2010–2019
Samansöfnun fjölskyldu Guðs
Apríl 2017


Samansöfnun fjölskyldu Guðs

Guð faðirinn þráir heimkomu barna sinna, í dýrð og í formi fjölskyldna.

Kæru bræður og systur, ég fagna því tækifæri að vera meðal ykkar í upphafi þessa ráðstefnuhluta. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin.

Aðalráðstefna hefur ávallt verið tími samansöfnunar fyrir Síðari daga heilaga. Langt er síðan við uxum upp úr því að geta komið saman á einum stað, en Drottinn hefur séð okkur fyrir þeirri blessun að geta horft á aðalráðstefnu hvar sem við búum. Þótt tilkomumikið sé að sjá hina heilögu saman komna í þessari stóru Ráðstefnuhöll, þá höfum við, sem erum í ræðustólnum, ætíð í huga hinar mörgu milljónir, sem um heim allan horfa og hlusta á ráðstefnuna. Mörg ykkar eruð hér saman komin með fjölskyldum ykkar; sumir eru hér með vinum eða öðrum meðlimum kirkjunnar.

Hvar sem þið eruð og hvernig sem þið hlýðið á mig, þá eruð þið með okkur í anda, þótt þið séuð ekki hér í eigin persónu. Við vona að við séum öll eitt – að þið munið upplifa anda þess er margir trúaðir koma saman í nafni Jesú Krists.

Ég finn mig knúinn í dag til að ræða við ykkur um annarskonar samansöfnun. Sú samansöfnun á sér ekki aðeins stað á sex mánaða fresti, líkt og á við um aðalráðstefnur. Hún hefur verið viðvarandi allt frá fyrstu dögum endurreisnar kirkjunnar og henni verið flýtt á umliðnum árum. Ég á hér við samansöfnun fjölskyldu Guðs.

Kannski væri best að lýsa þessari samansöfnun með því að fara út fyrir tilveru okkar hér, til þess tíma sem Biblían segir vera „upphafið“ (1 Mós 1:1). Á þeim tíma lifðum við hjá himneskum föður sem andabörn hans. Það á við um alla menn sem lifað hafa á jörðu.

Hugtökin „bræður“ og „systur“ eru ekki aðeins vinarþel eða blíðuhót okkar á milli. Þau tjá eilífan sannleika: Guð er bókstaflega faðir alls mannkyns; við tilheyrum öll hans eilífu fjölskyldu. Hann þráir að við þróumst og þroskumst og verðum lík honum, því hann elskar okkur sem fullkominn faðir. Hann gerði áætlun um að við færum til jarðar í formi fjölskyldna og upplifðum reynslu sem byggi okkur undir að snúa aftur til hans og lifa því lífi sem hann lifir.

Megin þáttur þessarar áætlunar var loforð um að Jesús Kristur myndi bjóða sig sjálfan fram sem fórn, til að bjarga okkur frá synd og dauða. Viðfangsefni okkar í áætluninni er að taka á móti fórn frelsarans með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins. Við tókum á móti þessari áætlun. Í raun þá fögnuðum við henni, þótt í henni fólst að við yrðum að fara frá föður okkar og jafnvel gleyma lífi okkar með honum.

Við vorum þó ekki send hingað í algjört myrkur. Hverju okkar var gefið hluta af ljósi Guðs, sem kallað er „ljós Krists,“ til að gera okkur kleift að greina á milli góðs og ills, rétts og rangs. Það er ástæða þess að þeir sem hafa litla eða enga þekkingu á áætlun föðurins, geta samt skynjað í hjarta sínu að ákveðin breytni er rétt og siðferðileg og önnur ekki.

Skynjun rétts og rangs virðist einkum áhrifarík við uppeldi barna okkar. Næstum allir foreldrar hafa meðfædda þrá til að að kenna börnum sínum gott siðferði. Það er hluti kraftaverks áætlunar himnesks föður. Hann vill að börn hans komi til jarðar, samkvæmt eilífri fyrirmynd fjölskyldna á himnum. Fjölskyldan er grunnstofnun hins eilífa ríkis og því ætlar hann henni að vera það líka á jörðu. Þótt jarðneskar fjölskyldur séu langt frá því að vera fullkomnar, þá eru þær besti kosturinn til að veita börnum Guðs þá elsku á jörðu sem kemst næst himneskri elsku – eða foreldraást. Fjölskyldan er líka best til þess fallin að varðveita og viðhalda dyggðum siðgæðis og sönnum reglum, sem líklegastar eru til að leiða okkur aftur í návist Guðs.

