2010–2019
Hið sannfærandi vitni Guðs Mormónsbók
Október 2017


Hið sannfærandi vitni Guðs Mormónsbók

Mormónsbók er sannfærandi vitni Guðs um guðleika Jesú Krists, spámannsköllun Josephs Smiths og hinn algera sannleik þessarar kirkju.

Mormónsbók er ekki einungis hyrningarsteinn trúar okkar, heldur getur hún einnig orðið að hyrningarsteini vitnisburðar okkar, þannig að þegar erfiðleikar bjáta á eða okkur reynist ekki unnt að svara spurningum, getur hún stutt vitnisburð okkar. Bók þessi er lóð á vogarskál sannleikans og vegur þyngra en samanlögð röksemdalóð gagnrýnenda. Hvers vegna? Því ef hún er sönn, þá var Joseph Smith spámaður og þetta er hin endurreista kirkja Jesú Krists, sama hvað söguleg eða önnur rök hníga í hina áttina. Af þeirri ástæði vilja gagnrýnendur afsanna Mormónsbók, en hindranir þeirra eru gríðarlegar, vegna þess að bókin er sönn.

Í fyrsta lagi verða gagnrýnendur að útskýra hvernig Joseph Smith, 23 ára sveitapiltur með takmarkaða menntun, skapaði bók með hundruði einstæðra nafna og staðarheita, sem og greinargóðar frásagnir og atburði. Í samræmi við það segja gagnrýnendur að hann hafi verið skapandi snillingur sem studdist við fjölda bóka og aðra miðla við að skapa sögulegt innihald Mormónsbókar. Í andstöðu við fullyrðingar þeirra er ekki til eitt einasta vitni sem segist hafa séð Joseph Smith með slíkar heimildir áður en hann hóf að þýða.

Þótt fullyrðingarnar væru samt sannar, þá næði það engan veginn til að útskýra tilvist Mormónsbókar. Menn þurfa líka að svara þessari spurningu: Hvernig gat Joseph lesið allar þessar hugsanlegu heimildir, síað út það sem minna máli skipti, viðhaldið flóknum staðreyndum, eins og hver var hvar og hvenær, og síðan að lesa allt fyrir eftir fullkomnu minni? Því þegar Joseph þýddi, hafði hann alls engar glósur. Reyndar minnist kona hans, Emma: „Hann hafði hvorki handrit, né bók til að lesa úr. … Ef hann hefði haft eitthvað því um líkt, hefði hann ekki getað falið það fyrir mér.“1

Hvernig tókst Joseph því að framkvæma hið undraverða afrek að lesa fyrir rúmlega 500 blaðsíður án þess að hafa nokkra minnispunkta? Til að geta það, hlýtur hann ekki aðeins að hafa verið skapandi snillingur, heldur einnig að hafa haft gífurlega umfangsmikið ljósmyndaminni. Sé þetta satt, hvers vegna benda gagnrýnendur hans þá ekki á þennan merkilega hæfileika?

Það er meira. Rök þessi eiga eingöngu við um sögulegt innihald bókarinnar. Spurningin er samt enn til staðar: Hvernig gat Joseph framleitt bók sem geislar af andanum og hvaðan hlotnaðist honum slíkar djúpar kenningar sem margar hverjar útskýra eða eru í andstöðu við trú kristinna manna á hans tíma?

Til dæmis kennir Mormónsbók, í andstöðu við trú flestra kristinna manna, að fall Adams hafi verið jákvætt skref fram á við. Hún sýnir sáttmálana sem gerðir eru við skírn og ekki er minnst á í Biblíunni.

Auk þess mætti spyrja: Hvaðan hlotnaðist Joseph Smith hið kraftmikla innsæi að Kristur getur, sökum friðþægingar hans, ekki aðeins hreinsað okkur heldur einnig fullkomnað okkur? Hvaðan hlotnaðist honum hin undurfagra trúarræða í Alma 32? Hvað þá með ræðu Benjamíns konungs varðandi friðþægingu frelsarans, sem er hugsanlega fegursta trúarræða um þetta málefni í öllum ritningunum? Hvaðan kemur samlíkingin við ólífutréð í öllum sínum flókna og kenningarlega glæsileika? Þegar ég les þessa samlíkingu, þarf ég að búta hana niður til að skilja flókið eðli hennar. Eigum við því að trúa að Joseph Smith hafi bara lesið upp þessar trúarræður úr huganum án nokkurra minnispunkta?

