2010–2019
Andlegur myrkvi
Október 2017


Andlegur myrkvi

Látið ekki truflanir lífsins myrkva himins ljós.

Þann 21. ágúst á þessu ári áttu sér stað tveir atburðir sem fönguðu athygli fólks um allan heim. Sá fyrri var níræðisafmæli okkar ástkæra spámanns, Thomas S. Monson forseta. Á þeim tíma hafði ég verið sendur til Kyrrahafssvæðisins og gladdist yfir því að hinir heilögu í Ástralíu, Vanúatú, Nýja Sjálandi og Frönsku Pólýnesíu voru bæði meðvitaðir um þennan persónulega áfanga, og héldu upp á hann með fögnuði. Ég var lánsamur að fá að upplifa hina hlýju framsetningu þeirra á trú og elsku gagnvart þessum mikla manni. Hvílíkur innblástur það er að sjá tenginguna á milli Síðari daga heilagra og spámanns þeirra.

Meðvitaður um alla þá sem vildu óska honum til hamingju með daginn, lýsti Monson forseti, hinni ákjósanlegustu afmælisgjöf: „Finnið einhvern sem á erfitt eða er veikur eða einmana og gerið eitthvað fyrir hann. Það er allt sem ég bið um.”1 Við elskum og styðjum þig, Monson forseti.

Sólmyrkvi

Síðari atburðurinn, sem var sjaldgæfur og himneskur, átti sér stað sama dag og fangaði athygli milljóna manna, var almyrkvi á sólu. Þetta var í fyrsta sinn sem slíkur sólmyrkvi hafði farið þvert yfir Bandaríkin 99 ár.2 Hafið þið einhvern tíma séð sólmyrkva? Ég ætti kannski að lýsa honum nánar.

Almyrkvi á sólu gerist þegar tunglið hreyfist milli jarðar og sólu og lokar á nær alla geisla frá yfirborði sólar.3 Sú staðreynd að þetta geti gerst vekur hjá mér undrun. Ef þið ímyndið ykkur sólina á stærð við reiðhjóladekk þá væri tunglið á við örsmáa steinvölu í samanburði.

Ljósmynd
Reiðhjóladekk og steinvala

Hvernig er mögulegt að uppspretta hlýju, ljóss og lífs getur hulist svo gersamlega af einhverju sem er svo miklu minna að stærð?

Þrátt fyrir að sólin sé 400 sinnum stærri en tunglið, þá er hún að sama skapi 400 sinnum lengra frá jörðinni.4 Séð frá jörðu, virðast sólin og tunglið vera jafn stór í þessari rúmfræði. Þegar þessir tveir hnettir eru í réttri stöðu, þá virðist tunglið skyggja á alla sólina. Fjölskylda mín og vinir, sem voru á svæði algjörs myrkva, lýstu því hvernig myrkur kom í stað ljóss, stjörnurnar birtust og fuglarnir hættu söng sínum. Loftið varð kalt, því hitastig í sólmyrkva getur hrapað um meira en 11 gráður á celsíus.5

Ljósmynd
Fólk með sólmyrkvagleraugu

Þau lýstu þessum atburði af aðdáun og furðu og jafnvel kvíða, því þau vissu að myrkvi gæti verið varasamur. Þau fór þó öll varlega til að forðast augnskemmdir eða sólmyrkvablindu meðan á sólmyrkvanum stóð. Öryggis var gætt, því þau notuðu hlífðargleraugu með sérstökum síum eða linsum, sem vernda augun fyrir hugsanlegum skaða.

Líkingin

Á sama máta og hið litla tungl getur hulið hina mikilfenglegu sól, slökkt á ljósi hennar og varma, getur andlegur myrkvi átt sér stað þegar við leyfum litlum og viðsjárverðum hindrunum – sem við glímum við í okkar daglega lífi – að komast svo nærri okkur að þær hylja hið mikla, skæra og hlýja ljós Jesú Krists og fagnaðarerindis hans.

Öldungur Neal A. Maxwell fór dýpra með þennan samanburð er hann sagði: Þegar eitthvað lítið, eins og þumalfingur manns, er haldið þétt upp að auganu, getur það hulið hina stóru sól. Samt er sólin enn á sínum stað. Blinda er eitthvað sem maðurinn veldur sjálfum sér. Þegar við höldum einhverju of þétt að okkur og setjum það fremst í forgangsröð okkar, hyljum við sýn okkar á himnaríki.”6

Augljóslega vill ekkert okkar skyggja á sýnina af himnum af ásettu ráði eða leyfa að andlegur myrkvi gerist í lífi okkar. Leyfið mér að miðla nokkrum hugmyndum sem geta komið í veg fyrir að andlegur myrkvi valdi okkur varanlegum andlegum skaða.

