2010–2019
Auga trúarinnar
Apríl 2019


Auga trúarinnar

Ef við veljum og kjósum hvað í Yfirlýsingunni við viljum meðtaka, skyggjum við á eilífa sýn okkar og leggjum of mikla áherslu á aðstæður okkar hér og nú.

Stuttu fyrir krossfestinguna var Jesús leiddur til dóms fyrir Pílatus í dómssalnum. „Ert þú konungur Gyðinga?“ spurði Pílatus yfirlætisfullur. Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi … Til þess er ég … kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“

Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“1

Í nútíma heimi getur spurningin „Hvað er sannleikur?“ verið ógnvænlega flókin fyrir veraldlegan huga.

Leit í Google á „Hvað er sannleikur?“ gefur rúmlega milljón niðurstöður. Við erum með meira aðgengi að upplýsingum á snjallsímum okkar en í öllum bókum í múrsteyptu bókasafni. Við búum við ofgnótt upplýsinga og skoðana. Tælandi og heillandi raddir fylgja okkur við hvert fótmál.

Ekki er að undra að margir, sem fastir eru í hringlandahættinum, treysti á orðin sem Protagoras sagði við Sókrates fyrir 2.500 árum: „Það sem er satt fyrir þig, er satt fyrir þig, og það sem er satt fyrir mig, er satt fyrir mig.“2

Sannleikur fyrir hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists

Við, sem erum blessuð með hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, lýsum því auðmjúklega yfir að til eru hlutir sem eru algjörlega og áreiðanlega sannir. Þessi eilífi sannleikur gildir fyrir fyrir alla syni og dætur Guðs.

Ritningarnar kenna okkur: „Og sannleikurinn er þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða.“3 Sannleikurinn fer fram á við og til baka og víkkar sýn mannsins á okkar litla andartaki tímans.

Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“4 Sannleikurinn vísar okkur leiðina til eilífs lífs og er eingöngu gefinn í gegnum frelsara okkar, Jesú Krist. Það er engin önnur leið.

Jesús Kristur kennir okkur hvernig lifa skal og býður okkur, með friðþægingu sinni og upprisu, fyrirgefningu syndanna og ódauðleika handan hulunnar. Þetta er algjör sannleikur.

Hann kennir okkur að ekki skiptir máli hvort við séum rík eða fátæk, fræg eða óþekkt, margbrotin eða einföld. Þess í stað er verkefni okkar í dauðleikanum að efla trú á Drottin Jesú Krist, velja gott framyfir illt og að halda boðorð hans. Þó að við fögnum framförum í vísindum og lækningum, er sannleikur Guðs langt umfram þessar uppgötvanir.

Andstætt sannleika eilífðarinnar hafa ávallt verið til eftirlíkingar til að leiða athygli barna Guðs frá sannleikanum. Rökin sem andstæðingurinn notar eru ætíð þau sömu. Hlustið á þessar raddir frá því fyrir 2000 árum:

„[Þú getur] ekkert vitað um það, sem [þú getur] ekki séð. … Ekkert, sem maðurinn [tekur] sér fyrir hendur, [er] glæpur.“

„[Guð er ekki að blessa okkur], heldur [fer] fyrir hverjum og einum … samkvæmt breytni hans.“5

„Ekki er rökrétt, að þess konar vera sem Kristur er … [sé] sonur Guðs.“6

„[Það sem þér trúið er heimskuleg erfikenning] og órar truflaðrar hugsunar.“7 Hljómar eins og nútíminn ekki satt?

Með endurreisn fagnaðarerindisins hefur Guð gert okkur kleift að læra og þekkja mikilvægan, andlegan sannleik. Við lærum hann með heilögum ritningum, einkabænum, reynslu, leiðbeiningum lifandi spámanna og postula og með leiðsögn heilags anda, sem getur hjálpað okkur „að vita sannleiksgildi allra hluta.“8

Sannleikurinn er greindur andlega

Við getum þekkt hvað Guðs er ef við leitum þess á andlegan hátt. Páll sagði: „Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema með Guðs anda… [Því] þeir hafa anda greiningar.“9

Lítið á þetta listaverk eftir Michael Murphy. Frá þessu sjónarhorni er erfitt að trúa því að þetta er túlkun listamanns á mannsauganu. Ef við, hins vegar, horfum á punktana frá öðru sjónarhorni, sést fegurðin í sköpun listamannsins.