Andstætt við slíka niðurstöðu sjáum við fingur Guðs í gjörvallri Mormónsbók, sem birtist í stórkostlegum kenningarlegum sannleik, sérstaklega í hinum ríku trúarræðum um friðþægingu Jesú Krists.

Ef Joseph væri ekki spámaður, verða gagnrýnendur að staðhæfa að hann hafi einnig verið snillingur í guðfræði, til að geta útskýrt ræðurnar og ýmislegt annað kenningarlegt innsæi. Ef það væri tilfellið, þá mætti spyrja: Hvers vegna var Joseph eini maðurinn í 1.800 ár eftir þjónustu frelsarans til að framleiða slíkan fjölda af einstökum og skírum kenningum? Vegna þess að það var opinberun, ekki snilli, sem var uppspretta bókarinnar.

Ef við gerum samt ráð fyrir að Joseph hafi verið skapandi og guðfræðilegur snillingur með ljósmyndaminni, þá gera þessir hæfileikar, einir og sér, hann ekki að færum rithöfundi. Til að útskýra tilvist Mormónsbókar verða gagnrýnendur einnig að staðhæfa að Joseph hafi verið fær rithöfundur af náttúrunnar hendi 23ja ára gamall. Hvernig gæti hann annars fléttað saman fjölda nafna, staðarheita og atvika í heildstætt verk án nokkurs ósamræmis? Hvernig gat hann skráð niður hernaðaráætlanir, samið flóknar trúarræður og skapað setningar sem milljónir manna merkja við, vitna í og hengja á kæliskápshurðina hjá sér, eins og „þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar,” (Mósía 2:17) eða „menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta” (2 Ne 2:25). Þetta eru skilaboð með hjartslætti - skilaboð sem lifa og anda og innblása. Að halda að Joseph Smith, 23ja ára gamall, væri gæddur nauðsynlegum hæfileikum til að rita slíkt meistaraverk í einu uppkasti á hér um bil 65 vinnudögum, er einfaldlega andstætt raunveruleika lífsins.

Russell M. forseti, sjálfur reynslumikill og hæfileikaríkur höfundur, sagði frá því að hann hafi endurritað ráðstefnuræðu 40 sinnum fyrir nokkru. Eigum við nú að trúa að Joseph Smith hafi á eigin spýtur lesið alla Mormónsbók fyrir í einu uppkasti með einungis nokkrar minniháttar málfræðivillur?

Eiginkona Josephs, Emma, staðfesti hve ómögulegt slíkt væri: „Joseph Smith [sem ungur maður] gat hvorki skrifað né lesið fyrir samhangandi og vel orðað bréf; hvað þá að lesa upp bók eins og Mormónsbók.“2

Að lokum, jafnvel þó að maður meðtaki öll áðurnefnd rök, eins vafasöm og þau eru, þurfa gagnrýnendur að takast á við enn eina hindrun. Joseph hélt því fram að Mormónsbók væri rituð á gulltöflur. Staðhæfing þessi var látlaust gagnrýnd á hans tíma, því „allir“ vissu að fornar heimildir væru ritaðar á papýrus eða bókfell, þar til mörgum árum síðar að plötur með fornum áletrunum fundust. Gagnrýnendur staðhæfðu að auki að notkun á steypu, eins og lýst er í Mormónsbók, væri ofar tæknigetu hinna fornu íbúa Ameríku, þar til steypubyggingar fundust í Ameríku til forna. Hvernig útskýra gagnrýnendur núna þessar og álíkar ólíklegar uppgötvanir? Þið sjáið að Joseph hlýtur einnig að hafa verið mjög, mjög góður í að giska. Einhvern veginn, þrátt fyrir ólíkindin honum í óhag, þrátt fyrir alla vísindalega og bókmenntalega þekkingu, giskaði hann rétt á þegar aðrir höfðu rangt fyrir sér.

