2010–2019
Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?
Apríl 2017


Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?

Heilagur andi aðvarar, heilagur andi huggar og heilagur andi vitnar.

Á mánudagskvöldi, fyrir ekki alllöngu, komum ég og eiginkona mín, Lesa, við á heimili ungrar fjölskyldu í hverfi okkar. Í heimsókninni þar, buðu foreldrarnir okkur að vera með á fjölskyldukvöldi og sögðu níu ára gamlan son sinn hafa undirbúið lexíu. Auðvitað tókum við boðinu!

Eftir söng, bæn og fjölskyldumál, þá byrjaði hinn níu ára gamli drengur á því að lesa ígrundaða spurningu úr sinni handskrifuðu lexíu: „Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?“ Þessi spurning leiddi til innihaldsríkrar umræðu, er allir miðluðu hugmyndum og skilningi. Ég hreifst af lexíu þessa unga kennara og afar góðri spurningu hans, sem ég hugsaði stöðugt um.

Ljósmynd
Handskrifuð lexía fyrir fjölskyldukvöld

Eftir þetta hef ég stöðugt spurt sjálfan mig: „Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?“ – sem er spurning sem einkum tengist átta ára börnum í Barnafélaginu sem búa sig undir skírn og líka þeim börnum sem hafa nýlega skírst og meðtekið heilagan anda. Hún er líka mikilvæg fyrir þúsundir nýrra trúskiptinga.

Ég hvet sérhvert okkar, einkum þó börnin í Barnafélaginu, til að ígrunda: „Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?“ Þegar ég hugleiddi þessa spurningu, þá datt mér strax í hug atvik frá æskuárum mínum. Það er frásögn sem ég sagði öldungi Robert D. Hales stuttu eftir að ég var kallaður í Tólfpostulasveitina og hann sagði frá í kirkjutímaritsgrein um æviágrip mitt.1 Sum ykkar gætuð kannast við þessa frásögn, en önnur ekki.

Þegar ég var um 11 ára gamall, fórum ég og faðir minn í fjallgöngu á heitum sumardegi, á nálægu fjalli við heimili okkar. Faðir minn gekk upp fjallsstíginn og ég stökk af einum steini yfir á annan meðfram stígnum. Ég hugðist klifra upp á einn af stærri steinunum og tók að klöngrast við það. Mig undraði þegar faðir minn greip í beltið mitt við þá iðju, dró mig niður og sagði: „Ekki klifra upp á þennan stein. Göngum bara eftir stígnum.“

Nokkrum mínútum síðar, er við horfðum niður ofar af stígnum, þá urðum við forviða yfir að sjá glitta á höggorm einmitt ofan á þeim steini sem hugðist klifra upp á.

Síðar, er við ókum heim, vissi ég að faðir minn vænti þess að ég spyrði: „Hvernig gastu vitað að höggormurinn væri þarna?“ Svo ég spurði og það leiddi til umræðu um heilagan anda og hvernig heilagur andi getur komið okkur til hjálpar. Ég gleymi aldrei því sem ég lærði þennan dag.

Getið þið skilið hvernig heilagur andi hjálpaði mér? Ég er ævinlega þakklátur föður mínum fyrir að hafa hlustað á hina lágu og hljóðlátu rödd heilags anda, því það gæti hafa bjargað lífi mínu.

Það sem við vitum um heilagan anda

Áður en við íhugum frekar spurninguna „hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?,“ þá skulum við rifja upp nokkuð af því sem Drottinn hefur opinberað um heilagan anda. Við gætum velt ýmsum sannleika fyrir okkur, en í dag ætla ég að leggja áherslu á þrjú atriði.

