2010–2019
Líttu til bókarinnar, líttu til Drottins
Október 2016


Líttu til bókarinnar, líttu til Drottins

Getið þið séð Mormónsbók sem burðarstein ykkar, sem andlega miðstöð styrks ykkar?

Mary Elizabeth Rollins

Ég ímynda mér í huga mínum ykkur, hina rísandi kynslóð, horfandi eða hlustandi á þennan ráðstefnuhluta einhversstaðar í heiminum. Mig langar að deila með ykkur sannri sögu sem getur bæði verið fordæmi og lexía. Hún getur sýnt ykkur hvernig þið getið nálgast Drottinn og fengið aðgengi að meiri krafti til að standast freistingar.

Sagan er um stúlku sem býr í New York sem fyrir þriggja ára aldur missti föður sinn þegar bátur hans sökk í stórt vatn. Hún, móðir hennar, eldri bróðir og yngri systir fluttu í nýja borg í öðru fylki svo þau gætu búið með frænda hennar og frænku. Einhverjum tíma eftir að þau fluttu, þá komu trúboðar og meðlimir nýrrar kirkju í bæinn þeirra, færandi hin dásamlegu tíðindi endurreisnar fagnaðarerindisins. Þau greindu frá ótrúlegri sögu um engil sem færði pilti að nafni Joseph Smith fornar heimildir, sem hann þýddi svo með krafti Guðs. Tveir gestanna, Oliver Cowdery og John Whitmer, höfðu sjálfir séð töflurnar áletruðu með eigin augum og Whitmer hafði sjálfur haldið á gulltöflunum. Heimildirnar höfðu nýlega verið gefnar út og bróðir Whitmer hafði eitt eintak með sér. Nafnið á bókinni var auðvitað Mormónsbók.

Mary, sem var 12 ára gömul, fann fyrir sérstakri tilfinningu í hjarta sér þegar hún heyrði trúboðana tala um bókina. Mary þráði að lesa Mormónsbók jafnvel þótt hún væri þykk og með fjöldann allan af blaðsíðum. Þegar bróðir Whitmer kvaddi, þá gaf hann bróður Isaac Morley, sem var vinur frænda Mary og staðarleiðtogi í nýju kirkjunni, eitt eintak af verðmætu bókinni.

Mary skráði síðar: „Ég fór heim til [bróður Morleys] … og spurði hvort ég mætti sjá bókina, [hann] setti hana í hönd mína [og] er ég leit á bókina þá fann ég svo sterka þrá til að lesa hana að ég gat ekki haldið aftur af mér að biðja hann um að leyfa mér að taka bókina heim til að lesa hana. … Hann sagði … hann hefði varla sjálfur haft tíma til að lesa einn einasta kapítula í henni og eingöngu fáeinir bræður höfðu séð hana en ég bað hann svo einlæglega um bókina að hann sagði að lokum: ‚Barn, ef þú kemur með þessa bók fyrir morgunverð í fyrramálið, þá mátt þú taka hana.‘“

Ljósmynd
Mary Elizabeth Rollins við lestur

Mary hljóp heim og var svo hugfangin af bókinni að hún varði nánast allri nóttunni í að lesa hana. Næsta dag þegar hún skilaði bókinni sagði bróðir Morley: „Ég býst ekki við að þú hafir lesið mikið í henni“ og „ég held ekki að þú getir sagt mér frá einu stöku orði úr henni.“ Mary stóð strax upp og endurtók frá minni fyrsta versið í Mormónsbók. Hún sagði honum síðan frá sögunni um spámanninn Nefí. Síðar skrifaði Mary: „Undrandi starði hann á mig og sagði ‚barn, taktu þessa bók heim og kláraðu hana, ég get beðið.‘“

Stuttu síðar lauk Mary við að lesa bókina og varð fyrsta manneskjan í bænum sínum til að lesa alla bókina. Hún vissi að bókin væri sönn og að hún kæmi frá himneskum föður. Þegar hún leit til bókarinnar þá leit hún til Drottins.

