2010–2019
Gæt þú þín, að þú gleymir ekki
Október 2016


Gæt þú þín, að þú gleymir ekki

Ég hvet ykkur, að þegar þið standið frammi fyrir erfiðleikum, minnist þess þá þegar þið funduð fyrir andanum og þegar vitnisburður ykkar var sterkur, minnist andlega grunnsins sem þið hafið byggt.

Góðan dag, kæru bræður og systur. Hve blessuð við höfum verið á þessari ráðstefnu. Þetta fyrsta ár sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni hefur gert mig mjög auðmjúkan. Það hefur verið ár teygjanleika, vaxtar og einlægra, viðvarandi bæna til himnesks föður míns á himnum. Ég hef fundið fyrir stuðningi frá bænum fjölskyldu, vina og kirkjuþegna um allan heim. Takk fyrir hugsanir ykkar og bænir.

Ég hef líka haft þau forréttindi að hitta kæra vini, suma frá því fyrir mörgum árum og marga sem ég hef kynnst nýlega. Það var eftir að hafa hitt góðan vin sem ég hef þekkt og unnað í mörg ár, að mér fannst ég finna innblástur að því sem ég ætla að tala um hér í dag.

Þegar við hittumst þá trúði vinur minn mér fyrir því að hann væri búin að eiga í vanda. Honum fannst hann vera að fara í gegnum „trúarlega kreppu“, svo að ég noti hans orð, og hann leitaði ráða hjá mér. Ég var þakklátur fyrir það að hann skyldi deila tilfinningum sínum og áhyggjum með mér.

Hann tjáði mér að hann þráði heitt þær tilfinningar sem hann hefði fundið áður andlega en honum finndist hann nú vera að glata. Er hann talaði þá hlustaði ég vandlega og bað einlæglega um að fá að vita hvað Drottinn myndi vilja að ég segði.

Vinur minn spurði mig þeirrar spurningar, sem þið hafið kannski sjálf spurt ykkur, sem lögð er fram á leitandi hátt í Barnafélagssálminum: „Himneskur faðir, ert þú þarna?“1 Fyrir ykkur sem gætuð verið að spyrja þessarar sömu spurningar þá langar mig að deila með ykkur sama ráði og ég myndi veita vini mínum og vona að hvert og eitt ykkar megið finna trú ykkar styrkta og ásetning ykkar um að vera skuldbundnir lærisveinar Jesú Krists endurnýjaðan.

Ég byrja á því að minna ykkur á að þið eruð synir eða dætur kærleiksríks himnesks föður og að kærleikur hans er og verður stöðugur. Ég veit að erfitt er að kalla upp slíka hughreystandi kærleikstilfinningu þegar þið eruð í hringiðu persónulegra vandamála eða erfiðleika, vonbrigða eða brostinna drauma.

Jesús Kristur þekkir harða baráttu og mótlæti. Hann gaf líf sitt fyrir okkur. Síðustu stundir hans voru grimmilegar, verri en við gætum nokkru sinni skilið en fórn hans fyrir hvert og eitt okkar var æðsta tjáning hreins kærleika

Engin mistök, synd eða val mun breyta ást Guðs til okkar. Það þýðir ekki að syndsamleg hegðun sé látin óátalin né fjarlægir hún skuldbindingu okkar um að iðrast þegar syndir eru drýgðar. Gleymið ekki að himneskur faðir þekkir og elskar hvert ykkar og hann er alltaf reiðubúinn að hjálpa.

Þegar ég íhugaði aðstæður vinar míns, þá kom mér í huga sú mikla viska sem er að finna í Mormónsbók: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“2

Ég ber vitni um að „djúp vansældar og óendanlegs volæðis“ er staður sem engan langar að vera á. Vini mínum fannst hann vera á brúninni.

Þegar ég hef ráðlagt fólki, eins og vini mínum, þá hef ég íhugað þær ákvarðanir sem þau hafa tekið í gegnum árin, sem hafa leitt þau í að gleyma heilögum reynslum, veiklast og efast. Ég hvet þau, eins og ég hvet ykkur núna, að þegar þið standið frammi fyrir erfiðleikum, minnist þess þegar þið hafið fundið fyrir andanum og þegar vitnisburður ykkar var sterkur, minnist andlega grunnsins sem þið hafið byggt. Ég lofa ykkur að ef þið gerið þetta, forðist það sem byggir ekki né styrkir vitnisburð ykkar eða það sem gerir lítið úr trú ykkar, þá munu þessar dýrmætu stundir, þegar vitnisburður ykkar blómstraði, koma aftur í huga ykkar í gegnum auðmjúka bæn og föstu. Ég fullvissa ykkur um að þið munið enn og aftur upplifa sama öryggi og hlýju frá fagnaðarerindi Jesú Krists.

