2010–2019
Ofgnótt blessana
Apríl 2019


Ofgnótt blessana

Flestar þeirra blessana sem Guð þráir að veita okkur, krefjast aðgerða af okkur hálfu – aðgerða byggða á trú á Jesú Krist.

Kæru bræður og systur, himneskur faðir okkar og Jesús Kristur þrá að blessa sérhvert okkar.1 Spurningin um hvernig hljóta á þessar blessanir, hefur verið viðfangsefni heimspekilegra málfunda í aldaraðir.2 Sumir staðhæfa að blessanir séu eingöngu áunnar; við hljótum þær einungis fyrir eigin verk. Aðrir fullyrða að Guð hafi þegar útvalið þá sem hann mun blessa og hvernig – og að sú ráðstöfun sé óbreytanleg. Í grunninn er hvort tveggja rangt. Blessanir himins verða hvorki áunnar með því að safna „stigum góðra verka“ af öllum mætti, né með því að bíða hjálparvana eftir lottóvinningi blessana. Nei, sannleikurinn er langtum fjölþættari og hæfir betur sambandi kærleiksríks himnesks föður og mögulegra erfingja hans – okkur. Endurreistur sannleikur opinberar að blessanir séu aldrei áunnar, en innblásin verk trúar af okkar hálfu, samfelld frá upphafi, eru nauðsynleg.3

Ljósmynd
Viðarstafli

Við skulum líkja himneskum blessunum við stóran viðarstafla, til þess að skilja hvernig við hljótum blessanir frá Guði. Ímyndum okkur að í miðju staflans sé lítið magn af spreki og ofan á því lag af viðarkurli. Því næst eru lurkar, síðan litlir drumbar og loks stórir drumbar. Viðarstaflinn er gríðarlegt magn eldsneytis og gæti viðhaldið ljósi og hita dögum saman. Ímyndið ykkur síðan að við hlið viðarstaflans sé ein eldspýta með fosfórkveikju.4

Ljósmynd
Viðarstafli með eldspýtu

Svo hægt sé að leysa orku viðarstaflans úr læðingi, þarf að kveikja í eldspýtunni og síðan í sprekinu. Auðvelt er að kveikja í sprekinu, sem ber eld í stærri drumbana. Þegar eldurinn nær sér á strik, mun hann halda áfram að brenna allan viðinn, nema súrefnisskortur verði.

Ljósmynd
Brennandi viðarstafli

Að kveikja í eldspýtu og bera eld að spreki, er lítil áreynsla, sem þó leysir úr læðingi orkuna sem býr í viðarstaflanum.5 Hversu stór sem viðarstaflinn væri, þá gerist ekkert fyrr en kveikt er í eldspýtunni. Sé kveikt í eldspýtunni, en ekki kveikt í sprekinu, mun ljós og hiti eldspýtunnar vara örskamma stund og orka viðarstaflans verður áfram óleyst. Verði súrefnisskortur á einhverjum tímapunkti, mun eldurinn koðna niður.

Flestar þeirra blessana sem Guð þráir að veita okkur, krefjast, á svipaðan hátt, aðgerða af okkur hálfu – aðgerða byggða á trú á Jesú Krist. Trú á frelsarann er regla verka og kraftar.6 Fyrst sýnum við trú í verki, síðan mun kraftur veitast – að vilja og tíma Guðs. Þessi framvinda er nauðsynleg.7 Verkið sem krafist er, er þó alltaf agnarsmátt í samanburði við endanlegar blessanir sem hljótast.8

Hugsið um það sem gerðist þegar eitraðir höggormar komu meðal Ísraelsmanna til forna, á leið þeirra til fyrirheitna landsins. Bit hinna eitruðu höggorma var banvænt. Sá sem bitinn var, gat þó læknast með því að horfa á látúnsorm, sem Móse bjó til og setti á stöng.9 Hversu mikla áreynslu þarf til að horfa á eitthvað? Allir sem horfðu, hlutu kraft himins og læknuðust. Sumir Ísraelsmanna, sem bitnir voru, létu hjá líða að horfa á látúnsorminn og dóu. Kannski skorti þá trú til að horfa á hann.10 Kannski trúðu þeir ekki að svo einföld athöfn megnaði að kalla fram hina lofuðu lækningu. Kannski hertu þeir hjörtu sína af ásettu ráði og höfnuðu leiðsögn spámanns Guðs.11

