2010–2019
Góðvild, kærleikur og elska
Apríl 2017


Góðvild, kærleikur og elska

Bræður, við skulum fara í naflaskoðun og einsetja okkur að fylgja fordæmi frelsarans, með því að sýna góðvild, elsku og kærleika.

Kæru bræður mínir, mér er heiður af þeim forréttindum að fá að tala til ykkar, á þessari heimsráðstefnu trúfastra prestdæmishafa Guðs. Í kvöld ætla ég að ræða um efni sem ég hef fjallað um áður.

Spámaðurin Mormón nefndi nokkra mikilvæga eiginleika frelsarans, sem okkur ber að tileinka okkur sem lærisveinar hans. Hann sagði:

„Og ef maðurinn er hógvær og af hjarta lítillátur og játar með krafti heilags anda, að Jesús sé Kristur, hlýtur hann að eiga kærleika. Því að skorti hann kærleika, er hann ekkert. Þess vegna verður hann að eiga kærleika.

Og kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður, og öfundar ekki. Hann hreykir sér ekki upp, leitar ekki síns eigin, reiðist ekki auðveldlega. …

Skorti yður þess vegna kærleika, ástkæru bræður mínir, eruð þér ekki neitt, því að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Haldið þess vegna fast við kærleikann, sem er öllu æðri, því að allt annað hlýtur að falla úr gildi–

En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.“1

Bræður, við heiðrum ekki prestdæmi Guðs, ef við sýnum ekki öðrum góðvild.

Minn kæri vinur og samstarfsmaður öldungur Joseph B. Wirthlin, var sannlega gæskuríkur maður. Hann sagði:

Góðvild er kjarni himnesks lífs. Góðvild er hvernig kristilegt fólk kemur fram hvert við annað. Góðvild ætti að einkenna öll okkar orð og athafnir í vinnu, í kirkjunni og einkum á heimili okkar.

Jesús, frelsari okkar, var fullkomið dæmi um vinsemd og samúð.“2

Ritningarnar kenna okkur að réttlát iðkun prestdæmisins sé háð því að við lifum eftir reglum góðvildar, kærleika og elsku. Í Kenningu og sáttmálum lesum við:

„Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita af hendi prestdæmisins, heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást–

Með góðvild og hreinni þekkingu, sem stórum mun þroska sálina, án hræsni og án flærðar.“3

Bræður, við skulum fara í naflaskoðun og einsetja okkur að fylgja fordæmi frelsarans, með því að sýna góðvild, elsku og kærleika. Ef við getum það, mun okkur reynast auðveldar að kalla niður krafta himins, bæði fyrir okkur sjálfa, fjölskyldu okkar og samferðafólk, í þessu oft svo erfiða ferðalagi til okkar himnesku heimkynna. Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.