2010–2019
Lærum af Alma og Amúlek
Október 2016


Lærum af Alma og Amúlek

Ég ber þá von í brjósti að þeir sem hafa villst af vegi lærisveinsins, muni ljúka upp hjörtum sínum og læra af Alma og Amúle.

Alma yngri

Alma yngri er ein minnisstæðasta sögupersóna ritninganna. Þótt hann væri sonur mikils spámanns, þá missti hann áttir um tíma og varð „ranglátur maður og skurðgoðadýrkandi.“ Af einhverjum ókunnum ástæðum þá fór hann gegn föður sínum og reyndi að tortíma kirkjunni. Hann náði mikum og góðum árangri við þá iðju sína, því hann bjó yfir mælsku og sannfæringarkrafti.1

Líf Alma breyttist hins vegar eftir að engill Drottins hafði birtist honum og mælt til hans með þrumuraust. Í þrjá daga og þrjár nætur „leið [Alma] eilífa kvöl … já, [kvaldist] kvölum dæmdrar sálar.“ Síðan gerðist það að einhver óskýr minning tók að brjótast fram í gegnum myrkvaðan huga hans – eilífur sannleikur, sem faðir hans hafði kennt honum: Að Jesús Kristur myndi koma og „friðþægja fyrir syndir heimsins.“ Alma hafði fyrir löngu hafnað slíkri hugmynd, en „hugur [hans] náði nú tökum á þessari hugsun,“ og af alvöru og auðmýkt setti hann traust sitt á mátt friðþægingar Krists.2

Eftir að Alma hafði upplifað þetta varð hann allt annar maður. Upp frá þessu helgaði hann sig því að bæta fyrir þann skaða sem hann hafði valdið. Hann er máttugt fordæmi um iðrun, fyrirgefningu og staðfasta hollustu.

Alma varð að lokum útvalinn til að taka við af föður sínum sem höfuð kirkjunnar.

Allir íbúar Nefíþjóðarinnar hljóta að hafa verið kunnugir sögu Alma. Twitter, Instagram og Facebook hans tíma hljóta að hafa verið yfirfull af myndum og sögum honum tengdum. Sennilega hefur hann birtst reglulega á forsíðu Sarahemlatíðinda og verið umfjöllunarefni tímarita og fréttablaða. Hann var sem sagt að öllum líkindum þekktasta persóna síns tíma.

Þegar Alma sá hins vegar að fólkið hans hafði gleymt Guði og , ákvað hann að hverfa frá sínu opinbera embætti og einskorða sig „einvörðungu við hið háa prestdæmi hinnar heilögu reglu Guðs,“3 og prédika iðrun meðal Nefítanna.

Í fyrstu naut Alma mikillar velgengni – eða allt þar til hann fór til Ammoníaborgar. Íbúum þeirrar borgar var vel ljóst að Alma væri ekki lengur stjórnmálaleiðtogi þeirra og þeir báru litla virðingu fyrir prestdæmisvaldi hans. Þeir formæltu honum, hæddu hann og ráku hann út úr borginni.

Alma snéri sorgmæddur baki við Ammoníaborg.4

Engill bauð honum hins vegar að fara þangað aftur

Hugsið ykkur: Honum var boðið að fara aftur til þess fólks sem hafði haft á honum óbeit og var óvinveitt kirkjunni. Þetta var áhættusamt og hugsanlega lífshættulegt verkefni. Alma vílaði það hins vegar ekki fyrir sér. Hann „sneri … í skyndi aftur.“5

Alma hafði fastað í marga daga áður en hann fór til borgarinnar. Þar bað hann bláókunnugan: „Vilt þú gefa auðmjúkum þjóni Guðs eitthvað að borða?“6

Amúlek

Nafn þessa manns var Amúlek.

Amúlek var vel þokkaður og þekktur borgari í Ammoníaborg. Þótt hann hafi komið frá trúuðum í marga ættliði, þá hafði trú hans kólnað. Síðar viðurkenndi hann: „Ég var kallaður mörgum sinnum, en ég vildi ekki heyra. Þess vegna vissi ég um þetta, samt vildi ég ekki vita það. Þess vegna hélt ég áfram að rísa gegn Guði.“7

Guð hafði verið að undirbúa Amúlek og þegar hann hitti Alma, bauð hann þjón Drottins velkominn í hús sitt, þar sem Alma dvaldi í marga daga.8 Á þeim tíma lauk Amúlek upp hjarta sínu fyrir boðskap Alma og hann upplifði dásamlega umbreytingu. Frá þeirri stundu trúði Amúlek ekki aðeins, heldur varð hann meistari sannleikans.

Þegar Alma fór aftur út á meðal fólksins í Ammoníaborg, hafði hann Amúlek, sem fólkið þekkti, með sér sem annað vitni.

Þeir atburðir sem fylgdu í kjölfarið hafa að geyma einar ljúfsárustu frásagnir allra ritninganna. Þið getið lesið um þá í Alma, kapítulum 8–16.