Í fyrsta lagi, þá er heilagur andi þriðji aðili Guðdómsins. Þann sannleika lærum við í fyrsta trúaratriðinu: „Vér trúum á Guð, hinn eilífa föður, og á son hans, Jesú Krist, og á heilagan anda.“2

Í öðru lagi, þá er heilagur andi andavera, líkt og greint er frá í nútíma ritningum: „Faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig, en heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur.“3 Þetta segir að heilagur andi hafi andalíkama, ólíkt Guði föðurnum og Jesú Kristi, sem hafa efnislíkama. Þessi sannleikur útskýrir önnur nöfn heilags anda, sem okkur eru kunnug, svo sem andi Guðs, andi Drottins, heilagur andi fyrirheitsins og huggarinn.4

Í þriðja lagi, þá er gjöf heilags anda veitt með handayfirlagningu. Þessi helgiathöfn, að skírn lokinni, gerir okkur kleift að eiga stöðugt samfélag við heilagan anda.5 Verðuga Melkísedeksprestdæmishafa þarf til að framkæma þessa helgiathöfn, sem leggja hendur á höfuð viðkomandi,6 nefnir hann með nafni, tilgreina prestdæmisvald sitt og staðfesta hann, í nafni Jesú Krists, sem meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og segja hin mikilvægu orð: „Meðtak hinn heilaga anda.“

Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?

Eftir þessa einföldu umsögn um þessa þrjá lykilþætti um heilagan anda, þá skulum við aftur íhuga fyrstu spurningu okkar: „Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?“

Heilagur andi aðvarar

Líkt og frásögn mín um æskureynslu mína staðfestir, þá getur heilagur andi hjálpað með því að aðvara okkur í tíma um líkamlegar eða andlegar hættur. Ég lærði aftur um mikilvægi aðvörunarhlutverks heilags anda er ég þjónaði í svæðisforsætisráði í Japan.

Á þeim tíma starfaði ég náið með Reid Tateoka, forseta Sendai trúboðsins í Japan. Tateoka forseti skipulagði fund fyrir trúboðsleiðtoga í suðurhluta trúboðs síns, sem var hluti af trúboðsstarfi hans. Fáeinum dögum fyrir fundinn, fékk Tateoka forseti hugboð og tilfinningu um að bjóða öllum trúboðum suðursvæðisins að koma á leiðtogafundinn, í stað þess að hafa aðeins hina fáu leiðtoga öldunga og systra.

Þegar hann tilkynnti um þessa fyrirætlun sína, var hann áminntur um að þessi sérstaki fundur væri ekki ætlaður öllum trúboðum, heldur aðeins trúboðsleiðtogum. Hann leiddi þó allar rökræður hjá sér, einsetti sér að fara eftir hugboðinu sem hann fékk og bauð öllum trúboðum að koma á fundinn sem þjónuðu í nokkrum strandborgum, þar á meðal í borginni Fukushima. Á hinum tilnefnda degi, 11. mars 2011, komu trúboðarnir saman til að fara á þennan fjöldafund í upplandsborginni Koriyama.

Á meðan á fundinum stóð skall á jarðskjálfti af stærðargráðunni 9 á Richter á svæði Sendai trúboðsins í Japan. Þær hörmungar urðu að margar strandborganna – þar á meðal sú sem trúboðarnir komu frá – eyðilögðust og afar margir týndu þar lífi. Í borginni Fukushima varð líka kjarnorkuleki í kjölfarið.

Þótt samkomuhúsið þar sem trúboðarnir áttu fund saman þennan dag hafi skemmst í jarðskjálftanum, þá voru forseti og systir Tateoka og allir trúboðarnir heilir á húfi, því hugboði heilags anda hafði verið fylgt. Þau voru fjarri eyðileggingu flóðbylgjunnar og hörmungum kjarnorkulekans.

Þegar þið farið eftir hugboðum heilags anda – sem oft eru lágvær og hljóðlát – gætuð þið komist undan andlegri og stundlegri hættu, án þess að hafa hugmynd um það.

Bræður og systur, heilagur andi mun hjálpa með því að aðvara ykkur, líkt og hann gerði í tilviki föður míns og Tateoka forseta.