Hvert og eitt okkar verðum fyrst að styrkja okkur sjálf andlega og því næst styrkja þá sem í kringum okkur eru. Hugleiðið ritningarnar reglulega og munið hugsanir ykkar og þær tilfinningar sem þið skynjið þegar þið lesið þær. Leitið líka annarra sannleiksuppsprettna en takið mark á þessari viðvörun úr ritningunum: „En gott er að vera lærður, ef hlítt er ráðum Guðs.“3 Mætið á kirkjufundi, sérstaklega sakramentissamkomu og meðtakið sakramentið og endurnýjið sáttmalana, þar með talið loforðið um að muna ávallt eftir frelsaranum svo að andi hans megi ávalt vera með ykkur.

Sama hvaða mistök við höfum gert eða hve ófullkomin okkur finnst við vera þá getum við alltaf blessað og upplyft öðrum Það getur hjálpað okkur að finna fyrir kærleika Guðs djúpt við hjartarætur er við veitum öðrum kristilega þjónustu.

Það er mikilvægt að muna hið kraftmikla ráð sem gefið er í 5 bók Móse: „Gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum.“4

Ákvarðanirnar sem við tökum hafa áhrif á kynslóðir. Deilið vitnisburði ykkar með fjölskyldu ykkar, hvetjið þau til að muna hvernig þeim leið er þeir gerðu sér grein fyrir andanum í lífi þeirra og að skrá þessar tilfinningar í dagbækur og persónulegar sögur þeirra, svo að þeirra eigin orð megi hjálpa til við að rifja upp hve góður Drottinn hefur verið þeim, þegar þau þurfa á því að halda.

Munið eftir því þegar Nefí og bræður hans snéru aftur til Jerúsalem til að sækja látúnsplöturnar sem innihéldu skráða sögu fólks þeirra, að hluta til svo að þeir myndu ekki gleyma fortíð sinni.

Í Mormónsbók nefndi Heleman líka syni sína eftir „forfeðrum“ sínum svo að þeir myndu ekki gleyma góðvild Drottins.

„Sjá, synir mínir. Ég vil, að þið hafið hugfast að halda boðorð Guðs. Sjá, ég hef gefið ykkur nöfn forfeðra okkar, sem komu frá landi Jerúsalem. Og þetta hef ég gjört, til þess að þið minnist þeirra, er nöfn ykkar koma upp í huga ykkar. Og þegar þið minnist þeirra, þá minnist þið verka þeirra. Og þegar þið minnist verka þeirra, þá megið þið vita, að sagt er og einnig ritað, að þau voru góð.

Þess vegna vil ég, synir mínir, að þið gjörið það, sem gott er, svo að um ykkur verði sagt og einnig ritað einmitt það sama og sagt var og ritað um þá.“5

Margir hafa enn í dag þessa sömu hefð að nefna börn sín eftir hetjum úr ritningunum eða trúföstum forfeðrum, sem leið til að hvetja þau til að gleyma ekki arfleifð sinni.

Þegar ég fæddist var mér gefið nafnið Ronald A. Rasband. Eftirnafn mitt heiðrar ætt föður míns. Mér var gefið miðjustafinn Atil að minna mig á að heiðra danska Anderson-ætt móður minnar.

Langa-langa-afi minn Jens Anderson var frá Danmörku. Árið 1861 leiddi Drottinn tvo Mormónatrúboða til heimilis Jens og Ane Cathrine Anderson, þar sem þeir kynntu þeim og 16 ára syni þeirra, Andrew, hið endurreista fagnaðarerindi. Þannig hófst trúararfleifð sem ég og fjölskylda mín njótum góðs af. Anderson fjölskyldan las Mormónsbók og voru skírð fljótlega eftir það. Næsta ár hlýddi Anderson fjölskyldan kalli spámannsins um að sigla yfir Atlantshafið og safnast til hinna heilögu í Norður Ameríku.

Því miður dó Jens á ferðalaginu yfir hafið en kona hans og sonur héldu áfram til Salt Lake dalsins og komu þangað 3. september, 1862. Þrátt fyrir erfiðleika og hjartasorg þá brást trú þeirra aldrei og ekki heldur trú margra afkomenda þeirra.

