2010–2019
Fyrir andlegan þroska okkar og lærdóm
Október 2016


Fyrir andlegan þroska okkar og lærdóm

Leyndardómar Guðs opinberast okkur eingöngu samkvæmt vilja hans og með krafti heilags anda.

Þegar ég var ungur drengur fengu foreldrar mínir gjöf sem mér og yngri bróður mínum, Davíð, fannst undraverð. Gjöfin var smækkað líkan af gulltöflunum sem spámaðurinn Joseph Smith fékk frá englinum Moróní. Eftir því sem ég best man, þá hafði líkanið um 10 málmplötur með orðum rituðum á þær. Það voru samt sem áður ekki þessar síður sem fengu athygli okkar.

Við höfðum verið aldir upp með sögum endurreisnarinnar. Við vissum af og höfðum sungið í Barnafélaginu um gulltöflurnar, grafnar djúpt í fjallinu og afhentar Joseph Smith af englinum Moróní.1 Það var eitt sem okkur virkilega langaði að sjá, forvitnin kraumaði í ungum hugum okkar: Að sjá hvað væri ritað á smærri hluta taflnanna í líkaninu, sem voru innsiglaðar með tveimur litlum málmræmum.

Plöturnar voru staðsettar á sófaborði í nokkra daga áður en forvitnin fór alveg með okkur. Okkur langaði að sjá innsiglaða hlutann, þótt við skildum skilmerkilega að þetta væru ekki raunverulegu töflurnar sem Moróní hafði afhent. Nokkrum sinnum reyndum við bróðir minn að nota smjörhnífa, gamlar skeiðar og hvað annað sem við gátum ímyndað okkur að nota til að spenna upp innsiglaða hluta taflnanna, rétt nægilega til að sjá hvað þær innihéldu – en þó ekki svo mikið að ræmurnar myndu brotna. Við vorum að minnsta kosti nægilega klókir til að skilja ekki eftir nein sönnunargögn um grallaraskap sem stöfuðu af forvitni bernskunnar. Það olli okkur vonbrigðum og skapraun að tilraunir okkar við að „spenna upp töflurnar“ voru alltaf árangurslausar.

Enn í dag, veit ég ekki hvað – ef eitthvað – var falið í innsiglaða hlutanum. Vandræðalegi hluti sögu okkar er að allt til dagsins í dag hef ég ekki minnstu hugmynd um hvað var ritað á málmtöflurnar sem voru opnar og átti að lesa. Ég get einungis ímyndað mér að þessar síður hafi innihaldið sögur um endurreisnina og vitnisburði Joseph Smith og vitnanna þriggja og átta, sem sáu hinar raunverulegu töflur sem Moróní afhenti.

Okkar elskandi himneski faðir hefur, frá sköpun þessarar jarðar, veitt börnum sínum leiðsögn, forystu og leiðbeiningar með spámönnum. Orð hans hafa borist fólki með þessum spámönnum og eru varðveitt sem ritningar okkur til þroska og lærdóms. Nefí lýsti því á þennan hátt:

„Því að sál mín hefur unun af ritningunum og hjarta mitt ígrundar þær og færir í letur, börnum mínum til uppfræðslu og gagns.

Sjá, sál mín hefur unun af öllu, sem Drottin snertir. Og hjarta mitt ígrundar án afláts það, sem ég hef séð og heyrt.“2

Þar að auki hafa verðugir meðlimir kirkju Drottins, á fyrir ráðstöfunartímum og á þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna, verið blessaðir með stöðugum félagsskap heilags anda, sem aðstoðar í andlegum þroska okkar og lærdómi.

Ég get vel ímyndað mér, vitandi af kostgæfni yngri bróður míns, að hann hafi lesið öll orðin sem skrifuð voru á plötur líkansins á heimili foreldra okkar. Hins vegar hunsaði ég þennan auðskiljanlega og dýrmæta sannleika og notaði í staðinn krafta mína til að leita að því sem ekki átti að opinbera.

