeim sem eru einir eða gætu þarfnast liðsinnis og boðið þá velkomna. Spyrjið hvort þið getið setið hjá þeim eða bjóðið þeim að sitja hjá ykkur.

  • Þegar samkomu lýkur, gætuð þið boðið þeim sem þið þjónið og öðrum á væntanlegan kirkjuviðburð, í musterið eða í félagsstarf.

  • Ef einhverjir sem þið þjónið sækja sakramentissamkomu, en hafa ekki komið um hríð, getið þið spurt hvort þau hafi einhverjar spurningar um það sem kennt var. Segið að þeim sé ætíð velkomið að koma til ykkar, ef þau hafa ekki skilið eitthvert hugtak, sögu eða kenningu. Þið getið leitað svaranna saman, ef nauðsyn krefur.

Heimildir

  1. Jean B. Bingham, „Þjónum eins og frelsarinn,“ aðalráðstefna apríl 2018.

  2. Jeffrey R. Holland, „Sjá, Guðslambið,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  3. Joseph Fielding Smith, í Conference Report, október 1929, 60–61.