Ljósmynd
Málverk á skrifstofu öldungs Rasbands

Í skrifstofu minni er málverk6 sem sýnir á fallegan og táknrænan hátt fyrsta samfundi þessir dyggu trúboða og áa minna. Ég er staðráðinn í því að gleyma ekki arfleifð minni og sökum nafnsins míns, þá mun ég ætíð muna eftir trúar- og fórnararfleifð þeirra.

Gleymið aldrei, efist ekki eða hunsið persónulegar, helgar andlegar reynslur. Áætlun andstæðingsins er að draga athygli okkar frá andlegum vitnum á sama tíma og þrá Drottins er að upplýsa og fá okkur til starfa í verki hans.

Leyfið mér að deila persónulegu dæmi um þennan sannleika. Ég man vel eftir því þegar ég fékk hvatningu í svari við kröftugri bæn. Svarið var skýrt og mjög ákveðið. Ég fylgdi hins vegar ekki þessari ábendingu strax og eftir smá tíma fór ég að efast um það hvort að það sem ég hefði skynjað hefði verið raunverulegt. Sum ykkar hafa kannski líka fallið fyrir þessari blekkingu andstæðingsins.

Nokkrum dögum seinna vaknaði ég með þessi áhrifamiklu ritningarvers í huga mínum:

„Sannlega, sannlega segi ég þér, ef þú þráir frekari vitnisburð, hugleiddu þá nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu. …

Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta? Hvaða stærri vitnisburð getur þú fengið en þann, sem frá Guði kemur?“7

Það var eins og Drottinn væri að segja: „Ronald, ég er búinn að segja þér hvað þú þarft að gera. Gerðu það þá!“ Hve þakklátur ég var fyrir þessa kærleiksríku áminningu og leiðsögn! Þessi hvatning huggaði mig strax og ég gat haldið áfram, vitandi í hjarta mér að bæn minni hafði verið svarað.

Ég deili þessari reynslu minni með ykkur, kæru bræður og systur, til að sýna ykkur hve fljótt hugur okkar getur gleymt og hve hin andlega reynsla leiðir okkur. Ég hef lært að meta svona stundir, „gæt þú þín, að þú gleymir ekki.“

Ég gef vini mínum, og öllum sem vilja styrkja trú sína, það loforð: er þið lifið trúfastlega eftir fagnaðarerindi Jesú Krists og fylgið kenningum þess þá mun vitnisburður ykkar vera verndaður og hann mun vaxa. Haldið þá sáttmála sem þið hafið gert, sama hvað aðrir í kringum ykkur gera. Verið kostgæfnir foreldrar, bræður og systur, ömmur og afar, frænkur, frændur og vinir sem styrkja ástvini með persónulegum vitnisburði og sem deila andlegum reynslum. Verið trúföst og staðföst, jafnvel þó að stormar efasemda ráðast inn í líf ykkar í gegnum gjörðir annara. Leitið þess sem mun uppfræða og styrkja ykkur andlega. Forðist fölsuð framlög af svo kölluðum „sannleika“ sem gegnsýrir og munið að skrá upplifanir ykkar af „[kærleika], gleði, [friði], langlyndi, [gæsku], góðvild, [trúmennsku], hógværð og bindindi.8

Í hringiðu sterkustu storma lífsins gleymið ekkiguðlegri arfleifð ykkar sem synir og dætur Guðs eða eilífum örlögum ykkar að snúa einhvern daginn til að búa með honum, sem mun bera af nokkru því sem heimurinn getur boðið. Munið hin ljúfu og blíðu orð Alma: „Og sjáið nú, ég segi yður, bræður mínir, ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“9

Ég grátbið ykkur öll sem hafið þörf fyrir að láta styrkja trú ykkar, að gleyma því ekki! Verið viss um að muna það

Ég ber vitni um að Joseph Smith var spámaður Guðs. Ég veit að hann sá og talaði við Guð föðurinn og son hans Jesú Krist, alveg eins og hann skráði í sínum eigin orðum. Hve þakklátur ég er fyrir það að hann gleymdi ekki að skrifa þá reynslu niður, svo að við gætum öll þekkt vitnisburð hans.

Ég ber hátíðlegt vitni um Drottinn Jesú Krists. Hann lifir, ég veit að hann lifir og stendur sem höfuð þessarar kirkju. Ég veit þetta sjálfur, óháð nokkurri annari rödd eða vitni og ég bið þess að þið og ég munum aldrei gleyma heilögum, eilífum sannleika, fyrst og fremst það að við erum synir og dætur lifandi og ástríkra himneskra foreldra sem þrá einungis eilífa hamingju okkar. Um þennan sannleika vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.