Aðeins fámennur hópur barna Guðs hlýtur fullan skilning á áætlun Guðs í þessu lífi og aðgang að helgiathöfnum og sáttmálum prestdæmisins, sem gerir friðþægingarkraft frelsarans fyllilega virkan í lífi okkar. Jafnvel þeir sem eiga góða foreldra, geta lifað trúfastlega eftir því ljósi sem þeir hafa hlotið, án þess að hafa heyrt um Jesú Krist og friðþægingu hans eða verið boðið að skírast í hans nafni. Það hefur verið raunin með milljónir bræðra okkar og systra í gegnum sögu heimsins.

Sumir gætu talið þetta ósanngjarnt. Þeir gætu jafnvel sagt það sönnun þess að engin áætlun væri í raun í gangi, engin sérstök ákvæði um sáluhjálp – og fundist réttvís og kærleiksríkur Guð ekki geta hafa gert áætlun bara fyrir svo lítinn hluta barna sinna. Einhverjir gætu líka ályktað sem svo að Guð hefði ákveðið fyrirfram hver barna sinna hann hyggðist frelsa og gert þeim fagnaðarerndið mögulegt og að þau sem aldrei heyrðu fagnaðarerindið væru einfaldlega ekki „útvalin.“

Vegna hins endurreista sannleika, sem var endurreistur fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith, þá vitum við að áætlun Guðs er mun kærleiksríkari og réttvísari en það. Himneskur faðir þráir heitt að safna saman og blessa alla sína fjölskyldu. Þótt hann viti að það velji ekki allir að vera með í samansöfnunni, þá gefur áætlun hans hverju barna hans kost á að taka á móti eða hafna boði hans. Fjölskyldur eru þungamiðja áætlunar hans.

Fyrir mörgum öldum sagði spámaðurinn Malakí að á komandi tíð myndi Guð senda Elía til að „sætta feður við sonu og sonu við feður“ (Mal 4:6).

Þessi spádómur var svo mikilvægur að frelsarinn vitnaði í hann þegar hann koma til Ameríku eftir upprisu sína (sjá 3 Ne 25:5–6). Þegar engillinn Moróní vitjaði spámannsins Josephs Smith, þá vitnaði hann líka í spádóminn um Elía og hjörtu feðranna og barnanna (sjá Joseph Smith—Saga 1:36–39).

Í dag er 1. apríl. Eftir tvo daga, þann 3. apríl, hafa 181 ár liðið frá þeim degi er spádómur Malakís uppfylltist. Elía kom á þeim degi og veitti Joseph Smith prestdæmisvald til að innsigla fjölskyldur að eilífu (sjá K&S 110:13–16).

Frá þessum degi, allt fram á okkar tíma, hefur áhugi aukist til mikilla muna á ættarsögu. Stöðugt fleiri virðast hafa áhuga á eign ætterni og ekki bara af einskærri forvitni. Ættfræðisöfnum, ættfræðisamtökum og ættfræðibúnaði hefur fjölgað um heim allan til að koma til móts við þennan áhuga. Alnetið hefur aukið samskipti fólks og gert fjölskyldum kleift að vinna saman við ættarsögurannsóknir, af meiri hraða en áður þótti hugsanlegt.

Af hverju gerist þetta? Þar sem okkur skortir betra hugtak, þá er þetta kallað „andi Elía.“ Við getum líka sagt þetta vera „uppfyllingu spádóms.“ Ég ber vitni um að Elía hefur komið. Hjörtu barnanna – okkar allra – hafa snúist til forfeðra okkar og formæðra. Sú elska sem þið berið til áa ykkar er hluti af uppfyllingu þess spádóms. Hún á sér djúpar rætur í eðli okkar. Hér er þó um að ræða meira en DNA arfleifð.