Á líkan hátt sjáum við andlegan sannleik Guðs frá sjónarhorni trúarinnar. Páll sagði: „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.“10

Ritningarnar, bænir okkar, reynsla, nútíma spámenn og gjöf heilags anda veita okkur andlegt sjónarhorn á sannleika, nauðsynlegan fyrir jarðneskt ferðalag okkar hér á jörðu.

Yfirlýsingin með auga trúarinnar

Lítum á yfirlýsinguna um fjölskylduna með auga trúarinnar.

Gordon B. Hinckley forseti kynnti „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ fyrir 24 árum með þessum orðum: „Þar sem allskyns speki er svo oft sett fram sem sannleikur væri og allskyns blekkingar eru uppi um staðla og gildi og allskyns freistingar og tálbeitur draga okkur að hætti heimsins, finnum við okkur knúna til að aðvara [ykkur].“11

Yfirlýsingin byrjar þannig: „Allar mannlegar verur — karlar og konur — eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhver þeirra sér guðlegt eðli og örlög.“

Þetta er eilífur sannleikur. Þið og ég erum ekki slys náttúrunnar.

Þessi orð eru mér kær: „Í fortilverunni þekktu og tilbáðu andasynir og dætur Guðs hann sem eilífan föður og samþykktu áætlun hans.“12

Við lifðum áður en við fæddumst. Einstaklings eiginleikar okkar búa með okkur að eilífu. Andlegur vöxtur okkar í fortilverunni hefur áhrif á hver við erum hér, þótt við skiljum þetta ekki að fullu.13 Við meðtókum áætlun Guðs Við vissum að við myndum upplifa erfiðleika, sársauka og sorg á jörðunni.14 Við vissum einnig að frelsarinn kæmi og ef við reyndumst verðug, myndum við rísa upp á degi upprisunnar og „bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu.“15

Yfirlýsingin er skorinorð: „Við lýsum því yfir að leiðin til sköpunar jarðlífsins sé guðlega tilnefnd. Við staðfestum helgi lífsins og mikilvægi þess í eilífri áætlun Guðs.“

Áætlun föðurins brýnir fyrir eiginmanni og eiginkonu að fæða börn í heiminn og skyldar okkur að tala til varnar hinu óborna.

Reglur yfirlýsingarinnar eru dásamlega samtengdar

Ef við veljum og höfnum því sem viljum meðtaka í yfirlýsingunni, skyggjum við á eilífa sýn okkar og leggjum of mikla áherslu á aðstæður okkar hér og nú. Með því að ígrunda yfirlýsinguna í bæn og með auga trúarinnar, skiljum við betur hvernig reglurnar, sem opinbera áætlun föðurins fyrir börn sín, eru fagurlega tengdar og styðja hver aðra.16

Ætti okkur í raun að undra að þegar lifandi spámenn Drottins lýsa yfir vilja hans þá sitja eftir spurningar fyrir sum okkar? Vitanlega hafna sumir rödd spámannanna undir eins,17 meðan aðrir íhuga einlægar spurningar í bæn – spurningar sem svör fást við með þolinmæði og auga trúarinnar. Ef yfirlýsingin hefði opinberast á annarri öld, væru spurningar enn til, bara aðrar spurningar heldur en í dag. Einn tilgangur spámanna er að hjálpa okkur að fá svör við einlægum spurningum.18

Áður en Russell M. Nelson forseti varð forseti kirkjunnar, sagði hann: „Spámenn sjá hvað framundan er. Þeir sjá þær skelfilegu hættur sem andstæðingurinn hefur sett eða mun setja upp á leið okkar. Spámenn sjá einnig hina miklu möguleika og forréttindi sem bíða þeirra er hlusta með þeim ásetningi að hlýða.19

Ég vitna um sannleik og andlegan kraft hinnar sameinuðu raddar Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar.