Í dag langar mig að biðja ykkur að hugleiða þessar tvær spurningar:

Í fyrsta lagi: „Hvað get ég lært af Alma?“

Í öðru lagi: „Hvernig líkist ég Amúlek?“

Hvað get ég lært af Alma?

Við alla leiðtoga í Kirkju Jesú Krists, fortíðar, nútíðar og framtíðar, segi ég: „Hvað getið þið lært af Alma?“

Alma var einkar hæfileikaríkur og snjall maður. Það kann að vera einföldun að ætla að hann hafi ekki þurft á hjálp annars að halda. Hvað gerði Alma hins vegar þegar hann snéri aftur til Ammoníu?

Alma leitað Amúlek uppi og bað hann um liðsinni.

Alma fékk þá hjálp.

Af einhverjum ástæðum þá erum við sem leiðtogar stundum tregir til að finna einhverja amúleka og leita liðsinnis þeirra. Við teljum kannski að við getum unnið verkið betur sjálfir eða erum tregir til að raska ró annarra eða gerum ráð fyrir að þeir vilji ekki leggja hönd á plóg. Of oft erum við hikandi við að bjóða fólki að nota eigin hæfileika til að taka þátt í hinu mikla verki sáluhjálpar.

Hugsið um frelsarann – kom hann kirkju sinni á fót einsamall?

Nei.

Hans skilaboð voru ekki: „Haldið að ykkur höndum. Ég sé um þetta.“ Þau voru öllu heldur: „Kom … og fylg mér.“9 Hann innblés, bauð, fræddi og treysti fylgjendum sínum síðan „til að gjöra það sem [þeir höfðu] séð [hann] gjöra.“10 Á þennan hátt byggði Jesús Kristur ekki aðeins upp kirkju sína, heldur líka þjóna sína.

Hver sem köllun þín er nú – hvort heldur sem þú ert forseti djáknasveitar, stikuforseti eða svæðisforseti – þá verður þú að finna amúleka til að árangur náist.

Það gæti verið einhver hógvær eða jafnvel ósýnilegur í söfnuði ykkar. Það gæti verið einhver sem sýnist tregur eða ófær um að þjóna. Ykkar amúlekar gætu verið ungir eða gamlir, karlar eða konur, óreyndir eða vel reyndir eða óvirkir í kirkjunni. Í fyrstu gæti ykkur hins vegar ekki verið ljóst að þau vonast eftir að heyra ykkur segja: „Drottinn þarfnast þín! Ég þarfnast þín!“

Margir þrá undir niðri að þjóna Guði sínum. Þau vilja vera verkfæri í hans höndum. Þau vilja beita sigð sinni og erfiða af öllum kröftum við að búa jörðina undir komu frelsara okkar. Þau vilja byggja upp kirkjuna hans. Þau eru hins vegar treg til að hefjast handa. Oft bíða þau þess að verða beðin.

Ég hvet ykkur til að hugsa til þeirra í greinum ykkar og deildum, í trúboðum ykkar og stikum, sem þurfa að heyra kallið til starfa. Drottinn hefur verið að vinna með þau – undirbúa þau, milda hjörtu þeirra. Finnið þau með hjarta ykkar.

Náið til þeirra. Kennið þeim. Innblásið þau. Biðjið þau.

Miðlið þeim orðum engilsins til Amúleks – um að blessanir Drottins mun hvíla á þeim og híbýlum þeirra.11 Þið gætuð óvænt uppgötvað dyggan þjón Drottins, sem að öðrum kosti hefði látið lítið fyrir sér fara.

Hvernig líkist ég Amúlek?

Á meðan að sumir okkar ættu að leita að einhverjum amúleka, gætu aðrir spurt: „Hvernig líkist ég Amúlek?“

Svo kann að vera að í gegnum árin hafir þú orðið áhugalausari lærisveinn. Kannski hefur eldmóður vitnisburðar þíns dofnað. Kannski hefur þú fjarlægt þig líkama Krists. Kannski hefur þú orðið fyrir vonbrigðum eða jafnvel reiðst. Þú gætir, líkt og sumir gerðu til forna í kirkjunni í Efesus, hafa afrækt þinn „fyrri kærleika“12 – hinn háleita, eilífa sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists.

Kannski veistu í hjarta þínu, líkt og Amúlek gerði, að þú hefur verið „kallaður mörgum sinnum“ af Drottni, en þú „[vildir] ekki heyra.“

Hvað sem öllu líður, þá sér Drottinn í þér það sem hann sá í Amúlek – efni trúfasts þjóns, sem gæti unnið mikilvægt verk og miðlað eigin vitnisburði. Það er til þjónusta sem enginn annar getur veitt á nákvæmlega sama hátt og þú getur. Drottinn hefur treyst þér fyrir hinu heilaga prestdæmi sínu, sem hefur guðlega eiginleika til að blessa og uppörva aðra. Hlustaði með hjartanu og fylgdu rödd andans.