Sú regla að virkja blessanir sem streyma frá Guði, er eilíf. Við, líkt og Ísraelsmenn til forna, verðum að sýna trú okkar á Jesú Krist í verki, til að verða blessuð. Guð hefur opinberað: „Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við – að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin.“12 Að þessu sögðu, þá ávinnið þið ykkur ekki blessun – sú hugmynd er röng – en þið þurfið að verðskulda hana. Sáluhjálp okkar veitist einungis fyrir verðleika og náð Jesú Krists.13 Óendanleiki friðþægingar hans felur í sér að viðarstaflinn er óendanlegur; okkar smáu verk eru næstum ekkert þar í samanburði. Þau eru þó meira en ekkert og ekki þýðingarlaus; í myrkri má sjá eldspýtuloga langar leiðir. Í raun fá þau sést á himni, því krafa er gerð um smávægileg verk trúar til að virkja loforð Guðs.14

Sýnið trú í verk til að hljóta þráða blessun frá Guði og kveikið á hinni óeiginlegu eldspýtu, sem sú himneska blessun er bundin. Eitt af því sem felst í bæninni er að tryggja blessanir sem Guð er fús að veita, en eru bundið því að við biðjum um þær.15 Alma hrópaði á miskunn og kvalir hans hurfu; hann var ekki framar hrjáður af minningu eigin synda. Gleði hans yfirgnæfði kvöl hans – einungis vegna þess að hann hrópað í trú á Jesú Krist.16 Sú orka sem við þurfum að virkja, er að hafa næga trú á Krist til að biðja Guð í einlægri bæn og beygja okkur undir vilja hans og tíma, hvað svarið varðar.

Oft krefst sú orka sem þarf að virkja fyrir nauðsynlegar blessanir meira en einungis að horfa eða spyrja; stöðug og endurtekin verk trúar þurfa að koma til. Á miðri 19. öld fól Brigham Young hópi Síðari daga heilagra að kanna og setjast að í Arisóna, sem var þurrt svæði í Norður-Ameríku. Eftir að hópurinn kom til Arisóna, urðu þau uppiskroppa með vatn og óttuðust að þau færust. Fólkið ákallaði Guð um hjálp. Brátt tók að rigna og snjóa, svo það gat fyllt tunnur sínar af vatni og gefið búpeningi sínum að drekka. Það sneri aftur til Salt Lake City, þakklátt og endurnært, og fagnaði yfir gæsku Guðs. Þegar heim var komið, gerði það Brigham Young grein fyrir leiðangrinum og staðhæfði að Arisóna væri óbyggilegt.

Ljósmynd
Brigham Young

Eftir að Brigham Young hafði hlustað á fólkið, spurði hann mann í herberginu hvað honum fyndist um leiðangurinn og kraftaverkið. Sá maður, Daniel W. Jones, svaraði stuttlega: „Ég hefði fyllt á, haldið áfram og beðist aftur fyrir.“ Bróðir Brigham lagði hönd sína á öxl bróður Jones og sagði: „Þessi maður verður í forsjá næsta leiðangurs til Arisóna.“17

Ljósmynd
Daniel W. Jones

Öll getum við minnst þess að hafa haldið áfram og beðist aftur fyrir – og blessanir veittust. Reynsla Michaels og Mariannar Holmes útskýrir þessar reglur. Ég og Michael þjónuðum saman sem svæðishafar Sjötíu. Ég hreifst alltaf af því er hann var kallaður til bænar á samkomum okkar, því andríki hans var greinilegt; hann vissi hvernig tala átti við Guð. Ég hafði unun af því að hlusta á hann biðjast fyrir. Snemma í hjónabandi sínu báðust Michael og Marian hvorki fyrir, né sóttu kirkju. Þau voru önnum kafin með þrjú ung börn og farsælt byggingafyrirtæki. Michael leit ekki á sjálfan sig sem trúaðan. Kvöld eitt kom biskupinn á heimili þeirra og hvatti þau til að biðjast fyrir.

Eftir að biskupinn kvaddi, ákváðu Michael og Marian að reyna að biðjast fyrir. Áður en þau fóru í rúmið, krupu þau við hlið þess og Michael byrjaði óþægilega. Eftir nokkur vandræðaleg bænarorð, hætti Michael skyndilega og sagði: „Marian, ég get þetta ekki.“ Þegar hann stóð upp og hugðist ganga í burtu, greip Marian um hönd hans, dró hann aftur niður á hnén og sagði: „Mike, þú getur þetta. Reyndu aftur!“ Michael fór með stutta bæn, eftir þessa hvatningu.