Heimurinn hverfur frá

Á æviskeiði mínu höfum við orðið vitni að stórbrotnum breytingum á trú heimsins varðandi reglurnar sem yfirlýsingin kennir. Á æskuárum mínum og fyrstu árum hjónabands míns yfirgáfu margir staðla Drottins sem við nefnum skírlífislögmálið, að kynlíf eigi sér aðeins stað á milli karls og konu sem eru í hjónabandi. Er ég var á tvítugs- og þrítugsaldri yfirgáfu margir hina helgu vernd hins óborna, er fóstureyðingar urðu viðurkenndar. Á undanförnum árum hafa margir hafnað því lögmáli Guðs að hjónabandið sé heilög eining milli karls og konu.20

Þegar við sjáum marga yfirgefa þau mörk sem Drottinn hefur sett, erum við minnt á daginn í Kapernaum er Drottinn lýsti yfir guðleika sínum og því miður „hurfu margir af lærisveinum hans frá.“

Frelsarinn spurði þá hina Tólf: „Ætlið þér að fara líka?“

Pétur svaraði:

„Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,

og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“21

Ekki er allt sem fellur vel að yfirlýsingunni

Til eru margir, ungir sem aldnir, sem eru trúir og sannir kenningum spámannanna, þrátt fyrir að aðstæður þeirra í augnablikinu séu ekki beint að finna í yfirlýsingunni. Börn sem eru í uppnámi sökum skilnaðar, unglingar hvers vinir gera grín að skírlífislögmálinu, fráskildar konur og karlar sem hlotið hafa djúp sár sökum ótrygglyndis maka, eiginmenn og eiginkonur sem ekki geta eignast börn, konur og karlar sem eru gift maka sem ekki hafa sömu trú á endurreisn fagnaðarerindisins, einhleypar konur og karlar sem af einhverjum ástæðum hafa ekki getað gifst.

Vinur minn einn til 20 ára, sem ég dái mikið, er ekki giftur sökum samkynhneigðar. Hann er sannur musterissáttmálum sínum, hefur víkkað hæfileika sína til sköpunar og atvinnu og hefur þjónað bæði í kirkjunni og samfélaginu af göfuglyndi. Hann sagði mér nýlega: „Ég get haft samúð með þeim sem eru í mínum aðstæðum og kjósa að lifa ekki eftir skírlífislögmálinu í heiminum sem við lifum í. Bauð Kristur okkur ekki að vera ‚ekki af þessum heimi‘? Það er ljóst að staðlar Guðs eru öðruvísi en staðlar heimsins.“

Lög manna fara oft út fyrir mörk þau sem lög Guðs setja. Fyrir þá sem þrá að þóknast Guði þá eru sannarlega þörf fyrir trú, kostgæfni og þolinmæði.22

Eiginkona mín, Kathy, og ég þekkjum einhleypa systur, á fimmtugsaldri í dag, sem er hæfileikarík í í sínu fagi og þjónar dyggilega í deild sinni. Hún hefur einnig haldið lögmál Guðs. Hún skrifaði:

„Mig dreymdi þann dag er ég væri blessuð með eiginmanni og börnum. Ég er enn að bíða. Stundum upplifi ég það að vera gleymd og alein, en ég reyni að leiða hugann frá því sem ég hef ekki og að því sem ég hef og hvernig ég get hjálpað öðrum.

Þjónusta við ættingja, í deildinni og í musterinu hefur hjálpað mér. Ég er ekki gleymd eða ein, vegna þess að ég og við öll erum hluti af stærri fjölskyldu.“

Það er einn sem skilur

Sumir segja: „Þú skilur ekki aðstæður mínar.“ Ef til vill ekki, en ég vitna að til er sá sem skilur.23 Til er sá sem þekkir byrðar ykkar, vegna fórnarinnar sem hann færði í garðinum og á krossinum. Er þið leitið hans og haldið boðorð hans, lofa ég ykkur að hann mun blessa ykkur og létta þær byrðar sem of þungar eru fyrir einn að bera. Hann mun veita ykkur eilífa vini og möguleika til þjónustu. Það sem mikilvægara er, hann mun fylla ykkur miklum krafti heilags anda og láta himneska velþóknun sína skína yfir ykkur. Enginn valkostur, engin önnur leið, sem hindrar félagsskap heilags anda eða blessanir eilífðarinnar, er þess virði að íhuga.