Þegar þið, til að mynda, fylgið hugboði um að kynna ykkur ættarsögu, gætuð þið uppgötvað að fjarskyldur ættingi hefði sömu andlitseinkenni og þið eða hefði áhuga á sömu bókmenntum eða hefði sönghæfileika, eins og þið sjálf. Þetta gæti reynst afar áhugsvekjandi og athyglisvert. Ef þið látið af verki ykkar hér, þá mun ykkur finnast eitthvað vanta. Það er vegna þess að það krefst meira en aðeins ljúfra tilfinninga að sameina fjölskyldu Guðs. Það krefst helgra sáttmála sem gerðir eru með helgiathöfnum prestdæmisins.

Margir áar okkar hafa ekki tekið á móti þessum helgiathöfnum. Þið hafði þó gert það með guðlegri forsjá. Guð vissi að þið mynduð laðast að áum ykkar í kærleika og hefðuð aðgang að nauðsynlegri tækni til að auðkenna þá. Hann vissi líka að musteri, þar sem hægt væri að framkvæma þessar helgiathafnir, væru ykkur aðgengilegri en verið hefur á öðrum tímum mannkynssögunnar. Hann vissi líka að hann gæti reitt sig á að þið ynnuð þetta verk í þágu áa ykkar.

Auðvitað höfum við öll mikilvæg og krefjandi skylduverk sem þarf stöðugt að sinna. Öll finnum við að sumt af því sem Drottinn væntir af okkur, er utan getu okkar. Til allrar hamingju þá hefur Drottinn séð til þess að við getum eflt sjálfstraustið og fundið ánægju í allri okkar þjónustu, líka í ættarsögustafinu. Við hljótum styrk til að gera það sem hann býður, í trú á að hann gefur engin fyrirmæli „án þess að greiða [okkur] veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið [okkur]“ (1 Ne 3:7).

Ég veit af eigin reynslu að þetta er sannleikur. Fyrir mörgum árum, er ég var háskólanemi, hitti ég mann sem starfaði fyrir eitt stærsta tölvufyrirtæki heims. Þetta var á fyrstu árum tölvanna og það vildi svo til að fyrirtæki hans hafi falið honum að selja Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu tölvur.

Að svo miklu leyti sem ég vissi, þá aðhylltist þessi sölumaður engin trúarbrögð. Hann sagði þó af furðu og gremju: „Í þessari kirkju var unnið að því sem fólkið kallaði ‚ættfræði,‘ leitað var að nöfnum látinna og eigin ættmenni voru auðkennd. Fólk, að mestu konur, var á hlaupum á milli skjalaskápa, leitandi að litlum heimildaspjöldum.“ Ef ég man rétt, þá sagði hann að konurnar væru í íþróttaskóm til að geta hlaupið örlítið hraðar. Maðurinn sagði líka: „Þegar ég sá umfang þess sem reynt var að gera, varð mér ljóst að ég hafði uppgötvað afhverju tölvur voru fundnar upp.“

Hann hafði að hluta rétt fyrir sér. Tölvurnar áttu eftir að verða mikilvægar í ættfræðivinnslu framtíðar – bara ekki tölvurnar sem hann seldi. Innblásinn leiðtogi kirkjunnar kaus að kaupa ekki hans tölvur. Kirkjan þurfti að bíða þeirrar tækni sem menn höfðu ekki hugmynd um á þeim tíma. Mér hefur þó lærst, á þeim mörgu árum síðan þetta var, að jafnvel besta tækni getur ekki komið í stað opinberunar frá himni, líkt og þeirrar sem kirkjuleiðtoginn hlaut. Þetta er andlegt verk og Drottinn leiðir það með sínum heilaga anda.

Fyrir aðeins fáeinum vikum var ég að vinna að ættarsögu minni með einn leiðbeinanda mér við hlið og annan í símanum. Á tölvuskjánum fyrir framan mig var vandamál sem mér var ekki unnt að leysa. Ég sá tvö nöfn sem mér voru send með hinni undursamlegu tækni, einstaklingar sem biðu helgiathafna musterisins. Vandinn var þó sá að nöfnin voru ekki þau sömu, en þó var ástæða til að ætla að þau gætu tilheyrt sama einstaklingnum. Verkefni mitt var að komast að sannleikanum.