Heilagur andi huggar

Til að halda áfram að svara spurningunni „hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?,“ þá skulum við ígrunda hlutverk hans sem huggara. Óvæntir atburðir í lífi okkar geta valdið sorg, sársauka og vonbrigðum. Þegar það gerist getur heilagur andi þjónað okkur í einu af sínum mikilvægu hlutverkum – að vera huggari, sem í raun er eitt nafna hans. Þessi friðsælu og fullvissandi orð Jesú Krists lýsa þessu helga hlutverki: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu.“7

Til að útskýra þetta nánar, þá ætla ég að segja sanna frásögn um fjölskyldu fimm drengja, sem flutti frá Los Angeles, Kaliforníu, Bandaríkjunum, í fámennt samfélag fyrir mörgum árum. Tveir elstu synirnir tóku að æfa skólaíþróttir og voru í félagsskap vina, leiðtoga og þjálfara – sem margir hverjir voru trúfastir meðlimir kirkjunnar. Þessi félagsskapur leiddi til skírnar Fernandos, elsta bróður hans og þess næst yngsta.

Fernando flutti síðar af heimili sínu, þar sem hann hélt áfram að mennta sig og leika skólafótbolta. Hann giftist grunnskólaást sinni, Bayley, í musterinu. Þegar Fernando og Bayley luku skólagöngu, hlakkaði þau til fæðingar síns fyrsta barns – stúlkubarns. Meðan fjölskyldur þeirra hjálpuðu til við flutning Fernandos og Bayleys aftur heim, lentu Bayley og systir hennar í fjöldaárekstri er þær óku á þjóðveginum. Bayley og ófædd dóttir hennar létust.

Ljósmynd
Fernando og Bayley

Þótt Fernando fyndi til mikillar sorgar, sem og fjölskylda Bayleys, þá fundu þau næstum á sama tíma mikinn frið og huggun. Heilagur andi veitti Fernando mikinn styrk í ólýsanlegum hörmungum hans, í hlutverki sínu sem huggari. Andinn veitti Fernando varanlegan frið og elsku sem varð til þess að hann fyrirgaf öllum sem átt höfðu þátt í slysinu hörmulega.

Foreldrar Bayleys hringdu í bróður hennar, sem var þjónandi í trúboði þegar slysið gerðist. Hann lýsti tilfinningum sínum í bréfi eftir að hann heyrði hin hræðilegu tíðindi um kæra systur sína: „Ég furðaði mig á að heyra raddir ykkar svo friðsælar mitt í storminum. Ég vissi ekki hvað segja skildi. … Ég gat ekki hugsað um neitt annað en að systir mína yrði ekki þar þegar ég kæmi heim. … Ég lét huggast af ykkar óbrigðula vitnisburði um frelsarann og áætlun hans. Sá sami ljúfi andi sem fær mig til að tárast er ég kenni og læri, fyllti hjarta mitt. Ég lét þá huggast og minntist þá alls sem ég vissi.“8

Heilagur andi mun hjálpa með því að hugga ykkur, líkt og hann gerði í tilviki Fernandos og fjölskyldu Bayleys.

Heilagur andi vitnar

Heilagur andi vitnar líka um föðurinn og soninn og allan sannleika.9 Drottinn talaði til lærisveina sinna og sagði: „Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, … mun hann vitna um mig.10

Til að lýsa hinu dýrmæta hlutverki heilags anda sem vitnara, ætla ég að halda áfram að segja sögu Fernandos og Bayleys. Ég sagði frá því að Fernando og bróðir hans hefðu látið skírast, en foreldrar hans og þrír yngri bræður höfðu ekki gert það. Þrátt fyrir að hafa verið oft boðið að hitta trúboðana, í áranna rás, þá hafnaði fjölskyldan því í hvert sinn.