Þegar öll kurl eru komin til grafar, gæti maður undrast hvernig hægt er að trúa öllum þessum atriðum og öflum, eins og gagnrýnendur segja, sameinuð af tilviljun þannig að Joseph gat ritað Mormónsbók og þannig alið á blekkingu Satans. Hvernig gengur þetta upp? Í beinni andstöðu við slíkar fullyrðingar, hefur bókin veitt milljónum manna innblástur um að hafna Satan og lifa enn kristilegra lífi.

Þó að einhverjir kjósi að trúa á röksemdir gagnrýnenda, þá er það fyrir mig vitsmunaleg og andleg blindgata. Að trúa slíku, yrði ég að meðtaka hverja ósannaða hugmynd á fætur annarri. Þess fyrir utan yrði ég að hafna vitnisburði allra hinna ellefu vitna,3 þrátt fyrir að þau væru trú vitnisburði sínum til æviloka; ég yrði að hafna guðlegum kenningum, ásamt æðri sannleik, sem finna má á hverri blaðsíðunni á fætur annarri í þessari helgu bók; ég yrði að líta framhjá þeirri staðreynd að fjölmargir, þar á meðal ég sjálfur, höfum komist nær Guði með því að lesa þessa bók, heldur en nokkra aðra bók og umfram allt, ég yrði að afneita staðfestandi innblæstri heilags anda. Þetta væri í andstöðu við allt sem ég veit að er sannleikur.

Einn af góðum og skírum vinum mínum yfirgaf kirkjuna í nokkurn tíma. Hann skrifaði mér nýlega hvernig hann sneri til baka: „Í upphafi vildi ég að einhver sannaði Mormónsbók fyrir mér sögulega, landfræðilega, tungumálalega og menningarlega. Þegar ég hins vegar einblíndi á hvað hún kennir um fagnaðarerindi Jesú Krists og frelsandi ætlunarverk hans, hóf ég að öðlast vitnisburð um sannleiksgildi hennar. Dag einn, meðan ég var að lesa í Mormónsbók í herbergi mínu, gerði ég hlé, kraup niður og baðst fyrir í djúpri bæn og fann algjörlega að himneskur faðir hvíslaði að anda mínum að kirkjan og Mormónsbók væru örugglega sönn. Þriggja og hálfs árs endurmenntun mín um kirkjuna leiddi mig til baka af öllu hjarta og af allri sannfæringu um sannleiksgildi hennar.“

Ef maður vill taka sér tíma til að lesa auðmjúklega og íhuga Mormónsbók, eins og vinur minn gerði og hlusta ljúflega á ávexti andans, mun hann eða hún hljóta að lokum hinn eftirsóknarverða vitnisburð.

Mormónsbók er ein af ómetanlegu gjöfum Guðs til okkar. Hún er bæði sverð og skjöldur - hún sendir orð Guðs til orrustu til að berjast um hjörtu hinna réttlátu og þjónar sem helsta vörn sannleikans. Sem heilagir, þá eru það ekki einungis forréttindi okkar að verja Mormónsbók, heldur einnig möguleiki okkar að sækja fram – að prédika guðlegar kenningar hennar og bera vitnisburð um æðsta vitni hennar, Jesú Krist.

Ég ber hátíðlegan vitnisburð um að Mormónsbók var þýdd fyrir gjöf og kraft Guðs. Hún er sannfærandi vitni Guðs um guðleika Jesú Krists, spámannsköllun Joseph Smiths og hinn algera sannleik þessarar kirkju. Megi hún verða að hyrningarsteini vitnisburðar okkar, þannig að hægt sé að segja um okkur eins og um Lamanítana sem snerust til trúar, að þeir gerðust „aldrei fráhverfir” (Alma 23:6). Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Emma Smith, in “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, 1. okt. 1879, 289, 290.

  2. Emma Smith, í “Last Testimony of Sister Emma,” 290.

  3. Sjá „Vitnisburður þriggja vitna“ og „Vitnisburður átta vitna,” í Mormónsbók.