Ég bað leiðbeinendur mína um hjálp. Þau sögðu: „Nei, þú verður sjálfur að velja.“ Þau voru algjörlega viss um að ég kæmist að hinu rétta. Tölvan, með allri sinni snilli og upplýsingum, hafði látið mér eftir þá blessun að velja á milli nafnanna á skjánum, meta fyrirliggjandi upplýsingar, leita í öðrum gögnum, biðja hljóðlega og komast að hinu sanna. Þegar ég baðst fyrir varð ég fullviss um hvað gera skildi – á sama hátt og í öðrum aðstæðum, er ég hef þurft að reiða mig á himneska hjálp við lausn vandamála.

Við vitum ekki hvaða undur Guð mun innblása menn til að skapa til að auðvelda það verk hans að safna saman fjölskyldu hans. Sama hvaða undursamlegar uppfinningar gætu komið fram, þá mun notkun þeirra krefjast þess að andinn hafi áhrif á fólk eins og okkur. Það ætti ekki að koma okkur á óvart. Ástkærir synir og dætur Guðs eiga jú hér í hlut. Hann mun veita þeim hvaða innblástur sem þörf er á til að þau geti komist aftur til hans.

Á nýliðnum árum hefur æskufólk kirkjunnar verið knúið af anda Elía á innblásinn hátt. Mörg þeirra hafa nú eigin takmörkuð musterismeðmæli og nota þau oft. Skírnarsalir musterisins eru meira notaðir en áður; sum musteri hafa jafnvel þurft að aðlaga dagskrá sína að þessum aukna fjölda ungs fólks sem kemur í musterin.

Áður var það sjaldgæft en velþegið að æskufólkið kæmi með nöfn eigin áa í musterið. Nú er þetta reglan og oft er það unga fólkið sem sjálft hefur fundið nöfn áa sinna.

Auk þess hefur margt ungt fólk komist að því að ef það vinnur að ættarsögu sinni og gerir musterisverk, þá styrkist vitnisburður þess um sáluhjálparáætlunina. Þetta hefur aukið áhrif andans í lífi þess og dregið úr áhrifum óvinarins. Það hefur gert þau nánari fjölskyldu sinni og Drottni Jesú Kristi. Því hefur lærst að þetta verk endurleysir ekki aðeins hina dáunu; það endurleysir okkur öll (sjá K&S 128:18).

Æskufólkið hefur aðdáunarlega tileinkað sér þessa sýn; nú þurfa foreldrarnir að taka til hendinni. Það eru fjölmargir í andaheimum sem þegar hafa tekið á móti skírn, vegna þessa verks æskufólksins, og þeir bíða fleiri helgiathafna, sem aðeins fullorðnir hér í heimi geta framkvæmt í musterinu. Verk samansöfnunar fjölskyldu himnesks föður tilheyrir ekki aðeins unga fólkinu og ekki heldur aðeins hinum öldnu. Það er fyrir alla. Við erum öll samansafnarar.

Þetta er verk okkar kynslóðar, sem Páll sagði vera „fylling tímans,“ er Guð myndi „safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Efe 1:10). Þetta er mögulegt með friðþægingu ástkærs sonar Guðs, Jesú Krists. Vegna hans þá geta þeir fjölskyldumeðlimir „sem eitt sinn [voru] fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans. Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi [okkur] að“ (Efe 2:13–14). Þið, líkt og ég, hafið fundið þetta, er þið hafið upplifað aukna elsku með því að virða fyrir ykkur ljósmyndir af áum. Þið hafið fundið það í musterinu, er nafn á spjaldi virtist meira en nafnið eitt, og ykkur fannst að sá einstaklingur vissi af ykkur og skynjaði elsku ykkar.

Ég ber vitni um að Guð faðirinn þráir heimkomu barna sinna, í dýrð og í formi fjölskyldna. Frelsarinn lifir. Hann leiðir og blessar þetta verk og vakir yfir og leiðir okkur. Hann þakkar ykkur fyrir trúfasta þjónustu við að safna saman fjölskyldu föður hans og lofar ykkur innblásinni hjálp sem þið leitið að og þarfnist. Í nafni Jesú Krists, amen