Ritningar
Kenning og sáttmálar 21


21. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Fayette, New York, 6. apríl 1830. Þessi opinberun var gefin við stofnun kirkjunnar á fyrrgreindum degi á heimili Peters Whitmer eldri. Sex menn, sem áður höfðu verið skírðir, tóku þátt í þessu. Þeir létu samhljóða þá ósk og ákvörðun í ljós, að stofna kirkjuna í samræmi við fyrirmæli Guðs (sjá kafla 20). Þeir samþykktu einnig og studdu Joseph Smith yngri og Oliver Cowdery sem ráðandi embættismenn kirkjunnar. Með handayfirlagningu vígði Joseph Oliver síðan til öldungs kirkjunnar, og Oliver vígði Joseph á sama hátt. Eftir veitingu sakramentisins lögðu Joseph og Oliver hendur yfir viðstadda, hvern fyrir sig, til veitingar heilags anda og til staðfestingar hvers þeirra sem meðlims kirkjunnar.

1–3, Joseph Smith er kallaður til að vera sjáandi, þýðandi, spámaður, postuli og öldungur; 4–8, Orð hans mun leiða málstað Síonar; 9–12, Hinir heilögu munu trúa orðum hans, eins og hann mælir þau með huggaranum.

1 Sjá, heimildaskrá skal haldin meðal yðar, og í henni verður þú nefndur sjáandi, þýðandi, spámaður, postuli Jesú Krists og öldungur kirkjunnar fyrir vilja Guðs föðurins og náð Drottins yðar Jesú Krists —

2 Innblásinn af heilögum anda til að leggja grundvöll hennar og byggja hana upp til hinnar helgustu trúar —

3 Þá kirkju, sem skipulögð var og stofnuð á því herrans ári átján hundruð og þrjátíu, í fjórða mánuði og á sjötta degi þess mánaðar, sem nefndur er apríl.

4 Þess vegna skuluð þér, það er kirkjan, gefa gaum að öllum orðum hans og fyrirmælum, sem hann gefur yður þegar hann meðtekur þau, gangandi í fullum heilagleika frammi fyrir mér —

5 Því að hans orði skuluð þér taka á móti með fullkominni þolinmæði og trú, sem kæmi það af mínum eigin munni.

6 Því að gjörið þér það, munu hlið heljar eigi á yður sigrast. Já, og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar.

7 Því að svo segir Drottinn Guð: Hann hef ég innblásið til að flytja málstað Síonar með máttugum krafti til góðs, og kostgæfni hans þekki ég og bænir hans hef ég heyrt.

8 Já, grát hans yfir Síon hef ég séð og ég mun ekki láta hann gráta hana lengur, því að fagnaðardagar hans eru upp runnir, því að syndir hans eru honum fyrirgefnar og blessun mín hvílir á verkum hans.

9 Því að sjá, ég mun blessa alla þá sem erfiða í víngarði mínum máttugri blessun, og þeir skulu trúa á orð hans, sem ég gef honum með huggaranum, sem vitnar að Jesús var krossfestur af syndugum mönnum vegna synda heimsins, já, til fyrirgefningar synda hins sáriðrandi hjarta.

10 Þess vegna er það mér þóknanlegt, að þú, Oliver Cowdery postuli minn, vígir hann —

11 Þetta er helgiathöfn fyrir þig, að þú sért öldungur undir hans stjórn, þar sem hann er framar þér, og að þú megir vera öldungur þessarar kirkju Krists, sem ber nafn mitt —

12 Og fyrsti prédikari þessarar kirkju, fyrir kirkjuna og frammi fyrir heiminum, já, og frammi fyrir Þjóðunum. Já, og svo mælir Drottinn Guð, heyr og tak eftir!, einnig til Gyðinganna. Amen.