Mánuði síðar kom sérstakur gestur heim til hennar. Hér er það sem Mary skrifaði um þennan eftirminnilegan fund þennan dag: „Þegar [Joseph Smith] sá mig, þá horfði hann á mig einlæglega. … Að nokkrum andartökum liðnum … þá gaf hann mér dásamlega blessun … og gaf mér bókina að gjöf og sagðist myndi gefa bróður Morley annað [eintak]. … Við fundum öll að hann vera maður Guðs því hann talaði af krafti, eins og hann hefði valdsumboð.“

Þessi stúlka, Mary Elizabeth Rollins, upplifði mörg önnur kraftaverk í lífi sínu og hélt ætíð vitnisburði sínum um Mormónsbók.1 Þessi saga hefur sérstaka þýðingu fyrir mig því hún er frænka mín. Af fordæmi Mary, ásamt öðrum upplifunum í mínu eigin lífi, hef ég lært að maður er aldrei of ungur til að leita eftir og hljóta persónulegt vitni um Mormónsbók.

Burðarsteinn vitnisburðar ykkar

Saga Mary hefur að geyma persónulega lexíu fyrir ykkur. Sérhvert ykkar, ungu piltar, ungu stúlkur og börn, getið upplifað það sama og hún gerði. Þegar þið lesið í Mormónsbók og biðjið af einlægni um að fá að vita um sannleiksgildi hennar, þá getið þið einnig hlotið sömu tilfinningar í hjarta ykkar og Mary hlaut. Vera má að þegar þið standið og berið vitni um Mormónsbók, þá munið þið einnig finna fyrir sama anda staðfestingar. Heilagur andi mun tala til hjartna ykkar. Þið getið einnig fundið þennan sama anda staðfestingar þegar þið heyrið aðra deila vitnisburði sínum um Mormónsbók. Sérhver þessara andlegu upplifana getur leitt til þess að Mormónsbók verði burðarsteinn vitnisburðar ykkar.

Leyfið mér að útskýra. Spámaðurinn Joseph Smith, sem þýddi Mormónsbók með gjöf og krafti Guðs, lýsti Mormónsbók sem „[réttastu] bók á allri jörðu og [burðarsteini] trúar okkar“2

Rúmlega 174 milljónir eintaka af Mormónsbók hafa verið prentaðar, síðan fyrsta útgáfan kom út árið 1830, á 110 tungumálum sem sýnir að Mormónsbók er ennþá burðarsteinn trúar okkar. Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir sérhvert ykkar?

Ljósmynd
Burðarsteinninn er þungamiðjan

Í byggingarlist, þá er burðarsteinn lykilþáttur í bogadregnum dyrum. Það er fleyglaga steinn sem settur er efst fyrir miðju bogans. Steinn þessi er mikilvægasti steinn dyranna, því hann heldur uppi báðum hliðum og kemur í veg fyrir hrun bogans. Hann er sá samsetningarþáttur sem tryggir að dyrnar eða opið fyrir neðan, sé fært inngöngu.

Ljósmynd
Burðarsteinn í boga

Það er gjöf og blessun frá Drottni að í fagnaðarerindinu skuli burðarsteinn trúar okkar vera eins áþreifanlegur og nálægur eins og Mormónsbók er og það að þið getið haldið á henni og lesið hana. Getið þið séð Mormónsbók sem burðarstein ykkar, sem andlega miðstöð styrks ykkar?

Ezra Taft Benson forseti útlistaði nánar það sem Joseph Smith kenndi. Hann sagði: „Það er með þrennum hætti að Mormónsbók er burðarsteinn trúar okkar. Hún er burðarsteinn sem vitni fyrir okkur um Krist. Hún er burðarsteinn kenninga okkar. Hún er burðarsteinn vitnisburðar.“

Benson forseti kenndi enn frekar: „… Mormónsbók kennir okkur sannleika [og] ber vitni um Krist, … en hún gerir meira. Bókin býr yfir krafti sem hafa mun áhrif á líf ykkar um leið og þið takið að lesa og ígrunda hana af fullri alvöru. Þið munuð finna aukinn kraft til að standast freistingar. … Þið munuð finna kraft til að halda ykkur á hinum krappa og þrönga vegi.“3