Holmes-hjónin hófu að biðjast fyrir reglubundið. Þau þáðu boð nágranna um að fara í kirkju. Þegar þau gengu inn í kapelluna og heyrðu upphafssálminn, hvíslaði andinn að þeim: „Þetta er rétt.“ Síðar hjálpaði Michael, óséður og óspurður, að flytja rusl úr samkomuhúsinu. Þegar hann gerði það, fann hann skýr hughrif: „Þetta er hús mitt.“

Ljósmynd
Michael og Marian Holmes á yngri árum

Michael og Mirian tóku á móti kirkjuköllunum og þjónuðu í deild sinni og stiku. Þau voru innsigluð hvort öðru og börnin þeirra þrjú voru innsigluð þeim. Fleiri börn fylgdu í kjölfarið og samtals urðu þau tólf. Holmes-hjónin þjónuðu í trúboði, hann sem trúboðsforseti og hún félagi hans – tvisvar sinnum.

Ljósmynd
Michael og Marian Holmes í dag

Fyrsta stirða bænin var stutt, en fyllt trú sem leysti úr læðingi blessanir himins. Holmes-hjónin nærðu eld trúar með því að sækja kirkju og þjóna. Trúfesti þeirra sem lærisveina í gegnum árin leiddi til mikils elds sem innblæs allt til þessa dags.

Ljósmynd
Stórfjölskylda Holmes

Eld þarf þó stöðugt að næra með súrefni, til að viðurinn nái að leysa alla sína orku. Líkt og fordæmi Michaels og Mariannar Holmes sýnir, þá krefst trú á Krist stöðugra verka, til að viðhalda loganum. Smávægileg verk knýja okkur áfram á sáttmálsveginum og leiða til æðstu blessana Guðs. Súrefnið flæðir þó einungis, ef við, í óeiginlegri merkingu, hreyfum fæturna. Stundum þurfum við að búa til boga og örvar áður en við hljótum opinberun um hvar okkur ber að leita til að afla matar.18 Stundum þurfum við að búa til verkfæri til að búa til skip áður en við hljótum opinberun um smíðina.19 Stundum, eftir leiðsögn spámanns Drottins, þurfum við að baka litla köku úr okkar litla magni olíu og hveitis, til að hljóta fulla krús olíu og tunnu hveitis.20 Stundum þurfum við að „[halda ró okkar og vita að Guð er Guð]“ og reiða okkur á hans tíma.21

Þegar þið hljótið einhverja blessun frá Guði, getið þið ályktað að þið hafið verið samhljóma eilífu lögmáli, sem stjórnar veitingu þeirrar blessunar.22 Hafið þó í huga að hið „óafturkallanlega tilskipaða“ lögmál er óháð tíma, sem merkir að blessanir koma að tímasetningu Guðs. Jafnvel fornir spámenn í leit að sínu himneska heimili,23 „dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu.“24 Hafi þráð blessun frá Guði ekki veist – ennþá – þurfið þið ekki að ærast og velta fyrir ykkur hvað meira þið getið gert. Farið þess í stað að leiðsögn Josephs Smith „[að gjöra] með glöðu geði … [það] sem í [ykkar] valdi stendur, og [bíðið] síðan … með fullri vissu … eftir að sjá … arm [Guðs] opinberast.“25 Sumar blessanir eru geymdar til betri tíma, jafnvel fyrir hin dyggustu börn Guðs.26

Fyrir sex mánuðum var hin heimilismiðaða og kirkjustyrkta áætlun kynnt, til að læra kenninguna, efla trú og styrkja einstaklinga og fjölskyldur. Russell M. Nelson forseti lofaði að þær breytingar geti hjálpað okkur að standast andlega, auka trúargleði okkar og efla viðsnúning okkar til himnesks föður og Jesú Krists.27 Það er þó undir okkur komið að gera tilkall til þessara blessana. Sérhvert okkar ber ábyrgð á að ljúka upp bókum og læra efnið í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur, ásamt ritningunum og öðru námsefni Kom, fylg mér.28 Við þurfum að ræða efnið við fjölskyldu okkar og vini og koma skipulagi á hvíldardag okkar, til að kveikja óeiginlegan eld. Við gætum, að öðrum kosti, geymt bækurnar í stafla á heimili okkar, sem væri þá innbundin efnisorka.

Ég býð ykkur að virkja af trúmennsku þann kraft himins til að hljóta sérstakar blessanir Guðs. Iðkið þá trú að kveikja á eldspýtunni og bera elda að. Aflið ykkur nauðsynlegs súrefnis meðan þið setjið traust ykkar á Drottin. Ég bið þess að heilagur andi leiði ykkur í þessu boði, svo að þið, líkt og hinn áreiðanlegi maður, eins og Orðskviðirnir segja, megið „blessast ríkulega.“29 Ég ber vitni um að himneskur faðir og hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, lifa og láta sig skipta velferð ykkar og hafa unun af því að blessa ykkur, í nafni Jesú Krists, amen.