Gleraugu fagnaðarerindisins: Að viðhalda sýn á fagnaðarerindið

Munið þið eftir lýsingu minni á hinum sérstöku hlífðargleraugum sem notuð eru til verndar gegn augnskemmdum eða jafnvel sólkyrkvablindu? Með því að horfa á andlegan myrkva með verndandi og mýkjandi linsum andans, hljótum við sýn á fagnaðarerindið, sem þannig verndar okkur frá andlegu myrkri.

Tökum nokkur dæmi. Með orð spámannanna í hjörtum okkar og með heilagan anda sem leiðbeinanda, getum við horft í himneskt ljós, sem að hluta er hulið, með „sjóngleri fagnaðarerindisins,“ og forðast skaða af andlegum myrkva.

Hvernig notum við svo þetta sjóngler fagnaðarerindisins? Hér eru nokkur dæmi: Sjóngler fagnaðarerindisins upplýsir okkur um að Drottinn þráir að við meðtökum sakramentið í hverri viku og að við lærum ritningarnar og flytjum bænir daglega. Það segir okkur líka að Satan reynir að fá okkur ofan af því. Við vitum að áætlanir hans leitast við að taka frá okkur sjálfræðið með truflunum og veraldlegum freistingum. Jafnvel á tíma Jobs voru ef til vill þeir sem hugsanlega upplifðu andlegan myrkva, sem var lýst þannig: „Á daginn reka þeir sig á myrkur, og sem um nótt þreifa þeir fyrir sér um hádegið.“7

Bræður og systur, þegar ég ræði um að horfa í gegnum sjóngler fagnaðarerindisins, þá er ég ekki að leggja til að við viðurkennum ekki eða ræðum áskoranir okkar eða tölum af kjánalegri fáfræði um illar snörur sem óvinurinn hefur sett fyrir okkur. Ég er ekki að segja að við eigum að setja á okkur augnblöðkur – heldur þvert á móti. Ég er að leggja til að við horfum á áskoranirnar í gegnum sjóngler fagnaðarerindisins. Öldungur Dallin H. Oaks sagði: „Víðsýni er getan til að sjá allar mikilvægar upplýsingar í þýðingarmiklu samhengi.“8 Víðsýni fagnaðarerindisins gerir okkur kleift að hafa eilífa yfirsýn.

Þegar þið setjið á ykkur sjóngler fagnaðarerindisins, þá munið þið greina með auknum skírleika og innsýn hvernig þið hugsið um forgangsröðun ykkar, vandamál, freistingar og jafnvel mistök. Þið munið sjá bjartara ljós en þið fengjuð séð án þeirra.

Ljósmynd
Sjóngler fagnaðarerindisins

Það er hálf kaldhæðnislegt að það er ekki einungis hið neikvæða sem getur orsakað andlegt myrkur í lífi okkar. Stundum geta göfugir eða jákvæðir hlutir, sem við einbeitum okkur að, tekið svo mikið rúm að þeir hylja ljós fagnaðarerindisins og innleiða myrkur. Þessir áhættuþættir eða truflanir gætu verið menntun og velmegun, vald og áhrif, metnaður og jafnvel hæfileikar og gjafir.

Dieter F. Uchtdorf forseti kenndi að „sérhver dyggð verði að lesti þegar út í öfgar er farið. … Sá tímapunktur kemur að stiklusteinn getur orðið að hrösunarhellu, og metnaður að snöru um hálsinn.”9

Ég ætla að miðla ykkur ítarlegum dæmum um hugsanlega orsakavalda okkar andlegu myrkva.

Samfélagsmiðlar

Fyrir fáeinum mánuðum hélt ég ræðu á kvennaráðstefnu BYU.10 Ég lýsti því hvernig tæknin, þar á meðal samfélagsmiðlar, auðveldar það að „þekking á frelsaranum breiðist út til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða.”11 Tækni þessi er meðal annars heimasíður kirkjunnar eins og LDS.org og Mormon.org; símaöpp eins og Gospel Library, Mormon Channel, LDS Tools, og Family Tree; og samfélagsmiðlar eins og Facebook, Instagram, Twitter og Pinterest. Þessi forrit hafa með tímanum getið af sér hundruð milljón „like,“ deilingar, áhorf, endurtíst og pinn, og eru orðin áhrifarík og mikilvirk í að deila fagnaðarerindinu með fjölskyldum, vinum og samstarfsfólki.

Þrátt fyrir dyggðuga og viðeigandi notkun á þessari tækni, eru áhættur að finna í þeim sem geta, ef við færum hana og nálægt, sett okkur í andlegan myrkva og getur hugsanlega hulið skírleika og hlýju fagnaðarerindisins.