Ég veit að frelsarinn lifir. Ég vitna að hann er uppspretta alls sannleika sem máli skiptir og að hann mun uppfylla allar blessanir sem hann lofaði þeim sem halda boðorð hans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jóh 18:33, 36–38.

  2. William S. Sahakian and Mabel Lewis Sahakian, Ideas of the Great Philosophers, 28.

  3. Kenning og sáttmálar 93:24.

  4. Jóh 14:6.

  5. Alma 30:15, 17.

  6. Helaman 16:18.

  7. Sjá Alma 30:14, 23, 27.

  8. Moró 10:5.

  9. Þýðing Josephs Smith, 1 Kor 2:11 [í 1 Kor 2:11, neðanmálsgrein c]; 1 Kor 2:14.

  10. 1. Kor 2:14.

  11. Gordon B. Hinckley, “Stand Strong against the Wiles of the World,” Ensign, nóv. 1995, 100. Russell M. Nelson forseti útskýrði nýlega nokkuð sögu yfirlýsingarinnar, eins og fram kemur í samantekt Sheri Dew í Insights from a Prophet’s Life: Russell M. Nelson (2019), 208:

    „Dag einn árið 1994 varði Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin heilum degi í fundarherbergi sínu í Salt Lake musterinu og ræddu um málefni fjölskyldunnar. Þeir veltu ýmsu fyrir sér, allt frá aukningu á dreifingu kláms til alls kyns lagasetninga gegn fjölskyldunni. Þetta var ekki nýtt af nálinni, en á þessum degi snerist allt um þetta mikilvæga málefni.

    Hinir Tólf endurskoðuðu bæði kenningar og stefnur, og skildu að það sem ekki væri hægt að breyta – kenningum – og það sem hugsanlega væri hægt að breyta – stefnum. Þeir ræddu komandi málefni, þar á meðal aukið félagslegt vægi fyrir hjónabönd samkynhneigðra og réttindi transfólks. ‚En þetta var ekki það eina sem við sáum fram á,‘ sagði öldungur Nelson. ‚Við sáum tilburði hinna ýmsu samfélaga til að eyða öllum reglum og mörkum kynlífs. Við sáum rugling kynjanna. Við sáum fram á þetta allt.‘

    Eftir þessa, og fleiri, umræður, í einhvern tíma, komust hinir Tólf að þeirri niðurstöðu að búa ætti til skjal, jafnvel yfirlýsingu, sem kunngerði skoðun kirkjunnar varðandi fjölskylduna og kynna hana Æðsta forsætisráðinu til skoðunar.“

  12. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ https://www.lds.org/bc/content/shared/content/icelandic/pdf/language-materials/35602_isl.pdf?lang=isl.

  13. Dallin H. Oaks forseti sagði: „Allur aragrúi dauðlegra manna sem fæðst hefur í þennan heim, kaus áætlun föðurins og barðist fyrir henni. Mörg okkar gerðu einnig sáttmála við föðurinn um það sem við myndum gera í hinu dauðlega lífi. Verk okkar í andaheiminum hafa áhrif á okkur í jarðlífinu, með hætti sem ekki hefur verið opinberaður“ (“The Great Plan of Happiness,” Ensign, nóv. 1993, 72).

  14. Sjá Dallin H. Oaks, „Sannleikur og áætlunin,“ aðalráðstefna okt. 2018, https://www.lds.org/general-conference/2018/10/truth-and-the-plan?lang=isl.