Minn persónulegi vitnisburður

Í mínu tilviki, þá varð Mormónsbók að burðarsteini vitnisburðar míns á tímabili sem spannar yfir mörg ár og margar upplifanir. Ein kröftug upplifun sem átti þátt í að mynda vitnisburð minn átti sér stað þegar ég var ungur trúboði og þjónaði á fyrsta svæðinu mínu: Kumamoto, Japan. Félagi minn og ég vorum að banka á hurðar. Ég hitti ömmu nokkra sem var svo vingjarnleg að bjóða okkur inn í anddyr heimili síns, sem kallast genkan á Japönsku. Hún bauð okkur kaldan drykk á heitum degi. Ég hafði ekki verið lengi í Japan og ég hafði nýlega lokið við að lesa alla Mormónsbók. Einnig hafði ég beðið um að vita af fullvissu að hún væri sönn.

Japanskan mín var ekki mjög góð því ég hafði ekki verið í landinu lengi. Í raun held ég að konan hafi ekki skilið mikið af því sem ég sagði. Ég tók að skýra henni frá Mormónsbók, lýsti hvernig Joseph Smith hlaut fornar heimildaskrá á töflum frá engli og hvernig hann þýddi þær með krafti Guðs.

Þegar ég bar henni vitnisburð minn um að Mormónsbók væri orð Guðs og annað vitnu um Jesú Krist, fann ég fyrir sterkum hughrifum ásamt hlýjum tilfinningum og frið í brjósti mér, sem ritningarnar lýsa sem „brjóst þitt [brennur].“4 Þessi tilfinning staðfesti á kröftugan máta fyrir mér að Mormónsbók væri í raun orð Guðs. Tilfinningar mínar voru það sterkar, er ég talaði við þessa japönsku ömmu, að mér vöknaði um augun. Ég man ennþá eftir sérstöku tilfinningum þessa dags.

Þitt persónulega vitni

Þið getið öll hlotið persónulegt vitni um þessa bók! Skiljið þið að Mormónsbók var skrifuð fyrir ykkur – og ykkar tíma? Þessi bók er ein af þeim blessunum sem fylgir því að lifa á tímum sem við köllum ráðstöfun í fyllingu tímanna. Þrátt fyrir að Mormónsbók hafi verið rituð af innblásnum fornum höfundum – sem margir hverjir voru spámenn – þá nutu þeir og samtímafólk þeirra ekki ávinnings bókarinnar í heild. Þið hafið í dag, innan auðveldar seilingar, helgar heimildir sem spámenn, prestar og konungar mátu mikils, dásömuðu og varðveittu! Þið njótið þess ávinnings að hafa í höndum ykkar Mormónsbók í heild sinni. Áhugavert er að vita að einn af spámönnum Mormónsbókar, Moróní, sá fyrir nútímann – ykkar daga. Hann sá ykkur, meira að segja, í sýn fyrir mörg hundruð árum síðan! Moróní ritaði:

„Sjá, Drottinn hefur sýnt mér mikla og undursamlega hluti varðandi … [þann dag], þegar þetta,“ sem er Mormónsbók, „mun koma fram meðal yðar.

Ég ávarpa yður eins og væruð þér nærstaddir, og þó eruð þér það ekki. En sjá. Jesús Kristur hefur sýnt mér yður, og ég veit um gjörðir yðar.“5

Ég veiti ykkur áskorun til þess að aðstoða við að láta Mormónsbók verða að burðarsteini vitnisburðar ykkar. Nýlega komst ég að því að margur ungdómurinn ver að meðaltali 7 klukkustundum á dag í að horfa á sjónvarps-, tölvu- og snjallsímaskjái.6 Hafandi þetta í huga, eruð þið tilbúin að gera örlitla breytingu? Eruð þið reiðubúin að skipta út hluta af þessum skjátíma – sér í lagi þeim sem fer í samfélagsmiðla, Alnetið, leiki eða sjónvarp – fyrir að lesa í Mormónsbók? Ef rannsóknirnar sem ég vísa í eru réttar, þá ættuð þið hæglega að geta fundið tíma á degi hverjum til að nema í Mormónsbók, þó ekki væri meira en 10 mínútur á dag. Og þið getið numið á þann hátt sem leyfir ykkur að njóta þess og skilja – annað hvort á tækjum ykkar eða í bókaformi. Russell M. Nelson forseti ráðlagði nýlega: „Við ættum aldrei að láta lestur í Mormónsbók verða að þungbærri skyldu, eins og munnfylli af vondu meðali sem þarf að svelgja hratt svo hægt sé að ljúka verkefninu.“7

