2010–2019
Lítið ekki umhverfis, lítið upp!
Apríl 2017


Lítið ekki umhverfis, lítið upp!

Tilgangur okkar er að bjóða öðrum að koma til Krists og við getum framfylgt þeim tilgangi með því að líta upp til Jesú Krists.

Tilgangur minn er að „bjóða öðrum að koma til Krists.“1 Það er líka ykkar tilgangur. Við getum framfylgt þeim tilgangi með því að líta upp til Jesú Krists.

Ljósmynd
Fjölskylda öldungs Chois

Ég skírðist með foreldrum mínum þegar ég var 16 ára gamall. Yngri bróðir minn, Kyung-Hwan, sem þá var 14 ára gamall, gekk í kirkjuna fyrir tilverknað frænda míns, Young Jik Lee, og bauð okkur að koma í kirkju. Allir tíu fjölskyldumeðlimir tilheyrðu hver sinni kirkju, svo við vorum glöð yfir að hafa fundið sannleikann og vildum miðla þeirri gleði sem við fundum í fagnaðarerindi Jesú Krists, eftir að við skírðumst.

Ljósmynd
Faðir öldungs Chois með öðrum

Faðir minn var áhugasamastur af okkur að fræðast um og miðla sannleikanum. Hann var vanur að vekja okkur á morgnana til að læra ritningarnar í rúmar tvær klukkustundir á dag. Eftir vinnu fórum við næstum á hverjum degi með trúboðunum til að heimsækja ættingja, vini og nágranna. Sjö mánuðum eftir að við skírðumst höfðu 23 fjölskyldumeðlimir og ættingar orðið meðlimir kirkjunnar. Á næsta ári gerðist það kraftavek að 130 manns létu skírast fyrir tilstilli meðlimatrúboðs föður míns.

Ljósmynd
Í upphafi trúboðsstarfs
Ljósmynd
Aukið trúboðsstarf

Ættarsaga var honum líka mikilvæg og við lukum við átta kynslóðir áa okkar. Frá þeim tíma hafa ávextir trúarumbreytingar fjölskyldu okkar, sem hófst með14 ára gömlum bróður mínum, margfaldast á ótal vegu, ekki aðeins meðal hinna lifandi, heldur líka hinna látnu. Við höfum aukið við ættartréð okkar með því að halda áfram verki föður míns og annarra, sem nú spannar 32 kynslóðir og musterisverk hefur verið unnið fyrir marga liði. Í dag er ég frá mér numinn og glaður yfir að geta tengt áa okkar og niðja.

Ljósmynd
Aukin ættarsaga

Gordon B. Hinckley forseti skráði álíka reynslu í Kólumbus musterinu í Ohio:

„Er ég ígrundaði líf [langafa míns, afa og föður] þar sem ég sat í musterinu, þá varð mér hugsað til dóttur minnar og dóttur hennar, … og hennar barna, langafabarna minna. Mér varð þá skyndilega ljóst að ég var í miðju þessara sjö kynslóða – þremur á undan og þremur á eftir sjálfum mér.

„Í þessu heilaga húsi fór í gegnum huga minn sú mikla ábyrgð sem ég bar á því að færa allt það sem ég hafði hlotið að erfðum frá fyrirrennurum mínum, yfir á þær kynslóðir sem á eftir mér hafa komið.“2

Ljósmynd
Í miðju kynslóðanna

Við erum öll í miðju eilífrar fjölskyldu. Verk okkar getur verið vendipunktur mikilla breytinga, bæði á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Hinckley forseti sagði líka: „Leyfið ekki að þið sjálf verðið veikur hlekkur í ykkar kynslóðakeðju.“3 Trúfesti ykkar við fagnaðarerindið mun styrkja fjölskyldu ykkar. Hvernig getum við tryggt að við verðum sterkur hlekkur í okkar eilífu fjölskyldu?

Dag einn, nokkrum mánuðum eftir skírn mína, heyrði ég meðlimi gagnrýna hver annan í kirkju. Ég var afar vonsvikinn. Ég fór heim og sagði föður mínum að kannski ætti ég ekki að fara í kirkju framar. Það reyndist mér erfitt að sjá meðlimi gagnrýna hver annan á þennan hátt. Eftir að faðir minn hafði hlustað á mig, kenndi hann mér að fagnaðarerindið hefði verið endurreist og væri fullkomið, en það væru meðlimirnir ekki enn, hvorki hann sjálfur, né ég. Hann sagði ákveðinn: „Glataðu ekki trúnni vegna fólksins umhverfis þig, myndaðu heldur öflugt samband við Jesú Krist. Líttu ekki umhverfis, líttu upp!“

Líttu upp til Jesú Krists – hið viturlega ráð föður míns styrkir trú mína ætíð er ég stend frammi fyrir áskorunum lífsins. Hann kenndi mér að lifa eftir kenningum Krists, líkt og tjáð er með þessum orðum: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“4

Ljósmynd
Trúboðar við Seattle-musterið í Washington

Þegar ég var í forsæti Seattle trúboðsins í Washington, þá rigndi marga daga á ári. Trúboðar okkar fengu þó tilmæli um að fara út í regnið og vinna að trúboði. Ég var vanur að segja við þá: „Farið út í regnið, lítið upp til himins, opnið munninn og drekkið það! Þegar þið lítið upp, þá styrkist þið og opnið munn ykkar og ræðið við aðra óttalaust.“ Þetta var þeim einföld lexía að líta upp þegar þeir stóðu frammi fyrir áskorunum, jafnvel að loknu trúboði þeirra. Reynið þetta ekki á menguðum svæðum.