  15. Abraham 3:26.

  16. Dallin H. Oaks forseti sagði eitt sinn:

    „Síðari daga heilagir trúa að fjölskylduyfirlýsingin, sem var gefin út fyrir nær aldarfjórðungi síðan og hefur nú verð þýdd yfir á fjölda tungumála, sé enn frekari áhersla Drottins á sannleika fagnaðarerindisins, sem við þörfnumst okkur til stuðnings í núverandi áskorunum gagnvart fjölskyldunni. …

    Ég ber vitni um að yfirlýsingin um fjölskylduna staðhæfir eilífan sannleika og er vilji Drottins fyrir þau börn hans sem keppa að eilífu lífi. Hún hefur verið undirstöðukenning kirkjunnar og iðkuð síðastliðin 22 ár og mun halda áfram að vera það. Takið á móti henni sem slíkri, kennið hana, lifið eftir henni og þið verðið blessuð er þið sækið fram til eilífs lífs. …

    … Ég trúi að viðhorf okkar til fjölskylduyfirlýsingarinnar og gagnsemi okkar af henni, sé ein slík prófraun fyrir þessa kynslóð. Ég bið þess að allir Síðari daga heilagir verið staðfastir í þeirri prófraun“ („Áætlunin og yfirlýsingin,“ aðalráðstefna okt. 2017, https://www.lds.org/general-conference/2017/10/the-plan-and-the-proclamation?lang=isl.

  17. Russell M. Nelson forseti sagði: „Til eru þeir sem telja okkur vera hræsnara, en hræsnarar eru þeir sem leyfa okkur ekki að skynja það sem við skynjum, heldur vilja að við skynjum eins og þeir skynja. Skoðun okkar stendur og fellur með skírlífislögmálinu. Boðorðin tíu eru enn í gildi. Þau hafa aldrei verið afturkölluð. … Það eru ekki forréttindi okkar að breyta lögmáli sem Guð hefur ákvarðað“ (í Dew, Insights from a Prophet’s Life: Russell M. Nelson, 212).

  18. „Þó að ráðist sé að fjölskyldunni um allan heim, mun fjölskylduyfirlýsingin vernda ykkur.

    Þið, dásamlega æska göfugs frumburðarréttar, verðið að skilja hinar langvarandi afleiðingar á því hvernig samfélagið brenglar sjálfa skilgreiningu hjónabandsins. Núverandi umræður fjalla um spurninguna um hvort tveir einstaklingar af sama kyni geti gifst. Ef þið hafið spurningar um stöðu kirkjunnar á þessu og öðru mikilvægu málefni, íhuguð í bæn og breytið síðan eftir spámannlegum boðskap næstkomandi aðalráðstefnu kirkjunnar í október. Þessi innblásni boðskapur, ásamt hughrifum heilags anda, veitir ykkur betri skilning í huga“ (Russell M. Nelson, “Youth of the Noble Birthright: What Will You Choose?” [Kvöldvaka Fræðsludeildar kirkjunnar fyrir ungt fullorðið fólk, 6. sept 2013], broadcasts.ChurchofJesusChrist.org).

  19. Russell M. Nelson, “Stand as True Millennials,” Liahona, okt. 2016, 53.

  20. Nelson forseti hefur sagt: „Stjórnvöld verða fyrir miklum áhrifum af samfélagsþrýstingi og veraldlegum hugmyndafræðingum, sem skrifa, endurskrifa og knýja fram lagasetningar. Hvaða stjórnlög sem kunna að verða sett, þá er ekki hægt að breyta kenningu Drottins um hjónaband og siðferði. Hafið í huga: Synd verður áfram synd í augum Guðs, þótt hún verði lögheimiluð af mönnum!” („Ákvarðanir fyrir eilífðina,“ aðalráðstefna okt. 2013, https://www.lds.org/general-conference/2013/10/decisions-for-eternity?lang=isl.

  21. Jóh 6:66-69.

  22. Sjá Alma 32:41-41; Mér hefur ávallt fundist áhugavert að í þessum merka kafla um að þroska trú okkar, þá eru gildin trú, þolinmæði og kostgæfni nefnd saman í öllum síðustu þremur versunum.

  23. Sjá Alma 7:12; Jesús Kristur þjáðist ekki aðeins fyrir syndir okkar, heldur líka vanmátt okkar: „Hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“ (Samheiti fyrir vanmátt gæti verið veikindi, veikleikar, þrengingar, skortur. Sjá Kenning og sáttálar 88:6: „Hann, sem sté til upphæða og sté einnig neðar öllu, og skynjaði þannig alla hluti, svo að hann gæti í öllu og með öllu verið ljós sannleikans.“