Ljósmynd
Unglingur við lestur Mormónsbókar
Ljósmynd
Barn við lestur Mormónsbókar

Vera má að sum ykkar sem yngri eru, mynduð vilja lesa með foreldri, afa eða ömmu eða öðrum ástvin. Ef að kafli, vers eða hluti verður það erfiður að ykkur langar til að hætta að lesa, flettið þá yfir á næsta eða þarnæsta. Ég sé ykkur fyrir mér fylgja fordæmi Mary. Ég sé ykkur fyrir mér verða spennt yfir að finna tíma og hljóðlátan stað til að lesa Mormónsbók. Ég sé ykkur finna svör, hljóta leiðsögn og að öðlast ykkar eigin vitnisburð um Mormónsbók og vitnisburð um Jesú Krist. Er þið lítið til bókarinnar, þá lítið þið til Drottins.

Ljósmynd
Bókin höfð í sjónmáli

Þið munið lesa þessa dýrðmætu bók og mæta ástkærum frelsara ykkar, Drottni Jesú Kristi, á nærri því hverri blaðsíðu. Það er álitið að nafn hans, á einu formi eða öðru, sé notað að meðaltali einu sinni í tæplega öðru hverju versi.8 Jafnvel Kristur sjálfur vitnaði um sannleiksgildi bókarinnar á þessum síðari dögum og sagði: „Sem Drottinn Guð yðar lifir, er hún sönn.“9

Ég er þakklátur fyrir boðið og loforðið sem Drottinn hefur boðið sérhverju ykkar – og öllum þeim sem lesa Mormónsbók – með spámanninum Moróní. Ég lýk með því að lesa þetta boð og loforð, ásamt því að bæta við vitnisburði mínum: „Og þegar þér meðtakið þetta [Mormónsbók], þá hvet ég yður að spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.“10

Ég ber vitni um endurreisn fagnaðarerindisins á þessum síðari dögum og um Mormónsbók sem áþreifanlegt sönnunargagn endurreisnarinnar. Rétt eins og orð þessarar bókar blésu 12 ára stúlku í brjóst að taka endurreistri Kirkju Jesú Krists opnum örmum fyrir nærri tveimur öldum, þá getur sannleikurinn sem þið finnið hér, lyft ykkur og innblásið á svipaðan hátt. Þau munu styrkjar trú ykkar, fylla sálir ykkar af ljósi og undirbúa ykkur fyrir framtíð sem þið getið tæplega gert ykkur grein fyrir.

Þið munið finna, á blaðsíðum bókarinnar, óendanlegan kærleika og óskiljanlega náð Guðs. Gleði ykkar mun þenjast út, skilningur ykkar aukast og þau svör sem þið leitið að, við hinum mörgu áskorunum sem jarðvistin felur í sér, munu opnast ykkur er þið kappkostið við að lifa eftir því sem kennt er í bókinni. Er þið lítið til bókarinnar, þá lítið þið til Drottins. Mormónsbók er opinberað orð Guðs. Um þetta vitna ég, af öllu hjarta og sálu, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá „Mary Elizabeth Rollins Lightner,“ Utah Genealogical and Historical Magazine, júlí 1926, 193–95.

  2. Formáli Mormónsbókar.

  3. Ezra Taft Benson, „The Book of Mormon—Keystone of Our Religion,“ Ensign, nóv. 1986, 5, 7.

  4. Kenning og sáttmálar 9:8.

  5. Morm 8:34–35.

  6. Sjá American Academy of Pediatrics, „Media and Children,“ aap.org.

  7. Russell M. Nelson, „Strengthen the Shepherds“ (ræða flutt á leiðtogafundi aðalráðstefnu, 28. sept. 2016).

  8. Sjá Susan Easton Black, Finding Christ through the Book of Mormon (1987), 16–18.

  9. Kenning og sáttmálar 17:6.

  10. Moró 10:4; sjá einnig vers 3, 5.