Lífsferð meðlims nokkurs

Ég komst við af lífsferð bróðurs nokkurs, sem spurði sig sjálfan: „Mun ég heyra þegar Drottinn kallar?“ Ég mun nefna þennan góða bróður, David.

David snérist til trúar á kirkjuna fyrir um 30 árum. Hann þjónaði í trúboði og fór síðan í laganám. Meðan hann var í náminu og stundaði atvinnu til að sjá fjölskyldu sinni farborða, urðu á vegi hans upplýsingar um kirkjuna sem rugluðu hann í ríminu. Því meira sem hann las þetta neikvæða efni, því ósáttari varð hann. Loks kom að því að hann óskaði eftir því að nafnið hans yrði fjarlægt úr skrám kirkjunnar.

Frá þeim tíma varði David miklum tíma í að deila við meðlimi kirkjunnar, líkt og Alma gerði á sínum uppreisnartíma, í umræðum á netinu og ögraði trú þeirra.

Hann varð afar leikinn í þessu.

Hann átti í rökræðum við meðlim einn sem ég nefni Jakob. Jakob var alltaf ljúfur og kurteis við David, en varði þó alltaf kirkjuna staðfastlega.

David og Jakob þróuðu yfir árin gagnkvæma virðingu og vinskap. David vissi hins vegar ekki að Jakob bað fyrir David og það gerði hann trúfastlega í yfir áratug. Hann fór jafnvel með nafn vinar síns á bænalista musteris Drottins og vonaði að David mildaðist í hjarta.

Með tímanum tók David smám saman að breytast. Hann tók að minnast dálæti hinna andlegu upplifana sem hann eitt sinn varð fyrir og gleðinnar sem hann upplifði sem meðlimur kirkjunnar.

Líkt og Alma, þá hafði David ekki algjörlega gleymt sannleika fagnaðarerindisins sem hann hafði eitt sinn meðtekið. Líkt og Amúlek, þá fann David að Drottinn var að tala til hans. David var nú meðeigandi í lögfræðistofu – í mikilsmetnu starfi. Hann hafði þróað með sér orðstír sem gagnrýnandi kirkjunnar og var orðinn of drambsamur til að biðja um inngöngu að nýju.

Hann fann þó stöðugt fyrir aðdráttarafli hirðisins.

Hann tók þessa ritningargrein alvarlega: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“13 Hann bað: „Ástkæri Guð, ég þrái að verða Síðari daga heilagur að nýju, en ég þarf að fá sör við spurningum mínum.“

Hann tók að hlusta á hina hljóðu rödd andans og innblásin svör vina sinna, á þann hátt sem hann hafði ekki áður gert. Smám saman hurfu efasemdir hans og trúin tók við, þar til honum varð ljóst að enn á ný fann hann vitnisburð um Jesú Krist og hina endurreistu kirkju hans.

Þegar hér var komið, vissi hann að hann gat sigrast á eigin drambi og hugðist gera allt sem þyrfti til að fá inngöngu í kirkuna að nýju.

Að því kom að David fór ofan í skírnarvatnið og taldi eftir það dagana þar til blessanir hans yrðu endurreistar honum.

Ég gleðst yfir að geta greint frá því að síðastliðið sumar voru blessanir Davids endurreistar honum. Hann er nú að nýju fullvirkur í kirkjunni og þjónar sem sunnudagaskólakennari í deildinni sinni. Hann grípur hvert tækifæri til að segja öðrum frá umbreytingu sinni, bæta fyrir skaðann sem hann olli og bera vitni um fagnaðarerindi og Kirkju Jesú Krists.

Lokaorð

Kæru bræður og vinir, við skulum finna, innblása og reiða okkur á amúlekana í deildum okkar og stikum. Það eru margir amúlekar í kirkjunni á okkar tíma.

Þú gætir hugsanlega þekkt einn þeirra. Þú gætir hugsanlega verið einn þeirra.

Drottinn gæti hugsanlega hafa verið að tala til þín, hvetja þig til að snúa aftur til þíns fyrri kærleika, miðla hæfileikum þínum, iðka verðugur prestdæmið og þjóna samhliða hinum heilögu við að komast nær Jesú Kristi og byggja upp ríki Guðs á jörðu.

Okkar ástkæri frelsari þekkir stöðu þína. Hann þekkir hjarta þitt. Hann þráir að koma þér til bjargar. Hann mun finna þig. Gefðu honum bara hjarta þitt. Ég vona að þeir ykkar sem hafa villst af vegi lærisveinsins – jafnvel aðeins lítillega – muni ígrunda góðvild og náð Guðs, ljúka upp hjörtum sínum, læra af Alma og Amúlek og hlíta hinum lífgefandi orðum frelsarans: „Kom, fylg mér.“

Ég hvet ykkur til að hlíta þessu kalli, því sannlega munuð þið uppskera það sem himins er. Blessanir Drottins munu hvíla á ykkur og híbýlum ykkar.14

Um það ber ég vitni, og veiti ykkur blessun mína sem postuli Drottins, í nafni Jesú Krists, amen.