Notkun samfélagsmiðla, símaappa og leikja getur orðið óviðeigandi tímaeyðsla og minnkað samskipti fólks, augliti til auglitis. Þessi skortur á persónulegum samskiptum getur haft áhrif á hjónabönd, komið í stað mikilvægra andlegra athafna og heft þroska í félagsfærni, sérstaklega hjá unga fólkinu.

Tveir aðrir áhættuþættir varðandi samfélagsmiðla eru fegraður raunveruleiki og lamandi samanburður.

Margar (ef ekki flestar) myndir sem settar eru upp í samfélagsmiðlum eiga það til að sýna lífið eins og það gerist best, sem oftast er óraunhæft. Við höfum öll séð fallegar myndir af skreytingum heimilisins, yndislegum sumarleyfisstöðum, brosandi sjálfsmyndum, margbrotnum matartilbúningi og óraunhæfum líkamsmyndum.

Hér er til dæmis mynd sem hægt væri að sjá á einhverri samfélagssíðu. Hins vegar gefur hún ekki alveg rétta mynd af því sem raunverulega á sér stað í lífinu.

Ljósmynd
Baksviðs múffukökugerðar

Þegar við berum miðlungslíf okkar saman við hið vel ritskoðaða og fullunna líf eins og það birtist á samfélagsmiðlum, þá sitjum við stundum uppi með tilfinningar eins og vonbrigði, öfund og jafnvel að við séum misheppnuð.

Einhver sem búin var að deila mörgum myndum af sjálfri sér, sagði, kannski meira í gríni: „Hver er tilgangurinn með því að vera glaður ef þú ætlar ekki að setja það á netið?“12

Líkt og systir Bonnie L. Oscarson minntist á í morgun, þá felst velgengni í lífinu ekki í því hversu mörg „like“ við fáum eða hversu marga vini eða fylgjendur við höfum á samfélagsmiðlum. Það felst hins vegar meira í því að tengjast öðrum á þýðingarmikinn hátt og auka ljósið í lífi þeirra.

Vonandi getum við lært að vera raunverulegri, auka kímnina og upplifa ekki eins mikil vonbrigði þegar við skoðum myndir sem sýna fegraðan veruleika og leiða of oft til lamandi samanburðar.

Samanburður er greinilega ekki bara tákn okkar tíma, heldur var hann einnig til áður fyrr. Páll postuli varaði fólk síns tíma við þeim sem „mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.”13

Með svo marga viðeigandi og innblásna notkunarmöguleika tækninnar, þá ættum við að nýta hana til að kenna, innblása og lyfta okkur upp og að hvetja aðra til að ná fram sínu besta – frekar en að sýna fegraða sýndarútgáfu af okkur sjálfum. Við ættum öll að kenna og sýna hinni upprennandi kynslóð rétta notkun tækninnar og vara einnig við hættum samfara henni og eyðileggjandi notkun hennar. Með því að horfa á samfélagsmiðla með linsum fagnaðarerindisins, þá getum við varnað því að þeir verði að andlegum myrkva í lífi okkar.

Dramb

Við skulum nú taka fyrir hina ævagömlu hrösunarhellu, dramb. Dramb er andstæðan við auðmýkt, sem er „fúsleikinn til að lúta vilja Drottins.“14 Þegar við erum drambsöm, þá höfum við tilhneigingu til að taka okkur heiður, frekar en að gefa hann öðrum, þar á meðal Drottni. Dramb er oft á tíðum samkeppni; það er tilhneiging að vilja fá meira og telja að við séum betri en aðrir. Dramb veldur oft reiði og hatri;14 það viðheldur óvild og hindrar að menn fyrirgefi. Á hinn bóginn getur dramb einnig horfið á braut í hinum kristilega eiginleika auðmýktar.

Samskipti, jafnvel milli náinna fjölskyldumeðlima og ástvina, sérstaklega milli náinna fjölskyldumeðlima og ástvina - og jafnvel milli eiginmanns og eiginkonu - eflast í auðmýkt, en eru hindruð með drambi.

Fyrir mörgum árum bað framkvæmdarstjóri stórs smásölufyrirtækis mig um hitta sig og ræða um fyrirtækið sitt, sem var í þann veginn að vera keypt upp af samkeppnisaðila. Hann og fleiri starfsmenn í höfuðstöðvunum voru mjög uggandi um að missa starf sitt. Vitandi að ég væri vel kunnur yfirmönnum þessa yfirtökufyrirtækis, spurði hann mig hvort ég væri fús til að kynna hann og veita sér góð meðmæli, jafnvel að koma á fundi. Að lokum sagði hann eftirfarandi: „Þú veist hvað þeir segja? ‚Hinir hógværu munu farast!‘“

Ég áttaði mig á því að orð hans væru líklega sögð í kímni. Ég skildi brandarann. Ég skynjaði hinsvegar að mikilvæg regla gæti reynst honum ákaflega gagnleg. Ég svaraði: „Í raun og veru er þetta ekki það sem þeir segja. Reyndar er það þveröfugt. ,Hinir hógværu munu landið erfa‘15 er það sem þeir segja.”