Eftir hinn sára missi Bayleys og hennar dýrmætu ófæddu dóttur, var fjölskylda Fernandos óhuggandi. Ólíkt Fernando og fjölskyldu Bayleys, þá fundu þau hvorki huggun né frið. Þau skildu ekki hvernig sonur þeirra og fjölskylda Bayleys fengu borið þessa þungu byrði.

Loks ályktuðu þau að það sem sonur þeirra bjó að, en þau ekki, væri hið endurreista fagnaðaerindi Jesú Krists og að það hlyti að vera í því sem hann fyndi frið og huggun. Eftir þessa uppgötvun buðu þau trúboðunum að kenna fjölskyldunni fagnaðarerindið. Af því hlaust að þau öðluðust eigin vitnisburð um hina miklu sæluáætlun, sem færði þeim ljúfan frið, fullvissu og farsæld, sem þau þráðu svo innilega.

Ljósmynd
Skírn Fernando-fjölskyldunnar

Tveimur mánuðum eftir að hafa misst Barkley og hina ófæddu sonardóttur, voru foreldrar Fernandos og tveir yngri bræður hans skírð, staðfest og þeim veitt gjöf heilags anda. Yngsti bróðir Frenandos hlakkar til að skírast þegar hann verður átta ára. Báðir báru þeir vitni um að andinn, heilagur andi, hefði vitnað fyrir þeim um sannleiksgildi fagnaðarerindisins, sem vakti þeim þrá til að láta skírast og taka á móti heilögum anda.

Bræður og systur, heilagur andi mun hjálpa ykkur með því að vitna fyrir ykkur, líkt og hann gerði í tilviki fjölskyldu Fernandos.

Samantekt

Við skulum nú gera samantekt. Við höfum auðkennt þríþættan sannleika sem veitir okkur vitneskju um heilagan anda. Hann er að heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins, hann er andavera og gjöf heilags anda veitist með handayfirlagningu. Við komum líka fram með þrjú svör við spurningunni: „Hvernig getur heilagur andi hjálpað mér?“ Heilagur andi aðvarar, heilagur andi huggar og heilagur andi vitnar.

Verðugleiki til að njóta gjafarinnar

Þau ykkar sem eru að búa ykkur undir skírn og staðfestingu, eða þau sem hafa skírst nýlega eða jafnvel fyrir löngu síðan, það er nauðsynlegt líkamlegri og andlegri velferð ykkar að þið haldið gjöf heilags anda. Það gerið þið með því að reyna stöðugt að halda boðorðin, biðja í einrúmi og með fjölskyldunni, lesa ritningarnar og sækjast eftir kærleiksríku og fyrirgefandi sambandi við fjölskyldu og ástvini. Við ættum að keppa að dyggðum hugsunum, verkum og málfari. Við ættum að tilbiðja okkar himneska föður á heimilum okkar, í kirkju og í musterinu, hvenær sem það er mögulegt. Verið í nálægð andans og andinn verður í nálægð ykkar.

Vitnisburður

Ég lýk nú með boði og mínum örugga vitnisburði. Ég býð ykkur að lifa betur eftir orðunum sem svo oft eru sungin af börnum Barnafélagsins, orð sem ég er viss um að börnin þekkja: „Hlustið, hlustið, heilagur andi hvíslar. Hlustið, hlustið á hljóða rödd.“11

Kæru bræður og systur, ung sem aldin, ég ber ykkur vitni um dýrðlega tilvist hinna guðlegu vera sem mynda Guðdóminn: Um Guð föðurinn, Jesús Krist og heilagan anda. Ég ber vitni um að ein forréttindi sem við njótum sem Síðari daga heilög í fyllingu tímans, er gjöf heilags anda. Ég veit að heilagur andi getur og mun hjálpa ykkur. Ég bæti við mínu sérstaka vitni um Jesú Krist og hlutverk hans sem frelsara og lausnara og um Guð okkar himneska föður. Í nafni Jesú Krists, amen