Því miður getur stundum hægt á þroska okkar og lærdómi eða jafnvel hann algjörlega stöðvast vegna illa ígrundaðrar þrá okkar að „spenna upp töflurnar.“ Slíkar gjörðir geta leitt okkur til að eltast við það sem ekki á endilega að skiljast á þessum tíma, á sama tíma hunsum við hinn fagra sannleika sem ætlaður er okkur og aðstæðum okkar – þeim sannleika sem Nefí lýsti að væri skrifaður til uppfræðslu okkar og gagns.

Jakob, bróðir Nefís, kenndi: „Mikil og undursamleg eru verk Drottins. Hve ókannanleg eru ekki djúp leyndardóma hans, og útilokað er, að maðurinn finni allar leiðir hans.“3

Orð Jakobs útskýra fyrir okkur að við getum ekki náð að „spenna upp töflurnar“ eða þvinga opinberun leyndardóma Guðs. Í staðinn eru leyndardómar Guðs opinberaðir okkur eingöngu samkvæmt vilja hans og með krafti heilags anda.4

Jakob heldur áfram:

„Enginn maður þekkir leiðir hans, nema þær séu opinberaðar honum. Þess vegna bræður, skuluð þér ekki forsmá opinberanir Guðs.

Því að sjá. Með krafti orðs hans varð maðurinn til á yfirborði jarðar … hví skyldi hann þá ekki eins geta skipað jörðunni og sköpunarverki sínu á yfirborði hennar, sem honum þóknast og að eigin vild?

Bræður, leitist þess vegna ekki við að gefa Drottni ráð, heldur leitið ráða hans.“5

Til þess að skilja leyndardóma Guðs eða það sem einungis er hægt að skilja með opinberun, þá verðum við að fylgja fordæmi Nefís sem sagði: „Og svo bar við, að ég, Nefí, sem var mjög ungur að árum, en mikill vexti og fullur af þrá eftir að kynnast leyndardómum Guðs, ákallaði Drottin. Og sjá. Hann vitjaði mín og mildaði hjarta mitt svo, að ég lagði trúnað á öll orð föður míns.“6 Drottinn sjálfur útskýrði nánar að Nefí hafði iðkað trú, leitað af kostgæfni og haldið boðorð hans.7

Fordæmi Nefís í að leita þekkingar felur í sér (1) einlæga þrá, (2) auðmýkt, (3) bæn, (4) að treysta spámanninum og iðka (5) trú, (6) kostgæfni og (7) hlýðni. Þessi aðferð við að leita er mikil andstæða við mína leið að „spenna upp töflurnar“ eða reyna að þvinga skilning á því sem á að opinberast samkvæmt tímatöflu Drottins og með krafti heilags anda.

Nú á dögum erum við orðin vön að þekkingu sé hægt og ætti að öðlast samstundis. Þegar upplýsingar eru ekki auðfáanlegar eða aðgengilegar, þá er málinu oft vísað frá eða vantraust myndast. Vegna gnægð upplýsinga, þá veita sumir einstaklingar, óafvitandi, aðgengilegum heimildum, sem þó hafa óþekkta uppsprettu, meiri trúverðleika, frekar en að reiða sig á fyrirfram uppsett mynstur Drottins við að hljóta persónulega opinberun. Jakob hefði geta verið að lýsa okkar tímum þegar hann sagði: „En sjá. [þeir] voru þrjóskufull þjóð, og þeir fyrirlitu einföld og afdráttarlaus orð, … og sóttust eftir því, sem þeir skildu ekki. Og vegna blindu sinnar, blindu sem hlaust af því að horfa yfir markið, hljóta þeir að falla, því að Guð hefur samkvæmt þeirra eigin vilja tekið frá þeim hinn skýra einfaldleik sinn og látið þeim í té margt, sem þeir fá eigi skilið.“8