Þegar ég þjónaði í Seattle trúboðinu hringdi elsti sonur minn, Sunbeam, sem er píanóleikari, í mig. Hann sagðist fá að njóta þess heiðurs að spila í Carnegie Hall í New York, því hann hefði unnið alþjóðakeppni. Við vorum afar ánægð og glöð fyrir hans hönd. Þegar við hjónin báðumst fyrir í þakklæti um kvöldið, þá varð eiginkonu minni ljóst að við gátum ekki verið viðstödd píanóleik hans og sagði eitthvað álíka þessu við himneskan föður: „Himneski faðir, ég er þakklát fyrir blessanirnar sem þú hefur veitt Sunbeam. Mér þykir þó miður að ég geti ekki farið þangað. Ég hefði getað farið ef þú hefðir veitt þessa blessun annaðhvort fyrir eða eftir trúboðið okkar. Ég er ekki að kvarta, en er þó svolítið sorgmædd.“

Um leið og hún lauk bæninni, heyrði hún skýra rödd segja: „Vegna þess að þú getur ekki farið, þá hefur syni þínum verið veittur þessi heiður. Hefðir þú fremur viljað skipta?“

Eiginkona mín varð undrandi. Hún vissi að börn væru blessuð sökum trúfasts starfs foreldra þeirra í ríki Drottins, en þarna skildi hún fyrst hlutverk sitt greinilega. Hún svaraði himneskum föður strax um hæl: „Nei, nei, það er í lagi mín vegna að fara ekki. Láttu hann njóta þess heiðurs.“

Kæru bræður og systur, það er ekki auðvelt fyrir okkur að skynja kærleika himnesks föður þegar við lítum umhverfis okkur með stundlegu augum, því við sjáum fyrst óþægindi, missi, byrðar eða einmanaleika. Við getum hins vegar séð huldar blessanir þegar við lítum upp. Drottinn hefur opinberað: „Þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin.“5 Ég segi við alla þá sem á einhvern hátt þjóna Guði, vitið að þið eruð traust tenging máttugra blessana, bæði við kynslóðir á undan og eftir ykkur.

Í dag er ég þakklátur fyrir að sjá hve margir fjölskyldumeðlimir okkar eru trúfastir á vegi sáttmálans og það hryggir mig að ímynda mér einhver auð sæti meðal okkar. Öldungur M. Russell Ballard sagði: „Ef þið veljið að vera óvirk eða hyggist fara frá hinni endurreistu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hvert farið þið þá? Hvað munið þið gera? Ákvörðunin um að ‚vera ekki framar með‘ kirkjumeðlimum og kjörnum leiðtogum Drottins, mun hafa varanleg áhrif, sem ekki er auðvelt að sjá fyrir.“6 Thomas S. Monson forseti sagði: „Megum við halda áfram að velja hið erfiða rétta, í stað hins auðvelda ranga.“7

Það er aldrei of seint að líta upp til Jesú Krists. Faðmur hans er ætíð opinn ykkur. Það eru bæði liðnar og ókomnar kynslóðir sem reiða sig á að við fylgjum Kristi, svo við getum verið eilíf fjölskylda Guðs.

Þegar ég var leystur af köllun minni sem stikuforseti, þá voru synir mínar spenntir yfir að verja meiri tíma með mér. Þremur vikum síðar var ég kallaður sem einn af hinum Sjötíu. Fyrst hélt ég að þau yrðu fyrir vonbrigðum, en yngsti sonur minn svaraði auðmjúkur: „Pabbi, hafðu engar áhyggjur. Við erum eilíf fjölskylda.“ Hve einfaldur og ljóslifandi sannleikur það er! Ég var svolítið áhyggjufullur, því ég hafði litið umhverfis mig, aðeins á þetta jarðneska líf, en sonur minn var glaður, því hann leit ekki umhverfis sig, heldur upp, móti eilífðinni og tilgangi Drottins.

Það er ekki alltaf auðvelt að líta upp þegar foreldrar eru andvígir fagnaðarerindinu, þegar við erum meðlimir fámennrar kirkjueiningar, þegar maki okkar er ekki meðlimur, þegar við erum enn einhleyp þó við höfum gert okkar besta til að giftast, þegar börn okkar villast frá, þegar við erum einstætt foreldri, þegar við tökumst á við líkamlega eða tilfinningalega erfiðleika eða þegar við erum fórnarlamb náttúruhamfara o.s.frv. Haldið fast í trúna á slíkum erfiðum tímum. Lítið upp til Krists til að hljóta styrk, jafnvægi og lækningu. Sökum máttar friðþægingar Jesú Krists, þá mun „allt samverka [ykkur] til góðs.“8

Ég ber vitni um Jesú Krist, að hann er frelsari okkar og lausnari. Þegar við fylgjum okkar lifandi spámanni, Thomas S. Monson forseta, þá lítum við upp til Jesú Krists. Þegar við biðjum og lærum ritningarnar dag hvern, og meðtökum sakramentið vikulega af einlægni, þá hljótum við styrk til að líta ætíð upp til hans. Ég er sæll yfir því að vera meðlimur þessarar kirkju og tilheyra eilífri fjölskyldu. Ég ann því að miðla öðrum þessu dásamlega fagnaðarerindi. Tilgangur okkar er að bjóða öðrum að koma til Krists og við getum framfylgt þeim tilgangi með því að líta upp til Jesú Krists. Ég vitna af auðmýkt um þetta, í nafni Jesú Krists, amen.