Námshjálp
ÞJS, 1. Mósebók 9


ÞJS, 1. Mósebók 9:4–6. Samanber 1. Mósebók 8:20–22

Eftir flóðið bað Nói Drottin að bölva ekki jörðinni aftur.

4 Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu, og færði Drottni þakkir, og fagnaði í hjarta sér.

5 Og Drottinn talaði til Nóa, og blessaði hann, og Nói kenndi þægilegan ilm, og hann sagði við sjálfan sig

6 Ég mun ákalla nafn Drottins, að hann muni ekki bölva jörðinni framar sökum mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans; og að hann muni upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og hann hafi gjört. Meðan jörðin stendur;

ÞJS, 1. Mósebók 9:10–15. Samanber 1. Mósebók 9:4–9

Maðurinn verður ábyrgur fyrir að úthella blóði dýra og manna. Guð gerir sama sáttmála við Nóa og syni hans og hann gerði við Enok.

10 En blóði alls holds, sem ég hef gefið yður til fæðu, skal úthellt á jörðu, sem fær líf þar af, en blóðið skuluð þér ekki eta.

11 En vissulega skal blóði ekki úthellt, nema aðeins til fæðu, til að bjarga lífi yðar. Og blóðs hverrar skepnu mun ég krefjast af yðar hendi.

12 Og hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða, því að maðurinn skal ekki mannsblóði úthella.

13 Því að boðorð gef ég yður: Að hver mannsins bróðir skal varðveita líf mannsins, því að í minni eigin mynd hef ég gjört manninn.

14 Og boðorð gef ég yður: Verið frjósöm og margfaldist. Ávaxtist ríkulega á jörðu og margfaldist á henni.

15 Og Guð talaði til Nóa og sona hans, sem með honum voru, og sagði: Og ég, sjá, ég gjöri sáttmála minn við yður, sem ég gjörði við föður yðar, Enok, varðandi niðja yðar eftir yður.

ÞJS, 1. Mósebók 9:21–25. Samanber 1. Mósebók 9:16–17

Guð setur regnbogann á himininn, til að minna á sáttmála hans við Enok og Nóa. Á síðustu dögum mun allsherjarsamkoma kirkju frumburðarins sameinast hinum réttlátu á jörðu.

21 Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins ævarandi sáttmála, sem ég gjörði við föður yðar Enok; að þegar menn haldi öll boðorð mín, muni Síon koma aftur til jarðar, borg Enoks, sem ég tók upp til mín.

22 Og þetta er ævarandi sáttmáli minn, að þegar niðjar yðar umfaðma sannleikann, og líta upp, þá mun Síon líta niður, og allir himnarnir munu bærast af gleði, og jörðin mun titra af fögnuði —

23 Og allsherjarsamkoma kirkju frumburðarins mun koma niður af himni og eignast jörðina, og eiga þar stað þar til endirinn kemur. Og þetta er ævarandi sáttmáli minn, sem ég gjörði við föður yðar, Enok.

24 Og boginn skal standa í skýjum, og ég mun staðfesta sáttmála minn við yður, sem ég hef gjört milli mín og yðar, fyrir allar lifandi skepnur af öllu holdi, sem verða munu á jörðu.

25 Og Guð sagði við Nóa: Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hef gjört milli mín og yðar, fyrir allt hold sem verða mun á jörðu.