Reynsla mín í kirkjunni og hvarvetna í atvinnu minni hefur kennt mér að sumir þeirra stórkostlegustu og árangursríkustu manna sem ég hef kynnst, eru meðal hinna hógværustu og auðmýkstu.

Auðmýkt og hógværð passa saman eins og flís við rass. Við skulum hafa hugfast að „enginn er Guði velþóknanlegur, nema hinn hógværi og af hjarta lítilláti.”16

Ég bið þess að við reynum að forðast hina andlegu myrkvun drambsins með því að meðtaka dyggð auðmýktarinnar.

Lokaorð

Í samantekt, þá er sólmyrkvi sannarlega ótrúlegt náttúrufyrirbæri, en meðan á honum stendur getur fegurð, ylur og ljós sólarinnar hulist af tiltölulega ómerkilegum hlut og valdið myrkri og kulda.

Álíka fyrirbæri geta gerst í andlegum skilningi, þegar við leyfum einhverju litlu og ómerkilegu að koma of nærri og hylja fegurð, hlýju og andlegt ljós fagnaðarerindis Jesú Krists og skipta því út fyrir kulda og myrkur.

Hlífðargleraugu sem ætluð eru til að vernda sjón þeirra sem í sólmyrkvanum eru, geta komið í veg fyrir varanlegar skemmdir og jafnvel blindu.17 Gleraugu fagnaðarerindisins, sem mynduð eru af þekkingu á og vitnisburði um grundvallarreglur fagnaðarerindisins ásamt helgiathöfnum, veita þeim sem eru berskjaldaðir fyrir hættu andlegs sólmyrkva, víðsýni sem á svipaðan hátt getur veitt okkur meiri andlega og skýra hugsun.

Ef þið uppgötvið eitthvað sem virðist koma í veg fyrir að þið öðlist gleði og ljós fagnaðarerindisins í lífi ykkar, þá býð ég ykkur að skoða það í ljósi fagnaðarerindisins. Horfið í gegnum sjóngler fagnaðarerindisins og gætið þess vandlega að hið ómerkilega og ómarkverða byrgi ekki sýn á hina eilífu og dásamlegu hamingjuáætlun. Látið ekki truflanir lífsins myrkva himins ljós.

Vitnisburður

Ég ber vitni um að það er sama hvað byrgir okkur sýn á ljós fagnaðarerindisins, þá er ljósið samt til staðar. Uppspretta hlýju, sannleiks og ljóss er fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég ber vitni um kærleiksríkan föður á himnum og son hans, Jesú Krist og hlutverk sonarins sem frelsara okkar og lausnara. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, í Sarah Jane Weaver, “What Gift Does President Monson Want for His 90th Birthday?” Deseret News, 17. ágúst 2017, deseretnews.com.

  2. Sjá Christina Zdanowicz og Judson Jones, “An Eclipse Will Cross the US for the First Time in 99 Years,” 24. júlí 2017, cnn.com.

  3. Sjá “Eclipse: Who? What? Where? When? and How?” eclipse2017.nasa.gov.

  4. Sjá EarthSky in Space, “Coincidence That Sun and Moon Seem Same Size?” earthsky.org.

  5. Sjá Brian Lada, “5 Surprising Effects the Total Solar Eclipse Will Have besides Darkness,” accuweather.com.

  6. Neal A. Maxwell, Of One Heart: The Glory of the City of Enoch (1975), 19.

  7. Job 5:14.

  8. Dallin H. Oaks, ræða flutt á kvöldvöku fyrir ungt einhleypt fólk í Bonneville-stiku í Salt Lake, Salt Lake City, Utah, 8. febr. 2015.

  9. Dieter F. Uchtdorf, “Of Things That Matter Most,”Liahona, nóv. 2010, 20.

  10. Sjá Gary E. Stevenson, “The Knowledge of a Savior” (Brigham Young University Women’s Conference, 5. maí 2017).

  11. Mósía 3:20.

  12. Jade, “The Obsession of Creating a Picture-Perfect Life on Social Media.”

  13. 2 Kor 10:12.

  14. Sjá Preach My Gospel: A Guide to Missionary Service (2004), 120–21.

  15. Matt 5:5; 3 Ne 12:5.

  16. Moró 7:44.

  17. Sjá “Solar Eclipse and Your Eyes,” preventblindness.org.