Í mótvægi við þetta er ráðgjöf Dieters F. Uchtdorf forseta. Hann talaði um trúboða en orð hans eiga jafn mikið við um alla sem leita að andlegum sannleika. „Þegar … trúboðar hafa trú á Jesú Krist,“ sagði hann, „treysta þeir Drottni nægilega til að fara að fyrirmælum hans – jafnvel þótt þeir skiljir ekki fyllilega ástæðurnar þar að baki. Trú þeirra verður staðfest fyrir kostgæfni og með erfiði.“9

Á aðalráðstefna í apríl síðastliðnum, útskýrði öldungur Dallin H. Oaks: „Kirkjan er að vinna mikið verk til að vera með gegnsæi í öllum skrám sem við höfum, en eftir allt sem við getum gefið út sitja kirkjuþegnar stundum eftir með grundvallar spurningar sem er ekki auðvelt að svara með lærdómi. … Sumt er aðeins hægt að læra með trú.“10

Fornir spámenn hafa kennt þessa sömu reglu, sýnt í gegnum aldirnar að mannlegt eðli hefur ekki breyst og að lærdómsmynstur Drottins er sígilt. Íhugið þessi spakmæli úr Gamla testamentinu: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“11

Jesaja útskýrði og mælti fyrir munn Drottins: „Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“12

Nefí bætti við öðru vitni þegar hann lýsti yfir: „Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér.“13

Trú og taust á Drottinn krefst þess að við göngumst við að viska hans er ofar okkar eigin. Við þurfum einnig að gangast við að áætlun hans veitir mestu möguleikana á andlegum þroska og lærdómi.

Það var aldrei við því búist að við „hefðum fullkomna þekkingu“ í þessari dauðlegu tilveru. Í staðin ættum við að hafa „von um það, sem eigi er auðið að sjá, en er sannleikur.“14

Nefí viðurkenndi takmarkaðan skilning sinn, þrátt fyrir hans miklu trú, þegar hann svaraði englinum sem spurði hann: „Þekkir þú lítillæti Guðs?“ Nefí svaraði: „Ég veit, að hann elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta.15

Á svipaðan hátt tjáði Alma syni sínum Helaman: „En mér hafa ekki að fullu verið kunngjörðir þessir leyndardómar. Ég mun þess vegna sýna umburðarlyndi.“16

Ég tjái ykkur mitt vitni að himneskur faðir elskar börn sín en samt, eins og Nefí og Alma, þá veit ég ekki merkingu allra hluta. Né þarf ég að vita alla hluti; því einnig ég mun sýna umburðarlyndi og leita Drottins, vitandi að „Allt er mér vitnisburður um, að þessir hlutir séu sannir. Og þú hefur líka allt til að bera vitni um, að þeir séu sannir. …

… Ritningarnar liggja frammi fyrir þér, og allir hlutir sýna fram á, að Guð er til. Já, jafnvel jörðin og allt, sem á henni er, já, og snúningur hennar, já, og öll himintunglin, sem snúast á sinn reglubundna hátt, bera því vitni, að til er æðri skapari.“17

Er við viðurkennum að við séum handbragð viturs og ástríks föðurs á himni, „hví“ ekki að leyfa honum að stjórna andlegum þroska okkar og lærdómi á þann hátt “sem honum þóknast og að eigin vild“ frekar en okkar eigin?18

Hann lifir. Jesús Kristur er hans eingetni sonur hans og lausnari mannkyns. Kristur hefur viskuna og framsýnina til að leiða okkur á þessum síðari dögum vegna þess að friðþæging hans er takmarkalaus. Joseph Smith er spámaður hans, útvalinn til að endurreisa ríki hans á jörðu í fullnustu. Thomas S. Monson er hans lifandi spámaður og talsmaður í dag. Um þetta ber ég mitt einlæga vitni, í nafni Jesú Krists, amen.